Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 20/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 20/2021

Miðvikudaginn 26. maí 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 18. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri með umsókn 27. október 2020. Með örorkumati, dags. 14. desember 2020, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustykur vegna tímabilsins 1. október 2020 til 30. september 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. janúar 2021. Með bréfi, dags. 22. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 2021. Athugasemdir bárust frá kæranda 17. mars 2021 og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi, dags. 23. mars 2021. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að þegar kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri hafi Tryggingastofnun ríkisins talið að endurhæfing væri ekki fullreynd. VIRK hafi synjað kæranda um þjónustu þar sem VIRK hafi talið að endurhæfing væri fullreynd og að starfsgeta hennar væri undir 50%. Kærandi hafi þá sótt um endurmat á örokulífeyri.

Samkvæmt ákvörðun Tryggingastofnunar 14. desember 2020 hafi skilyrði staðals um örorkulífeyri ekki verið talin uppfyllt en færni kæranda til almennra starfa verið talin skert að hluta. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi verið talin uppfyllt og örorka metin 50%.

Kærandi hafi flutt aftur til Íslands x 2019 eftir að hafa verið búsett í B frá X. Hún hafi orðið veik X og verið greind með vefjagigt í lok árs 2013. Kærandi hafi verið sett í alls konar endurhæfingu og síðan farið á „C“. Hún hafi fengið „X“ árið 2015 þar sem hún hafi unnið tíu tíma á viku. Kæranda finnist sjálfri eins og henni sé að versna. Hún sé farin að fá mikla verki og bólgu í bæði hné.

Eftir að hafa gengið í gegnum alla þessa endurhæfingu viti kærandi hvað hún geti og hvað ekki. Hún viti að hún geti alls ekki unnið 50% vinnu. Kærandi myndi þurfa þess til þess að geta lifað af í samfélaginu því að hún hafi fengið upplýsingar um að örorkustyrkur væri 36.000 kr. á mánuði.

Réttur kæranda til sjúkradagpeninga sé fullnýttur og hún sé enn óvinnufær. Kærandi hafi því þurft að sækja um fjárhagsaðstoð og finni fyrir mikilli skömm. Líkamleg vandamál hafi einungis verið að hrjá kæranda en hún finni depurðina nálgast þar sem hún hafi ekki hugmynd um hvað hún eigi að gera til þess að geta lifað í þessu samfélagi.

Í athugasemdum kæranda segir að hún hafi mætt til skoðunarlæknis 14. desember 2020. Hún hafi beðið lengur í biðherberginu en hún hafi verið inni hjá honum. Það hafi tekið skoðunarlækni alls 10 mínútur að skoða kæranda og það hafi mest verið talað um þyngdartap hennar sem hún sjái ekki að komi málinu við.

Kærandi hafi tvisvar sinnum svarað spurningalistanum hjá Tryggingastofnun þar sem hún hafi skrifað að hún væri með verki í hnjám, höndum og öxlum, orkuleysi, þreytu og fleira. Samkvæmt athugasemdum skoðunarlæknis eigi kærandi ekki í vandamálum með það þó svo að hún, VIRK og heimilislæknir hennar segi annað.

Kærandi efist stórlega um að skoðunarlæknir hafi lesið gögnin hennar þar sem hann nefni einungis eitt lyf sem hún noti. Kærandi sé á alls fimm lyfjum, verkjalyfjum, bólgueyðandi lyfjum og lyfjum fyrir svefn. Skoðunarlæknir segi til dæmis að sjón sé í lagi þó svo að kærandi hafi svarað í spurningalista Tryggingastofnunar að hún sé næstum blind á hægra auga og nærsýn á því vinstra. Kærandi hafi verið kvartandi yfir vekjum allan þann tíma sem hún hafi verið inni hjá honum. Kærandi sé algjörlega ósammála skoðunarlækni og telji þessa skoðun vera út í hött. Kærandi spyr hvað skoðunarlæknir geti sagt um hana þegar hann hafi greinilega ekki lesið gögnin og hún einungis verið 10 mínútur inni hjá honum.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. desember 2020, um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skortir að minnsta kosti helming starfsorku sinnar.

Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð um örorkumat nr. 379/1999.

Kærandi hafi ekki áður verið á greiðslum hjá Tryggingastofnun en hafi nýtt endurhæfingarúrræði í B

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri með umsókn 27. október 2020. Niðurstaða örorkumats hafi verið sú að kæranda hafi verið synjað um örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar. Kærandi hafi hins vegar verið talin uppfylla örorkustyrks samkvæmt 19. gr. laganna. Kæranda hafi verið tilkynnt um matið með bréfi, dags. 14. desember 2020.

Við mat á örorku styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumatið þann 14. desember 2020 hafi legið fyrir meðal annars læknisvottorð, dags. 28. október 2020, umsókn kæranda, dags. 27. október 2020, svör kæranda við spurningalista, dags. 27. október 2020, skýrsla VIRK, dags. 24. september 2020, og skoðunarskýrsla, dags. 14. desember 2020. Einnig hafi legið fyrir gögn sem hafi borist vegna fyrri umsóknar kæranda um örorkulífeyri.

Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar en honum sé skipt í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá 15 stig í líkamlega hlutanum eða 10 stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig.

Kærandi hafi glímt við langvinna verki frá 2011 sem árið 2013 hafi verið greindir sem vefjagigt. Vísað sé í meðfylgjandi gögn varðandi frekari lýsingu á heilsu kæranda.

Við skoðun með tilliti til staðals hafi komið fram að kærandi gæti ekki staðið í 30 mínútur án þess að setjast. Önnur líkamleg vandamál hafi ekki verið nægileg til þess að hafa áhrif á mat skoðunarlæknis.

Þegar andlegi hlutinn hafi verið skoðaður komi fram að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að kærandi hafi lagt niður starf og að hún kvíði því að sjúkleiki hennar versni, fari hún aftur að vinna. Einnig komi fram að kærandi eigi í erfiðleikum með að lesa tímaritsgrein eða hlusta á útvarpsþátt. 

Í örorkumati Tryggingastofnunar hafi kærandi hlotið sjö stig í líkamlega hlutanum og fjögur stig í þeim andlega. Skilyrði staðals um hæsta örorkustig hafi ekki verið uppfyllt og kæranda verið synjað um örorkulífeyri en hún hafi hins vegar verið talin uppfylla skilyrði örorkustyrks.

Við vinnslu kærunnar hafi verið farið ítarlega yfir öll gögn málsins. Tryggingastofnun hafi eftir þá yfirferð ekki talið ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun. Tryggingastofnun leggi skoðunarskýrslu, dags. 14. desember 2020, til grundvallar í málinu. Ekki sé annað að sjá en að skýrsla skoðunarlæknis sé í samræmi við þau gögn sem liggi fyrir í málinu. Ef skoðunarskýrslan sé borin saman við læknisvottorð sem liggi fyrir í málinu, sé ekki hægt að sjá að ósamræmi sé á milli þeirra og niðurstöðu skoðunarlæknis. Hið sama gildi um starfsgetumat VIRK.

Tryggingastofnun hefur sérstaklega farið yfir svör kæranda við spurningalista og athugasemdir hennar í kæru. Í svörum við nokkrum liðum í líkamlega hlutanum komi fram að kærandi telji sig eiga erfitt með þá en fái þó ekki stig fyrir þá. Þó að fram komi í svörum kæranda að hún eigi í einhverjum erfiðleikum með þessa hluti, séu lýsingar hennar á þeim þess eðlis að kærandi eigi ekki rétt því að fá stig fyrir þá og stigagjöf skoðunarlæknis sé vel rökstudd. Stigagjöf skoðunarlæknis í andlega hlutanum sé einnig mjög vel rökstudd og í samræmi við fyrirliggjandi gögn.

Það sé því niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda að synja henni um örorkulífeyri en veita henni örorkustyrk hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu. Ákvörðun sú sem kærð sé byggðist á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 14. desember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri en henni metinn örorkustykur vegna tímabilsins 1. október 2020 til 30. september 2023. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki, nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð Brynju Steinarsdóttur, dags. 20. október 2020. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„[Vöðvaverkir

Lasleiki og þreyta

Vefjagigt]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir meðal annars í vottorðinu:

„stigvaxandi dreifðir verkir 2011 mest í höndum og ökklum, morgunstiðrleiki á þeim tíma og verkir, var svo orðin óvinnufær 2012. Leitaði til læknis að hausti 2012 þá upphóst mikil uppvinsla, var send til gigtarlækna á verkjamiðstöð í B og þessi uppvinnnsla varði í uþb ár. Er með afrit af skýrslu sinni þess efnis á [...]. Niðurstaða þessarar uppvinnslu var svo að lokum að um vefjagigt væri að ræða og hún metin með skerta starfsgetu að lokinni endurhæfingu í B. Hún gat unnið í svokölluðu x að hluta mest þó 4 klst daglega þegar hún var með skárra móti og aðra daga var hún algerlega óvinnufær og fékk örokugreiðslur á móti. Reynd var verkjastilling í formi Noritren, saroten, Madopar Sirdalud

Eftir heimkomu til Íslands i byrjun x 2020 hóf hún atvinnuleit, fékk vinnu í blómabúð D, VAnn þar í fyrstu fulla vinnu en varð fljótt verri af einkennum og reyndi þá að minnka við sig niðurí 50% sem gekk ekki lengi heldur og verið óvinnufær frá júlí .Einkenni eru að mestu í formi verkja og orkuleysi. Sérlega miklir verkir er hún vaknar á morgnana og stirðleiki. Er alltaf þreytt fer að sofa kl 19.30 að jafnaði. Verið í veikidnarleyfi undafnarið er nú að reyna að vinna 50% en gengur erfiðlega og verið algerlega óvinnufær frá júlí. Fer nú í göngut

Reynir að halda rútínu og fer í styttri gömgutúra x2/dag en þarf iðulega að leggja sig eftir þá vegna mikillar þreytu og orkuleysis. Ef hú nofreynir sig eru verkir jafnan verri dagan a á eftir.

endurhæfingu hjá C á sínum tíma sjá innsend gögn frá A. Endurhfæingu hjá VIRK hafnað nýverið og metin óraunhæf og er það mat þeirra að hún sé með viðvarandi skerta vinnugetu.“

Um lýsingu læknisskoðunar segir í vottorðinu:

„gott almennt útlit, göngulag eðlilegt, er hvell aum á vefjagigtarpunktum, paravertebral eymsl á mjóbaki og glutelal festum veruleg eymsl í kringum hné bilat. hreyfigeta skert í axlarliðum bilat kemst mest 100 gr ca í frontalplani , negativt impingement test, við lendarlið er fingur 10 cm frá gólfi.“

Samkvæmt vottorðinu er það mat læknis að kærandi hafi verið óvinnufær frá 1. ágúst 2020.

Einnig liggur fyrir starfsgetumat VIRK, dags. 24. september 2020. Í matinu kemur fram að líkamlegir þættir hafi mikil áhrif á færni kæranda. Um það segir að útbreiddir verkir séu veruleg hindrun fyrir atvinnuþátttöku. Kærandi sé ófær um lyftur og burð. Hún sofni seint og sofi slitrótt. Orkuleysi og þreyta séu áberandi. Kærandi leggi sig flesta daga. Þá kemur fram að andlegir þættir hafi talsverð áhrif á færni kæranda. Um það segir að það sé saga um depurð en ekki undanfarið, nema helst yfir ástandinu. Í samantekt og áliti segir meðal annars:

„43 ára kona sem hefur glímt við langvinna verki frá 2011 sem árið 2013 voru greindir sem vefjagigt. Var síðast í x í B sem gengur þannig fyrir sig að hún vinnur að getumörkum og fær örorkugreiðslur á móti laununum. Eftir komuna til Íslands fyrir um ári síðan fékk hún fullt starf í blómabúð sem hún lækkaði í 50% starf í x 2020. Er nú hætt að treysta sér til að sinna starfinu í því hlutfalli vegna versnandi framangreindra einkenna.

Á Spurningalista A metur hún vinnugetu sína litla, mikilvægi að vinna 5/10, alls ekki örugg að komast til vinnu á ný. Vefjagigtareinkenni mjög hamlandi. Hefur reynt sig í 50% starfi hér á landi og verið í x í B, þar sem hún fékk samþykkt ígildi örorku. A er með með sér tilkynningu frá Lífeyrissjóði Verslunarmanna þar sem kemur fram að hún sé metin til 75% örorku frá 01.09.2012 sem verði endurmetið 01.07.2021.

Þegar hefur reynt á bæði frumendurhæfingu eftir upphaf vefjagigtar og atvinnuendurhæfingu með upptröppun á starfshlutfalli í uþb 50% starf yfir lengri tíma í mjög hentugu starfi. A er ekki að stefna á hærra starfshlutfall og hefur ekki áhuga á þjónustu hjá Virk. Starfsendurhæfing er því talin óraunhæf eða fullreynd eftir því hvernig á það er litið og lagt er til að bjóða Aekki þjónustu hjá Virk.“

Einnig liggja fyrir læknisfræðileg gögn frá B. Í sjúkraskrá kæranda frá B segir meðal annars svo: [„.]“

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi vefjagigt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að það sé stundum erfitt vegna vefjagigtar og verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi erfitt með að beygja sig eða krjúpa þannig að það sé erfitt vegna vefjagigtar og verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að það sé erfitt í lengri tíma, 30 mínútur. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga á jafnsléttu þannig að það sé stundum erfitt vegna verkja í hnjám. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að ganga upp og niður stiga þannig að hún sé með verki í báðum hnjám. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beita höndunum þannig að það sé stundum erfitt vegna stirðleika og verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að teygja sig eftir hlutum þannig að það sé erfitt vegna vegna axla. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að lyfta og bera hluti þannig að það sé erfitt vegna verkja. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með sjón þannig að hún sé næstum því blind á hægra auga. Kærandi hafi verið hjá auglækni fram að 16 ára aldri og sjón á vinstra auga sé að versna. Kærandi svarar játandi spurningu um hvort hún hafi átt við geðræn vandamál að stríða og nefnir að hún hafi verið þunglynd þegar hún hafi fyrst orðið veik árið 2011.

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins 30. nóvember 2020. Samkvæmt skýrslunni er það mat skoðunarlæknis að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að setjast. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt staðli. Hvað varðar andlega færniskerðingu telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Að mati skoðunarlæknis kvíðir kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Geðheilsu kæranda er lýst svo skýrslunni:

„Saga um þunglyndi.“

Líkamsskoðun kæranda er lýst svo í skýrslunni:

„Er 164 sm og 76 kg. Hefur lést úr x kg frá 2016. Gengur ein og óstudd, engin helti. Situr eðlilega í viðtalinu. Stendur upp án þess að styðja sig við. Hreyfingar í hálshrygg eðlilegar. Vantar 10 sm á að fingur nái gólfi við framsveigju. Axlir með eðlilega hreyfiferla.“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Vaknar milli 8 og 9. Sefur þokkalega. Tekur Cymbalta. Fer út daglega. Fer í göngutúra, getur gengið í 20 mínútur. Ekkert í annarri hreyfingu. Er að reyna að föndra. Horfir- 2 - á sjónvarp, hlustar á útvarp, les lítið vegna skorts á einbeitingu. Góð á tölvur. Helstu áhugamál er föndur og hundurinn.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda samkvæmt örorkustaðli sú að kærandi getur ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að setjast. Slíkt gefur sjö stig samkvæmt staðli. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Að mati skoðunarlæknis kvíðir kærandi því að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til þriggja stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun viðkomandi verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefndin leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að misræmis gæti á milli skoðunarskýrslu og annarra læknisfræðilegra gagna málsins varðandi mat á færni kæranda.

Samkvæmt skoðunarskýrslu er það mat skoðunarlæknis að engin vandamál séu með sjón. Í rökstuðningi fyrir því mati kemur fram að sjónin bagi kæranda ekki að hennar sögn. Aftur á móti kemur fram í svörum kæranda við spurningalista og læknisfræðilegum gögnum frá B að kærandi sé næstum því blind á hægra auga. Úrskurðarnefndin telur ljóst af framangreindu að kærandi eigi í vandamálum með sjón og því sé mikilvægt að lagt sé mat á hvort þau vandamál gefi stig samkvæmt staðlinum. Ekki verður ráðið af rökstuðningi skoðunarlæknis að lagt hafi verið fullnægjandi mat á slíkt. Það er einnig mat skoðunarlæknis að svefnvandamál hafa ekki áhrif á dagleg störf kæranda. Aftur á móti segir í starfsgetumati VIRK að kærandi sofni seint og sofi slitrótt. Orkuleysi og þreyta séu áberandi og kærandi leggi sig flesta daga. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að framangreint gefi til kynna að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ljóst að það er misræmi á milli skoðunarskýrslu og annarra gagna sem fyrir liggja varðandi mat á færni kæranda. Í ljósi þess er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfylli skilyrði örorkulífeyris.

Með vísan til framangreinds er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur felld úr gildi. Málinu er vísað til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta