Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 478/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 478/2021

Miðvikudaginn 17. nóvember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 13. september 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 30. ágúst 2021 um greiðslu feðralauna.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænum umsóknum, mótteknum 12. og 30. ágúst 2021, sótti kærandi um feðralaun hjá Tryggingastofnun ríkisins með tveimur börnum sínum. Með bréfi, dags. 30. ágúst 2021, synjaði stofnunin kæranda um feðralaun með tveimur börnum á grundvelli þess að hann væri fósturfaðir annars barnsins.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. september 2021. Með bréfi, dags. 14. september 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. september 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. september 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi sótt um mæðra-/feðralaun til Tryggingastofnunar ríkisins sem hafi verið synjað. Kærandi sé ekki sammála þessari niðurstöðu þar sem með henni sé verið að mismuna börnum hans. Forsaga málsins sé sú að kærandi hafi misst konu sína [...] og nú sé hann einstætt foreldri með tvö börn, dóttur þeirra og „stjúpson“ sinn, sem sé sonur konu hans.

Tryggingastofnun meti það þannig að mæðra-/feðralaun séu einungis greidd með börnum sem séu blóðskyld en ekki fóstur- eða stjúpbörnum. Kærandi geti engan veginn verið sammála því að börnum hans sé mismunað svona eingöngu vegna þess að þau séu hálfsystkin samkvæmt líffræðilegri skilgreiningu. Kærandi geti ekki séð hver munurinn sé á því að hann sé með tvö börn á framfæri sem hann ali bæði upp sem sín eigin og væri hann líffræðilegur faðir þeirra beggja.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um að synja kæranda um feðralaun með dóttur sinni og stjúpsyni/fóstursyni.

Málavextir séu þeir að í framhaldi af umsóknum kæranda, dagsettum 12. og 30. ágúst 2021, hafi honum verið synjað með bréfi, dags. 30. ágúst 2021, um greiðslu feðralauna með dóttur sinni og stjúpsyni/fóstursyni með þeim rökum að ekki væri heimilt að greiða feðralaun til fósturforeldra.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Í reglugerð nr. 540/2002 um mæðra- og feðralaun séu nánari ákvæði um greiðslu mæðra- og feðralauna. Í 2. gr. reglugerðarinnar komi fram að með einstæðu foreldri sé átt við:

„a) Foreldri sem skilið er við maka sinn að borði og sæng eða að lögum, eða hefur slitið óvígðri sambúð eða staðfestri samvist.

b) Foreldri sem hefur eignast börn utan hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og hefur ekki tekið upp sambúð, samvist eða gengið í hjónaband.

c) Foreldri sem er eitt vegna andláts maka.“

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands búi kærandi einn með dóttur sinni og stjúpsyni/fóstursyni. Móðir barnanna, eiginkona kæranda, hafi fallið frá þann […]. Þá komi fram í Þjóðskrá að stjúpsonur/fóstursonur kæranda hafi flutt til hans frá föður sínum þann […].

Með vísan til ofangreindrar skilgreiningar á foreldri í 2. gr. reglugerðarinnar, sem Tryggingastofnun líti svo á að sé tæmandi talin og með vísan til orðalags 2. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem talað sé um foreldri sem hafi börn sín á framfæri, telji Tryggingastofnun að einungis sé heimilt að greiða umsækjendum um mæðra- og feðralaun með sínum eigin börnum en ekki börnum annarra, þrátt fyrir að þau séu á framfæri umsækjanda.

Í þessu tilviki sé einungis annað barnið barn kæranda og því hafi Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða kæranda feðralaun með báðum börnunum.

Vert sé að benda á að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi komist að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum í máli nr. 129/2019 að ekki væri heimilt að greiða fósturforeldri mæðra- eða feðralaun.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. ágúst 2021, þar sem umsókn kæranda um feðralaun með dóttur hans og stjúpsyni/fóstursyni var synjað með þeim rökum að hann uppfyllti ekki skilyrði laga um greiðslu feðralauna þar sem hann væri „fósturforeldri“ annars barnsins. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort Tryggingastofnun sé heimilt að greiða feðralaun til stjúpforeldra.

Um feðralaun er fjallað í 2. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. máls. 1 mgr. 2. gr. laganna er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða mæðra- og feðralaun til einstæðra foreldra sem hafi börn sín undir 18 ára aldri á framfæri og séu búsett hér á landi. Í 2. málsl. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd þess.

Í 1. gr. reglugerðar nr. 540/2008 um mæðra- og feðralaun segir:

„Tryggingastofnun ríkisins er heimilt, að fenginni umsókn, að greiða mæðra- og feðralaun þeim sem eiga lögheimili hér á landi. Skilyrði er að foreldri hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu, og að börnin séu búsett hér á landi hjá foreldri samkvæmt lögmætri skipan.“

Skilgreining á einstæðu foreldri er svohljóðandi í 2. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar:

„Með einstæðu foreldri í reglugerð þessari er átt við:

a) Foreldri sem skilið er við maka sinn að borði og sæng eða að lögum, eða hefur slitið óvígðri sambúð eða staðfestri samvist.

b) Foreldri sem hefur eignast börn utan hjúskapar eða óvígðrar sambúðar og hefur ekki tekið upp sambúð, samvist eða gengið í hjónaband.

c) Foreldri sem er eitt vegna andláts maka.“

Samkvæmt framangreindu er heimilt, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, að greiða einstæðu foreldri mæðra- eða feðralaun. Í framangreindri reglugerð kemur fram það skilyrði að foreldrið hafi tvö eða fleiri börn yngri en 18 ára á framfæri sínu. Aftur á móti er engin heimild til þess að greiða einstæðu stjúpforeldri mæðra- eða feðralaun. Óumdeilt er í málinu að dóttir kæranda og stjúpsonur hans búa hjá honum. Að mati úrskurðarnefndar var Tryggingastofnun ríkisins ekki heimilt að samþykkja umsókn kæranda um greiðslu feðralauna vegna þess að hann uppfyllir ekki ófrávíkjanlegt skilyrði 2. gr. laga um félagslega aðstoð og reglugerðar nr. 540/2002 um að vera foreldri beggja barnanna sem búsett eru hjá honum.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 30. ágúst 2021, um að synja kæranda um feðralaun, er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um feðralaun, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta