Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 610/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 610/2024

Miðvikudaginn 22. janúar 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um fjárhæð styrks til bifreiðakaupa.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk 14. apríl 2021 samþykkta uppbót vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. Kærandi sótti um styrk til kaupa á bifreið með umsókn, dags. 19. september 2024. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 3. október 2024, var samþykkt að greiða kæranda styrk til bifreiðakaupa en henni var jafnframt tilkynnt að þar sem að ekki væru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu yrði fyrri uppbót sem greidd hafi verið dregin frá fjárhæð styrksins. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi í símtali við stofnunina, sem var veittur með bréfi, dags. 18. nóvember 2024.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 28. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 12. desember 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að Tryggingastofnun hafi hlunnfarið kæranda. Stofnunin hafi verið búin að veita henni bifreiðastyrk upp á 1.640.000 kr. en hafi svikið hana um þá upphæð. Tryggingastofnun hafi greitt kæranda 1.280.000 kr. og hafi borið því við að hún hafi fengið styrk upp á 440.000 kr. og að hún hafi ekki mátt selja þann bíl fyrr en árið 2026. Kærandi hafi ekki gert það þar sem að bifreiðin hafi verið ónýt og hafi farið í brotajárn. Hún hafi fengið 30.000 kr. fyrir hann.

Kærandi hafi keypt bifreið sem hafi kostað 1.790.000 kr. en Tryggingastofnun hafi sagt henni að hún fengi 1.640.0000 kr. Hún hafi þurft að taka 350.000 kr. lán. til að gera upp við bílasalann sem sé að mati kæranda heldur hart.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði ákvörðun stofnunarinnar um upphæð styrks til kaupa á bifreið samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi hafi átt rétt á hærri upphæð en greidd hafi verið.

Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti.

Í reglugerð nr. 905/2024 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða komi fram að við mat á þörf fyrir uppbætur og styrki samkvæmt reglugerðinni skuli fyrst og fremst líta á bifreið sem hjálpartæki hreyfihamlaðra. Meta skuli hvort umsækjandi þurfi nauðsynlega á bifreið að halda vegna hreyfihömlunar til að komast ferða sinna, einkum til vinnu, í skóla, reglubundna endurhæfingu eða læknismeðferð.

Við matið skuli einkum litið til eftirfarandi atriða:

„1.       Hreyfihömlunar, þ.e. hvort mat sem staðfestir hreyfihömlun umsækjanda liggi fyrir.

2.         Nauðsynjar bifreiðar, þ.e. hvort ótvírætt sé að hinum hreyfihamlaða sé nauðsynlegt að hafa bifreið.

3.         Ökuréttinda, þ.e  hvort hinn hreyfihamlaði hafi sjálfur ökuréttindi eða annar heimilismaður, sbr. þó 12. gr.

4.         Ökuhæfni, þ.e. hvort hinn hreyfihamlaði eða skráður ökumaður sé fær um að aka viðkomandi bifreið.“

Í 6. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða hreyfihömluðum elli- og örorkulífeyrisþega og örorkustyrkþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem greiðsluþegi sé talinn þurfa nauðsynlega á að halda samkvæmt reglugerð þessari. Fjárhæð uppbótarinnar sé 500.000 kr.

Í 7. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg sé vegna þess að líkamsstarfsemi sé hömluð eða líkamshluta vanti, til dæmis að hinn hreyfihamlaði sé bundinn hjólastól eða noti tvær hækjur að staðaldri og því metinn verulega hreyfihamlaður. Skilyrði sé að hinn hreyfihamlaði sé sjúkratryggður hér á landi. Fjárhæð styrksins sé 2.000.000 kr.

Í 9. gr. reglugerðarinnar komi fram að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. og sjúkdómsástand hans hafi versnað þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geti þó samtals aldrei verið hærri en 2.000.000 kr. á fimm ára fresti.

Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segi að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerðinni að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við.

Samkvæmt 11. gr. reglugerðarinnar sé heimilt að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings. Í 2. mgr. 11. gr. segi að þegar um sé að ræða styrki samkvæmt 7. og 8. gr. reglugerðarinnar sé heimilt að víkja frá tímamörkum samkvæmt 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó sé eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk samkvæmt 7. gr. sé að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún hafi eyðilagst.

Málvextir séu þeir að 19. mars 2021 hafi kærandi sótt um uppbót/styrk vegna bifreiðamála og hafi skilað inn kaupsamningi vegna bifreiðar. Samþykkt hafi verið að greiða uppbót vegna bifreiðakaupa með bréfi, dags. 14. apríl 2021, að fjárhæð 360.000 kr.

Kærandi hafi þann 20. september 2024 sótt um uppbót/styrk til bifreiðakaupa að nýju og með henni hafi fylgt læknisvottorð, dags. 20. september 2024. Í umsókninni hafi komið fram að sótt væri um undanþágu. Í kjölfarið hafi kæranda með bréfi, dags. 25. september 2024, verið synjað um hreyfihömlunarmat þar sem í gildi hafi verið slíkt sem styðji við veitingu uppbótar til kaupa á bifreið. Kærandi hafi þá óskað eftir rökstuðningi.

Nýtt læknisvottorð hafi borist 30. október 2024 frá kæranda. Styrkur til kaupa á bifreið hafi verið samþykktur með bréfi, dags. 3. október 2024. Í kjölfarið hafi kærandi sent afsal bifreiðar og hafi styrkur verið greiddur að fjárhæð 1.280.000 kr. Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir því af hverju styrkur að fjárhæð 1.640.000 kr. hafi ekki verið greiddur og hafi rökstuðningur verið veittur með bréfi, dags. 18. nóvember 2024. Í kjölfarið hafi ákvörðun Tryggingastofnunar verið kærð.

Í málinu sé ekki deilt um hvort kærandi hafi átt rétt á styrk til kaupa á bifreið, enda hafi hann verið samþykktur. Ágreiningur sé um hvort kærandi hafi átt rétt á hærri fjárhæð en þeirri sem greidd hafi verið af Tryggingastofnun.

Í bréf Tryggingastofnunar, dags. 3. október 2024, hafi komið fram að kærandi ætti rétt á að fá greiddan styrk til kaupa á bifreið að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Í bréfinu hafi eftirfarandi komið fram:

„Tryggingastofnun greiddi þér uppbót vegna kaupa á bifreið að fjárhæð 536.000kr. í apríl 2021. Þar sem ekki eru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu færðu greiddan styrk að fjárhæð 1.640.000 kr. sem er mismunur á styrk og fjárhæð greiddrar uppbótar. Kaupverð bifreiðar verður að vera a.m.k. 2.000.000 kr.“

Innsláttarvilla hafi verið í bréfinu þar sem komið hafi fram að kærandi hefði fengið uppbót að fjárhæð 536.000 kr. árið 2021, en rétt sé að fjárhæðin hafi verið 360.000 kr. Í bréfinu hafi komið fram að kærandi ætti rétt á styrk að fjárhæð 1.640.000 kr. Kaupverð bifreiðar yrði að vera að minnsta kosti 2.000.000 kr.

Í rökstuðningi, dags. 18. nóvember 2024, hafi komið fram að skilyrði þess að fá fullan mismun greiddan væri að kaupverð bifreiðar væri að minnsta kosti 2.000.000 kr. þar sem greidd fjárhæð sé aldrei hærri en kaupverð bifreiðar. Í bréfinu hafi eftirfarandi komið fram:

„Þar sem bifreiðin sem þú keyptir kostaði 1.640.000 kr. áttir þú rétt á því að fá styrk að fjárhæð 1.280.000 kr., þar sem þú hafðir þegar fengið 360.000 kr. árið 2021. Með greiddum styrk að fjárhæð 1.280.000 kr. ert þú búin að fá fulla greiðslu fyrir þeim styrk sem þú áttir rétt á fyrir bifreiðinni. TR er ekki heimilt að greiða hærri styrk eða hærri  fjárhæð, sem er samanlögð fjárhæð áður greiddrar uppbótar og styrks, en því sem nemur kaupverði bifreiðar.“

Í kæru komi fram að kærandi telji að Tryggingastofnun hafi hlunnfarið sig. Í kærunni komi fram að Tryggingastofnun hafi veitt henni bílastyrk upp á 1.640.000 kr. en hafi síðan lagt inn á reikning hennar 1.280.000 kr. Í kæru komi fram að samkvæmt upplýsingum hafi hún fengið styrk upp á 440.00 kr. og að hún hafi ekki mátt selja þann bíl fyrr en árið 2026 sem hún hafi ekki gert, hann hafi eyðilagst. Hún hafi keypt sér bifreið fyrir 1.790.000 kr. og hafi þurft að taka lán upp á 350.000 kr. til að gera upp við bílasalan, þar sem hún hefði ekki fengið greiddar 1.640.000 kr.

Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 komi fram að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. og sjúkdómsástand hans hafi versnað þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geti þó samtals aldrei verið hærri en 2.000.000 kr. á fimm ára fresti.

Þá segi í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerð þessari að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við.

Ráða megi af 1. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að styrkur og uppbót vegna bifreiðakaupa geti hvorki verið samtals hærri en 2.000.000 kr. né hærri en kaupverð bifreiðarinnar. Þar sem kaupverð bifreiðarinnar hafi verið 1.640.000 kr. þá geti samanlögð fjárhæð uppbótar, 360.000 kr. árið 2021, og fjárhæð styrks ekki verið hærri en 1.640.000 kr. Af þeim sökum sé greiddur styrkur að fjárhæð 1.280.000 kr. Sú fjárhæð styrks og greidd uppbót árið 2021 sé samanlögð fjárhæð kaupverðs bifreiðar, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Til þess að eiga rétt á 1.640.000 kr. styrk þá hefði bifreiðin þurft að kosta að minnsta kosti 2.000.000 kr., líkt og fram komi í samþykktarbréfinu.

Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðarinnar segi að heimilt sé að víkja frá tímamörkum 1. mgr. 11. gr. um fimm ára frest, þegar um sé að ræða styrki samkvæmt 7. og 8. gr. reglugerðarinnar ef bifreiðin eyðileggst á tímabilinu. Sú bifreið sem kærandi hafi keypt vegna uppbótar sem hún hafi fengið greidda í apríl 2021 hafi eyðilagst, en þar sem hún hafi keypt hana með uppbót samkvæmt 6. gr. reglugerðarinnar, þá eigi 2. mgr. 11. gr. ekki við í máli hennar og því ekki heimilt að víkja frá tímamörkum.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu þess að kærandi hafi fengið greidda rétta upphæð vegna styrks, sem hafi verið samþykktur með bréfi, dags. 3. október 2024.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að veita kæranda styrk til bifreiðakaupa að fjárhæð 1.280.000 kr. Kærandi gerir athugasemdir við fjárhæð styrksins.

Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 10. gr. segir meðal annars svo:

„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.

[...]

Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“

Reglugerð nr. 905/2021 um uppbætur og styrki til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða tók gildi 1. september 2021. Í 1. mgr. 9. gr. er fjallað um þær aðstæður þegar sjúkdómsástand hins hreyfihamlaða versnar, en ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót skv. 6. gr. og sjúkdómsástand hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks skv. 7. gr. er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og styrks. Styrkur og uppbót geta þó samtals aldrei verið hærri en 2.000.000 kr. á fimm ára fresti.“

Um endurnýjun umsókna er fjallað í 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021. Ákvæðið hljóðar svo:

„Heimilt er að veita uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings.

Þegar um er að ræða styrki skv. 7. og 8. gr. reglugerðar þessarar er heimilt að víkja frá tímamörkum skv. 1. mgr. eyðileggist bifreið á tímabilinu. Þó er eingöngu heimilt að víkja frá tímamörkum 1. mgr. þegar um styrk skv. 7. gr. er að ræða hafi bifreiðin verið tólf ára eða yngri þegar hún eyðilagðist.“

Í 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir að kaupverð bifreiðar skuli ekki vera lægra en fjárhæð uppbótar eða styrks vegna bifreiðakaupa samkvæmt reglugerðinni að teknu tilliti til niðurfellds vörugjalds þegar það eigi við.

Meginreglan er sú að einungis er heimilt að veita uppbót/styrk til bifreiðakaupa á fimm ára fresti til sama einstaklings, sbr. 2. málsl. 1. og 3. mgr. 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er kveðið á um að hafi hinn hreyfihamlaði móttekið uppbót samkvæmt 6. gr. og sjúkdómsástand hans versni þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt 7. gr. sé heimilt að greiða mismun á fjárhæð styrkjanna. Styrkur og uppbót geti þó aldrei verið hærri en samtals 2.000.000 kr. á fimm ára fresti. Í 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 er einnig kveðið á um undanþágu frá þeirri meginreglu að styrkir vegna bifreiðakaupa séu greiddir á fimm ára fresti til sama einstaklingsins í þeim tilvikum þegar bifreið eyðileggst á tímabilinu.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi þann 19. mars 2021 greidda uppbót vegna bifreiðakaupa að fjárhæð 360.000 kr. Með bréfi, dags. 3. október 2024, samþykkti Tryggingastofnun að veita kæranda styrk til bifreiðakaupa. Í bréfinu kemur fram að þar sem ekki væru liðin fimm ár frá síðustu greiðslu yrði fyrri uppbót dregin frá fjárhæð styrksins. Einnig kemur fram að kaupverð bifreiðarinnar verði að vera a.m.k. 2.000.000 kr. Kærandi keypti bifreið að fjárhæð 1.640.000 kr. og fékk greiddan styrk að fjárhæð 1.280.000 kr. frá Tryggingastofnun.

Í málinu liggur fyrir að ástæða þess að kærandi sótti um styrk til kaupa bifreið var versnandi hreyfihömlun hennar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af 2. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 905/2021 að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að draga fyrri uppbót vegna bifreiðakaupa frá, enda voru ekki liðin fimm ár frá veitingu uppbótarinnar. Þá telur úrskurðarnefndin að ráða megi af 1. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar að styrkur og uppbót vegna bifreiðakaupa geti hvorki verið samtals hærri en 2.000.000 kr. né hærri en kaupverð bifreiðar. Þá telur nefndin ljóst að framangreind undanþága 2. mgr. 11. gr. reglugerðar nr. 905/2021 eigi ekki við í tilviki kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 3. október 2024 um fjárhæð styrks til bifreiðakaupa staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um fjárhæð styrks til bifreiðakaupa, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta