Úrskurður nr. 212/2010
Mánudaginn 7. febrúar 2011
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þuríður Árnadóttir lögfræðingur.
Með bréfi, dags. 27. apríl 2010, kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna ársins 2008 reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð X kr. Kæranda var sent bréf dags. 30. júlí 2009 þar sem krafist var endurgreiðslu á hinum ofgreiddu bótum. Með beiðni dags. 5. mars 2010 fór kærandi fram á að krafan yrði felld niður að fullu vegna fjárhagslegra aðstæðna. Málið var tekið fyrir á fundi samráðsnefndar þann 19. apríl 2010 þar sem tekin var ákvörðun um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu. Kæranda var tilkynnt um þá ákvörðun með bréfi dags. 26. apríl 2010.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir:
„Vísað til bréfs frá Tryggingastofnun ríkisins dags.26 april 2010. Í því bréfi fæ ég neitun við beiðni minni um niðurfellingu ofgreiddra bóta. Þó svo að í því brefi standi. Heimild til niðurfellingar eru bundnar þeim skilyrðum að alveg sérstök ástæða sé fyrir hendi,til dæmis fjárhagslegar. Ég hef haft örorku síðan 2002 vegna slitgiktar.Mín ósk er að vinna svolítið og vinn ég nú 50% og er það meira enn nóg fyrir mig. Það vita allir að það lifir engin á því. það var áfall þegar Tryggingastofnunin stoppaði allar greiðslur um áramót. Og ekki nóg með það heldur áég líka að borga til baka.Hvar er réttlætið uppfylli ég virkilega ekki þau skilyrði sem vísað er til í bréfi Tryggingastofnuninnar. Íslenska krónan hefur hrapað, og þessi skuld sem ég þá að borga er tilkomin vegna þess. það er einnig ástæðan fyrir því að ég misti örorkuna. Enn staðreyndin er sú að ég vinn bara 50% og þarf að greiða húslán og annað.Ég bað um niðurfellingu vegna þess að ég á ekki peninga til að borga þetta.Ég lánaði peninga til að borga þetta svo skuldin færi ekki í vanskil í þeirri trú að þetta yrði niðurfellt og ég gæti greitt þetta til baka.Ég bið bara um réttlæti.“
Úrskurðarnefnd almannatrygginga óskaði eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi dags. 17. maí 2010. Greinargerð dags. 26. maí 2010 barst frá stofnuninni þar sem segir:
„1. Kæruefnið
Kærð er synjun samráðsnefndar Tryggingastofnunar um meðferð ofgreiðslna, á beiðni um niðurfellingu á kröfum stofnunarinnar á hendur kæranda.
Umrædd krafa sem óskað var niðurfellingar á stofnaðist vegna uppgjörs bóta ársins 2008. Niðurstaða endurreikningsins var krafa að fjárhæð X kr. sjá meðfylgjandi afrit af uppgjörsgögnum. Þegar beiðnin um niðurfellingu barst Tryggingastofnun voru eftirstöðvar kröfunnar X kr.
Tryggingastofnun lítur svo á að ekki sé um að ræða kæru á niðurstöðu endurreikningsins heldur eingöngu niðurstöðu samráðsnefndar eins og kæran ber með sér, enda er kærufrestur liðinn vegna uppgjörsins, sbr. 8. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.
Þann 8. mars 2010 barst Tryggingastofnun beiðni kæranda, um niðurfellingu kröfunnar þar sem hún er „tilkomin vegna falls ísl. kr. sem ég ber enga ábyrgð á. þá kemur og fram að hún „berjist í bökkum með að ná endum saman með bara 50% vinnu.“
Með bréfi dags. 9. mars sl. var kærandi upplýstur um gang málsins hjá stofnuninni. Niðurstaða samráðsnefndar var tilkynnt kæranda með bréfi dags. 26. apríl sl. Kærandi var ekki talinn uppfylla skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 og var því synjað um niðurfellingu kröfunnar.
Í kærunni til úrskurðarnefndar almannatrygginga eru ítrekuð fyrri rök fyrir niðurfellingu umræddrar kröfu. Þá er þess og getið í kærunni að kærandi vilji að Tryggingastofnun svari bréfi sem sent var í febrúar í ár „frá B.“ Það upplýsist hér með að bréfið var móttekið hjá Tryggingastofnun þann 4. mars sl. og var svarað þann 19. apríl sl.
2. Réttarheimildir
Tryggingastofnun greiðir lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi ber ábyrgð á að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og ber að breyta áætluninni ef svo er ekki, sbr. 2. mgr. 52. gr. sömu laga.
Á skýran hátt er tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan er að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur sbr. m.a. 55. gr. laga um almannatryggingar sem er svohljóðandi:
Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin endurkörfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.“
Undantekningu frá þessari meginreglu er að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndast við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segir:
“Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.”
Í þessu ákvæði felst að við ákvörðun um hvort falla skuli frá innheimtu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort bótaþegi var í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfa að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við. Ákvæðið er undanþáguheimild og sem slíkt skal skýra það þröngt skv. almennum lögskýringarreglum.
3. Niðurstaða
Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi samráðsnefndar þann 19. apríl 2010. Við afgreiðslu málsins skoðaði nefndin m.a. fyrirliggjandi gögn, ástæður ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað var úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.
Eins og komið er að hér að framan þá er ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 undanþáguheimild og sem slíkt skal skýra það þröngt skv. almennum lögskýringarreglum. Í þessu ákvæði felst að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum.
Umrædd krafa varð til við endurreikning bóta ársins 2008. Eins og meðfylgjandi gögn bera með sér þá er ljóst að ástæða ofgreiðslunnar var röng tekjuáætlun. Kærandi andmælti niðurstöðu uppgjörsins og var kæranda svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. október 2009. Krafan er réttmæt. Tryggingastofnun greiðir lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verður að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi ber skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og ber að breyta áætluninni ef svo er ekki, sbr. 2. mgr. 52. gr. laganna. Þessi skylda bótaþega á ekki bara við þegar tekjuáætlun er gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fær bætur frá Tryggingastofnun.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki séð að skilyrðið um góða trú sé uppfyllt í málinu.
Samráðsnefnd mat fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hefur aðgang að og þeirra sem kærandi upplýsti nefndina um. Til upplýsinga um tekjur kæranda á þessu ári er sent hér með tekjuáætlun kæranda á þessu ári. Við skoðun þeirra og að teknu tilliti til aðstæðna allra í þessu máli m.a. fjárhæðar kröfunnar, var það mat nefndarinnar að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 væri ekki uppfyllt í málinu.
Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni.
Þegar þetta er ritað er krafa vegna uppgjörs 2008 uppgreidd“
Greinargerðin var kynnt kæranda með bréfi dags. 27. maí 2010 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2008.
Í kæru greindi kærandi frá því að henni hafi verið synjað um niðurfellingu á endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Krafan sé tilkomin vegna gengishruns íslensku krónunnar. Hún fari fram á niðurfellingu þar sem hún hafi ekki fjárhagslega burði til að standa undir henni. Hún hafi fengið lánaða fjármuni til að greiða skuldina í þeirri trú að skuldin yrði felld niður.
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins var greint frá því að stofnunin hafi metið það svo að kærandi uppfylli ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda og að teknu tilliti til þeirra hafi niðurstaðan verið sú að synja beiðni kæranda um niðurfellingu kröfunnar.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslur bóta og endurskoðun þeirra. Þá er stofnuninni heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum o.fl. Ennfremur er umsækjanda og bótaþega skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.
Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins við endurreikning og uppgjör bóta, sbr. 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar, að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2008. Ástæður ofgreiðslunnar voru vanáætlaðar tekjur kæranda. Í máli þessu er ekki ágreiningur um réttmæti kröfunnar eða hvort útreikningur hennar sé réttur. Ágreiningur lýtur að beiðni kæranda um niðurfellingu kröfunnar.
Í 55. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar. Þar segir meðal annars í 2. mgr. að ef tekjutengdar bætur samkvæmt almannatryggingalögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun ríkisins skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins, er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu. Þar segir:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“
Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.
Af gögnum málsins verður ráðið að í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2008 hafi ekki verið reiknað með svonefndum „öðrum tekjum“ en samkvæmt skattframtali reyndust þær vera X kr.
Samkvæmt framangreindu var ástæða ofgreiðslunnar vanáætlaðar tekjur kæranda. Kærandi hefur þegið tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og ber því lögbundna skyldu til að upplýsa stofnunina um allar tilfallandi tekjur á bótagreiðsluári. Fjárhæð kröfunnar var óveruleg og hefur verið greidd að fullu samkvæmt upplýsingum úr greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til að vanáætlunina megi rekja til þess að kæranda hafi verið leiðbeint ranglega af hálfu starfsmanna Tryggingastofnunar ríkisins við gerð tekjuáætlunarinnar.
Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar almannatrygginga að skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 séu ekki uppfyllt. Samkvæmt meginreglu ber Tryggingastofnun ríkisins að innheimta ofgreiddar bætur líkt og að framan greinir. Undantekningu frá þeirri meginreglu ber að skýra þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda samanborið við fjárhæð kröfunnar telur úrskurðarnefnd almannatrygginga aðstæður kæranda ekki vera með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 fyrir niðurfellingu endurkröfu.
Með hliðsjón af framangreindu er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um niðurfellingu endurkröfunnar vegna ofgreiddra bóta.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja beiðni A um niðurfellingu kröfu vegna ofgreiddra bóta er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
Friðjón Örn Friðjónsson
formaður