Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 369/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 369/2024

Miðvikudaginn 16. október 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 14. ágúst 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. maí 2024 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 14. mars 2024. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 16. maí 2024, var umsókn kæranda synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Kærandi lagði fram nýtt læknisvottorð 5. september 2024 og var það sent Tryggingastofnun ríkisins samdægurs til kynningar. Með bréfi, dags. 9. september 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. september 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru fer kærandi fram á að fá metna fulla örorku. Fram kemur að kærandi sé með doða og þrýsting í eyrum og mikla heyrnarskerðingu sem hái henni mikið í daglegu lífi. Við tal aukist þrýstingur á eyru og mikið og hátt tal leiði oft til að þess líðanin versni sem endi oft með verk út í tungurót, kjálka og höfuð. „Glamurhljóð“ séu algeng, bæði í eigin rödd og í umhverfishljóðum. Heyrnin sé mikið skert í grunninn og heyrnartæki hjálpi ekki nógu mikið. Við bætist hella/doði/þrýstingur sem bjagi og dragi enn meira úr heyrn kæranda, sérstaklega á stærri stöðum eins og út í búð. Kærandi sé oft í erfiðleikum með að skilja hvað fólk sé að segja og reyni að horfa á varir um leið og hún hlusti. Í höfðinu sé stanslaust suð og þegar hún hreyfi höfuðið finni hún undarlega kippi eða litla samdrætti í höfðinu, oft marga í röð. Þeim fylgi einnig eins konar hvisshljóð. Nóg sé að hreyfa augun til hliðar til að þetta gerist. Þegar kærandi snúi höfðinu heyrist líka „ýl“ og einnig ef þrýst sé á hvirfilinn. Þetta allt valdi kæranda miklum kvíða og stressi og hamli henni mikið í daglegu lífi. Í raun hafi ekki fundist nein skýring á þessu ástandi en kærandi hafi farið til margra lækna. Ef til vill sé engin raunveruleg endurhæfing í boði.

Kærandi hafi fyrst veikst í október nóvember 2018. Hún hafi verið í eitt og hálft ár í veikindaleyfi. Þar sem möguleiki hafi verið á að ástand hennar gæti stafað af kulnun/stressi/kvíða hafi hún farið í VIRK þar sem hún hafi verið frá 13. mars 2019 til 29. apríl 2020. Kærandi hafi einnig farið í sjúkraþjálfun í átta tíma til B í C. Ekkert hafi í raun breyst við þetta. Kærandi hafi reynt að fá aðra vinnu sem gæti kannski hentað henni en það hafi ekki gengið. Hún hafi farið aftur í gamla starfið í maí 2020 og hafi einhvern veginn tekist að þrauka þar í tvö ár, reyndar með lækkuðu starfshlutfalli og vinnustyttingu, auk þess hafi hún oft tekið veikindadaga. Í júní 2022 hafi kærandi ekki getað meir, heyrnin hafi þá skerst mikið og þetta „hviss/kippir“ hafi verið komnir í höfuðið við hreyfingu. Eyru kæranda séu mjög viðkvæm fyrir öllu áreiti. Nú sé staðan sú að kærandi sé á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði en sú upphæð sem hún fái þaðan sé ekki nægjanlega til framfærslu og þess vegna þurfi hún að fá örorkubætur frá Tryggingastofnun til að bæta þá upphæð upp.

Kærandi sé orðin örþreytt á þessu öllu og langi bara til að geta slakað aðeins á svo hún þurfi ekki að hafa áhyggjur af fjárhagserfiðleikum, læknisvottorðum og umsóknum og geti farið að hlúa að sjálfri sér án þess að hafa þessar áhyggjur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða örorkumats.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 14. mars 2024, en hafi verið synjað með bréfi, dags. 16. maí 2024, með vísan til þess að endurhæfing hefði ekki verið reynd.

Ágreiningur málsins lúti að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 24. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli, sbr. 2. mgr. 25. gr. laganna.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga um almannatryggingar þeim sem fái örorku sína metna að minnsta kosti 50%. Slíkan styrk skuli enn fremur veita þeim sem uppfylli skilyrði 1. mgr. og stundi fullt starf ef örorkan hafi í för með sér verulegan aukakostnað.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat meti tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sæki um örorkubætur frá Tryggingastofnun samkvæmt staðli sem byggður sé á læknisfræðilegum viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun.

Í 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999 segi að þegar umsókn um örorkulífeyri og fullnægjandi læknisvottorð hafi borist Tryggingastofnun sendi stofnunin umsækjanda að jafnaði staðlaðan spurningalista. Örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þyki læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun með umsókn, dags. 14. mars 2024, sem hafi verið synjað með bréfi stofnunarinnar, dags. 16. maí 2024. Í bréfinu komi fram að samkvæmt meðfylgjandi gögnum væri ekki tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Þó komi fram í læknisvottorði að endurhæfing hafi verið fullreynd en stofnunin hafi ekki nein gögn um endurhæfingu. Í bréfinu hafi komið fram að hafi hún verið reynd þá óski stofnunin eftir öllum gögnum um endurhæfingu og meðferð en Tryggingastofnun þyki spurning hvort meðferð sé fullreynd. Beiðni um örorku hafi því verið synjað. Kærandi hafi verið því bent á reglur er varði endurhæfingarlífeyri og hafi hún verið hvött til að hafa samband við heimilislækni til þess að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf, dags. 19. ágúst 2024, þar sem vísað sé til umsóknar um örorkulífeyri og að gögn vanti. Í bréfinu komi fram að til að hægt verði að meta réttindi þurfi að skila inn útfylltum spurningalista vegna færniskerðingar auk umsóknar um örorku.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir. Við örorkumat hafi legið fyrir umsókn um örorkulífeyri, dags. 14. mars 2024, læknisvottorð, dags. 12. og 13. mars 2024, og spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 14. mars 2024.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er greint frá því sem fram kemur í læknisvottorðum D, dags. 12. mars og 29. maí 2024, læknisvottorði E á heyrnar- og talmeinastöð Íslands, dags. 8. ágúst 2024, og svörum kæranda við spurningarlista vegna færniskerðingar.

Það sé niðurstaða sjálfstæðs mats Tryggingastofnunar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 24. gr. og 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar til þess að vera metin til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.

Samkvæmt meðfylgjandi gögnum með umsókn um örorkulífeyri hafi ekki verið talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Fram komi í læknisvottorði að endurhæfing hafi verið fullreynd en Tryggingastofnun hafi ekki nein gögn um endurhæfingu kæranda. Þá þyki Tryggingastofnun spurning hvort endurhæfing hjá kæranda sé fullreynd. Beiðni um örorkumat hafi því verið synjað og kæranda bent á reglur um endurhæfingarlífeyri. Einnig hafi kærandi verið hvött til að hafa samband við heimilislækni til að leita ráðgjafar um þau endurhæfingarúrræði sem í boði séu.

Í gögnum sem hafi borist með kæru hafi fylgt þjónustulokaskýrsla, dags. 23. janúar 2019, sem hafi ekki verið í gögnum Tryggingastofnunar. Í þjónustulokaskýrslu komi fram að kærandi hafi farið í fyrra starf sem F hjá Reykjavíkurborg. Sú skýrsla breyti ekki mati Tryggingastofnunar þar sem kærandi hafi farið í sitt fyrra starf.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að synjun á umsókn um örorkulífeyri, dags. 14. mars 2024, hafi verið rétt ákvörðun með tilliti til þeirra gagna sem hafi legið fyrir er matið hafi farið fram. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu kærðrar ákvörðunar frá 16. maí 2024, þess efnis að synja kæranda um örorkulífeyri þar sem endurhæfing hafi ekki þótt vera fullreynd.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. maí 2024, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt hafi verið að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 25. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar eru greiðslur örorkulífeyris bundnar því skilyrði að umsækjendur hafi verið metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. og 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt síðustu 12 mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 24 mánuði enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 1. mgr.“

Fyrir liggur fyrir læknisvottorð D, dags. 12. mars 2024, þar sem greint er frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„EUSTACHIAN TUBE DISORDER, UNSPECIFIED

HELLA FYRIR EYRUM“

Um fyrra heilsufar segir að kærandi hafi áður verið hraust.

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„A er X ára F sem veiktist um miðjan september 2018 með kvefi og lungnabólgu. Fékk þá hellu fyrir eyru sem hafa plagað hana síðan. Henni finnst þetta afar óþægilegt og veldur henni áhyggjum að þetta muni aldrei fara. Einnig nær hún ekki að sögn fókus á hægra auga og ekki tekist að finna fókus þar heldur hjá augnlækni. Augað sjálft verið metið eðlilegt. Fljótlega eftir þetta greind með sinusit hjá HNE lækni sem var staðfest með TS af sinusum. Sett á meðferð og sinusita einkenni gengu yfir en áfram hella. Hellueinkenni metin sem streitu/álagstengd. Send tilvísun frá mér til endurmats á HNE á LSH í lok árs 2018. Var gerð exploration á hægra miðeyra hjá henni 2019 en fannst ekkert óeðlilegt. Farið í TS af miðeyra sem var eðlilegt. Verið metin aftur af HNE, nú síðast í jan 2022. Í nótu frá HNE lækni þá: "....fær svona þessa tilfinningu sérstaklega þegar hún er að tala mikið. Við skoðun er ekkert sérstakt að finna, hún er með heyrnartæki bilateralt. Rinne er pos í 256 bilat, Weber fer kannski heldur í vi. eyrað segir hún. Hún er ekki með palpeymsli yfir kjálkaliðum. Hún brann út þarna 2018, var frá vinnu í eitt ár, þetta er multifactorialt, hugsanlega kokhlustartengt, hugsanlega tengt kjálkaliðunum. Í öllu falli er ekkert sem hægt er að gera fyrir hana aðgerðarlega séð og við ræðum um þetta, hún þurfi í rauninni bara að aðlaga sig þessu."

Líkt og fram kemur að ofan þá kulnun um þetta leiti og kvíði. Sett á SSRI af undirrituðum og komst að hjá VIRK 2018. Útskrifaðist þaðan 2020. Fór í hlutavinnu á […] aftur en gafst fljótt upp á henni að nýju. Heyrn skert. Þó sé með nýstillt heyrnartæki á hún erfitt með að heyra. Getur ekki haldið uppi samræðum í hóp og heyrir óskýrt ef fólk er ekki alveg við hana. Þarf að halla sér að fólkinu til að heyra. Heyrir þó vel í síma.

Fengið hefur verið mat taugalæknis og ofnæmislæknis. Ekkert athugavert þar. HNE mat sbr. ofan. Send beiðni að nýju í VIRK í júlí 2023 en inntöku þar hafnað í september 2023. Í svari þar kemur fram: "Ekki er þörf á þverfaglegri starfsendurhæfingu. Einstaklingur þarf fyrst og fremst aðstoð við atvinnuleit. Niðurstaða VIRK er að einstaklingur hafi líklega þörf fyrir þjónustu á vegum Vinnumálastofnunar....Bent er á hlutverk og þjónustu Vinnumálastofnunar og eftir atvikum félagsþjónustu sveitarfélaga varðandi aðstoð."

Send var tilvísun á Reykjalund 12.2.24 með von um að hún fengi aðstoð við að læra að lifa með þessi óþægindi en skv. A hefur hún fengið neitun á boð þangað. Svar hefur ekki borist til tilvísanda.“

Í vottorðinu er ekki svarað hvort kærandi sé vinnufær eða hvort að færni aukist eftir endurhæfingu. Í læknisvottorðinu kemur fram í áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Vísa í ítarlegan texta í sögu að ofan. Verið metin endurtekið af HNE læknum vegna sinna einkenna. Skoðanir þar komið eðlilega út. Farið í gegnum endurhæfingu hjá VIRK 2018 til 2020. Fór aftur í vinnu um tíma á […] eftir það en stoppaði stutt þar þar sem hávaði og læti þar voru óþægileg með þessum einkennum. Aftur send beiðni í VIRK 2023 en henni vísað frá og A bent á aðstoð vinnumálastofnunar við að finna vinnu við hæfi.“

Í læknisvottorði D, dags. 4. september 2024, er greint frá sömu sjúkdómsgreiningum og í vottorði hans, dags. 12. mars 2024, en að auki er greint frá greiningunni „streita, ekki flokkuð annars staðar“, en að öðru leyti eru vottorðin að mestu samhljóða.

Einnig liggur fyrir læknabréfi D, dags. 29. maí 2024, þar segir:

„Vísa í umsókn um örorkumat sent til ykkar í mars. Samkvæmt því sem ég hef nú fengið upplýsingar um frá skjólstæðingi var þeirri beiðni hennar um örorkumat hafnað á þeim forsendum að "endurhæfing hefur ekki verið reynd" segir orðrétt í bréfi ykkar.

Þetta er ekki alls kostar rétt og fer ég því fram á endurmat og ef höfnun þá frekari skýringu á því.

Líkt og fram kom í vottorðinu var A í endurhæfingu í VIRK yfir 14 mánaða tímabil sem lauk í apríl 2020. Reyndi vinnu eftir það en gekk ekki. Hefur einnig verið í sjúkraþjálfun tengt hennar tinnitus (sem reyndar láðist að tilgreina í síðasta vottorði), 10 skipti sirka í C sjúkraþjálfun. Það hjálpaði ekkert. Vísa einnig nánar í ítarlegar skýringar úr mati HNE læknis sem fram kemur í vottorðinu.

Til staðar er hjá henni líka kvíði sem klárlega spilar stóra rullu í hennar einkennum án efa en mögulega ekki gengið nægjanlega vel að fá A til að skilja þá tengingu, skal ekki segja til um það. Hún hefur reynt meðferð með sertral sem hefur hjálpað við sumum af hennar líkamlegu einkennum en finnur ekki mikinn mun á kvíða. Hefur prufað að fara í 100mg án þess að finna árangur. Er nú byrjuð hjá sálfræðingi hjá okkur á stofunni.

Líkt og fram kom i vottorðinu sem sent var í mars var ný beiðni send í VIRK 2023 en inntöku hafnað þ.s. ekki metin þörf fyrir þverfaglega starfsendurhæfingu og talið að A þurfi fyrst og fremst aðstoð við atvinnuleit. A hefur ekki treyst sér í það.

Sendi því að nýju þessar upplýsingar. Þakklátur endurmati ykkar og frekari útskýringa á höfnun ef það er áfram niðurstaðan, annað en að endurhæfing hafi ekki farið fram.“

Í læknisvottorði E, dags. 8. ágúst 2024, er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„TINNITUS

SENSORINEURAL HEARING LOSS, BILATERAL

OTHER ABNORMAL AUDITORY PERCEPTIONS 

PATULOUS EUSTACHIAN TUBE“

Um fyrra heilsufar segir:

„Undirrituð skrifar vottorð varðandi heyrn A, vísa í vottorð frá heimilislækni, D varðandi frekari heilsufarsupplýsingar.“

Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„Vaxandi bilateral heyrnarskerðing og suð undanfarna áratugi. Fékk heyrnartæki ca 2015 en ávallt fundist hún græða lítið á heyrnartækjum, fundist hún með og þrýsting yfir eyrunum sem truflar hlustun mikið ásamt glymjanda í höfðinu. Talsverð versnun/progression á heyrnarskerðingu í kjölfar veikindaleyfis milli 2020 og 2022. Uppvinnsla með myndgreiningu, heilastofnsmælingu og einnig exploration á hægra eyra hefur ekki leitt í ljós skýringar á hennar einkennum og afhverju hún nýtir heyrnartæki verr en heyrnarmæling segir til um. Líklegast er, að auk hennar heyrnarskerðingar, að hún sé með e-rs konar kokhlustartruflun (tupa aperta) sem hefur truflandi áhrif á úrvinnslu hljóða við hlustun.

Mjög takmörkuð meðferð er til við kokhlustartruflun. Sumir finna létti með rörum en það var prófað hjá ERG og hafði engin áhrif á hennar einkenni“

Um lýsingu læknisskoðunar segir:

„Við skoðun í eyrun sjást heilar hljóðhimnur og loftuð miðeyru. Góður hreyfanleiki á hljóðhimnunni. Tónmeðalgildi tóntíðnanna 0,5, 1, 2 og 4 kHz er 65 dB hægra megin og 45 dB vinstra megin án heyrnartækja. Talgreining án heyrnartækja er 64% hægra megin á 85/45 dB og 88% vintra megin á 70 dB. Tónmeðalgildi með heyrnartækjum er 50 dB hægra megin og 40 dB vinstra megin. Talgreining með heyrnartækjum er 88% hægra megin og 84% vinstra megin við 60 dB og án utanaðkomandi truflana, þ.e við bestu mögulegar aðstæður.“

Í vottorðinu kemur fram það álit E að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í áliti á vinnufærni og horfum á aukinni færni segir:

„Endurhæfing með heyrnartækjum hefur verið reynt í um áratug en ekki skilað tilætluðum árangri. Glymjandi og þrýstingur í höfði vegna kokhlustartruflana gefur meiri truflun á heyrnartækjanotkun en annars væri ef eingöngu um "hefðbundna skyntauga-/cochlear" heyrnarskerðingu væri að ræða. Slík úrvinnslutruflun leiðir af sér mikið álag og langvarandi þreytu sem eykur á suð sem þegar er til staðar hjá henni.“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar, sem kærandi lagði fram með umsókn um örorkumat, svaraði hún spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi stanslausan óútskýrðan þrýsting á eyru sem leiði oft í kok, tungurót, kjálka og höfuð og valdi verkjum. Þetta aukist við tal og hún sé með mikla heyrnarskerðingu þrátt fyrir heyrnartæki. Kærandi svarar spurningu um hvort að sjónin bagi hana þannig að hún sé nærsýn og þurfi gleraugu til að sjá frá sér, hún sjái illa í myrkri. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með tal þannig að hún eigi ekki í talerfiðleikum en ástandið á eyrunum leiði til þess að hún verði helst að tala lágt og ekki mikið, hún geti alls ekki sungið. Kærandi svarar spurningu um hvort að heyrnin bagi hana þannig að hún heyri mjög illa, hún geti ekki fylgst með íslensku efni í sjónvarpi án texta. Hún þurfi helst að horfa beint á manneskjuna sem hún sé að tala við. Hún eigi oft erfitt með að tala við afgreiðslufólk í búðum þar sem sé erill og hávaði. Það sé mjög vont að tala við fólk í gegnum svona afgreiðslugler. Ástandið sé svona þótt hún sé með heyrnartæki sem eigi að vera stillt rétt. Þetta valdi miklu álagi og stressi. Kærandi greinir frá því að það sé alltaf eins og stanslaust þrýstingur og/eða doði/hella á eyrunum sem valdi þessu auk raunverulegs heyrnartaps. Það sé einnig eins og „lokað“ út í eyrun frá munnholi sem valdi meiri og meiri þrýstingi ef hún þurfi að tala mikið og kannski hærra en mjög lágt. Kærandi sé oft með verk í eyrum, koki, tungurót, kjálka og höfði vegna þessa og þurfi oft að taka verkjalyf, auk þess er hún með eyrnasuð, mishátt. Kærandi svarar játandi spurningu um það hvort hún glími við geðræn vandamál og nefnir í því sambandi að hún hafi alltaf verið mjög kvíðin, haft áhyggjur af öllu endalaust og verið ofur samviskusöm. Í athugasemdum segir:

„Þann 29. júní 2023 sem ég setti sem síðasta daginn sem ég var í launaðri vinnu, er í raun síðasti dagurinn í árs veikindaleyfi. Ég hafði áður verið í árs veikindaleyfi en komið aftur og minnkað við mig vinnuna. Þá þraukaði ég í næstum tvö ár áður en ég gat ekki meir og fór í seinna árs veikindaleyfið. Ég tapaði mikilli heyrn á þessu tímabili og ástandið er mikilu verra núna . Þarf miklu oftar að taka verkjalyf.“

Fyrir liggur þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 29. apríl 2020, þar segir að kærandi hafi verið útskrifuð í vinnu sem F. Um nánari ástæðu þjónustuloka segir:

„A hefur verið í starfsendurhæfingu undanfarna 14 mánuði hjá VIRK og á þeim tíma nýtt ýmis endurhæfingarúrræði s.s. sálfræðimeðferð, markþjáflun, núvitund, námskeið vegna streitu og stuðning við hreyfingu og líkamlega uppbyggingu. Hún naut einngi stuðning atvinnulífstengils VIRK í nokkurn tíma þar sem hún á tímabili var að hugleiða að skipta um starfsvettvang. Niðurstaðan var hins vegar sú að hún fór aftur í fyrra starf þar sem hún átti ráðningarsambandi, hún hefur verið í því starfi frá því í febrúar. Hún byrjaði í 50% starfi og mun á næstu vikum í samráði við vinnuveitanda og trúnaðarlækni hækka starfprósentu í fyrra starfshlutfall eða 96%. Úrræðum á vegum VIRK er lokið og A útskrifuð úr þjónustu.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 2. mgr. 25. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Þá var kæranda leiðbeint að fá ráðgjöf hjá heimilislækni um þau endurhæfingarúrræði sem væru í boði og vísað á endurhæfingarlífeyri.

Fyrir liggur að kærandi býr við ýmis vandamál af líkamlegum og andlegum toga. Af gögnum málsins má ráða að kærandi hafi ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun ríkisins en að hún hafi þó verið í þjónustu VIRK á árunum 2019-2020. Í fyrrgreindu læknisvottorði E, dags. 8. ágúst 2024, kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í læknivottorðum D kemur fram það mat læknis að endurhæfing sé fullreynd. Þá er í læknabréfi hans, dags. 29. maí 2024, greint frá því að kvíði spili inn í heilsu kæranda og að hún sé byrjuð hjá sálfræðingi.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að hvorki verði ráðið af þeim upplýsingum sem fram koma í fyrrgreindum læknisvottorðum né af eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti ekki komið að gagni, enda hefur ekki verið reynt á úrræði sem eru til þess fallin að gera kæranda kleift að búa við skerðingu sína. Þá liggur fyrir að kærandi hefur ekki fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun en heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 60 mánuði samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á endurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 16. maí 2024, um að synja kæranda um örorkumat.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkumat, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

_

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta