Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 568/2024-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 568/2024

Miðvikudaginn 22. janúar 2025

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 9. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2024 um að synja umsókn kæranda um milligöngu um greiðslur sérstaks framlags vegna tannréttinga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um milligöngu sérstaks framlags vegna tannréttinga sonar síns frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 6. september 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. september 2024, var umsókninni synjað. Í bréfinu segir að samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé milliganga ekki heimil lengra aftur í tímann en tólf mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem úrskurður stjórnvalds berst stofnuninni. Þá sé einungis heimilt að greiða meðlag og sérstakt framlag til 18 ára aldurs barns, sbr. 40. gr. laganna. Þar sem umrædd gögn hafi ekki legið fyrir fyrr en 10. september 2024 og sonur kæranda hafi orðið tvítugur í október 2024 hefði Tryggingastofnun ekki heimild til að greiða umrætt sérstakt framlag vegna tannréttinga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 13. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2024. Athugasemdir bárust ekki.   

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að sonur kæranda hafi verið í tannréttingum og hafi hún sótt um úrskurð hjá sýslumanni sem hún hafi fengið. Umsókn kæranda um að Tryggingastofnun myndi innheimta þetta hjá barnsföður hennar hafi verið synjað þar sem að sonur hennar væri orðinn 18 ára.

Þegar kærandi hafi óskað eftir úrskurði hjá sýslumanni þá hafi sonur hennar ekki verið orðinn 18 ára. Málsmeðferðin hjá sýslumanni hafi verið mjög löng eins og sjáist vel í úrskurðinum.

Núna geti kærandi ekki innheimt þetta þar sem barnsfaðir hennar hafi ekki borgað henni þennan kostnað og þess vegna hafi hún óskað eftir að stofnunin myndi innheimta þetta fyrir hana.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 24. september 2024, að synja umsókn kæranda um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar hennar.

Í 42. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um að hver sá sem fái úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hafi á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga nr. 76/2003, geti snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skuli gilda þegar lagt sé fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur samkvæmt IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skuli nema sömu fjárhæð og barnalífeyrir samkvæmt 40. gr. og vera innan þeirra marka sem þar sé kveðið á um aldur barna. Í 40. gr. laganna segi að greiða skuli með börnum yngri en 18 ára.

Í 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar segi að Tryggingastofnun sé einungis heimilt að greiða meðlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann frá því að úrskurður berist stofnuninni. Þær reglur sem gildi um meðlag gildi einnig um sérstakt framlag, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar.

Í 60. gr. barnalaga sé kveðið á um sérstök útgjöld vegna barna. Þar komi fram að ef barn eigi fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geti foreldrar óskað eftir staðfestingar sýslumanns vegna útgjalda við skírn, fermingu, gleraugnakaup, tannréttingar, sjúkdóm, greftrun eða af öðru sérstöku tilefni. Sýslumaður skuli leiðbeina þeim um réttaráhrif samnings. Í 2. mgr. segi að ef barn eigi fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna sé heimilt að úrskurða það foreldri sem barn búi ekki hjá til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda samkvæmt 1. mgr. Þá segi í 3. mgr. að framlag samkvæmt 2. mgr. verði aðeins úrskurðað ef krafa um það sé höfð uppi við sýslumann innan þriggja mánaða frá því að svara hafi orðið til útgjalda nema eðlileg ástæða hafi verið til að bíða með slíka kröfu.

Í 61. gr. barnalaga sé kveðið á um það að framfærsluskyldu ljúki er barn verði 18 ára.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar síns með umsókn, dags. [6.] september 2024. Umsóknin hafi borið heitið „umsókn um mæðra- og feðralaun og barnalífeyri“ en tekið hafi verið fram í umsókn að verið væri að sækja um greiðslur vegna kostnaðar við tannréttingar sonar kæranda. Úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. ágúst 2024, hafi borist stofnuninni 4. september 2024. Tryggingastofnun hafi synjað umsókninni með bréfi, dags. 24. september 2024, á þeim grundvelli að sonur kæranda væri kominn fram yfir þann aldur sem heimildin nái til, en einungis sé heimilt að greiða í allt að 12 mánuði afturvirkt. Kærandi hafi kært þá ákvörðun 9. nóvember 2024.

Fyrir liggur úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram komi að barnsfaðir kæranda beri að greiða henni 527.019 kr. vegna tannréttinga sonar þeirra. Umræddur úrskurður hafi borist stofnuninni 4. september 2024, en sonur kæranda hafi orðið tvítugur X. Samkvæmt 42. gr. laga um almannatryggingar hafi Tryggingastofnun aðeins heimild til þess að greiða fyrir fram sérstakt framlag samkvæmt úrskurðum vegna barna sem séu yngri en 18 ára, sbr. 40. gr. laganna. Þá sé Tryggingastofnun aðeins heimilt að greiða sérstakt framlag í allt að 12 mánuði aftur í tímann frá því að úrskurður berist stofnuninni og aðeins til 18 ára aldurs barns, samkvæmt 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar. Það þyki því ljóst að sonur kæranda falli ekki undir þá heimild sem kveðið sé á um í 42. gr. laga um almannatryggingar sökum aldurs.

Af framangreindu sé ljóst að í málinu liggi fyrir gildur úrskurður Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um greiðslu á tannréttingakostnaði. Tryggingastofnun hafi hins vegar aðeins heimild til þess að greiða sérstakt framlag fram að 18 ára aldri barns og einungis heimild til þess að greiða 12 mánuði aftur í tímann. Tryggingastofnun sé því ekki heimilt að greiða sérstakt framlag vegna tannréttinga sonar kæranda sem sótt hafi verið um 10. september 2024. Tryggingastofnun fari því fram á að kærð ákvörðun um að synja umsókn kæranda um greiðslu á sérstöku meðlagi vegna tannréttinga verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um milligöngu um greiðslu framlags vegna tannréttinga sonar hennar.

Í 1. mgr. 60. gr. barnalaga nr. 76/2003, sem er að finna í IX. kafla laganna, er kveðið á um að heimilt sé að úrskurða þann sem sé meðlagsskyldur til að inna af hendi sérstakt framlag vegna útgjalda, meðal annars vegna tannréttinga. Þá segir í 61. gr. laganna að framfærsluskyldu ljúki er barn verði 18 ára. Í 67. gr. barnalaga er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar til að greiða rétthafa greiðslna samkvæmt IV. og IX. kafla laganna, sem búsettur sé hér á landi, samkvæmt dómi, dómsátt, úrskurði sýslumanns eða samningi staðfestum af honum, þó innan þeirra marka sem lög nr. 100/2007 um almannatryggingar setji.

Ákvæði 1. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Hver sá sem fær úrskurð stjórnvalds um meðlag með barni sem hann hefur á framfæri sínu, eða um aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga, nr. 76/2003, getur snúið sér til Tryggingastofnunar og fengið fyrirframgreiðslu meðlags eða annarra framfærsluframlaga samkvæmt úrskurðinum. Sama skal gilda þegar lagt er fram staðfest samkomulag um meðlagsgreiðslur og aðrar greiðslur skv. IX. kafla barnalaga. Fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun skal nema sömu fjárhæð og barnalífeyrir skv. 40. gr. og vera innan þeirra marka sem þar er kveðið á um aldur barna.“

Samkvæmt 4. mgr. 42. gr. lag um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að greiða meðlag aftur í tímann allt að 12 mánuði, talið frá byrjun þess mánaðar sem stjórnvaldsúrskurður, staðfestur samningur eða vottorð sýslumanns um að hann hafi veitt viðtöku ósk móður um öflun faðernisviðurkenningar berst stofnuninni. Þá segir í 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar að fyrirframgreiðsla meðlags frá Tryggingastofnun ríkisins skuli ávallt vera innan þeirra marka sem 40. gr. laganna setji um fjárhæð greiðslna og aldur barna. Samkvæmt síðastnefnda ákvæðinu er aldursviðmiðið 18 ár.

Af 1. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um almannatrygginga má ráða að einstaklingur, sem hefur fengið úrskurð um meðlag eða sérstakt framlag vegna útgjalda, geti fengið greiðslur frá Tryggingastofnun samkvæmt úrskurðinum. Í 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. og 4. mgr. 42. gr. er fjallað um nánari skilyrði meðlagsgreiðslna. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að sömu skilyrði eigi við um sérstakt framlag vegna útgjalda eftir því sem við á, enda er það af sama meiði og meðlag þar sem þessi framlög eiga rætur að rekja til framfærsluskyldu foreldra með barni og einungis meðlagsskyldur aðili verður krafinn um þau, sbr. 60. barnalaga. Þá er það eitt af skilyrðum fyrir greiðslu sérstaks framlags að útgjöldin falli til fyrir 18 ára aldur barns, sbr. 61. gr. barnalaga. Að því virtu fær úrskurðarnefnd ráðið að Tryggingastofnun sé heimilt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga barna fram til 18 ára aldurs þeirra, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar og einnig 40. gr. sömu laga. Þá er heimilt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags tólf mánuði aftur í tímann frá því að ákvörðun barst stofnuninni, sbr. 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar.

Samkvæmt úrskurði Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 28. ágúst 2024, var barnsföður kæranda gert að greiða henni 527.019 kr. vegna tannréttinga sonar þeirra sem er fæddur X. Kærandi óskaði eftir milligöngu Tryggingastofnunar um greiðslu sérstaks framlags með umsókn, móttekinni 6. september 2024, á grundvelli framangreinds úrskurðar.

Sonur kæranda varð 18 ára X. Það voru því liðnir meira en tólf mánuðir frá því tímamarki þegar umsókn um milligöngu barst Tryggingastofnun. Í ljósi þess var Tryggingastofnun ekki heimilt að hafa milligöngu um greiðslu sérstaks framlags vegna tannréttinga til kæranda, sbr. 4. mgr. 42. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi byggir á því að þegar kærandi hafi óskað eftir úrskurði hjá sýslumanni þá hafi sonur hennar ekki verið orðinn 18 ára og málsmeðferðin hjá sýslumanni hafi verið mjög löng. Þrátt fyrir þennan langa málsmeðferðartíma hjá sýslumanni er Tryggingastofnun ríkisins ekki heimilt að fara gegn ákvæðum framangreindra laga um tímafresti í tengslum við slíka milligöngu. Því verður hin kærða ákvörðun ekki felld úr gildi með vísan til framangreindrar málsástæðu kæranda.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 24. september 2024 um milligöngu á greiðslu framlags vegna tannréttinga sonar kæranda staðfest.

Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hún geti sótt greiðslu framlagsins úr hendi barnsföður síns samkvæmt almennum reglum kröfuréttar. Samkvæmt 66. gr. barnalaga má gera fjárnám fyrir slíku framlagi á grundvelli dóms, dómsáttar eða úrskurðar. Kæranda er því bent á að hún geti leitað aðfarar sýslumanns til tryggingar kröfu sinni á hendur barnsföður sínum í samræmi við lög nr. 90/1989 um aðför.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um milligöngu á greiðslu framlags vegna tannréttinga, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta