Mál nr. 133/2021 - Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 133/2021
Miðvikudaginn 1. september 2021
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 8. mars 2021, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2021, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn þann 2. nóvember 2020 frá 11. október 2020. Tryggingastofnun ríkisins samþykkti umsóknina frá 1. febrúar 2021 til 30. apríl 2021.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 8. mars 2021. Með bréfi, dags. 11. mars 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 26. mars 2021, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2021. Með tölvubréfi 10. maí 2021 bárust athugasemdir kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. maí 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er þess krafist að upphafstími greiðslna endurhæfingarlífeyris verði ákvarðaður frá október 2020.
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. janúar 2021, um að samþykkja greiðslu endurhæfingarlífeyris einungis frá 1. febrúar 2021. Eins og gögn málsins beri með sér hafi kærandi verið tekjulaus með öllu frá 10. október 2020 þar til 1. febrúar 2021. Auk þess liggi fyrir að kærandi hafi gert allt sem í hans valdi hafi staðið til þess að komast í endurhæfingu strax í október 2020. Vegna Covid-19 hafi hann ekki fengið tíma hjá sjúkraþjálfara fyrr en 8. janúar 2021.
Hin kærða ákvörðun virðist byggja á því að einungis sé heimilt að veita greiðslur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að öll skilyrði séu uppfyllt til þess að öðlast rétt til umræddra greiðslna.
Eins og öll gögn málsins beri með sér hafi kærandi sótt um endurhæfingarlífeyri í október 2020 og þá hafði hann þegar aflað allra þeirra gagna sem honum hafi verið unnt vegna þeirrar umsóknar. Vegna afar sérstakra aðstæðna sem uppi séu og hafi verið síðustu mánuði, hafi honum verið algjörlega ómögulegt að fá tíma hjá sjúkraþjálfara fyrr en í janúar 2021, ástæður þess séu alkunnar og megi alfarið rekja til Covid-19, enda hafi starfsemi sjúkraþjálfara legið niðri þann tíma samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda. Þess vegna og með vísan til meðalhófs þyki rétt að kæranda verði viðurkenndur réttur til endurhæfingarlífeyris frá þeim tíma er hann hafi uppfyllt öll formskilyrði til endurhæfingar, þ.e. frá október 2020.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 15. janúar 2021, þar sem synjað hafi verið um afturvirkni endurhæfingarlífeyris. Hins vegar hafi verið veitt endurhæfingartímabil framvirkt eftir að endurhæfing kæranda hafi verið talin hafin. Í tilviki kæranda hafi beiðni hans verið synjað um afturvirkni endurhæfingarlífeyris þar sem endurhæfing hafi ekki verið hafin með fullnægjandi utanumhaldi fagaðila á því tímabili sem óskað hafi verið afturvirkni fyrir.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Lagagreinin hljóði svo:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga. Sjúkrahúsvist í endurhæfingarskyni skemur en eitt ár samfellt hefur ekki áhrif á bótagreiðslur.“
Tryggingastofnun ríkisins hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun sé fjallað um í reglugerð nr. 661/2020. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna og í 5. gr. um sjálfa endurhæfingaráætlunina. Þá sé tiltekið í 6. gr. reglugerðarinnar hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.
Í 37. gr. laga um almannatryggingar sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.
Einnig segi í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar að réttur til bóta skuli miða við daginn sem umsækjandi teljist uppfylla skilyrðin til bótanna og miðast greiðslur til greiðsluþegans við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að öll nauðsynleg gögn til mats hafi skilað sér til Tryggingastofnunar.
Við mat á umsókn um endurhæfingarlífeyri 15. janúar 2021 hafi legið fyrir umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri, dags. 2. nóvember 2020, þar sem óskað hafi verið eftir greiðslum endurhæfingarlífeyris frá 11. október 2020, læknisvottorð C vegna umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dags. 2. nóvember 2020, endurhæfingaráætlun frá C lækni, dags. 2. desember 2020, endurhæfingaráætlun frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði, dags. 5. janúar 2021, staðfesting frá stéttarfélaginu X, dags. 28. október 2020, og staðfesting frá Sjúkraþjálfuninni D móttekin 14. janúar 2021.
Í læknisvottorði C, dags. 2. nóvember 2020, komi fram að kærandi hafi ekki verið að vinna síðastliðna sjö mánuði vegna stoðkerfiseinkenna. Hann hafi verið á sterkum verkjalyfjum og bólgueyðandi lyfjum en lítið hafi gengið að lina óþægindin. Einnig komi fram að kærandi lýsi verkjum í báðum öxlum og báðum hnjám ásamt hægri olnboga og að hann hafi farið í álit til gigtarlæknis. Í vottorði komi auk þess fram þar sem getið sé um tillögu um meðferð að kærandi fari í mat hjá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði.
Í endurhæfingaráætlun frá lækni, dags. 2. desember 2020, hafi verið gert ráð fyrir eftirfarandi undir liðnum innihald endurhæfingar: Sjúkraþjálfun að minnsta kosti einu sinni í viku, verkja- og bólgueyðandi lyf. Í áætluninni komi fram að kærandi eigi tíma hjá VIRK 9. desember 2020 og að gert sé ráð fyrir áætlun samkvæmt VIRK. Óskað hafi verið eftir endurhæfingartímabili frá 11. október 2020 til 11. júlí 2021.
Í endurhæfingaráætlun frá VIRK, dags. 5. janúar 2021, hafi komið fram að stefnt væri að 50% starfi eða meira á fyrri vinnustað frá sumrinu 2021. Sjúkraþjálfun líklega 10 til 12 tímar og möguleg vinnustaðaathugun sjúkraþjálfara og eigin æfingarmeðferð í framhaldinu. Mat hjá VIRK 8. desember 2020. Upphaf áætlunar hjá VIRK hafi verið tilgreint frá 5. janúar 2021 og lok áætlunar 30. júní 2021.
Samkvæmt staðfestingu sjúkraþjálfara hjá Sjúkraþjálfun D hafi kærandi byrjað í sjúkraþjálfun 8. janúar 2021.
Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 15. janúar 2021, hafi verið samþykkt endurhæfingartímabil frá 1. febrúar 2021 og hafi verið miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að skilyrði til veitingar endurhæfingarlífeyris hafi verið talið uppfyllt.
Í 7. gr. laga um félagslega aðstoð komi fram að Tryggingastofnun eigi að hafa eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að settir séu fram endurhæfingarþættir sem geti aukið starfshæfni einstaklings.
Í 5 gr. reglugerðar nr. 661/2020 segi að endurhæfingaráætlun skuli ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða hann við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem valdi skertri starfshæfni hans. Leitast skuli við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni.
Í endurhæfingaráætlun frá VIRK og frá lækni hafi verið gert ráð fyrir að kærandi færi í sjúkraþjálfun. Enn fremur hafi verið tilgreint í áætlun læknis að gert væri ráð fyrir áætlun á vegum VIRK. Kæranda hafi verið sent bréf 11. desember 2020 þar sem óskað hafi verið eftir staðfestingu frá sjúkraþjálfara á því hvenær meðferð hæfist og hversu oft meðferð væri fyrirhuguð á tímabilinu. Í staðfestingu frá sjúkraþjálfara hjá Sjúkraþjálfun D móttekin 14. [janúar] 2021, komi fram að borist hafi beiðni um sjúkraþjálfun til D í nóvember 2020 og að kærandi hafi verið settur á biðlista og hafi byrjað í sjúkraþjálfun 8. janúar 2021.
Í endurhæfingaráætlun frá VIRK Starfsendurhæfingarsjóði sé upphaf áætlunar hjá VIRK tilgreint frá 5. janúar 2021. Í áætluninni komi jafnframt fram að kærandi hafi farið í mat hjá VIRK þann 8. desember 2020 og að hann hafi verið í ferli hjá VIRK síðan í nóvember 2020.
Vakin sé athygli á því að á meðan kærandi sé í starfsendurhæfingarmati á vegum VIRK hafi einungis gagnaöflun verið í gangi og því hafi verið litið svo á að eiginlega starfsendurhæfing undir handleiðslu fagaðila hafi ekki verið hafin á umbeðnu tímabili afturvirkni.
Tryggingastofnun líti svo á að endurhæfing sé hafin þegar viðkomandi sé kominn í úrræði undir handleiðslu fagaðila sem miði að því að taka á vanda einstaklingsins hverju sinni, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris.
Samkvæmt 1. mgr. 53 gr. laga um almannatryggingar skapist réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Almennt skapist réttur til greiðslu endurhæfingarlífeyris þegar umsækjandi hafi lokið greiðslum sjúkrasjóðs og öðrum greiðslum og þegar endurhæfing sé talin fullnægjandi þannig að virk endurhæfing sé hafin og önnur skilyrði laganna uppfyllt.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi endurhæfingarúrræði á vegum VIRK verið tilgreind með upphafstíma frá 5. janúar 2021. Einnig hafi legið fyrir staðfesting frá sjúkraþjálfara sem staðfesti að sjúkraþjálfun hafi byrjað 8. janúar 2021. Endurhæfingartímabil hafi því verið metið frá 1. febrúar 2021.
Almennt skapast réttur til greiðslu endurhæfingarlífeyris þegar endurhæfing sé talin fullnægjandi þannig að virk starfsendurhæfing sé hafin og önnur skilyrði laganna uppfyllt. Kærandi hafi verið á settur á biðlista í sjúkraþjálfun og samkvæmt upplýsingum úr skjalakerfi Sjúkratrygginga Íslands hafði umsækjandi ekki hafið sjúkraþjálfun.
Réttur til greiðslna endurhæfingarlífeyris skapast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að starfsendurhæfing telst hafin og önnur skilyrði uppfyllt, sbr. 53 gr. laga um almanntryggingar og 13. gr. laga um félagslega aðstoð.
Mat á beiðni kæranda um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni hafi farið fram 15. janúar 2021. Í matinu hafi kæranda verið metnir þrír mánuðir frá og með 1. febrúar 2021 út frá endurhæfingaráætlun VIRK. Ekki hafi þótt rök fyrir að meta afturvirkar greiðslur þar sem starfsendurhæfing hafi ekki verið talin hafin fyrr en í janúar sama ár og hafi matið því verið frá fyrsta degi næsta mánaðar, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar, eða frá 1. [febrúar 2021].
Eins og rakið hafi verið hér á undan þurfi kærandi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir hjá Tryggingastofnun taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi fagaðila þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Jafnframt skuli endurhæfingaráætlun miða að því að taka á vanda kæranda hverju sinni og innihalda endurhæfingarþætti sem séu til þess fallnir að styðja við þá nálgun. Í máli kæranda hafi endurhæfingin ekki verið talin hafin fyrr en í janúar 2021 og því hafi verið miðað við næstu mánaðamót þar á eftir, sbr. 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Á þeim forsendum hafi kæranda verið synjað um afturvirka greiðslu endurhæfingarlífeyris en hins vegar hafi verið fallist á endurhæfingarlífeyrisgreiðslur framvirkt.
Að lokum telji Tryggingastofnun ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsókn kæranda í samræmi við innsenda endurhæfingaráætlun, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála. Sjá í því samhengi úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 381/2018 þar sem atvik máls hafi verið nokkuð sambærileg, en í málinu hafi nefndin staðfest niðurstöðu Tryggingastofnunar.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.
Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð er kveðið á um skilyrði sem uppfylla þarf til að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða umsækjanda endurhæfingarlífeyri. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur Tryggingastofnun ríkisins eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Slík reglugerð var sett 18. júní 2020, nánar tiltekið reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 53. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.
Í málinu liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 2. nóvember 2020, og þar eru tilgreindar eftirtaldar sjúkdómsgreiningar:
„Arthritis rheumatoides, seropositive
Liðbólgur
Liðverkir
Sleep apnoea
Diabetes mellitus
Hypercholseterol / lipidaemia“
Um sjúkrasögu kæranda segir í vottorðinu:
„A er almennt hraustur [...]. Er í byggingariðnaðinum [...] Ekki verið að vinna sl. 7 mánuði vegna stoðkerfiseinkenna. [...]. Hann lýsir verkjum í báðum öxlum og báðum hnjám ásamt hægri olnboga og finnst hiti ekkert vera sérstaklega betri en kuldi. [...]“
Fyrir liggur endurhæfingaráætlun C læknis, dags. 2. desember 2020, þar sem fram kemur að áætlað endurhæfingartímabil sé frá 11. október 2020 til 11. júlí 2021. Í áætlun um endurhæfingu kæranda segir að markmiðið sé að draga úr bólgu og verkjum og finna vinnu sem leggi ekki mikið álag á hné, bak og öxl. Í áætluninni kemur fram að áætluð lok séu 12. júlí 2021 þegar áætlað er að kærandi fari til vinnu á almennum vinnumarkaði. Þá segir í áætluninni að endurhæfing muni felast í eftirfarandi þáttum:
„Sjúkraþjálfun amk einu sýnni í viku Verkja og bólgueyðandi lyf . Hann á tíma hjá VIRK 9 des nk. Áætlun samkvæmt VIRK“
Í endurhæfingaráætlun VIRK, dags. 5. janúar 2021, kemur fram að upphaf áætlunarinnar sé 5. janúar 2021 og áætluð lok séu 30. júní 2021. Þau úrræði sem getið er um í áætlun VIRK eru sjúkraþjálfun, vinnuprófun og námskeið.
Fyrir liggur skýrsla E sjúkraþjálfara, dags. 14. janúar 2021, þar sem segir meðal annars:
„Hér með staðfestist að A kom með beiðnina sína til okkar í D í nóvember 2020 þar sem hann var settur á biðlista. Ekki var unnt að gefa honum tíma fyrr en í janúar í ár. Hann byrjaði í sjúkraþjálfun 8.1.2021“
Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris vegna október, nóvember og desember 2020 og janúar 2021. Tryggingastofnun ríkisins telur að skilyrði endurhæfingarlífeyris hafi ekki verið uppfyllt fyrr en í febrúar 2021 þar sem ekki hafi verið um virka endurhæfingu að ræða fyrir þann tíma. Kærandi byggir á því að vegna Covid-19 hafi hann ekki komist að í sjúkraþjálfun fyrr en í janúar 2021 og að taka verði tillit til þess við ákvörðun upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris.
Við mat á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að skýrt er kveðið á um það í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyrir greiðist á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Fyrir liggur að kærandi glímir við stoðkerfisvandamál og að sjúkraþjálfun hófst ekki fyrr en í janúar 2021. Þá er upphaf endurhæfingar samkvæmt endurhæfingaráætlun VIRK 5. janúar 2021. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að virk endurhæfing hafi ekki hafist fyrr en í janúar 2021. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en 1. febrúar 2021 sem var fyrsti dagur næsta mánaðar eftir að endurhæfing hófst, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar.
Farið er fram á það í kæru að við ákvörðun málsins verði tekið tillit til afleiðinga Covid-19 á möguleika kæranda til að hefja sjúkraþjálfun fyrr og að gæta verði meðalhófs við ákvörðunartökuna. Í lögum um félagslega aðstoð er ekki kveðið á um undantekningu frá því skilyrði að umsækjandi um endurhæfingarlífeyri taki þátt endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Tímabundna undantekningu vegna Covid-19 var að finna í 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð þar sem fram kom að heimilt hafi verið að greiða áframhaldandi endurhæfingarlífeyri til einstaklinga sem hafi verið að ljúka endurhæfingu á tímabilinu 1. júní til 30. september 2020. Engar frekari undantekningar frá ástundum endurhæfingar er að finna í framangreindri reglugerð eða í lögum um félagslega aðstoð. Úrskurðarnefndin telur því ekki heimilt að víkja frá því grundvallarskilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris um þátttöku í endurhæfingu í tilviki kæranda.
Með hliðsjón af því, sem rakið hefur verið, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir