Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 351/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 351/2016

Miðvikudaginn 30. ágúst 2017

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Brynjólfur Mogensen læknir og Eggert Óskarsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 9. september 2016, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. júní 2016 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 5. ágúst 2015, vegna vangreiningar á Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH) í Fossvogi í X 2014. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að í X 2014 hafi kærandi leitað til LSH vegna meiðsla á fæti. Hann hafi verið sendur heim með teygjusokk og sagt að taka því rólega fram að X. Kærandi hafi farið 3-4 mánuðum síðar og látið athuga fótinn og hafi þá komið í ljós brot á fæti sem við nánari athugun hafi sést á myndum frá X 2014.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókninni með ákvörðun, dags. 10. júní 2016, á þeim grundvelli að þótt vangreining hafi átt sér stað þá hafi sú vangreining ekki leitt til rangrar meðferðar og heldur ekki leitt til tjóns umfram það sem rekja mátti til upphaflega áverkans. Það hafi því verið mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki hafi verið um bótaskylt tjón að ræða sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 9. september 2016. Með bréfi, dags. 15. september 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 10. október 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. október 2016, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Þann 24. október 2016 barst viðbótargreinagerð kæranda og var hún send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála 24. október 2016. Viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi 11. nóvember 2016 og var hún send kæranda með bréfi 15. nóvember 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að úrskurðarnefnd velferðarmála taki afstöðu til bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingarlögum. Í kæru kemur fram að kærandi hafi sótt um bætur úr skjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 vegna meðferðar sem hann hlaut á Landspítala Háskólasjúkrahúsi (LSH) í kjölfar slyss sem hann varð fyrir þann X 2014. Með hinni kærðu ákvörðun höfnuðu Sjúkratryggingar Íslands því að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatrygginu.

Kærandi lýsir málsatvikum þannig að hann hafi verið að [íþrótt] þann X 2014 í C þegar hann hafi [...] með þeim afleiðingum að hann féll og lenti illa. Kærandi kveðst strax hafa fundið til í hægri sköflungi og heyrt smell en hann hafi vonað að þetta myndi jafna sig á stuttum tíma. Vegna áframhaldandi einkenna frá hægri fæti hafi kærandi leitað á bráðamóttöku LSH þann X sama ár til frekari aðhlynningar. Við skoðun hafi kærandi ekki getað hreyft ökklaliðinn að fullu en röntgenmyndir sýndu engin merki um brot eða brákun. Kæranda hafi verið tjáð að hann væri með mjúkvefsbólgu og verið greindur með kramningsáverka á fótlegg með mjúkvefsbólgu. Þetta hafi verið talið það lítið að ekki var talin ástæða til þess að láta hann fá teygjusokk. Þá hafi verið skrifað upp á verkjalyf fyrir hann og honum ráðlagt að hvíla fótinn, sbr. læknabréf, dags. X 2014.

Þar sem kærandi skánaði ekkert hafi hann leitað á Heilsugæsluna D þann X 2015 og lýst versnandi verkjum í sköflungi og ökkla. Við skoðun hafi fundist lítill hnútur 12 cm fyrir ofan ökklann og sársauki verið upp á 8 þegar þrýst var á. Grunur hafi vaknað um brot og í framhaldinu verið send beiðni um röntgenmyndatöku. Hún hafi farið fram þann X 2015 og sýnt gróandi dálksbrot ofan við endann á hliðlægu ökklabungunni og örlitla beinhimnubreytingu í dálknum sem vel gat samrýmst ástandi eftir ótilfært brot. Kæranda hafi verið ráðlagt að leita til slysadeildar og ákveðið að meðhöndla hann með teygjusokk og verkjalyfjum, en þar sem kærandi hafi sótt mjög fast að fá gipsspelku fékk hann L-spelku sem hann átti að hafa í 10 daga. Kærandi kveðst hafa haldið áfram að hlífa fætinum eftir að hann fjarlægði spelkuna og enn finni hann fyrir verk í fætinum við hinar ýmsu athafnir, bæði tengdar áhugamálum og vinnu.

Tímabundin og varanleg læknisfræðileg örorka vegna afleiðinga slyssins hafi verið metnar í matsgerð E læknis, dags. 26. nóvember 2015, og hafi niðurstaðan verið sú að varanleg örorka væri hæfilega metin 3% með vísan til liðar VII.B.b. í miskatöflum örorkunefndar frá 2006. Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands segi eftirfarandi:

„Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að við skoðun og rannsókn á bráðamóttöku LSH X 2014 hafi átt sér stað vangreining þar sem brotið undir hægri fæti greindist ekki. Að mati SÍ er hins vegar ljóst að brot eins og umsækjandi hlaut í umrætt sinn krefst engrar sérstakrar meðferðar ef ekki er áverki á ökklaliðnum. Að mati SÍ fellur það undir gagnreynda og viðtekna læknisfræði að vera með verkjamiðaða meðferð við slíkum brotum, sem getur verið allt frá ráðleggingum og upp í gips. Í tilviki umsækjanda var ljóst að mati SÍ, að einkenni hans voru ekki meiri en svo að sú meðferð sem hann fékk, þ.e.a.s. ráðleggingar og verkjastilling var rétt og að ekki hafi verið ástæða til neinnar frekari meðferðar. Það er því mat SÍ að þótt að vangreining hafi átt sér stað hafi sú vangreining ekki leitt til rangrar meðferðar og heldur ekki leitt til tjóns umfram það sem rekja má til upphaflega áverkans.“

Kærandi kveðst með engu móti geta fallist á framangreinda afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji auðsýnt að vangreiningin á slysadeild hafi leitt til tjóns sem hægt hefði verið að komast hjá. Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til eftirfarandi atriða:

Í fyrsta lagi telji kærandi að ekki sé hægt að fullyrða að hann hafi fengið fullnægjandi meðferð með ráðleggingum og verkjastillingu þegar það liggi ljóst fyrir að hann hlaut ekki „réttar“ ráðleggingar m.t.t. til eðli áverkans. Þannig geti ráðleggingar í tengslum við brot á fæti og ráðleggingar vegna mjúkvefjabólgu þar sem ekki einu sinni sé talin ástæða til þess að nota teygjusokk, einfaldlega ekki verið samsvarandi. Kæranda hafi til að mynda verið ráðlagt að hvíla fótinn og ganga létt þegar hann leitaði á slysadeildina, en það gefi auga leið að hann hefði athafnað sig á annan veg hefði hann vitað frá upphafi að hann hefði hlotið brot á fótlegg. Kæranda hefði eflaust verið ráðlagt að stíga ekki í fótinn og að sögn læknis sem hann hafi ráðfært sig við hefði verið eðlilegast að setja hann í spelku eða gips í 10 daga til þess að brotið gæti gróið réttilega.

Í öðru lagi telji kærandi það sérlega gagnrýnivert að brotið hafi ekki greinst strax á fyrstu röntgenmyndunum. Kæranda hafi verið tjáð að við nánari skoðun á eldri röntgenmyndunum hafi brotið sést. Hefði verið rétt lesið úr röntgenmyndunum hefði kærandi getað fengið viðeigandi meðferð og ráðleggingar strax.

Í þriðja lagi telji kærandi ljóst að ef til vill hefði hann getað jafnað sig að fullu ef hann hefði ekki stigið í fótinn í svona langan tíma áður en hann hlaut viðeigandi greiningu og meðferð. Það hljóti einfaldlega að hafa haft áhrif á batahorfur og gróanda brotsins að kærandi reyndi eftir fremsta megni að nota fótinn með eðlilegum hætti og þ.a.l. hafi hann þjösnast á brotinu að óþörfu samkvæmt læknisráði.

Í fjórða lagi vísar kærandi til þess að hann hafi verið metinn til 3% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku vegna afleiðinga slyssins. Kærandi byggi á því að varanlegar afleiðingar séu fyrst og fremst, ef ekki aðeins til komnar, vegna vangreiningarinnar á LSH.

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar og gagna þeirra sem fylgdu kæru telji kærandi ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem sé bótaskylt samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telji sig uppfylla skilyrði 2. tölul. 2. gr. laganna þannig að hann eigi rétt til bóta vegna þess líkamstjóns sem leitt hafi af vangreiningu á bráðadeild LSH. Leiða megi líkum að því að hefði verið staðið rétt að greiningu og læknismeðferð væru einkenni kæranda í dag ekki jafn mikil og raun ber vitni. Að mati kæranda verði að meta allan vafa um það hvort einkenni hans í dag megi að einhverju eða öllu leyti rekja til vangreiningarinnar á LSH honum í hag.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er vísað til 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu þar sem tilgreint sé til hvaða tjónsatvika lögin taka. Skilyrði sé að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum sem nánar séu rakin í 1.-4. tölulið 2. gr. laganna.

Um atvik málsins kemur fram að kærandi hafi samkvæmt gögnum málsins leitað á bráðamóttöku LSH þann X 2014 vegna verkja í „hægri sköflungi, ca. 6 cm ofan við ökklalið“. Skráð hafi verið að hann hafi verið í [íþrótt] vikunni áður og lent í samstuði við annan leikmann um leið og hann lenti úr uppstökki. Hann mun hafa heyrt smell í fætinum þegar þetta gerðist. Lýsing á kvörtunum og skoðun í sjúkraskrá sé ítarleg og nákvæm. Þar komi fram að þreifieymsli hafi verið yfir dálki um það bil 6 cm ofan við ökklalið og skráð að þar hafi verið vægur þroti. Engin eymsli hafi verið við dálkshnyðju. Röntgenmyndir hafi ekki sýnt fram á neina beináverka. Ekki hafi verið talin þörf á umbúðum heldur hafi kæranda verið ávísað bólgueyðandi- og verkjastillandi lyfjum. Enn fremur hafi honum verið ráðlagt að leita aftur til læknis væri hann ekki orðinn skárri eftir jólin.

Þann X 2015 hafi kærandi leitað á Heilsugæsluna D vegna verkja í hægri fæti. Í sjúkraskrá komi fram að verkir hefðu lítið lagast og verið álagsbundnir. Lýst hafi verið litlum, aumum hnúð um það bil 12 cm ofan við dálkshnyðju. Kærandi hafi verið sendur í röntgenrannsókn í Röntgen Domus Medica og hafi þær rannsóknir sýnt „gróandi fibulabrot í góðri legu.“ Kæranda hafi í framhaldinu verið vísað á bráðamóttöku LSH og leitaði hann þangað X 2015. Við skoðun hafi verið lýst þreifieymslum 10 cm fyrir ofan dálkshnyðju. Skráð hafi verið að engir verkir hafi verið í ökklaliðnum sjálfum og að kærandi hafi stigið vel í fótinn. Kæranda hafi í framhaldinu verið ráðlögð sama meðferð, en skráð hafi verið að hann hafi sótt fast að fá gipsspelku. Úr hafi orðið að hann fengi svokallaða L-spelku sem hann átti að fjarlægja sjálfur 10 dögum síðar.

Samkvæmt gögnum málsins voru næstu samskipti kæranda við heilsugæsluna vegna áverkans þann X 2015 þegar kærandi óskaði eftir beiðni um sjúkraþjálfun.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi bótaskyldu verið synjað þar sem skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu voru ekki uppfyllt. Samkvæmt gögnum málsins hafi verið ljóst að við skoðun og rannsókn á bráðamóttöku LSH þann X 2014 átti sér stað vangreining þar sem brotið í hægri fæti greindist ekki. Að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi hins vegar verið ljóst að brot líkt og það, sem kærandi hlaut í umrætt sinn, krefðist engrar sérstakrar meðferðar ef ekki væri áverki á ökklaliðnum. Að mati Sjúkratrygginga Íslands falli það undir gagnreynda og viðtekna læknisfræði að beita verkjamiðaðri meðferð við slíkum brotum sem geti verið allt frá ráðleggingum til gipsmeðferðar. Í tilviki kæranda hafi verið ljóst, að mati Sjúkratrygginga Íslands, að einkenni hans hafi ekki verið meiri en svo að sú meðferð sem hann fékk, þ.e.a.s. ráðleggingar og verkjastilling, hafi verið rétt viðbrögð og að ekki hafi verið ástæða til neinnar frekari meðferðar. Það hafi því verið mat Sjúkratrygginga Íslands að þótt vangreining hafi átt sér stað þá hafi sú vangreining hvorki leitt til rangrar meðferðar né tjóns umfram það sem rekja megi til hins upphaflega áverka.

Kærandi virðist samkvæmt tilkynningu ekki hafa náð sér að fullu af áverkanum en núverandi einkenni kæranda, þ.e. verkir, hafi að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki verið afleiðing meðferðar heldur afleiðing áverkans sjálfs sem hann hlaut er hann [...] þann X 2014.

Með vísan til þessa hafi skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu ekki verið uppfyllt. Ekki hafi því verið heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

Fagteymi sjúklingatryggingar hafi farið yfir mál kæranda en í því teymi sitji m.a. bæklunarlæknir sem farið hafi yfir gögn málsins. Hans faglega mat sé að þrátt fyrir að áverki kæranda hafi verið vangreindur hefði sömu aðferðum verið beitt ef rétt greining hefði legið fyrir í öndverðu. Tjónþoli hafi því ekki orðið fyrir tjóni af völdum vangreiningarinnar og staða hans í dag væri sú sama þó að áverkinn hefði verið greindur réttilega við upphaflega skoðun. Að lokum benda Sjúkratryggingar Íslands á að umsókn kæranda hafi fengið faglega meðferð á öllum stigum málsins og ekkert hafi komið fram sem gefi tilefni til þess að falla eigi frá hinni kærðu ákvörðun.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meðferðar á Landspítalanum í X 2014.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði til dæmis rakið til mistaka þá skal að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Kærandi telur að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna vangreiningar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi á bráðadeild LSH X 2014 vegna meiðsla á hægri fæti. Teknar voru röntgenmyndir af fætinum en brot greindist ekki. Þann X 2015 fór kærandi á Heilsugæsluna D vegna verkja í fæti. Aftur voru teknar röntgenmyndir af fætinum og greindist þá brot í dálki.

Í bráðamóttökuskrá LSH, dags. X 2014, segir:

„Röntgen: Engin merki um brot eða bráku. Upplýstur um að þetta séu mjúkvefsbólgur. Ég sé ekki ábendingu fyrir teygjusokk, þetta er það lítið. Skrifa uppá lyfseðil fyrir Ibufen og Parkodin og ráðlagt að hvíla fótinn. Endurmat ef ekki skárri X.“

Kærandi leitaði þann X 2015 á Heilsugæsluna D og var í kjölfarið sendur í röntgenmyndatöku. Í læknisvottorði F læknis, dags. 29. september 2015, segir:

„Þessi seinni myndataka sýnir samkvæmt niðurstöðum röntgenmyndatöku í Domus Medica, gróandi fibulubrot, 13cm ofan við endann á laterala malleolus er örlítinn periosteal í fibulunni sem vel getur samrýmst status eftir ódislocerað brot. Honum ráðlagt að fara á slysadeild.

Segir í bréfi frá slysadeild: Gamalt brot í fibulunni mediala og distala þriðjungs. Fibulan er ekki burðarbein í fótleggnum á þessum stað. Ráðlegg sjúklingi áframhaldandi conservativa meðferð með teygjusokk og einföldum verkjalyfjum en hann sækir mjög fast að fá gipsspelku. Á endanum er ákveðið að hann fái spelku, fær L-spelku sem hann mun hafa í 10 daga og klippa af sér sjálfur og útskrifast síðan heim.

[…]

Ekkert bendir til annars en að þetta brot hafi síðan gróið eftir að hann fékk í 10 daga L-laga gipsspelku.“

Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi hlotið brot í neðri hluta hægri dálks er hann slasaðist við íþróttaiðkun X 2014. Þegar hann leitaði til læknis á bráðadeild LSH rúmum þremur vikum síðar eða X sama ár voru einkenni til staðar utanvert á neðanverðum fótlegg en ekki við ökklalið. Teknar voru röntgenmyndir af ökkla sem ekki voru taldar sýna brot þótt endurskoðun hafi síðar leitt í ljós hugsanlega sprungu í dálki 13 cm ofan við neðri enda beinsins. Kærandi fékk ávísun á verkja- og bólgustillandi lyf og var ráðlagt að hvíla fótinn. Endurtekna röntgenmyndatöku í X 2015 má túlka þannig að sprunga hafi verið til staðar. Þá var kæranda ráðlögð sams konar meðferð áfram en þar sem hann sótti fast að fá gifsspelku var orðið við þeirri ósk. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem er meðal annars skipuð lækni, bendir á að ótilfærð brot í dálki ofan ökklaliðs og án áverka á liðinn þurfa ekki nauðsynlega gifsmeðferð til að gróa eðlilega og þaðan af síður meiri meðferð, svo sem skurðaðgerðir. Öðru máli gegnir að jafnaði um brot í sköflungi sem er stærra beinið í fótleggnum og það sem ber þungann við ástig. Gifsmeðferð við brot eins og það sem kærandi hlaut er aðeins beitt til skamms tíma til verkjastillingar ef ekki duga til hennar önnur ráð. Þótt gifsumbúðir hefðu verið settar á ökkla og fótlegg kæranda við komu hans á bráðadeild í X 2014 hefði það ekki haft áhrif á gróanda og batahorfur. Þótt litið sé svo á að vangreining á broti hafi átt sér stað við fyrstu læknisskoðun var að mati úrskurðarnefndar velferðarmála veitt rétt meðferð miðað við eðli áverkans. Bótaskylda verður því ekki byggð á 1. tölulið 2. gr. sjúklingatryggingarlaga.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta