Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 5/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 5/2016

Miðvikudaginn 5. október 2016

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. nóvember 2015 um að krefja kæranda um endurgreiðslu uppbótar vegna bifreiðarkaupa, samtals að fjárhæð 265.000 kr.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um uppbót til kaupa á bifreið frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 3. desember 2013. Með ákvörðun, dags. 20. febrúar 2014, var umsókn kæranda samþykkt. Í kjölfar ákvörðunar Tryggingastofnunar skrifaði kærandi undir yfirlýsingu vegna kaupa á bifreið þar sem hún lýsti því yfir að henni væri kunnugt um að henni væri óheimilt að selja bifreiðina fyrr en fimm árum eftir greiðslu uppbótarinnar, nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2015, var kæranda tilkynnt að samkvæmt upplýsingum frá ökutækjaskrá Samgöngustofu væri hún ekki lengur eigandi bifreiðarinnar X. Þá segir að kærandi hafi fengið greidda uppbót til bifreiðakaupa vegna bifreiðarinnar í mars 2014 og bifreiðin hafi verið skráð úr hennar eigu þann 8. september 2014. Kærandi var krafinn um endurgreiðslu uppbótarinnar í hlutfalli við þann tíma í mánuðum sem bifreiðin hafi verið í hennar eigu, eða samtals 265.000 kr. Í bréfinu kemur einnig fram að endurgreiðslan sé í formi frádráttar af bótum kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins og verði 11.042 kr. dregnar af bótum hennar mánaðarlega frá 1. febrúar 2016 og þar til krafan sé að fullu endurgreidd, eftir frádrátt í 24 mánuði.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. janúar 2016. Með bréfi, dags. 27. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 10. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. febrúar 2016, var greinargerð Tryggingastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að hún óski eftir því að krafa Tryggingastofnunar ríkisins um endurgreiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa verði felld úr gildi.

Í kæru kemur fram að í mars 2014 hafi kærandi fengið uppbót vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 300.000 kr. vegna bifreiðar sem hún hafi keypt. Sjö mánuðum síðar hafi hún selt bifreiðina vegna þess að hún flutti til B. Áður en hún seldi bifreiðina hafi hún farið á skrifstofu Tryggingastofnunar á Laugavegi til þess að spyrjast fyrir um sín mál vegna flutnings, þar á meðal hvort hún yrði endurkrafin ef hún myndi selja bifreiðina og kaupa sér aðra bifreið í B. Svarið sem hún hafi fengið hafi verið neikvætt, það yrði ekki gert. Í nóvember 2015 hafi hún svo fengið bréf frá stofnuninni þar sem fram kom að hún yrði krafin um endurgreiðslu uppbótarinnar. Kæranda finnist þetta „út í hött“ þar sem hún hafi sérstaklega spurt starfsmenn stofnunarinnar um þetta áður en hún hafi selt bifreiðina og flutt út. Hún sé búin að senda þeim tölvupóst en fái ekki svar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega sé nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt sé að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildi um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingarlögum nr. 120/2009, sem tekið hafi gildi þann 1. janúar 2010, hafi málslið verið bætt við þessa málsgrein, þar sem fram komi að heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða sé sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3. gr. hennar sé fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar komi fram skilyrði fyrir greiðslu þessara uppbóta og jafnframt fjárhæðir þeirra. Þar komi meðal annars fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segi síðan að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt sé að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.

Kærandi hafi sótt um uppbót til bifreiðakaupa með umsókn, dags. 3. desember 2013. Með bréfi, dags. 20. febrúar 2014, hafi umsókn kæranda um uppbót til bifreiðakaupa verið samþykkt. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að kæranda væri ekki heimilt að selja bifreiðina innan fimm ára án sérstaks leyfis Tryggingastofnunar og að kærandi þyrfti að skila inn sérstakri yfirlýsingu þess efnis áður en greiðsla færi fram. Kærandi hafi skilað inn slíkri yfirlýsingu þann 10. mars 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá ökutækjaskrá Samgöngustofu hafi bifreiðin verið seld þann 8. september 2014 og hafi það verið staðfest af kæranda, meðal annars í kæru. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 10. nóvember 2015, hafi kærandi verið endurkrafin um uppbótina sem hún hafi fengið greidda í hlutfalli við þann tíma í mánuðum sem bifreiðin hafi verið í eigu hennar, þ.e. um 53 mánuði af 60. Eftir nokkur samskipti við Tryggingastofnun hafi stofnuninni borist kæra í málinu þann 27. janúar 2016.

Uppbót og styrkir til bifreiðakaupa séu veittir til fimm ára í senn. Samkvæmt skýru ákvæði reglugerðarinnar sé þeim sem þiggi uppbótina óheimilt að selja bifreiðina innan fimm ára nema að fengnu leyfi Tryggingastofnunar. Stofnuninni sé svo heimilt að víkja frá þeim tímamörkum í nánar tilgreindum tilfellum.

Kæranda, líkt og öðrum, hafi verið gerð grein fyrir þessari kvöð á uppbótinni þegar hún hafi verið samþykkt, líkt og komi fram í meðfylgjandi bréfi með greinargerð. Einnig hafi kæranda, líkt og öðrum, verið gert að skila inn undirritaðri yfirlýsingu um að henni væri kunnugt um þessa kvöð.

Rétt sé að vekja athygli á því að í framkvæmd hafi Tryggingastofnun ekki endurkrafið einstaklinga um uppbætur eða styrki vegna bifreiðakaupa þótt þeir selji bifreiðina innan fimm ára ef þeir kaupi sér aðra sambærilega bifreið í hennar stað í eðlilegu framhaldi. Ef einhver sem fengið hafi uppbót eða styrk til bifreiðakaupa selji bifreiðina án þess að vera kaupa sér nýja bifreið sé hann hins vegar endurkrafinn í hlutfalli við þann tíma sem bifreiðin hafi verið í eigu viðkomandi.

Í tilfelli kæranda sé ljóst að bifreiðin hafi einungis verið í eigu kæranda í örfáa mánuði eftir að henni hafi verið veitt uppbót til kaupa á bifreiðinni. Tryggingastofnun hafi farið yfir mál kæranda og telji ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni. Hin kærða ákvörðun sé í samræmi við lög og reglur sem gildi um uppbót vegna bifreiðakaupa.

Þá sé rétt að svara tveimur atriðum sem fram komi í kæru. Í fyrsta lagi komi fram að kærandi hafi sent Tryggingastofnun tölvupósta og hún hafi ekki fengið svar. Eins og sjá megi á þeim gögnum er hafi fylgt með greinargerð þá hafi kærandi sent stofnuninni þrjá tölvupósta sem snúi að þessu erindi. Fyrstu tveimur hafi verið svarað og sá þriðji hafi verið túlkaður af stofnuninni sem yfirlýsing um að kærandi hafi ætlað sér að kæra ákvörðun Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Í öðru lagi þá komi fram að kærandi hafi haft samband við Tryggingastofnun og fengið þær upplýsingar að hún þyrfti ekki að láta af væntanlegri sölu bifreiðarinnar, en Tryggingastofnun hafi ekki fundið neinar upplýsingar um þessi samskipti í gögnum stofnunarinnar. Þá sé ómögulegt að staðreyna nákvæmlega hvaða upplýsingar hafi verið veittar, við hvaða forsendur þær hafi miðast eða hvaða skilningur hafi verið lagður í þær af hálfu kæranda.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 10. nóvember 2015, um að krefja kæranda um endurgreiðslu uppbótar vegna bifreiðarkaupa í hlutfalli við þann tíma í mánuðum sem bifreiðin var í hennar eigu.

Í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til bifreiðakaupa og er 1. mgr. 10. gr. svohljóðandi:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Þá segir í 3. málsl. 3. mgr. 10. gr. laganna að ráðherra setji reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæðinu, meðal annars um sex mánaða búsetuskilyrði.

Með stoð í framangreindu ákvæði hefur ráðherra sett reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í 3. mgr. reglugerðarinnar er fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Í 7. mgr. 3. gr. segir:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.“

Þá kemur fram í 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð að bætur félagslegrar aðstoðar greiðast eingöngu þeim sem lögheimili eiga hér á landi, sbr. 1. gr. laga um lögheimili, og að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna og reglugerða sem settar eru með stoð í þeim.

Samkvæmt upplýsingum frá ökutækjaskrá Samgöngustofu var bifreiðin X skráð í eigu kæranda frá 12. mars 2014 til 8. september 2014. Þá liggur fyrir greiðsluskjal sem staðfestir að kærandi fékk greidda uppbót vegna bifreiðarkaupa frá Tryggingastofnun að fjárhæð 300.000 kr. þann 14. mars 2014.  Jafnframt liggur fyrir að kærandi skrifaði undir yfirlýsingu vegna bifreiðakaupa, dags. 10. mars 2014, þar sem hún lýsir því yfir að henni sé kunnugt um að samkvæmt reglugerð nr. 170/2009 sé henni óheimilt að selja bifreiðina fyrr en fimm árum eftir greiðslu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af framangreindu að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar til bifreiðakaupa nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð og 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Hins vegar er hvorki í lögum um félagslega aðstoð né reglugerð nr. 170/2009 kveðið á um hvað Tryggingastofnun skuli gera ef bifreið er seld innan fimm ára án þess að stofnunin hafi veitt leyfi til þess. Tryggingastofnun hefur mótað ákveðna framkvæmd í þessum efnum sem er lýst í greinargerð stofnunarinnar. Þar kemur fram að selji einstaklingur, sem hafi fengið greidda uppbót/styrk til bifreiðakaupa, bifreiðina innan fimm ára frá veitingu uppbótar/styrks án þess að kaupa sér nýja bifreið sé hann endurkrafinn um uppbótina í hlutfalli við þann tíma sem bifreiðin var í eigu viðkomandi. Þá segir að Tryggingastofnun endurkrefji hins vegar ekki einstaklinga um uppbætur/styrki vegna bifreiðakaupa þótt þeir selji bifreiðina innan fimm ára ef þeir kaupa sér aðra sambærilega bifreið í hennar stað í eðlilegu framhaldi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur framangreinda framkvæmd Tryggingastofnunar á endurkröfu uppbótar vegna bifreiðakaupa málefnalega. Þá horfir úrskurðarnefnin til þess sem fram kemur í 1. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum skuli stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi kunni síðar að eiga rétt til. Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Með vísan til þessa gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemd við framangreinda framkvæmd stofnunarinnar við endurkröfu uppbótar til bifreiðakaupa.

Kærandi byggir á því í gögnum málsins að hún hafi keypt sér nýja bifreið í B. Þá greinir hún frá því að hún hafi spurt starfsfólk stofnunarinnar að því áður en hún seldi bílinn hvort hún mætti selja hann og fengið það svar að hún mætti það og yrði ekki endurkrafin. Tryggingastofnun mótmælir þessari fullyrðingu kæranda og vísar til þess að ekkert sé að finna í gögnum stofnunarinnar sem renni stoðum undir fullyrðinguna.

Erfitt er að segja til um hvað fór nákvæmlega fram á milli kæranda og starfsmanns Tryggingastofnunar ríkisins. Engin gögn liggja fyrir í málinu sem staðfesta að kærandi hafi fengið rangar upplýsingar frá starfsmanni stofnunarinnar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur því ekki að til álita komi að fella úr gildi hina kærðu ákvörðun á þeim grundvelli. Þá kemur fram í 2. mgr. 1. gr. laga um félagslega aðstoð að bætur félagslegrar aðstoðar greiðist eingöngu þeim sem lögheimili eigi hér á landi. Því er ekki gerð athugasemd við þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að endurkrefja kæranda um uppbót vegna bifreiðakaupa, þrátt fyrir að hún hafi keypt sér nýja bifreið í B.

Í máli þessu liggur fyrir að bifreiðin X var skráð í eigu kæranda í tæplega sex mánuði á árinu 2014. Í útreikningum sínum gerir Tryggingastofnun ráð fyrir að kærandi hafi átt bifreiðina í sjö mánuði. Hún er því endurkrafin um 53 mánuði af 60 eða samtals 265.000 kr. Endurkrafan er í formi frádráttar af bótum kæranda frá Tryggingastofnun. Í ljósi alls framangreinds er ekki gerð athugasemd við þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að krefja kæranda um endurgreiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa samtals að fjárhæð 265.000 kr., sbr. 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð, 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 og 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar.

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 10. nóvember 2015 um að krefja A, um endurgreiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta