Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 273/2024-Úrskurður

.

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 273/2024

Miðvikudaginn 6. nóvember 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 12. júní 2024, kærði B, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. maí 2024 þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukrafna var samþykkt að hluta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun á árunum 2020-2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. maí 2023, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2022 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 1.747.323 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með beiðni, dags. 13. mars 2024, óskaði umboðsmaður kæranda eftir breytingu á álagningu opinberra gjalda áranna 2020-2022 vegna eingreiðslu frá lífeyrissjóði í júlí 2022 sem rekja mátti til framangreindra ára. Þann 26. janúar 2024 bárust Tryggingastofnun upplýsingar frá Skattinum um endurskoðaða álagningu og greiðslur áranna voru endurreiknaðar í samræmi við breyttar forsendur. Með bréfum, dags. 26. janúar 2024, var kæranda tilkynnt um að endurreikningar og uppgjör tekjutengdra bóta áranna 2020-2022 hefði leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð 618.095 kr. fyrir árið 2020, ofgreiðslu bóta að fjárhæð 1.037.386 kr. fyrir árið 2021 og ofgreiðslu bóta að fjárhæð 784.466 kr. fyrir árið 2022, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Með bréfi, dags. 14. mars 2024, sótti umboðsmaður kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. apríl 2024, var umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu synjað. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 31. maí 2024, var kæranda tilkynnt um að fyrri ákvörðun um synjun á umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu hefði verið endurupptekin og að ákveðið hefði verið að fella niður 50% eftirstöðva ofgreiðslukrafna, eða 1.187.313 kr., vegna erfiðra fjárhagslegra aðstæðna.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júní 2024. Með bréfi, dags. 18. júlí 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. ágúst 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2024. Þá var hún send umboðsmanni kæranda á ný með bréfi, dags. 11. september 2024. Athugasemdir bárust með bréfi, dags. 24. september 2024, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 25. september 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að Tryggingastofnun ríkisins samþykki að kærandi eigi í fjárhagserfiðleikum en hafi einungis fellt niður 50% meintrar kröfu. Kærandi krefjist þess að krafan verði felld niður að fullu vegna fjárhagserfiðleika kæranda.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda frá 24. september 2024 segir að Tryggingastofnun samþykki að kærandi eigi í erfiðleikum fjárhagslega og því eigi að fella niður 50% af meintri skuld. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi áður fellt marga úrskurði um að viðurkenning á að fella niður hluta af skuld felist viðurkenning á að fella eigi niður alla skuldina hjá kæranda.

Þess sé einnig krafist að Tryggingastofnun endurgreiði kæranda að fullu ásamt vöxtum allt það sem stofnunin hafi skuldajafnað upp í meinta skuld. Vísað sé í kærumál nr. 200/2022 því til stuðnings. Þá sé þess krafist að úrskurðarnefndin neyði Tryggingastofnun til að hætta skuldajöfnun strax þangað til niðurstaðan liggi fyrir.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, dags. 15. júlí 2024. Ofgreiðslukrafan hafi myndast vegna endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna áranna 2020, 2021 og 2022.

Fyrir gildistöku breytingarlaga nr. 18/2023 hafi sagt í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð að um endurhæfingarlífeyri giltu ákvæði a-liðar 1. mgr., 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. þágildandi laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þá hafi sagt að um aðrar tengdar bætur færi eftir sömu reglum og gildi um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þágildandi laga.

Um útreikning örorkulífeyris hafi fyrir gildistöku áðurnefndra breytingarlaga verið fjallað í III. kafla þágildandi laga um almannatryggingar. Eftir gildistöku áðurnefndra breytingarlaga þann 12. apríl 2023 sé fjallað um útreikning örorkulífeyris í IV. kafla núgildandi laga. Í 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi verið kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun skyldi standa að útreikningi bóta. Sambærileg ákvæði sé að finna í 30. og 33. gr. núgildandi laga.

Samkvæmt 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun borið að líta til tekna við útreikning bóta, m.a. endurhæfingarlífeyris. Í 2. mgr. greinarinnar hafi sagt að til tekna skv. III. kafla laganna teldust tekjur skv. II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað teljist ekki til tekna og frádráttarliða skv. 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi almannatryggingalaga. Þar á meðal séu fjármagnstekjur á borð við vexti, verðbætur og söluhagnað.

Samkvæmt 5. mgr. 18. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi örorkulífeyrir lækkað um tiltekið hlutfall af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn hafi fallið niður. Sama hafi gilt um aldurstengda örorkuuppbót og tekjutryggingu, sbr. 1. mgr. 21. gr. og 3. mgr. 22. gr. þágildandi laga.

Í 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skyldi leggja 1/12 af áætluðum tekjum greiðsluþegans á bótagreiðsluárinu. Þá hafi sagt að áætlun um tekjuupplýsingar skyldi byggjast m.a. á nýjustu upplýsingum frá greiðsluþega, sbr. 39. gr. laganna þar sem fram hafi komið að greiðsluþega væri skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á bætur eða greiðslur. Sambærilegt ákvæði sé að finna í 33. gr. núgildandi laga.

Í 6. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga hafi komið fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins lægju fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skyldi Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna, sbr. 33. gr. núgildandi laga. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Ef í ljós komi við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar hafi farið um það skv. 55. gr. þágildandi laga um almannatryggingar, sbr. 34. gr. núgildandi laga. Í ákvæðunum sé Tryggingastofnun skylduð til að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla að ofgreiddar bætur skuli innheimtar sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Kærandi hafi þegið örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun samfleytt frá 1. maí 2022. Fyrir það hafi kærandi þegið endurhæfingarlífeyri samfleytt frá 1. september 2019 til 30. apríl 2022.

Með tölvupósti 13. mars 2024 hafi umboðsmaður kæranda tilkynnt Tryggingastofnun að kærandi hefði óskað eftir því við Skattinn að gerð yrði breyting á álagningu opinberra gjalda kæranda vegna tekjuáranna 2020, 2021 og 2022. Kærandi hafi óskað eftir slíkum breytingum vegna þess að hún hafi fengið eingreiðslu úr lífeyrissjóði í júlí 2022 að fjárhæð 5.386.635 kr.

Þann 26. janúar 2024 hafi Tryggingastofnun borist upplýsingar um endurskoðaða álagningu. Þar sem Skatturinn hafi endurskoðað álagningu opinberra gjalda kæranda vegna áranna 2020, 2021 og 2022 hafi greiðslur áranna verið endurreiknaðar í samræmi við breyttar forsendur. Með bréfum, dags. 26. janúar 2024, hafi ný niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna áranna 2020, 2021 og 2022 verið birt kæranda.

Þar komi fram að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2020 væri skuld að fjárhæð 618.095 kr. en 1.037.386 kr. skuld vegna ársins 2021 og 784.466 kr. skuld vegna ársins 2022. Samanlagt hafi því vegna þessara þriggja ára myndast ofgreiðslukrafa að fjárhæð 2.439.947 kr.

Fyrir áðurnefnda endurskoðun álagningar opinberra gjalda hafi niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2020 verið inneign að fjárhæð 49.833 kr., skuld að fjárhæð 17.968 kr. vegna ársins 2021 og skuld að fjárhæð 1.747.323 kr. vegna ársins 2022. Samanlagt hafi því fyrir áðurnefnda endurskoðun álagningar opinberra gjalda myndast ofgreiðslukrafa að fjárhæð 1.765.291 kr. vegna þessara þriggja ára. Ofgreiðslukrafa kæranda vegna áðurnefndra þriggja ára hafi því hækkað um 674.656 kr. vegna endurskoðunar álagningar opinberra gjalda.

Með bréfi, dags. 14. mars 2024, hafi umboðsmaður kæranda sótt um niðurfellingu ofgreiðslukröfu fyrir hönd kæranda. Með bréfi, dags. 10. apríl 2024, hafi umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu verið synjað. Þá hafi kæranda verið bent á að áðurnefnd endurskoðun álagningar opinberra gjalda vegna áranna 2020, 2021, 2022 væri henni óhagfelld gangvart Tryggingastofnun og að ef hún félli frá henni yrði það til þess að ofgreiðslukröfur þessara ára myndu lækka.

Með bréfi, dags. 31. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt að fyrri ákvörðun um synjun á umsókn um niðurfellingu ofgreiðslukröfu hefði verið endurupptekin og að ákveðið hefði verið að samþykkja umsóknina að hluta. Samráðsnefnd Tryggingastofnunar, sem hafi tekið umsóknina fyrir, hafi fallist á að fella niður 50% eftirstöðva ofgreiðslukrafna, eða 1.187.313 kr., vegna erfiðra fjárhagslegra aðstæðna. Í kjölfar niðurfellingarinnar hafi því eftirstöðvar krafna í innheimtu verið 1.187.313 kr.

Í 2. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar hafi sagt að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teldust tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teldist til tekna og tiltekinna frádráttarliða í 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga eða takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum, sbr. 30. gr. núgildandi laga um almannatryggingar. Í þessu ákvæði hafi verið og sé því tilgreint við hvaða tekjur Tryggingastofnun skyldi miða útreikning og endurreikning bóta og jafnframt hafi verið tilgreindar þær undantekningar sem stofnuninni hafi borið að hafa hliðsjón af við þá framkvæmd. Lífeyrir sé þar m.a. tilgreindur sem skattskyldur og þar með teljist lífeyrisgreiðslur til tekna samkvæmt almannatryggingalögum.

Til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar hafi verið lagðar 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins í samræmi við 5. mgr. 16. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 33. gr. núgildandi laga. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga um tekjur kæranda á fyrri árum eða áætlana frá kæranda sjálfum. Tryggingastofnun hafi upplýst kæranda um forsendur bótaútreikningsins, minnt á skyldu hennar til að tilkynna stofnunni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem gætu haft áhrif á greiðslur til og gefið hennar kost á að koma að athugasemdum. Auk þess hafi kærandi verið upplýst um afleiðingar þess að tekjur væru vanáætlaðar á tekjuáætlun.

Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda sé Tryggingastofnun skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem liggi þá fyrir, sbr. 6. mgr. 16. gr. þágildandi almannatryggingalaga og 33. gr. núgildandi laga. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni einnig skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 55. gr. þágildandi laga og 34. núgildandi laga. Meginreglan hafi því verið sú að ef tekjur þær sem lagðar hafi verið til grundvallar endurreikningi reyndust hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla hafi stafað af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður þá skyldi sú ofgreiðsla endurkrafin. Þá skipti ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða breyttu aðstæður. Samkvæmt upplýsingum frá skattyfirvöldum hafi tekjur kæranda verið vanáætlaðar á tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2020, 2021 og 2022. Í kjölfar endurskoðunar álagningar opinberra gjalda fyrir þessi ár hafi vanáætlun tekna leitt til ofgreiðslu um 2.439.947 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Ákvæði 55. gr. þágildandi laga um almannatryggingar og 34. gr. núgildandi laga fjalli um innheimtu ofgreiddra bóta. Ákvæðin séu ekki heimildaákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa framhjá tekjum sem birtist á framtali bótaþega, eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og hafi einnig verið staðfest fyrir dómstólum. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slík skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umdeild krafa hafi orðið til við endurreikning og uppgjör tekjutengdra greiðslna áranna 2020, 2021 og 2022. Krafan sé réttmæt. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Eins og gögn málsins beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslunnar hafi verið röng tekjuáætlun. Lífeyrisþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. þágildandi laga og 47. gr. núgildandi laga. Kæranda hafi mátt vera ljóst að vanáætlaðar tekjur hennar hefðu áhrif á rétt hennar til lífeyrisgreiðslna skv. lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Þrátt fyrir það telji Tryggingastofnun ekki útilokað að kærandi hafi verið í góðri trú í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, enda geti verið erfitt að áætla óreglulegar greiðslur og kærandi hafi upplýst stofnunina um eingreiðsluna stuttu eftir að hún hafi átt sér stað. Það leiði eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind séu í 11. gr. reglugerðarinnar.

Samráðsnefnd Tryggingastofnunar hafi einnig litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna kæranda í samræmi við 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009. Samráðsnefnd hafi metið fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem stofnunin hafi aðgang að og m.a. hafi verið horft til eignastöðu kæranda og tekna. Hvað varðar fjárhagslegar aðstæður hafi meðaltekjur kæranda árið 2020 samkvæmt skattframtali verið 581.271 kr. á mánuði. Árið 2021 hafi meðaltekjur kæranda á mánuði 620.798 kr. verið samkvæmt skattframtali. Árið 2022 hafi meðaltekjur kæranda samkvæmt skattframtali verið 390.358 kr. á mánuði. Hluti þessara tekna hafi komið til vegna eingreiðslu úr lífeyrissjóði að fjárhæð 5.386.635 kr. sem kærandi hafi fengið í júlí 2022. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignir kæranda hafi verið umfram skuldir í lok árs 2023. Samkvæmt þessum upplýsingum hafi Tryggingastofnun talið að fjárhagslegar aðstæður kæranda vera slíkar að geta kæranda til endurgreiðslu væri til staðar. Einnig hafi verið horft til þess hvernig krafan hafi verið tilkomin. Þá voru félagslegar aðstæður kæranda ekki taldar takmarka getu kæranda til endurgreiðslu þannig að um alveg sérstakar aðstæður væru að ræða.

Tryggingastofnun hafi þó talið rétt að koma til móts við kæranda með því að fella niður helming ofgreiðslukröfunnar. Eftir niðurfellingu og að teknu tilliti til innborgana fram að 31. maí 2024 hafi eftirstöðvar ofgreiðslukröfunnar verið 1.187.313 kr. Þá hafi Tryggingastofnun einnig ákveðið að bjóða kæranda að dreifa eftirstöðvum kröfunnar á 60 mánuði frá 1. júní 2024 til 1. maí 2029, svo mánaðarleg greiðslubyrði kæranda af kröfunni væri sem minnst, en að jafnaði sé gert ráð fyrir að kröfur séu greiddar upp á 12 mánuðum, sbr. 3. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar. Endurgreiðslan verði þar að auki vaxtalaus ef kærandi standi við greiðsluskyldu sína samkvæmt samningi um greiðsludreifingu, sbr. 3. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar. Þegar þetta sé skrifað standi krafan í 1.127.949 kr. og greiði kærandi 19.788 kr. á mánuði af kröfunni. Með hliðsjón af ofangreindu hafi Tryggingastofnun talið að geta kæranda til endurgreiðslu eftirstöðva krafna hafi verið hendi.

Kærð ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppgjör og endurreikning tekjutengdra bóta sem og innheimtu ofgreiddra bóta.

Tryggingastofnun fari því fram á að ákvörðun stofnunarinnar frá 31. maí 2024 um að fella niður helming ofgreiðslukröfu kæranda verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 31. maí 2024, þar sem umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukrafna var samþykkt að hluta.

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 48. gr. laga um almannatryggingar.

Í 30. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 3. mgr. 33. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Kærandi fékk greiddan endurhæfingarlífeyri frá 1. september 2019 til 30. apríl 2022 og hefur þegið örorkulífeyri frá 1. maí 2022. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2022 með bréfi, dags. 23. maí 2023. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar samtals að fjárhæð 1.747.323 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu skatta. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja til þess að lífeyrisjóðsgreiðslur voru ekki í samræmi við tekjuáætlun ársins en kærandi fékk meðal annars eingreiðslu frá lífeyrissjóði í júlí 2022. Skatturinn endurskoðaði álagningu áranna 2020-2022 í kjölfar beiðni frá kæranda og Tryggingastofnun endurreiknaði greiðslur áranna í samræmi við breyttar forsendur. Niðurstöður endurreikninga vegna framangreindra ára voru þær að bætur til kæranda hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð 2.439.947 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni ber að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 34. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu, að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum.

Í máli þessu lýtur ágreiningurinn að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja að fella niður 50% ofgreiðslukrafna kæranda en hún óskar eftir að öll skuldin verði felld niður.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að tekjutengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 1. mgr. 47. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins má rekja ofgreiðslukröfu til vanáætlaðra lífeyrissjóðtekna en kærandi fékk meðal annars eingreiðslu frá lífeyrissjóði í júlí 2022. Tryggingastofnun telur ekki útilokað að kærandi hafi verið í góðri trú. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála leiðir það eitt og sér aftur á móti ekki sjálfkrafa til þess að krafan sé felld niður í heild sinni heldur þurfi að meta aðstæður kæranda heildstætt með hliðsjón af öllum þeim atriðum sem tilgreind eru í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kemur þá til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar. Í beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu kemur fram óskað sé niðurfellingar vegna fjárhagsaðstæðna kæranda. Meðaltekjur kæranda á árinu 2023 voru samkvæmt staðgreiðsluskrá 514.626 kr. á mánuði og fyrstu níu mánuði ársins 2024 voru meðaltekjur kæranda samkvæmt staðgreiðsluskrá 521.671 kr. á mánuði. Þá verður ráðið af gögnum málsins að eignir kæranda hafi verið umfram skuldir á árinu 2023. Jafnframt lítur úrskurðarnefndin til þess að Tryggingastofnun hefur samþykkt að fella niður 50% eftirstöðva ofgreiðslukrafna, eða 1.187.313 kr. Þá hefur stofnunin dreift eftirstöðvum krafna þannig að kærandi greiðir 19.788 kr. á mánuði í stað þess að kærandi þurfi að endurgreiða ofgreiðslukröfurnar á 12 mánuðum, eins og meginregla 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar kveður á um. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefndin að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Einnig lítur nefndin til þess að samkvæmt meginreglu 1. mgr. 34. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 31. maí 2024 um að samþykkja að hluta umsókn kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að samþykkja að hluta umsókn A, um niðurfellingu ofgreiðslukröfu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta