Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 373/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 373/2015

Miðvikudaginn 5. október 2016

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 21. desember 2015, kærði B hrl., f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. september 2015, um að krefja kæranda um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2013.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

A fékk greiddar tekjutengdar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2013. A lést þann X og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hans. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. september 2015, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur á tekjutengdum bótagreiðslum til A á árinu 2013 hefði leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 917.129 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfinu var kærandi krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar. Með tölvupósti þann 7. október 2015 var niðurstöðunni andmælt og óskað rökstuðnings frá stofnuninni. Umbeðinn rökstuðningur var veittur með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. október 2015.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 23. desember 2015. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd almannatrygginga eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 8. janúar 2016, þar sem óskað var frávísunar málsins á þeirri forsendu að beiðni kæranda um breytingu á skattframtali hans væri til úrlausnar hjá skattyfirvöldum. Þar af leiðandi væri kæra til úrskurðarnefndar ótímabær að mati stofnunarinnar. Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 11. janúar 2016. Þá óskaði úrskurðarnefnd efnislegrar greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 25. apríl 2016. Með bréfi, dags. 23. maí 2016, barst umbeðin greinargerð og var hún kynnt kæranda með bréfi, dags. 24. maí 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.  

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að endurkrafa Tryggingastofnunar ríkisins um ofgreiddar bætur vegna ársins 2013 að fjárhæð 917.129 kr. verði endurskoðuð.

Í kæru segir að A hafi látist X. Skattframtal dánarbúsins vegna ársins 2014 hafi verið móttekið 10. apríl 2015. Heildargreiðslur til A heitins á árinu 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins hafi numið 1.365.528 kr. og hafi þær verið tilgreindar á skattframtali dánarbúsins 2014. Sú tilgreining hafi verið byggð á upplýsingum frá stofnuninni sjálfri.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi Tryggingastofnun ríkisins tilgreint að tekjuskattstofn væri 3.533.512 kr., þar á meðal tekjur að fjárhæð 1.892.224 kr., og hafi kærandi verið krafinn um greiðslu að fjárhæð 917.129 kr.

Samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra séu þessar tekjur skráðar sem eftirlaun frá C. Þegar skattframtali hafi verið skilað hafi ekki verið til staðar upplýsingar um greiðslu eftirlauna frá C og til dæmis komi engar slíkar greiðslur fram á skattframtali hins látna 2013. Frekari upplýsinga hafi verið óskað um þessar meintu greiðslur og sé beðið eftir gögnum þar að lútandi. Muni það hugsanlega leiða til breytinga á tekjuskattstofni dánarbúsins og síðan eftirfarandi leiðréttingar á uppgjöri Tryggingastofnunar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga nr. 90/2003 um tekjuskatt í tengslum við hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og ber að breyta áætluninni geri hún það ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.

Komi í ljós við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Kærandi hafi fengið greiddan ellilífeyri og tengdar greiðslur frá 1. janúar 2013 til X. Uppgjör tekjutengdra bóta ársins 2013 hafi leitt til ofgreiddra bóta að fjárhæð 917.129 kr. að teknu tilliti til greiddrar staðgreiðslu. Andmæli hafi borist með tölvupósti við uppgjör kæranda þann 7. október 2015 og hafi þeim verið svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 12. október 2015.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2014 vegna tekjuársins 2013 hafði farið fram, hafi komið í ljós að tekjur kæranda reyndust hærri en tekjuáætlun hafði gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Kæranda hafi verið send tekjuáætlun vegna ársins 2013 með bréfi, dags. 11. janúar 2013, þar sem gert hafi verið ráð fyrir að kærandi hefði 367.885 kr. í lífeyristekjur og 48.924 kr. í fjármagnstekjur á árinu. Fyrir tímabilið 1. janúar 2013 til 30. september 2013 hafi það jafngilt 275.914 kr. og 36.693 kr. í fjármagnstekjur. Kærandi hafi ekki gert athugasemdir við þá tillögu. Við bótauppgjör ársins 2013 hafi komið í ljós að tekjuáætlun hafi verið röng. Kærandi hafi haft 275.759 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 53.445 kr. í fjármagnstekjur og 1.892.224 kr. í aðrar tekjur.

Tryggingastofnun sé skylt lögum samkvæmt að framkvæma endurreikning ár hvert þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Tryggingastofnun sé ekki heimilt að horfa fram hjá tekjum sem komi fram á framtali bótaþega eins og ítrekað hafi verið staðfest af úrskurðarnefnd og einnig dómstólum.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2013 hafi verið sú að kærandi hefði fengið greitt á árinu 1.365.544 kr. en hefði átt að fá 375.135 kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð 917.129 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Með vísan til þess, sem að framan greini, telji stofnunin ekki forsendur til að breyta hinni kærðu ákvörðun.

Að lokum segir að Tryggingastofnun hafi ekki frekari upplýsingar um erlendar tekjur A en þær sem fengnar hafi verið frá skattyfirvöldum. Telji kærandi að skattframtal sé ekki rétt verði hann að óska eftir leiðréttingu hjá skattyfirvöldum. Í kjölfar skattbreytinga sé unnt að óska eftir endurreikningi á uppgjöri.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiddra bóta á árinu 2013.

Tilvist hinnar umdeildu kröfu er að rekja til þess að erlendar tekjur voru taldar fram á leiðréttu skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2013. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun komu þær tekjur til skerðingar á tekjutengdum bótagreiðslum sem A fékk greiddar frá Tryggingastofnun á árinu 2013.

Samkvæmt 5. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluárs til grundvallar við bótaútreikning hvers mánaðar. Í 7. mgr. sömu greinar segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tekjuáætlun A fyrir árið 2013 ráð fyrir 275.914 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 36.693 kr. í fjármagnstekjur. Samkvæmt upplýsingum úr leiðréttu skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2013 reyndust fjármagnstekjur hins vegar hærri eða 53.445 kr. og að auki voru skráðar aðrar tekjur að fjárhæð 1.892.224 kr. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2013 leiddi því í ljós að bótastofnarnir ellilífeyrir, tekjutrygging, orlofs- og desemberuppbót, auk sérstakrar uppbótar til framfærslu hefðu verið ofgreiddir um samtals 917.129 kr. að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar teljast til tekna samkvæmt III. kafla laganna tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með undantekningum. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags skulu tekjur, sem aflað er erlendis og ekki eru taldar fram hér á landi, sæta sömu meðferð gagnvart bótaútreikningi og væri þeirra aflað hér á landi.

Í þágildandi 2. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar kom fram að ellilífeyri skuli skerða ef tekjur skv. 2. mgr. og 3. mgr. 16. gr. séu yfir 2.575.220 kr. á ári. Séu tekjur yfir umræddum mörkum skuli skerða ellilífeyri um 25% þeirra tekna sem umfram séu uns hann falli niður.

Í 22. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutryggingu og segir þar í 4. málsl. 1. mgr. að um útreikning á tekjutryggingu gildi 16. gr., 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. Í 2. málsl. 2. mgr. nefndrar 22. gr. segir að hafi lífeyrisþegi tekjur skv. 2.  og 4. mgr. 16. gr. skuli skerða tekjutrygginguna um 38,35% þeirra tekna uns hún fellur niður.

Í 3. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar er að finna undantekningu frá tekjuskerðingu ellilífeyris þar sem segir að ekki teljist til tekna þrátt fyrir 2. mgr. tekjur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð, fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, greiðslur úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum, séreignarlífeyrissparnaði og viðbótartryggingarvernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Einnig segir að sama eigi við um sambærilegar bætur frá ríkjum sem Ísland hefur gert samninga við. Samhljóða undantekningarákvæði er að finna í 4. mgr. 16. gr. laganna að því er varðar tekjutryggingu að undanskildum greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum. Þess ber að geta að ákvæðum 3. og 4. mgr. 16. gr. laganna var breytt með lögum nr. 86/2013, sem tóku gildi 15. júlí 2013 en komu til framkvæmda frá 1. júlí 2013, þar sem greiðslum úr skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum var bætt við undantekningarákvæði 3. mgr. og viðbótartryggingarvernd samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða bætt við 4. mgr. 16. gr. laganna.  

Þá er sérstök uppbót á lífeyri greidd lífeyrisþegum á grundvelli 2. mgr. 9. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt 1. málsl. ákvæðisins er heimilt að greiða lífeyrisþega sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Samkvæmt 2. málsl. ákvæðisins bar við mat á því hvort lífeyrisþegi, sem fékk greidda heimilisuppbót, gæti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar að miða við að heildartekjur væru undir 181.769 kr. á mánuði á árinu 2013. Í 3. mgr. 9. gr. segir að til tekna samkvæmt ákvæðinu teljist allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi.

Við úrlausn þessa máls horfir úrskurðarnefnd til þess að ástæða þess að Tryggingastofnun endurreiknaði bótaréttindi A vegna tekjuársins 2013 er skráning skattyfirvalda á erlendum tekjum að fjárhæð 1.892.224 kr. Það liggur fyrir að fjárhæðin var greidd erlendis frá en engar nánari upplýsingar liggja fyrir um þær að undanskildu því sem kemur fram í kæru um að þær séu eftirlaun frá C samkvæmt upplýsingum Ríkisskattstjóra. Úrskurðarnefnd óskaði nánari upplýsinga frá Tryggingastofnun ríkisins um eðli þessara tekna en þau svör fengust að stofnunin hefði ekki upplýsingar þar um og staðfest var að einungis væri þekkt að þær hefðu verið greiddar erlendis frá.

Að mati úrskurðarnefndar verður að telja það galla á hinni kærðu ákvörðun að eðli þeirra tekna, sem skerða bótaréttindi A á árinu 2013, sé óþekkt. Samkvæmt framangreindum lagaákvæðum hefur það þýðingu við útreikning bótaréttinda á grundvelli laga um almannatryggingar hvers eðlis þær eru, enda sumir tekjustofnar til að mynda undanskildir bótaskerðingu. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi borið að upplýsa hvers eðlis umræddar tekjur væru áður en tekin var ákvörðun um skerðingu bótaréttinda A á árinu 2013. Að mati úrskurðarnefndar var málið því ekki nægjanlega upplýst áður en ákvörðun var tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þeirri ástæðu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja dánarbú A um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta felld úr gildi. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar ríkisins til nýrrar meðferðar.  

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að krefja dánarbú A, um endurgreiðslu vegna ofgreiddra bóta á árinu 2013 er felld úr gildi. Málinu er vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta