Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 61/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 61/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, 19. febrúar 2018, kærði B lögfræðingur, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannlækninga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 31. janúar 2018, var sótt um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna tannlækninga kæranda. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. febrúar 2018, var umsókninni synjað á þeirri forsendu að tannvandi kæranda væri ekki afleiðing fæðingargalla, sjúkdóms eða slyss, sbr. 20. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. febrúar 2018. Með bréfi, dags. 21. febrúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 21. mars 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. apríl 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 12. apríl 2018, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. apríl 2018.

Sjúkratryggingar Íslands tóku nýja ákvörðun í málinu þann 3. maí 2018, og greindu frá því í viðbótargreinargerð, dagsettri sama dag. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir afstöðu kæranda til hinnar nýju ákvörðunar stofnunarinnar. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. maí 2018, og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. maí 2018. Viðbótargreinargerð barst frá Sjúkratryggingum Íslands með bréfi, dags. 31. maí 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannlækninga.

Í kæru segir að kærandi hafi fæðst með klofinn góm og skarð í vör. Fyrir um X síðan hafi þurft að draga allar tennur úr efri góm og smíða gervitennur. Þetta úrræði gangi venjulega ágætlega en vegna fæðingargalla kæranda haldist tennur ekki fastar. Vegna klofins góms, þ.e. holrúmsins vegna þess að gómurinn sé ekki lokaður, náist ekki það sog sem eigi að halda gómnum föstum. Gómurinn sé því laus og ónothæfur. Það hindri mál, valdi þvoglumælgi auk alls kyns óþæginda og sársauka. Vegna þess að hefðbundnar gervitennur leysi ekki vandann sé eina færa úrræðið tannplantaaðgerð og í framhaldi af því smíði gervitanna, sbr. umsókn kæranda frá 31. janúar 2018.

Í 20. gr. laga nr. 112/2008 segi að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga, sem samið hafi verið um samkvæmt IV. kafla vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Eins og lýst hafi verið hér að framan sé um nauðsynlegar tannlækningar að ræða. Engin önnur úrræði séu fær. Auk þess séu þessar tannlækningar bein afleiðing fæðingargallans, þ.e. séu nauðsynlegar „vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla.“ Orsaksambandið sjáist best með því að ef fæðingargallinn væri fjarlægður væri ekki þörf á tannplantaaðgerð. Með öðrum orðum, ef kærandi hefði ekki fæðst með fæðingargallann væri ekki nauðsynlegt að grípa til umræddrar aðgerðar, því þá hefði sá gómur sem hún hafi fengið fyrir X síðan setið fastur og dugað vel. Því séu uppfyllt skilyrði framangreindrar lagagreinar, sbr. 2. tölul. 1. gr. reglugerðar nr. 451/2013 um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tannlækningar.

Í athugasemdum kæranda frá 12. apríl 2018 er rakið að í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands komi fram að stofnunin telji að tannleysi kæranda hafi leitt til þess að hún þyrfti að fara í tannplantaaðgerðina. Það sé ekki rétt. Stofnunin segi svo að tannleysi kæranda sé ekki afleiðing þess að hún sé með klofinn góm.

Það sé rétt hjá Sjúkratryggingum Íslands að tannleysið sé ekki af völdum fæðingargallans. Tannleysið hafi aftur á móti ekki leitt til aðgerðarinnar heldur til þess að kærandi hafi fyrir X síðan látið smíða góm með gervitönnum. Þessi lausn, sem nýtist öðrum vel, gagnist kæranda ekki vegna fæðingargallans. Fæðingargallinn hafi því leitt til þess að kærandi get ekki notað góminn og að ráðleggingum sérfræðinga hafi hún farið í kostnaðarsama tannplantaaðgerð. Fæðingargallinn hafi því leitt til aðgerðarinnar.

Í athugasemdum kæranda frá 16. maí 2018 segir að ný ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sýni að stofnunin telji ekki skipta máli af hvaða ástæðum tannmissirinn sé. Sérstökum kostnaði við að laga tannmissinn, sem leiði af fæðingargalla, beri Sjúkratryggingum Íslands að bæta úr. Nauðsynleg aðgerð vegna fæðingargallans til að laga tannmissinn séu tannplantar. Brú og gervigómur dugi ekki eins og lýst hafi verið. Annað gagnist kæranda ekki vegna fæðingargalla hennar. Því beri stofnuninni að gæta samræmis og bæta tannplantann, rétt eins og stofnunin hyggist taka þátt í kostnaði vegna brúar.

Málið virðist hugsanlega snúast um túlkun á 20. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, en ákvæðið hljóði meðal annars svo: „Þá taka sjúkratryggingar til nauðsynlegra tannlækninga og tannréttinga sem samið hefur verið um skv. IV. kafla vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma:“ Kærandi telji að orð greinarinnar þýði að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegra tannlækninga vegna alvarlegra meðfæddra galla. Það sé ekki eingöngu verið að tala um að ástandið sem þurfi að laga hafi skapast vegna fæðingargalla, þ.e. verið sé að tala um að laga fæðingargalla. Sjúkratryggingar Íslands virðist bæði vera sammála og ósammála þessu. Stofnunin sé sammála þar sem hún hafi ákveðið að greiða fyrir úrræði vegna tanntaps, þ.e. brú, en ósammála vegna þess að stofnunin vilji ekki „bæta fyrir tanntap sem […] sé ekki afleiðing fæðingargalla kæranda.“ Samkvæmt þessu virðist stofnunin telja það skipta máli hvers vegna tanntapið varð og úr því að fæðingargallinn sé ekki ástæða þess þá hafni stofnunin kostnaðarþátttöku.

Kærandi bendi á að brú dugi ekki til laga tannvanda hennar. Vegna fæðingargalla kæranda verði að nota tannplanta svo að hún geti notið lífsgæða á við aðra, til dæmis talað, tuggið og svo framvegis. Það hljóti að gilda það sama um brú og tannplanta. Samkvæmt Sjúkratryggingum Íslands sé brú nauðsynleg vegna fæðingargallans og engu máli skipti hvers vegna tannmissir varð. Tannplantar séu nauðsynlegir vegna fæðingargalla og því ættu Sjúkratryggingar Íslands með sömu rökum að taka þátt í kostnaðinum í sömu hlutföllum. Nú beri svo við að stofnunin hafni kostnaðarþátttöku því nú skipti það máli að tannmissir hafi ekki orðið vegna fæðingargallans. Mótsögn sé í þessari afgreiðslu stofnunarinnar.

Orsakasambandið sjáist vel með því að taka fæðingargallann út. Þá hefðu gómar og brú dugað vel, eins og það geri hjá svo mörgum sem hafi ekki þann fæðingargalla sem kærandi hafi glímt við frá fæðingu.

Sjúkratryggingar Íslands hafi aldrei neitað því að vegna fæðingargalla kæranda séu tannplantar nauðsynlegir til að laga tanntapið. Því verði að leggja það til grundvallar í málinu. Stofnunin hafi bara neitað á þeim forsendum að tanntapið hafi ekki orðið vegna fæðingargallans. Það sé ekki gild ástæða til að neita um kostnaðarþátttöku sjúkratrygginga.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands kemur fram að í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 séu heimildir til kostnaðarþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna tannlækninga. Í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laganna sé heimild til greiðsluþátttöku vegna barna og unglinga svo og elli- og örorkulífeyrisþega. Í 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. komi fram að sjúkratryggingar taki einnig til nauðsynlegra tannlækninga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. 

Jafnframt sé fjallað um endurgreiðslu vegna tannlækninga í reglugerð nr. 451/2013. Í IV. kafla, sbr. 15. gr., séu ákvæði um að Sjúkratryggingar Íslands greiði 95% af kostnaði samkvæmt frjálsri verðlagningu tannlæknis við tannlækningar og tannréttingar vegna mjög alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla og sjúkdóma, svo sem klofins góms, meðfæddrar vöntunar fjögurra eða fleiri fullorðinstanna og annarra, sambærilega alvarlegra tilvika, svo sem alvarlegs misræmis í vexti beina í höfuðkúpu og kjálka eða misræmis sem ekki verði leyst án tilfærslu á beinum annars eða beggja kjálka þar sem bein séu bæði tekin í sundur og fest á nýjum stað í sömu skurðaðgerð. Í III. kafla sé heimild til Sjúkratrygginga Íslands til þess að greiða 80% samkvæmt gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands af kostnaði við nauðsynlega meðferð hjá tannlækni vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma.

Samkvæmt gögnum málsins, meðal annars umsókn frá C réttingatannlækni, dags. x, sé umsækjandi fæddur með klofinn góm vinstra megin. Samkvæmt umsókn D tannlæknis, dags. x, hafi verið gerð brú frá vinstri miðframtönn efri góms yfir á vinstri augntönn vegna vöntunar á hliðarframtönn. Gómskarðið hafi engin bein áhrif á aðrar tennur.

Í umsókn, dags. 31. janúar 2018, segi:

Ofangreindum sjúklingi er vísað frá E tannlækni.

Vísa í eldri gögn. Sjúklingur er með skarð í vör og notast nú við heilgóm í efri með afar slökum árangri. Áætlað er að græða 6 tannplanta í efri góm og gera beinaukandi aðgerð samfara ísetningunum. Að græðslutíma loknum mun E síðan smíða á plantana.

Sótt er um skv. IV. Kafla. Hjálögð er OPG.“

Á yfirlitsröntgenmynd, svokölluðu OPG, sem hafi fylgt með umsókn, sjáist að kærandi hafi tapað öllum tönnum efri góms og öllum sex jöxlum neðri góms að auki.

Kærandi sé tannlaus í efri gómi eins og röntgenmynd sýni. Til standi að bæta tannleysið með því að græða sex tannplanta í góminn og smíða á þá tanngervi. Tannleysi kæranda sé ekki afleiðing þess að hún sé með klofinn góm. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að tannvandi kæranda sé afleiðing annars fæðingargalla, sjúkdóms eða slyss. Kærandi eigi því ekki rétt á greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við meðferð hjá tannlækni, hvorki samkvæmt ákvæðum IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 né III. kafla hennar. Aðrar heimildir séu ekki fyrir hendi og hafi umsókn því verið synjað.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 3. maí 2018, segir að í athugasemdum kæranda sé tekið undir það álit stofnunarinnar að tannleysi kæranda sé ekki afleiðing fæðingargalla hennar. Það hafi hins vegar leitt til þess að þurft hafi að smíða heilgóm sem kæranda gangi illa að nota vegna fæðingargallans. Kærandi telji því að Sjúkratryggingum Íslands beri að taka þátt í þeim kostnaði sem kærandi hafi af því að bæta fyrir tanntap þó viðurkennt sé að það sé ekki afleiðing fæðingargalla hennar.  

Þessu séu Sjúkratryggingar Íslands ósammála. Kærandi hafi átt fullan rétt á þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við að brúa skarð sem fæðingargalli hennar hafi valdið í efri gómi, sem og eðlilega endurnýjun brúarinnar. Aðrar tennur séu hins vegar á ábyrgð kæranda sem ekki hefði þurft tannplantastudda heilbrú í efri gómi ef þær hefðu ekki tapast. Kostnaði við þá meðferð verði ekki velt yfir á Sjúkratryggingar Íslands samkvæmt túlkun stofnunarinnar á IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013.  

Hins vegar þyki, að betur athuguðu máli, rétt að kærandi fái þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við meðferð sem teljist ígildi endurnýjunar á brú yfir skarðið sem fæðingargallinn hafi valdið. Fyrri afgreiðsla á umsókn kæranda hafi því verið endurskoðuð sbr. bréf til kæranda, dags. 3. maí 2018.

Í viðbótargreinargerð Sjúkratrygginga Íslands, dags. 31. maí 2018, segir að eins og fram hafi komið sé kærandi tannlaus í efri gómi og hafi sótt um þátttöku stofnunarinnar í kostnaði við ísetningu sex tannplanta í efri góm. Plantarnir eiga að vera undirstaða undir fasta tólf tanna brú sem gerð verði síðar.

Kærandi sé með klofinn góm vinstra megin og vanti vinstri hliðarframtönn vegna skarðsins. Til þess að bæta þann vanda sem kærandi hafði af fæðingargalla sínum hafi verið gerð þriggja liða brú yfir skarðið árið X. Þar með hafi tannvandi kæranda vegna fæðingargallans verið leystur á meðan brúin entist. Það að kærandi hafi síðar tapað öðrum tönnum í efri gómi sé fæðingargalla hennar óviðkomandi.

Þegar umsókn kæranda hafi fyrst verið afgreidd hafi henni verið synjað að fullu. Við nánari skoðun síðar hafi þótt rétt að bæta kæranda þann hluta núverandi tannvanda hennar með því að samþykkja þátttöku í kostnaði við tvo tannplanta við skarðið og hafi afgreiðslu málsins verið breytt á þann veg, sbr. bréf Sjúkratrygginga Íslands, dags. 3. maí 2018. Síðar verði samþykkt að taka þátt í kostnaði við smíði þriggja liða brúar á þessa tvo tannplanta verði eftir því leitað. Hefði kærandi haldið öðrum tönnum efri góms hefði slík brú leyst þann vanda kæranda sem stafi af gómskarði hennar.

Ekki hafi verið færð nein rök fyrir því að tap annarra tanna í efri gómi kæranda sé afleiðing fæðingargalla, sjúkdóms eða slyss. Samkvæmt 20. gr. laga nr. 112/2008 og II-IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013, hafi Sjúkratryggingar Íslands því enga heimild til þess að taka þátt í kostnaði við meðferð sem nauðsynleg sé til þess að bæta tap þeirra.

IV.  Niðurstaða

Með bréfi, dags. 7. febrúar 2018, synjuðu Sjúkratryggingar Íslands umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannlækninga. Undir rekstri máls þessa tóku Sjúkratryggingar nýja ákvörðun og samþykktu greiðsluþátttöku í tannlækningum kæranda að hluta, sbr. ákvörðun dags. 3. maí 2018. Ágreiningur máls þessa lýtur því að síðarnefndu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar taka sjúkratryggingar til nauðsynlegra tannlækninga aldraðra, öryrkja og barna yngri en 18 ára, annarra en tannréttinga, sem samið hefur verið um samkvæmt IV. kafla laganna. Þá taka sjúkratryggingar samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. nefndrar 20. gr. til tannlækninga vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa og sjúkdóma. Samkvæmt 2. mgr. nefndrar 20. gr. setur ráðherra reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Núgildandi reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar er nr. 451/2013, með síðari breytingum.

Samkvæmt gögnum málsins tilheyrir kærandi ekki þeim hópum sem tilgreindir eru í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga um sjúkratryggingar og kemur því til álita hvort hún kunni að eiga rétt á greiðsluþátttöku samkvæmt 2. málsl. sömu málsgreinar.

Í III. kafla reglugerðar nr. 451/2013 er fjallað nánar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar, aðrar en tannréttingar, vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma. Þá er í IV. kafla reglugerðarinnar fjallað um aukna þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tannlækningar og tannréttingar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, slysa eða sjúkdóma. Greiðsluþátttaka á grundvelli IV. kafla nemur 95% kostnaðar samkvæmt gjaldskrá tannlæknis, sbr. 17. gr. reglugerðarinnar. Samkvæmt 15. gr. reglugerðarinnar kemur slík endurgreiðsla til greina í eftirtöldum tilvikum þegar um er að ræða alvarlegar afleiðingar meðfæddra galla og sjúkdóma:

„1. Skarðs í efri tannboga eða harða gómi sem valdið getur alvarlegri tannskekkju eða öðrum sambærilegum alvarlegum heilkennum (Craniofacial Syndromes/Deformities).

2. Meðfæddrar vöntunar fjögurra eða fleiri fullorðinstanna sem styttir fyrirsjáanlega samfellda tannröð í færri en sex fullorðinstennur í hverjum fjórðungi.

3. Annarra sambærilegra alvarlegra tilvika, svo sem mjög alvarlegs misræmis í vexti beina í höfuðkúpu og kjálka eða misræmis sem ekki verður leyst án tilfærslu á beinum annars eða beggja kjálka þar sem bein eru bæði tekin í sundur og fest á nýjum stað í sömu skurðaðgerð.“

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi fædd með klofinn góm vinstra megin. Af umsókn D tannlæknis, dags. X, verður ráðið að gerð var brú frá vinstri miðframtönn efri góms yfir á vinstri augntönn vegna vöntunar á hliðarframtönn kæranda. Í kæru kemur fram að á árinu X hafi þurft að draga allar tennur úr efri gómi kæranda og smíða góm með gervitönnum. Þá segir í athugasemdum kæranda frá 12. apríl 2017 að hún hafi greitt fyrir þá lausn og að tannleysi hennar sé ekki af völdum fæðingargalla. Í umsókn kæranda, dags. 31. janúar 2018, er greiningu, sjúkrasögu og meðferð lýst með eftirfarandi hætti:

„Sjúklingur er með skarð í vör. Notast nú við heilgóm í efri með afar slökum árangri. Áætlað er að græða 6 tannplanta í efri góm og gera beinaukandi aðgerð samfara ísetningunum. Að græðslutíma loknum mun E síðan smíða á plantana.“

Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 3. maí 2018, var samþykkt greiðsluþátttaka í kostnaði við tannplanta í stað tanna 22 og 24 ásamt beinaukandi aðgerð samkvæmt IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013. Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar kemur fram að sú meðferð teljist ígildi endurnýjunar á brú yfir skarðið sem fæðingargallinn hafi valdið.

Kærandi gerir athugasemdir við að ekki hafi verið samþykkt greiðsluþátttaka vegna allrar meðferðarinnar. Kærandi byggir á því að vegna fæðingargalla hennar, þ.e. klofins góms, geti hún ekki notast við heilgóm en sú lausn nýtist öðrum vel. Sjúkratryggingar Íslands telja að kærandi hafi átt rétt á þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði við að brúa skarð sem fæðingargalli hennar hafi valdið í efri gómi sem og eðlilega endurnýjun brúarinnar. Aðrar tennur séu hins vegar á ábyrgð kæranda og ekki hefði þurft tannplantastudda heilbrú í efri gómi ef þær hefðu ekki tapast.

Ekki verður ráðið af gögnum málsins hver sé orsök þess að tennur kæranda í efri gómi töpuðust. Kærandi byggir ekki á því að tanntapið sé afleiðing sjúkdóms eða meðfædds galla. Í málatilbúnaði kæranda kemur í raun skýrt fram að ágreiningslaust sé að tannleysi hennar sé ekki af völdum fæðingargalla. Því telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að rannsaka nánar orsök tanntaps kæranda.

Þegar úrskurðarnefndin metur hvort skilyrði greiðsluþátttöku samkvæmt III. eða IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013 eru fyrir hendi lítur úrskurðarnefndin til þess hvort umsækjandi glími við vanda sem tilgreindur er annars vegar í 1. til 7. tölul. 11. gr. og hins vegar í 1. eða 2. tölul. 15. gr. eða eftir atvikum sambærilega alvarlegan vanda, sbr. 8. tölul. 11. gr. eða 3. tölul. 15. gr. reglugerðarinnar. Vandinn verður að vera afleiðing meðfædds galla eða sjúkdóms til þess að greiðsluþátttaka sé fyrir hendi og þá verða tannlækningarnar/tannréttingarnar að vera nauðsynlegar. Meðferðarúrræði geta verið misjöfn eftir tannvanda viðkomandi, stundum koma fleiri en eitt úrræði til greina.

Af gögnum málsins má ráða að vegna fæðingargalla kæranda þ.e. klofins góms, eru þau úrræði sem bjóðast henni vegna tannleysis takmarkaðri heldur en alla jafna. Aftur á móti er óumdeilt að tannleysi kæranda er meginorsök þess að hún hefur þörf fyrir þær tannlækningar sem nú um ræðir. Sjúkratryggingar Íslands hafa nú þegar samþykkt greiðsluþátttöku við meðferð sem hefði leyst þann hluta vanda kæranda sem stafar af gómskarði hennar ef hún hefði haldið öðrum tönnum. Þar sem tannleysi kæranda er ekki nema að litlu leyti afleiðing meðfædds galla eða sjúkdóms er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu uppfyllt skilyrði fyrir frekari greiðsluþátttöku í kostnaði við tannlækningar kæranda, sbr. III. og IV. kafla reglugerðar nr. 451/2013.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands frá 3. maí 2018, á umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði við tannlækningar staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Sjúkratrygginga Íslands frá 3. maí 2018 á umsókn A, um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna tannlækninga, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta