Mál nr. 282/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 282/2021
Miðvikudaginn 10. nóvember 2021
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 9. júní 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. maí 2021, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir 11. september 2017.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir slysi við störf sín fyrir J þann 11. september 2017. Tilkynning um slys, dags. 20. september 2020, var send til Sjúkratrygginga Íslands sem samþykktu bótaskyldu. Með bréfi, dags. 27. maí 2021, var kæranda tilkynnt að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins hefði verið metin 3%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. júní 2021. Með bréfi, dags. 10. júní 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 23. júní 2021, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar þann sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. júlí 2021, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 5. júlí 2021. Engar frekari efnislegar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru segir að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann 11. september 2017 við störf sín fyrir J í C. Slysið hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi rekið annan fótinn í þröskuld […] með þeim afleiðingum að hún hafi fallið fram fyrir sig og lent á […]innréttingu og fallið síðan harkalega í gólfið. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.
Slysið hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfi frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 27. maí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að varanleg örorka hennar samkvæmt 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga vegna slyss þann 11. september 2019 væri 3% og hafi matsgerð D læknis verið hafnað.
Kærandi telji að afleiðingar slyssins hafi verið of lágt metnar af tryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands og geti hún því ekki sætt sig við framangreinda niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands. Máli sínu til stuðnings leggi kærandi áherslu á eftirfarandi atriði:
Kærandi vísi til þess að fyrir liggi matsgerð D læknis, dags. 5. ágúst 2020. Að mati kæranda sé matsgerð D ítarleg, vel rökstudd og faglega unnin. Í samantekt og niðurstöðu matsgerðar segi:
„Hér er um að ræða konu sem lendir í því að reka fótinn í þröskuld við vinnu sína og detta fram fyrir sig, reka hægra eyrað í […] og hlaut hún við það skurð sem hefur gróið vel eftir að það var saumað saman. Einnig hlaut hún áverka á hægri öxl og vinstra hné. Í hægri öxlinni hefur hún fengið mar og tognun sem þrátt fyrir ýmiss konar meðferð er enn að gefa henni einkenni. Hvað varðar vinstra hné að þá hefur hún verið með mikla verki og rannsóknir sýndu rifinn liðþófa og vegna þess gekkst hún undir aðgerð, svokallaða speglun þar sem liðþófinn var snyrtur til. Þrátt fyrir það hefur hún haft áframhaldandi einkenni og hún heldur áfram sjúkraþjálfun.“
Í matsgerð sinni komist D að þeirri niðurstöðu að einkenni frá vinstra hné falli undir VII.B.b. í miskatöflum örorkunefndar þar sem segi að brjóskáverki á hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu gefi allt að átta stig og hafi hún verið metin með átta stig. Vegna einkenna á hægri öxl sé stuðst við kafla VII.A.a. þar sem segi að daglegur áreynsluverkur með hreyfiskerðingu eftir áverka sem gefi átta stig og með tilliti til fyrri sögu hafi hún verið metin með fimm stig. Að öllu virtu telji hann hæfilegt að meta afleiðingar slyssins til 13% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku/miska.
E, matslæknir Sjúkratrygginga Íslands, vísi til þess í niðurstöðu sinni að kærandi hafi haft viðvarandi kvartanir frá hægra axlarhylki en ekki hafi verið um að ræða hreyfiskerðingu og hafi hann því metið einkenni frá öxlinni til 3 stiga miska í stað 5 stiga. Hvað varði hnéáverka vísi hann í niðurstöður röntgenmynda Landspítala sem teknar hafi verið þann 11. september 2017 og telji ljóst að þar sé hægra hné myndað en ekki það vinstra. Hann hafi því talið að um væri að ræða vandamál í báðum hnjám en áverkinn lúti að hægri hnélið eins og fram komi í fyrstu greiningarskráningum og telji hann því áverka á vinstra hné ekki til staðar í því slysi sem hér um ræði.
Kærandi byggi á því að niðurstaða D endurspegli betur núverandi ástand hennar vegna afleiðinga slyssins þar sem E, tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands, hafi ekki tekið tillit til einkenna frá vinstra hné og hreyfiskerðingar í hægri öxl í niðurstöðu sinni. Kærandi vilji benda á að ljóst sé af gögnum málsins að hún hafi glímt við talsverð einkenni frá vinstra hné og um hafi verið að ræða misritun í bráðamóttökuskrá þann 11. september 2019, sbr. umfjöllun í matsgerð D, en þar segi: „Tjónþoli segir að hún hafi ekki fengið áverka á hægra hné heldur vinstra og að þetta sé ekki rétt í nótunni frá bráðamóttökunni.“ Þá liggi einnig fyrir í gögnum málsins að hún hafi verið að glíma við hreyfiskerðingu á hægri öxl og eigi því að tala tillit til þess í matinu.
Kærandi telji ljóst af gögnum málsins að hún hafi átt við talsverð einkenni að stríða frá vinstra hné í kjölfar slyssins þann 11. september 2017. Kærandi vilji benda á eftirfarandi færslur úr meðfylgjandi læknagögnum máli sínu til stuðnings:
Í samskiptaseðli F, dags. 16. nóvember 2017, segi orðrétt: „Illt í vinstra hné. Áður fengið bólgu og verk í hné. Verið góð um tíma 29. okt. Datt í sept. Þá verkur í hægra hné betri núna. Vökvi í báðum hnjám. Töluverður hydrops í vi. hné. Verkur við allar hreyfingar um hnéð. Líkl. Slitgigt. Fáum rtg.“
Í niðurstöðu röntgenmyndar á vinstra hné þann 17. nóvember 2017 segi: „Beingerð er heil og órofin. Liðfletir sléttir og liðbil heldur sér vel í standandi stöðu. Það er lítilsháttar skepringar á aðlægum liðflötum.“
Í samskiptaseðli F, dags. 12. apríl 2018, segi: „Datt illa í sept og meiddi sig á vinstra hné. Rtg sýndi litlar breytingar. Verið í sjþj. Er enn bólgin og verður hölt. Miklir verkir.
Vegna áframhaldandi verkja hafi kærandi verið send í segulómun af vinstra hné þann 1. maí 2018 og þá hafi komið í ljós umfangsmiklar breytingar í innri liðþófa sem hafi verið rifinn og í „femur patella“ liðnum hafi sést miklar brjóskskemmdir. Vegna þessa hafi hún verið send til G bæklunarlæknis sem hafi skoðað hana þann 30. apríl 2018 og hafi hún kvartað um verki í vinstra hné og hægri öxl eftir slys þann 11. september 2017. Ákveðið hafi verið að senda hana áfram í rannsóknir og hafi hún verið send í ómskoðun og röntgen af hægri öxl og segulómun af vinstra hné. Segulómun af hnénu hafi leitt í ljós töluverðar breytingar í innra liðbilinu, slitbreytingar og rifu á innri liðþófa, auk slitbreytinga undir hnéskelinni. Vegna þessa hafi verið ákveðið að gera aðgerð sem síðan hafi verið framkvæmd þann 25. október 2018. Þá hafi komið fram að það hafi verið stór fliparifa aftast í liðþófanum sem hann hafi klippt til.
Það hafi verið álit G að í slysi þessu hafi tjónþoli fengið slæmt högg, bæði á öxl og hné, sbr. læknisvottorð hans, dags. 30. júní 2020, þar sem segi orðrétt um áverkann á vinstra hné: „Varðandi vinstra hnéð þá telur undirritaður að A hafi fengið snúning á vinstra hnéð við fallið ásamt höggi og við það hafi komið þessi fyrrnefnd fliparifa sem þurfti að klippa í burtu í aðgerðinni í október 2018.“
Með vísan til ofangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats E, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, þar sem hann hafi ekki tekið tillit til áverka hennar á vinstra hné, einungis vegna þess að það hægra hafi verið myndað á bráðamóttöku á slysdegi og hafi því ekki talið um að ræða staðfestan áverka á vinstra hné. Kærandi geti ekki fallist á rök E og vilji benda á að af ofangreindum gögnum sé ljóst að hún hafi orðið fyrir áverka á vinstra hné í slysinu þann 11. september 2017.
Í öðru lagi geti kærandi ekki fallist á röksemdir E, tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands, varðandi áverka hennar frá hægri öxl. E byggi á því að kærandi hafi ekki orðið fyrir hreyfiskerðingu á öxl og segi orðrétt í matsgerð hans: „það er ekki um að ræða hreyfiskerðingu en það er um að ræða verki í endaferlum, fullan styrk og vísast í töflur örorkunefndar kafli VII Aa1, daglegur áreynsluáverkur með vægri hreyfiskerðingu er 5%. Hér er ekki um að ræða hreyfiskerðingu og því hæfilegt að meta miska til 3%.“
Kærandi vilji benda á læknabréf G bæklunarlæknis, dags. 30. júní 2020, varðandi einkenni frá hægri öxl en við skoðun hjá honum þann 30. apríl 2018 segi: „Við skoðun þennan dag á hægri öxlinni var hún með ágætis hreyfigetu en hvell aum yfir liðnum á milli viðbeins og herðablaðs (AC-lið) við beina þreifingu og einnig þreifast svolítið þykkildi neðan við deltoid vöðvann.“ Þá segir í lok læknisvottorðsins um batahorfur: „Myndir af hægri öxlinni hafa ekki sýnt fram á miklar breytingar og ólíklegt þykir að aðgerð þar komi að gagni en hugsanlega er reynandi að prófa sprautumeðferð þó það hafi ekki komið til tals.“
Þá segi enn fremur í matsgerð D um hreyfiskerðingu frá hægri öxl: „Við skoðun á hægri öxl kemur í ljós að það er væg hreyfiskerðing því að það vantar u.þ.b. 15-20° upp á fulla fráfærslu en í framfærslu kemst hún upp í 120° og afturfærsla er 35°.“
Með vísan til ofangreinds telji kærandi ljóst að hún glími við væga hreyfiskerðingu sem taka þurfi tillit til við matið líkt og D læknir hafi gert í sínu mati.
Að öllu ofangreindu virtu telji kærandi að taka skuli mið af matsgerð D læknis við mat á læknisfræðilegri örorku kæranda, það er 13%, en matsgerðin sé afar ítarleg og vel rökstudd.
Að öllu framangreindu virtu kæri kærandi ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku hennar samkvæmt lögum nr. 45/2015 og krefjist þess að matsgerð D læknis um 13 stiga miska verði lögð til grundvallar í málinu.
Í athugasemdum kæranda, dags. 1. júlí 2021, leggi kærandi áherslu á að miðað við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands virðist stofnunin byggja á því að einkennin frá vinstra hné hafi verið eldri áverki og útiloki stofnunin einkennin vegna þess að kærandi hafi ekki greint frá þeim við fyrstu komu. Kærandi geti ekki fallist á rök stofnunarinnar og telji þau ekki styðjast við nein gögn. Kærandi vilji benda á að misritun hafi verið gerð við skráningu bráðamótttökuskrár Landspítalans á slysdegi þar sem hún hafi fallið á vinstra hné en ekki það hægra. Þá vilji kærandi leggja áherslu á að í læknisvottorði G bæklunarlæknis, dags. 30. júní 2020, staðfesti hann að hún hafi fengið snúning á vinstra hnéð ásamt höggi við fallið þann 11. september 2017 og við það hafi komið fliparifa sem klippa hafi þurft burtu með aðgerð í október 2018. Kærandi telji það fráleitt að stofnunin taki ekki mið af upplýsingum og faglegu mati frá bæði G bæklunarlækni og D matsmanni.
Þá hafni kærandi þeim ályktunum Sjúkratrygginga Íslands að ástandið á vinstra hné hafi verið til staðar fyrir slysið, enda bendi ekkert til þess í gögnum málsins. Stofnunin vísi í samskiptaseðil, dags. 16. nóvember 2017, til stuðnings því að kærandi hafi áður verið með verki í vinstra hné og hafi síðar fengið verk í hægra hné eftir fallið. Kærandi vilji benda á að þar segi einungis að henni hafi verið illt í vinstra hné og hún hafi áður fengið bólgu og verk í hné, en ekki sé tilgreint hvaða hné. Þegar litið sé á meðfylgjandi sjúkragögn komi fram fyrri saga um einkenni frá hægra hné, sbr. meðfylgjandi læknisvottorð H læknis, dags. 1. mars 2020. Í skráningu 7. október 2004 segi: „rak tá í þrep og datt við það á hæ. hné“. Aftur sé vísað í verk í hægra hné í læknanótu, dags. 11, febrúar 2016, og hafi hún meðal annars farið í segulómskoðun á hægra hné árið 2016. Kærandi vilji benda á að E, tryggingalæknir Sjúkratrygginga Íslands, hafi tekið tillit til fyrri vandamála hægra hnés við mat sitt. Að þessum gögnum virtum telji kærandi ljóst að hún hafi átt fyrri sögu um einkenni frá hægra hné en ekki því vinstra. Af þessum gögnum telji kærandi augljóst að einkennin frá vinstra hné hafi komið í kjölfar slyssins 11. september 2017.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að stofnuninni hafi borist tilkynning, dags. 28. nóvember 2017, um slys sem kærandi hafi orðið fyrir við vinnu þann 11. september 2017. Að gagnaöflun lokinni hafi stofnunin tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. desember 2017, að um bótaskylt slys væri að ræða.
Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. maí 2021, hafi varanleg örorka kæranda verið metin 3% vegna umrædds slyss. Sjúkratryggingar Íslands hafi sent kæranda bréf, dags. 28. maí 2021, þar sem henni hafi verið tilkynnt að ekki yrði því um greiðslu örorkubóta að ræða, sbr. 5. mgr. 12. gr. laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 3%. Við ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands hafi verið byggt á örorkumatstillögu E læknis, dags. 16. desember 2020, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015. Örorkumatstillaga E hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna, auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst og að rétt sé metið með hliðsjón af miskatöflum örorkunefndar. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 3%. Mati D læknis hafi verið hafnað.
Kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 3% varanlega læknisfræðilega örorku og vísað til þess að varanlegar afleiðingar slyssins séu of lágt metnar af E lækni. Í kæru sé farið fram á að varanleg læknisfræðileg örorka verði miðuð við matsgerð D læknis, dags. 5. ágúst 2020, þar sem varanleg læknisfræðileg örorka kæranda sé metin 13%.
Það sem beri á milli tveggja fyrrgreindra matsgerða sé mat D á áverka á vinstra hné. Kærandi telji ljóst af gögnum málsins að hún hafi átt við talsverð einkenni að stríða frá vinstra hné í kjölfar slyssins 11. september 2017 og vísi til færslna frá samskiptaseðli, dags. 16. nóvember 2017, þar sem fram komi; „Illt í vinstra hné. Áður fengið bólgu og verk í hné. Verið góð um tíma 29. okt. Datt í sept. Þá verkur í hægra hné betri núna. Vökvi í báðum hnjám. Töluverður hydrops í vi. hné. Verkur við allar hreyfingar um hnéð. Líkl. Slitgigt. Fáum rtg.“
Samkvæmt ofangreindu hafi kærandi verið áður með verki í vinstra hné og hafi svo fengið verk í hægra hné eftir fallið. Það sé svo ekki fyrr en í samskiptaseðli, dags. 12. apríl 2018, þar sem beinlínis sé tekið fram að kærandi hafi meitt sig á vinstra hné eftir slysið í september 2017.
Kærandi telji að ekki eigi að miða við örorkumat E þar sem hann hafi ekki tekið tillit til áverka hennar frá vinstra hné, einungis vegna þess að það hægra hafi verið myndað á bráðamóttöku á slysdegi.
Í áverkavottorði sé aðeins hægra hnéð nefnt, skoðað og myndað, en auk þess megi nefna að í beiðni um sjúkraþjálfun, dags. 22. nóvember 2017, komi fram; „Verkur í hægra hné síðan í lok okt.“ Ekki hafi verið minnst á vinstra hnéð.
Það sé því afstaða Sjúkratrygginga Íslands að rétt sé að miða mat á afleiðingum slyssins við lýsingar á einkennum og niðurstöðu skoðunar sem komi fram í fyrirliggjandi tillögu E læknis að varanlegri læknisfræðilegri örorku, þannig að rétt niðurstaða teljist vera 3% varanleg læknisfræðileg örorka.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir 11. september 2017. Með ákvörðun, dags. 27. maí 2021, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 3%.
Í bráðamóttökuskrá, dags. 11. september 2017, segir:
„Skoðun:
Það er skurður staðsettur ca. 2cm ofan við hægri eyrnasnepil í eyrnablöðkunni. Gengur aðeins niður í brjóskið.
Hægra hné: Ekki að sjá bólgu, mar eða vökva í liðnum. Væg þreifieymsli í hnésbót. Liðbönd og liðþófar prófast eðlilegir. Fær fyrst þónokkur eymsli við passífa flexion um hnéð en minnkar við endurtekningu. Gengur hölt vegna eymsla í hné
Hægri öxl: Byrjandi mar yfir acromion og yfir á claviculu. Eðl ROM sem framkallar ekki verki. Hún er þreifiaum framanvert á öxlinni og yfir acromion yfir AC-liðinn og út á distal claviculu.
Rannsóknir:
Rtg. hægra hné og öxl
Greiningar:
Open wound of ear, S01.3
Skurður á hægra eyra
Mar á hné, S80.0
Mar á öxl og upphandlegg, S40.0
Álit og áætlun:
Unnin upp í samráði við H.
Við skoðun rtg. mynda hér á BMT greinum við ekki beinbrot. Mar á hægri öxl og vægari eymsli í hægra hné. Gengur eðlilega fyrir heimferð.
Skurði á hægri eyrnablöðku er lokað með 4 sporum ethilon 5.0. Leggst vel saman. Óverulegt hematoma undir þessu. Engin blæðing eftir lokun.
Útskrifast heim. Saumataka á heilsugæslu eftir u.þ.b. 7 daga.
Endurmat á stoðkerfiseymslum í höndum heimilislæknis“
Í matsgerð D læknis, dags. 5. ágúst 2020, segir svo um skoðun á kæranda 29. júlí 2020:
„Almennt hreyfir tjónþoli sig þannig að hún stingur báðum fótum örlítið við en þess skal getið að hún hefur kraftleysi í hægri ganglim eftir brjósklosið sem hún fékk […] og nú stingur hún vinstri fæti við vegna verkja í vinsta hné og það eykst eftir því sem hún gengur lengra. Hún getur varla gengið nema 2-3 skref á tánum og hælunum í vinstra hné og þegar hún sest á hækjur sér kemst hún einungis hálfa leið vegna verkja í vinstra hné.
Við skoðun á hálsi kemur í ljós að hreyfing þar er alveg innan eðlilegra marka og sársaukalaus fyrir utan að þegar hún snýr höfði til hægri þá fær hún verk í hægra herðasvæðið.
Við skoðun á öxlum kemur í ljós að hreyfing í vinstri öxl er innan eðlilegra marka og verkjalaus. Við skoðun á hægri öxl kemur í ljós að það er væg hreyfiskerðing því að það vantar u.þ.b. 15-20° upp á fulla fráfærslu en í framfærslu kemst hún upp í 120° og afturfærsla er 35°. Þreifieymsli eru yfir hægri sjalvöðva og einnig eru þreifieymsli yfir processus coracoetus og einnig yfir rotator cuff.
Við skoðun á hægra hné kemur í ljós að ummál þar er 43 cm borið saman við 44 cm vinstra megin. Framan á vinstra hné eru örfín ör eftir speglunaraðgerð. Þreifieymsli eru yfir medial liðglufu og einnig medialt yfir hnéskel, það eru eymsli við passívar hreyfingar á hnéskel upp og niður. Hnéð er stöðugt bæði fram og aftur og til hliðanna. Það er ekki gjökt og enginn vökvi. Hreyfing er frá 5-125° borið saman við 0-140° hægra megin.
Taugaskoðun hand- og ganglima er innan eðlilegra marka hvað varðar viðbrögð, skyn og krafta fyrir utan að hægri ganglimur er kraftminni vegna afleiðinga brjósklos sem tjónþoli fékk […].“
Í ályktun segir:
„Hér er um að ræða konu sem lendir í því að reka fótinn í þröskuld við vinnu sína og detta fram fyrir sig, reka hægra eyrað í […] og hlaut hún við það skurð sem hefur gróið vel eftir að það var saumað saman. Einnig hlaut hún áverka á hægri öxl og vinstra hné. Í hægri öxlinni hefur hún fengið mar og tognun sem þrátt fyrir ýmiss konar meðferð er enn að gefa henni einkenni. Hvað varðar vinstra hné að þá hefur hún verið með mikla verki og rannsóknir sýndu rifinn liðþófa og vegna þessa gekkst hún undir aðgerð, svokallaða speglun þar sem liðþófinn var snyrtur til. Þrátt fyrir það hefur hún haft áframhaldandi einkenni og hún heldur áfram í sjúkraþjálfun.
Við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku/miska er stuðst við miskatöflur frá júní 2019. Hvað varðar áverkann á vinstra hné er stuðst við kafla VII.B.b þar sem segir að brjóskáverki á hné með vöðvarýrnun og hreyfiskerðingu gefi allt að 8 stigum og eru henni gefin þau. Hvað varðar áverka á hægri öxl er stuðst við kafla VII.A.a. þar sem segir að daglegur áreynsluverkur með hreyfiskerðingu eftir áverka sem gefur 8 stig og með tilliti til fyrri sögu eru henni gefin 5 stig.
Samtals gerir þetta 13 stiga miska.“
Í niðurstöðu segir:
„Varanleg læknisfræðileg örorka/miski 13 %/13 stig.“
Í tillögu E læknis, dags. 16. desember 2020, að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku segir svo um skoðun á kæranda 14. desember 2020:
„Skoðun fer fram 14.12.2020.
Axlir eru að sjá samhverfar, það eru engar vöðvarýrnanir. A kveðst vera rétthent.
Hreyfiferlar eru mældir:
|
Hægri |
Vinstri |
Fráfæra (abduktion) |
170° |
170° |
Framfæra (flexion) |
170° |
170° |
Bakfæra (extension) |
40° |
50° |
Með handlegg í 90°frá búk eru snúningshreyfingar |
90-0-90 |
90-0-90 |
Beðin um að setja þumalfingur upp á bak nær A með hægri þumli upp á Th-8. en vinstri nær á Th-6. Styrkur í öllum plönum axlarhylkisvöðva við hreyfingar mót álagi er metinn jafn og eðlilegur.
Standandi á gólfi getur A gengið upp á tábergi á hælum sér, hún á erfitt með að setjast á hækjur sér bæði vegna hnjáa og vinstri ökklans. Liggjandi á skoðunarbekk er ekki erfitt að sjá og finna vökva í hnjáliðum. Hreyfiferlar eru mældir jafnir í hægri og vinstri hné, full rétt og beygja í 140°. Það eru verkir við þreyfingu yfir liðlínum sérstaklega að innanverðu og verst í vinstra hné, minna í hægra. Mæld eru ummál 15 cm ofan efri hnéskeljarpóls hægri 54, vinstri 54. Yfir efri hnéskeljarpól hægri 44, vinstri 44,5, 20 cm fyrir neðan á kálfa hægri 38, vinstri 40.
Skoðun gefur því til kynna einstakling með verki í endapunktum hreyfiferla axla en þó eru hreyfiferlar eðlilegir og styrkur góður. Þá er um að ræða klínískar slitbreytingar í báðum hnjáliðum, verki að innanverðu í báðum hnjám, ekki vökvasöfnun, eðlilega hreyfiferla en verki á innri liðlínum.
Sjúkdómsgreining (ICD10): S40 mar á öxl
Niðurstaða: 3%
Útskýring:
Hér er miðað við áverka á hægra axlarhylki. Það hafa verið viðvarandi kvartanir. Það er ekki um að ræða hreyfiskerðingu en það er um að ræða verki í endaferlum, fullan styrk og vísast í töflur Örorkunefndar kafli VII Aa1, daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu er 5%. Hér er ekki um að ræða hreyfiskerðingu og því hæfilegt að meta miska til 3% og er hér einnig tekið tillit til fyrri vandamála og kalksöfnunar sem hefur sést á röntgenmynd.
Hvað varðar hnéáverka þá er í vottorði slysadeildarlækna skýrt tekið fram að um er að ræða áverka á hægra hné. Það er skrifuð beiðni um sjúkraþjálfun af heimilislækni í F 22.11.2017 og þar stendur „Verkur í hægra hné síðan í október. Hydrops, verkur við allar hreyfingar. Ekki palpeymsli. Hnéð stabílt. Röntgen sýnir vægar slitbreytingar.“
Þá er í vottorði heimilislæknis lýsing þannig á komu 16.11.2017 „Illt í vinstra hné. Áður fengið bólgu og verk í hné. Verið góð um tíma. Datt í september. Þá verkur í hægra hné, betri núna. Vökvi í báðum hnjám. Töluverður hydrops í vinstra hné. Verkur við allar hreyfingar um hnéð.“
Undirritaður hefur upp á niðurstöðum röntgenmynda LSH sem teknar eru þann 11.09.2017 og það er ljóst að hægra hné er myndað, en ekki það vinstra. Hér tel ég því um að ræða vandamál í báðum hnjám en áverkinn lýtur að hægri hnélið eins og fram kemur í fyrstu greiningarskráningum og einnig er röntgenmynd tekin af hægra hné og tel ég því áverka á vinstra hné ekki til staðar í því slysið er hér um ræðir.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt lögum nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum. Samkvæmt gögnum málsins bar slysið að með þeim hætti að kærandi rak annan fótinn í þröskuld […] með þeim afleiðingum að hún féll fram fyrir sig og lenti á […]innréttingu og féll síðan harkalega í gólfið. Í matsgerð D, dags. 5. ágúst 2020, eru afleiðingar slyssins taldar vera verkjaseyðingur í öxl sem aukist við álag og geri það að verkum að hún á í erfiðleikum með mörg störf. Þá sé hún með viðvarandi verki í vinstra hné sem aukist einnig við álag og geri það að verkum að hún eigi í erfiðleikum með göngur og stöður. Enn fremur hafi afleiðingar slyssins haft áhrif á svefn og frítíma kæranda þar sem hún geti ekki stundað fjallgöngur og hafi þurft að minnka útivist og hreyfingu mikið. Samkvæmt örorkumatstillögu E læknis, dags. 16. desember 2020, eru afleiðingar slyssins taldar vera áverki á axlarhylki með verkjum í endaferlum hreyfingar í öxl.
Í ljósri framlagðra gagna liggur fyrir að kærandi varð fyrir slysi við starfa sinn fyrir J þann 11. september 2017 þegar hún rak annan fótinn í þröskuld […] með þeim afleiðingum að hún féll fram fyrir sig og lenti á […]innréttingu og féll síðan harkalega í gólfið. Því er lýst í bráðamóttökuskrá þann 11. september 2017 að kæranda hafi skrikað fótur um dyrakarm og hrasað með þeim afleiðingum að hún hafi lent á borði og hlotið skurð á hægra eyra, eymsli í hægri öxl og hægra hné. Þá er því lýst að kærandi sé með væg þreifieymsli í hnésbót og gangi hölt. Enn fremur að kærandi sé með þreifieymsli framanvert á öxlinni og út yfir viðbein, greind með mar á hægri öxl og vægari eymsli í hægra hné. Í bráðamóttökuskrá er því einnig lýst að skurður á eyra hafi verið saumaður saman.
Þá kemur fram í samskiptaseðli I læknis, dags. 16. nóvember 2017, að kæranda sé illt í vinstra hné og hún hafi áður fengið verki og bólgu í hné. Enn fremur er tekið fram að hún hafi verið góð um tíma. Þá segir að hún hafi dottið í september og fengið verk í hægra hné en sé betri núna. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er, grundvallað á gögnum málsins, hins vegar ekki hægt að ætla annað en að í slysinu þann 11. september 2017 hafi kærandi fengið áverka á hægra hné. Sá áverki, miðað við framlögð gögn, virðist ekki hafa skilið eftir sig varanleg mein. Ekki er heldur um varanleg mein samkvæmt gögnum á hægra eyra. Varðandi skoðun á hægri öxl liggja fyrir skoðanir tveggja matsmanna. Í matsgerð D læknis, dags. 5. ágúst 2020, er lýst vægri hreyfiskerfingu en í tillögu E læknis, dags. 16. desember 2021, að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku, koma ekki fram merki um hreyfiskerðingu en lýst er verk í endaferlum og daglegum áreynsluverk. Í ljósi þessa telur úrskurðarnefnd velferðarmála eðlilegt að meta einkenni kæranda með vísun í lið VII.A.a.2.1. í miskatöflum örorkunefndar en samkvæmt honum leiðir daglegur áreynsluverkur með vægri hreyfiskerðingu til 5% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku. Þar sem ekki er um hreyfiskerðingu að ræða telur úrskurðarnefnd velferðarmála hæfilegt að meta kæranda til 3% varanlegrar læknisfræðilegar örorku.
Að framangreindu virtu telst varanleg læknisfræðileg örorka kæranda vera 3%, sbr. lið VII.A.a.2.1. í miskatöflum örorkunefndar. Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 3% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 3% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir 11. september 2017, er staðfest.
Kári Gunndórsson