Mál nr. 403/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 403/2024
Miðvikudaginn 27. nóvember 2024
Dánarbú A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 30. ágúst 2024, kærði B, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. maí 2024 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.
I. Málsatvik og málsmeðferð
A fékk greiddar tekjutengdar greiðslur á árinu 2023. A lést X og tók þá dánarbúið við öllum réttindum og skyldum hans. Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 283.824 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu og áður myndaðrar kröfu. Tilkynnt var um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024, sem sent var kæranda í bréfpósti.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 5. september 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins vegna kærunnar ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 25. september 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. september 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er farið fram á að felld verði niður krafa Tryggingastofnunar að fjárhæð 283.824 kr. Þess sé krafist að hún verði endurgreidd með dráttarvöxtum frá 30. ágúst 2024 að telja. Framangreind fjárhæð hafi verið greidd með fyrirvara um endurkröfurétt en hún hafi verið innt af hendi þann 29. ágúst 2024. Erfingjar A skilji ekki hvernig unnt sé að komast að þeirri niðurstöðu að dánarbúið skuldi 283.824 kr. Þeir telji að krafan sé ekki nægilega rökstudd. Það vanti allar skýringar og rök fyrir því að innheimta einhvern mismun, sem þeir hafi aldrei séð. Nánari útlistun vanti á því af hverju staðgreiðsla skatta að fjárhæð 144.472 kr. hafi verið reiknuð fyrir árið 2023 þannig að ofgreiðsla nemi 283.824 kr. Erfingjar telji að dánarbúið sé eigandi að umræddri fjárhæð og þess sé krafist að hún verði endurgreidd. Tryggingastofnun bresti alla lagaheimild til að endurkrefja umrædda fjárhæð, sem sé ekki studd nægum gögnum.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæra varði innheimtu ofgreiddra bóta í tengslum við dánarbú A, dags. 24 maí 2024.
Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í IV. kafla laga um nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 33. gr. laganna sé að finna ákvæði um útreikning og endurreikning og í 34. gr. sé að finna ákvæði um ofgreiðslu og vangreiðslu.
Í 47. gr. laganna sé kveðið á um upplýsingaskyldu umsækjenda og greiðsluþega. Þar segi að umsækjanda eða greiðsluþega sé rétt og skylt að taka þátt í meðferð málsins, meðal annars með því að koma til viðtals og veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur.
Hinn látni hafi þegið ellilífeyri frá 1. október 1999 til 1. febrúar 2024 en hann hafi látist X. Í uppgjöri fyrir árið 2023 hafi komið í ljós að tekjur samkvæmt skattframtali hafi verið hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir.
Í fyrsta lagi hafi lífeyrissjóðstekjur samkvæmt skattframtali reynst hafa verið 668.125 kr., en síðasta tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir 620.916 kr. Í öðru lagi hafi fjármagnstekjur (vextir og verðbætur) samkvæmt skattframtali verið 915.774 kr., en síðasta tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir 82.044 kr. Að teknu tillit til staðgreiðslu skatta og innborgunar hafi niðurstaðan verið 283.824 kr. skuld dánarbúsins við Tryggingastofnun.
Í 33. gr. laga um almannatryggingar segi að Tryggingastofnun skuli endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli tekna eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum.
Í samræmi við 34. gr. sömu laga á stofnunin endurkröfurétt á hendur greiðsluþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.
Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðslan sé í senn lögmæt og málefnaleg. Fyrir nefndinni fari stofnunin þannig fram á staðfestingu á ákvörðun sinni frá 24. maí 2024 um að krefja dánarbúið um 283.824 kr.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.
A fékk greiddan ellilífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 22. gr. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. 22. gr. segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt 21. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 22. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 2.400.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna.
Á grundvelli 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Samkvæmt gögnum málsins sendi Tryggingastofnun tillögu að tekjuáætlun með bréfi, dags. 13. desember 2022, þar sem gert var ráð fyrir 97.704 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 82.044 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2023. Ekki voru gerðar athugasemdir við tekjuáætlunina. Í kjölfar samtímaeftirlits Tryggingastofnunar ríkisins við staðgreiðsluskrá kom í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en gert hafði verið í fyrri tekjuáætlun. Var í kjölfarið útbúin ný tekjuáætlun sem kærandi var upplýstur um í bréfi, dags. 14. mars 2023, en þar var gert ráð fyrir 620.916 kr. í lífeyrissjóðstekjur og óbreyttum fjármagnstekjur, auk þess var kærandi upplýstur um áætlaða kröfu að fjárhæð 31.076 kr. Frekari breytingar voru ekki gerðar og voru því greiðslur ársins greiddar út frá framangreindum tekjuforsendum út árið 2023.
Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 668.125 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 915.774 kr. í fjármagnstekjur. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2023 leiddi í ljós kröfu að fjárhæð 283.824 kr. að frádreginni áður greiddri staðgreiðslu skatta og að teknu tilliti til áður myndaðrar kröfu að fjárhæð 31.076 kr. og innborgunar að fjárhæð 31.076 kr.
Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2023 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur sem eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-liðar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun um endurreikning og uppgjör Tryggingastofnunar ríkisins á tekjutengdum bótum ársins 2023 og innheimtu ofgreiddra bóta.
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að benda kæranda á að dánarbúið getur freistað þess að leggja fram beiðni um niðurfellingu ofgreiddra bóta til Tryggingastofnunar á grundvelli undanþáguákvæðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar kemur fram að heimilt sé að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður séu fyrir hendi. Þá skuli einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna greiðsluþega og þess hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum dánarbús A, og innheimtu ofgreiddra bóta er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir