Mál nr. 458/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 458/2022
Miðvikudaginn 30. nóvember 2022
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 14. september 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2022 á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með umsókn 8. febrúar 2022. Með bréfi, dags. 10. mars 2021, fékk kærandi samþykkt endurhæfingartímabil. Í kjölfarið fékk hún greiðslu endurhæfingarlífeyris samfleytt frá 1. mars 2021 til 31. desember 2021. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri á ný með umsókn 17. desember 2021. Þeirri umsókn var vísað frá, dags. 31. mars 2022, á þeim grundvelli að stofnunin hafi óskað eftir viðbótargögnum sem hefðu ekki borist. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri með nýrri umsókn, dags. 4. júní 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. júní 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu ítarleg í ljósi heilsuvanda kæranda og auk þess væri óljóst hvernig fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun kæmi til með að stuðla að endurkomu á vinnumarkað.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. september 2022. Með bréfi, dags. 16. september 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. október 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. október 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærandi fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um endurhæfingarlífeyri á þeim grundvelli að virk endurhæfing sé ekki í gangi, verði endurskoðuð. Endurhæfing hafi farið fram allt árið 2022 í samráði við heimilislækni eins og hafi verið lagt upp með þegar endurhæfing hafi verið flutt frá VIRK til heimilislæknis í lok árs 2021. Kærandi hafði fengið endurhæfingarlífeyri frá því í mars 2021 þegar greiðslum frá stéttarfélagi hennar hafi lokið.
Í bréfi Tryggingastofnunar sé ekki rökstutt hvers vegna endurhæfing teljist ekki virk. Kærandi sé enn að jafna sig eftir langvarandi streitu og kulnun og hafi samkvæmt ráðum heimilislæknis, trúnaðarlæknis B á C og sálfræðings ekki hækkað starfshlutfall sitt umfram 50%. Til að ná fyrra starfsþreki hafi kærandi meðal annars farið í reglulega tíma hjá sálfræðingi, skipt um lyf, stundað hreyfingu, farið á námskeið sem gætu hjálpað henni að breyta um starfsvettvang þegar hún treysti sér til og unnið í að létta á streituvaldandi heimilisaðstæðum.
Kærandi telji líklegt að synjunin stafi af því að það hafi dregist að senda endurhæfingaráætlun á réttu formi, meðal annars vegna Covid veikinda hjá lækni og kæranda sjálfri. Hluti af veikindum kæranda sé að eiga erfitt með að fylgja eftir málum. Slíkt hafi komið upp á þegar heimilislæknir hafi komið endurhæfingaráætlun áleiðis á röngu formi og kærandi hafi orðið að sækja nýja á Covid tímum. Í símtali við Tryggingastofnun hafi kæranda verið tjáð að þrátt fyrir tafirnar hefði hún átt að skila inn vottorðinu og óska eftir því að hún fengi greitt frá þeim tíma sem greiðslur hafi hætt að berast. Þegar kærandi hafi skilað inn áætluninni hafi hún fengið það svar að hún yrði að skila inn nýrri endurhæfingaráætlun og áætluninni hafi þar með verið hafnað.
Kærandi óski eftir því að fá greiðslur frá janúar 2022 fram í október 2022 eins og kveðið sé á um í síðustu endurhæfingaráætlun.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að málið varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2022 þar sem kæranda hafi verið synjað um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri. Ekki hafi þótt rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem endurhæfingaráætlun teldist ekki nógu ítarleg í ljósi heildarvanda kæranda og óljóst væri hvernig endurhæfingin kæmi til með að stuðla að aukinni endurkomu á vinnumarkað, enda hafi virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda kæranda virst vart vera í gangi. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir veitingu áframhaldandi endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem komi fram að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði. Kærandi hafi þegar lokið tíu mánuðum á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun á tímabilinu 1. mars 2021 til 31. desember 2021.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóðar svo:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður séu fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gildi ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fari eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.
Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar. Í 8. gr. sömu reglugerðar komi fram að Tryggingastofnun skuli hafa eftirlit með því að greiðsluþegi sinni endurhæfingu sinni, að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Í sömu reglugerð sé að finna ákvæði um upplýsingaskyldu greiðsluþega sem og endurhæfingaraðila til framkvæmdaraðila, sem sé Tryggingastofnun, þegar aðstæður breytist sem geti haft áhrif á greiðslur endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni, sbr. einnig 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar.
Í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um endurhæfingarlífeyri, sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.
Kærandi hafi fyrst sótt um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 8. febrúar 2021, og hafi fyrst fengið samþykkt endurhæfingartímabil með bréfi, dags. 10. mars 2021. Í kjölfarið hafi kærandi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri samfleytt í tíu mánuði frá 1. mars 2021 til 31. desember 2021. Kærandi hafi því ekki lokið rétti sínum til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 4. gr. reglugerðar nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris.
Nýjustu umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. júní 2022. Henni hafi verið synjað með þeim rökum að ekki þættu rök fyrir að meta áframhaldandi endurhæfingartímabil. Endurhæfingaráætlun teljist ekki nógu ítarleg í ljósi heilsuvanda kæranda og óljóst sé hvernig endurhæfing komi til með að stuðla að aukinni endurkomu umfram 50% á vinnumarkað, enda virðist virk endurhæfing þar sem sé tekið á heilsufarsvanda kæranda vart vera í gangi. Kærandi hafi ekki verið talin uppfylla skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð þar sem segi meðal annars að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði.
Við mat á umsóknum um endurhæfingarlífeyri styðjist réttindasvið Tryggingastofnunar við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við synjun á umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri þann 15. júní 2022 hafi fyrirliggjandi gögn verið umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 4. júní 2022, læknisvottorð, dags. 17. desember 2021, og nýjasta umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 4. júní 2022. Einnig hafi legið fyrir staðfesting frá sjúkrasjóði stéttarfélags, dags. 19. janúar 2022, staðfestingar frá atvinnurekanda, dags. 20. október 2020 og 14. september 2021, ásamt staðfestingu frá sálfræðingi um meðferð kæranda, dags. 3. júní 2022, og endurhæfingaráætlanir frá D lækni, dags. 17. desember 2021 og 30. maí 2022. Þá hafi einnig legið fyrir eldri gögn vegna fyrri umsókna kæranda til Tryggingastofnunar. Engin ný gögn hafi fylgt kæru.
Endurhæfingaráætlun, dags. 17. desember 2021, hafi borist frá lækni þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum endurhæfingarlífeyris frá 1. janúar 2022 til 1. ágúst 2022. Sú áætlun feli í sér að kærandi hitti heimilislækni mánaðarlega sem fylgi eftir endurhæfingaráætlun, skipti út lyfjum vegna ADHD, hún haldi áfram sjálf að mæta í sálfræðiviðtöl sem hún hafi fengið reynslu af hjá VIRK. Þá sé kærandi að huga að því að komast í gang með hreyfingu en hafi dottið úr takti í tengslum við Covid og fleira. Einnig passi hún upp á svefnvenjur, hafi lokið bóklega hlutanum úr meiraprófi og stefni á að ljúka verklega þættinum í því námi fyrir vorið.
Við skoðun máls hafi verið óskað eftir nýrri endurhæfingaráætlun ásamt upplýsingum um framgang meðferðar eða endurhæfingar, umsókn um endurhæfingarlífeyri og staðfestingu frá sálfræðingi um mætingar í meðferð og hversu oft meðferð væri fyrirhuguð með bréfi inni á Mínum síðum þann 16. maí 2022.
Endurhæfingaráætlun, dags. 30. maí 2022, hafi borist frá lækni þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum endurhæfingarlífeyris frá 1. janúar 2022 til 1. október 2022. Sú áætlun feli í sér að kærandi hitti heimilislækni mánaðarlega sem fylgi eftir endurhæfingaráætlun, skipti út lyfjum vegna ADHD og minnki notkun á lyfinu Wellbutrin. Einnig komi fram að hún hitti sálfræðing um það bil mánaðarlega, stundi reglulega hreyfingu og passi upp á góðar svefnvenjur. Þá segi einnig að kærandi hafi lokið bóklegum hluta meiraprófsins og bíði eftir að klára verklega þáttinn sem hún fái vonandi tíma fyrir í byrjun júní.
Í endurhæfingaráætlun, dags. 30. maí 2022, komi fram að kærandi sé í 50% vinnu en finni að hún treysti sér ekki í hærra prósentuhlutfall hjá atvinnurekanda. Mögulega hafi hún áhuga á að vinna annað starf þegar hún verði tilbúin til og eftir að hún ljúki við meiraprófið geti hún tekið að sér leiðsögn minni hópa. Covid veikindi hafi haft áhrif á mætingu til sálfræðings en þó ekki mikil.
Í staðfestingu frá sálfræðingi, dags. 3. júní 2022, komi fram að kærandi hafi verið í viðtölum og hópameðferð á vegum VIRK frá árinu 2019. Þá hafi kærandi komið mánaðarlega í viðtöl síðastliðna mánuði og reiknað sé með því að halda því áfram. Þá sé verið að ræða meðferð vegna álagstengdra veikinda og til að vinna gegn kvíða. Unnið hafi verið með það til stuðnings endurkomu til vinnu og við að ná jafnvægi í daglegu lífi.
Samkvæmt þeim gögnum sem Tryggingastofnun hafi borist hafi kæranda verið synjað um endurhæfingarlífeyri þar sem virk starfsendurhæfing teldist ekki vera í gangi. Þá sé kærandi í lyfjabreytingu vegna ADHD og komin í 50% starf. Ekki sé að sjá að sálfræðiviðtöl einu sinni í mánuði teljist markviss meðferð til að vinna á andlegri heilsu kæranda heldur fyrst og fremst stuðningur inn í starf. Þá sé ekki að finna önnur úrræði í endurhæfingaráætlun með utanumhaldi fagaðila þar sem sé tekið á heildarvanda kæranda sem virðist vera að miklum hluta að rekja til annarra atriða eins og félagslegra aðstæðna kæranda samkvæmt læknisvottorðum og öðrum gögnum.
Tryggingastofnun undirstriki að endurhæfingarlífeyrir samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerð nr. 661/2020 taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu undir handleiðslu fagaðila þar sem tekið sé markvisst á þeim heilsufarsvanda sem valdi óvinnufærni hverju sinni. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Endurhæfingarlífeyrir sé samkvæmt framangreindu bundinn ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verði svo að greiðslur séu heimilar. Þeirra á meðal sé skilyrði um að kærandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati Tryggingastofnunar. Óvinnufærni að hluta til eins og í þessu máli ein og sér veiti þannig ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni.
Tryggingastofnun telji það vera í fullu samræmi við gögn málsins að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri að svo stöddu þar sem endurhæfing kæranda hafi hvorki verið nægjanlega umfangsmikil né markviss á umdeildu tímabili þannig að fullnægjandi verði talið að unnið sé með aukna starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð geri kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Einnig sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem möguleg séu, auk þess árangurs sem þau gætu veitt kæranda sem umsækjenda um endurhæfingarlífeyri.
Tryggingastofnun taki fram að ef breyting verði á endurhæfingu eða aðstæðum kæranda geti kærandi ávallt lagt inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun, auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í starfsendurhæfingu og verði málið þá tekið fyrir að nýju.
Niðurstaða Tryggingastofnunar sé sú að afgreiðsla á umsókn kæranda um að synja um endurhæfingarlífeyri sé rétt. Sérstaklega í ljósi þess að kærandi virðist ekki vera í virkri endurhæfingu sem taki í heild á heilsufarsvanda hennar á því tímabili sem sótt sé um. Sú niðurstaða sé byggð á fyrirliggjandi gögnum og faglegum sjónarmiðum og sé í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum. Stofnunin fari því fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2022 um að synja umsókn kæranda um greiðslur endurhæfingarlífeyris. Ágreiningur máls þessa snýst um hvort kærandi uppfylli skilyrði um endurhæfingarlífeyri, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð var sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:
„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“
Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:
„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt.“
Í læknisvottorði D, dags. 17. desember 2022, segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:
„Truflun á virkni og athygli
Kvíði
Streita, ekki flokkuð annars staðar
Röskun við og kringum tíðalok, ótilgreind“
Í sjúkrasögu segir í vottorðinu:
„x ára einstæð móðir y ára stúlku. Ráðin í 70% starf sem sérfræðingur hjá B. Hefur verið undir langvarandi álagi heima fyrir vegna erfiðra ytri aðstæðna. Dóttir hennar hefur verið mjög krefjandi í hegðun og með mikinn mótþróa alla tíð. Er komin nú með ofvirknigreiningu frá sálfræðingi á skóladeild og er stúlkan í uppvinnslu og til meðferðar hjá barna- og unglingageðlækni hér á C. Þetta álag í móðurhlutverkinu hefur gengið nærri A þar sem hún hefur ekkert bakland. Glímir sjálf við athyglisbrest og búi fötluð móðir hennar inni á heimili hennar sem hún þarf að hjálpa. Í mai 2018 flutti faðir hennar einnig inn á hana eftir að húsið hans brann. Hann var í mikilli hjúkrunarþörf og bættist það álag ofan á allt annað heima. Hann er nú loksins kominn með fast pláss á öldrunarheimili. A hafði mætt örmagna í vinnu yfir lengri tíma og náði lítilli sem engri hvíld heima fyrir vegna aðstæðna. A sýndi mikil einkenni kulnunar og þurfti stuðning við að ná utan um leiðir til úrbóta og hefur hún verið í endurhæfingu á vegum VIRK starfsendurhæfingar. Einnig hefur hún hafið hormónauppbótarmeðferð sem er einnig að skila henni bættri andlegri og líkamlegri líðan. Er nú nýlega útskrifuð frá VIRK starfsendurhæfingu. Farin að vinna 50% hjá RHA, er ekki í hærri ráðningarprósentu en það. Finnur að hún treystir sér ekki í hærri prósentu hjá þeim og er að horfa á að prófa mögulega annað starf með því starfi þegar hún verður tilbúin til þess, er að staka meiraprófið núna til að geta tekið að sér leiðsögn með minni hópa af og til ef myndi henta. Er búin með hluta af meiraprófinu.“
Í samantekt segir:
„Núverandi vinnufærni: 50% vinnufærni.
Framtíðar vinnufærni: Óljóst“
Í tillögu að meðferð segir:
„1. Hittir heimilislækni sinn mánaðarlega sem fylgir eftir endurhæfingaráætlun.2. Er að skipta yfir á Elvanse úr Methylphenidat v ADHD. 3. Tilvísun á ADHD teymi HH (byrjar sennilega í kringum mars 2022).4. Hefur verið hjá E sálfræðingi í viðtölum í gegnum VIRK. Ætlar að halda aðeins áfram sjálf hjá henni en það er óljóst hversu marga tíma hún hefur efni á þar sem hún þarf að greiða þau viðtöl nú sjálf. 5. Er að huga að því að komast í gagn með reglulega hreyfingu aftur, datt aðeins úr takti í tengslum við covid og fl. 6. Er að passsa upp á góðar svefnvenjur.7. Er búin með bóklega hlutann á meiraprófinu, stefnir að því að klára verklega þáttinn fyrir vorið.“
Endurhæfingaráætlun D læknis, dags. 17. desember 2021, er samhljóða framangreindu vottorði hennar, dags. 17. desember 2022. Samkvæmt endurhæfingaráætlun D læknis, dags. 30. maí 2022, var endurhæfingartímabil kæranda áætlað frá 1. janúar 2022 til 1. október 2022. Um áætlunina segir:
„1. Hittir heimilislækni sinn mánaðarlega sem fylgir eftir endurhæfingaráætlun.
2. Skiptir yfir á Elvanse úr Methylphendidat v ADHD nú nýlega. Finnur mikinn mun til hins betra. Hefur verið á Wellbutrini en stefnum að því að taka það út núna í byrjun sumars, er að trappa það út.
3. Hefur hitt E sálfræðing ca mánaðarlega. Covid veikindi hafa aðeins haft áhrif á það en þó ekki mikið.
4. Stundar reglulega hreyfingu.
5. Er að passa upp á góðar svefnvenjur.
6. Er búin með bóklega hlutann á meiraprófinu. Bíður eftir því að fá tíma til að klára verklega þáttinn. Vonandi fær hún tíma í byrjun júní.
7. Tók þátt í uppfærslu F nú í vor á G. Það var heilmikil vinna og endurhæfing í því verkefni. Samtals 24 sýningar og strangar æfingar áður en sýningar hófust.“
Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði greiðslna endurhæfingarlífeyris séu uppfyllt. Í kærðri ákvörðun Tryggingastofnunar segir að virk starfsendurhæfing teljist ekki vera í gangi. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur að kærandi glími við líkamlega og andlega færniskerðingu sem orsaki skerta vinnugetu. Það er mat úrskurðarnefndar að endurhæfing kæranda sé hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um, sbr. einnig 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 661/2020. Úrskurðarnefndin lítur meðal annars til þess að ekki verði ráðið af endurhæfingaráætluninni hvernig þeir endurhæfingarþættir sem lagt var upp með, þ.e. að hitta heimilislækni mánaðarlega, minnka notkun á lyfinu Wellbutrin, hitta sálfræðing mánaðarlega, stunda reglulega hreyfingu, passa upp á góðar svefnvenjur, klára meiraprófið og hafa staðið að uppsetningu á leiksýningu, eigi að stuðla að endurkomu kæranda á vinnumarkað. Samkvæmt læknisfræðilegum gögnum er kærandi með andleg og líkamleg veikindi og því telur úrskurðarnefndin að framangreindir endurhæfingarþættir séu ekki nægileg endurhæfing til að auka frekar starfshæfni kæranda. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé ekki uppfyllt í tilviki kæranda.
Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. júní 2022 um að synja kæranda um greiðslu endurhæfingarlífeyris staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir