Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 129/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 129/2016

Miðvikudaginn 2. nóvember 2016

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 1. apríl 2016, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 5. janúar 2016 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 24. júní 2014, vegna rangrar greiningar og meðhöndlunar við komu á bráðadeild Landspítalans þann X. Í umsókninni er tjónsatvikinu lýst þannig að kærandi hafi verið sendur heim þrátt fyrir að sinin hafi verið skorin í sundur og það hafi ekki komið í ljós fyrr en ellefu dögum síðar þegar hann hafi mætt í saumatöku. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 5. janúar 2016, á þeim grundvelli að sú vangreining sem hafi átt sér stað í málinu hafi einungis leitt til þess að veikindatímabil hafi lengst um ellefu daga en ekki til varanlegs tjóns. Sjúkratryggingar Íslands töldu því að ekki væru skilyrði til greiðslu bóta samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 2. apríl 2016. Með bréfi, dags. 5. apríl 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 27. apríl 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. apríl 2016, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send lögmanni kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að úrskurðarnefnd velferðarmála taki afstöðu til bótaskyldu á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Í kæru segir að málsatvik séu þau að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysi þann X þegar [...] hafi fallið ofan af [...] og ofan á vinstri fót hans. Í slysinu hafi kærandi orðið fyrir meiðslum. Kærandi hafi leitað á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi og í dagnótu bráðadeildar, dagsettri sama dag, segi að við skoðun sjáist 2 cm skurður neðarlega á sköflungi með skítugum skurðbrúnum. Þá segi einnig að við skoðun á sárinu sjáist að ekki virðist vera skaði á undirliggjandi fasciu. Skurðurinn hafi síðan verið þrifinn og saumaður. Ráðlögð hafi verið saumataka á heilsugæslu eftir tíu til tólf daga. Kærandi hafi síðan leitað á Heilsugæsluna C þann X í saumatöku. Í samskiptaseðli hjúkrunar frá Heilsugæslunni C, dags. X, segi að kærandi geti ekki hreyft fótinn eðlilega upp og þroti og bjúgur séu í kringum sár. Ákveðið hafi verið að hann færi aftur á bráðadeild Landspítalans til endurmats á því hvort sinaskaði væri til staðar og kærandi hafi farið sama dag á bráðadeildina, þ.e. X. Hann hafi farið í ómskoðun af fætinum sem hafi leitt í ljós sinaskaða. Kærandi hafi síðan verið tekinn til aðgerðar næsta dag eða X hjá D bæklunarskurðlækni þar sem sinin hafi verið saumuð saman. Kærandi hafi síðan fengið gipsumbúðir og heildargipstími áætlaður að minnsta kosti sex vikur.

Kærandi hafi síðan farið í saumatöku á Landspítalanum þann X og verið settur í göngugips. Hann hafi átt að vera í því gipsi í fjórar vikur til viðbótar. Hann hafi síðan komið aftur í endurkomu á Landspítalann þann X þar sem gipsið hafi verið tekið. Við skoðun þann dag samkvæmt göngudeildarskrá úr sjúkraskrá segi að hann geti vel activerað tibialis ant. sinina en sé ennþá dálítið bólginn og aumur. Reiknað hafi verið með að hann yrði allavega frá vinnu í eina til tvær vikur. Hann hafi fengið beiðni í sjúkraþjálfun og verið ráðlagt að byrja að liðka sig eftir getu og forðast hnjask. Áætlað hafi verið eftirlit eftir ár.

Kærandi hafi síðan komið til eftirlits á Landspítalann þann X. Í nótu úr sjúkraskrá segi að kærandi hafi verið í sjúkraþjálfun töluvert lengi og klárað þau skipti sem hann hafi getað fengið og hægt og rólega hafi hreyfingin batnað. Aftur á móti finni hann ennþá töluvert mikið fyrir þessu og ef hann reyni mikið á sig þá fái hann verki í þetta. Þá segi að kærandi starfi á verkstæði og sé oft þreyttur og aumur eftir daginn. Þá hafi hann æft [íþrótt], en hafi ekki treyst sér í það aftur vegna þess að hann hafi ekki treyst fætinum alveg og hann hafi fengið verki við álagið. Þá geti hann ekki almennilega hlaupið heldur. Við skoðun hafi hann verið með dálítið þykkt ör bogadregið 5-6 cm langt. Þá segi að þar undir sé greinilega hægt að finna tibialis anterior sinina og þegar hann dorsiflecterar um ökklann spennist hún töluvert út. Þá segi að kærandi sé aðeins aumur yfir sininni en samt virðist vera ágætis samfella við þreifingu. Hreyfigetan um ökklann sé svipuð og hinum megin, kannski örlítið stífari samt. Vöðvinn sé eitthvað rýrari vinstra megin heldur en hægra megin.

Í forsendum ákvörðunar Sjúkratrygginga Íslands sé gengið út frá því að umrædd sin fremri sköflungsvöðva hafi rofnað við slysið þann X enda sé ekki lýst neinu öðru atviki sem gæti skýrt það ástand. Þannig hafi átt sér stað vangreining á bráðadeild Landspítalans þar sem sinaskaðinn hafi ekki greinst og falli sú vangreining undir 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Vangreiningin hafi leitt til þess að rétt meðferð hafi ekki farið fram fyrr en ellefu dögum síðar en hún ella hefði gert.

Það sé hins vegar niðurstaða stofnunarinnar að ekkert varanlegt tjón hafi leitt af vangreiningunni á sinaskaðanum þann X á bráðadeild Landspítalans og því séu ekki skilyrði til greiðslu bóta á grundvelli 2. gr. laga nr. 111/2000 og erindi kæranda því synjað. Í forsendum ákvörðunar SÍ segi eftirfarandi:

,,Ljóst er á dagnótu X, sem rituð er tæplega einu ári eftir slysið, að umsækjandi býr við væg einkenni sem líklega eru varanleg. Þau eru þó síst meiri en búast má við eftir sinaskaða sem þennan og hafa ekki orðið meiri en ella vegna þeirrar tafar sem varð á því að gera við sinina. Þannig átti sér stað vangreining (1. tl. 2. gr.) þann X og sú vangreining leiddi til þess að rétt meðferð fór ekki fram fyrr en ellefu dögum síðar en hún ella hefði gert. Vangreiningin leiddi þannig til ellefu dögum lengra veikindatímabils en hún leiddi ekki til þess að varanleg mein yrðu meiri. Þannig virðist aðeins hafa átt sér stað tímabundið tjón vegna vangreiningarinnar en ekkert varanlegt, einkenni sem teljast varanleg hefðu allt að einu leitt af áverka burtséð frá hvort aðgerð hefði farið fram strax eða 11 dögum síðar.“

Samkvæmt lögum nr. 111/2000 eigi þeir rétt til bóta sem verði fyrir meðal annars líkamlegu tjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Í 2. gr. laga nr. 111/2000 sé að finna þau tjónsatvik sem lögin taki til. Í 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000 segi að ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Kærandi telji að líkamstjón hans megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000, í kjölfar vinnuslyss hans þann X og mótmæli þeirri afstöðu stofnunarinnar að ekkert varanlegt tjón hafi hlotist af vangreiningunni. Engin rök séu færð fyrir því að vangreiningin hafi ekki leitt til neins varanlegs tjóns en kærandi byggi á því að meta þurfi það atriði sérstaklega, þ.e. þar sem viðurkennt hafi verið af Sjúkratryggingum Íslands að um vangreiningu hafi verið að ræða, en ekki sé hægt að gefa sér þá niðurstöðu að ekkert varanlegt tjón hafi hlotist af vangreiningunni.

Í ákvörðun stofnunarinnar virðist einnig vera viðurkennt að vangreiningin hafi leitt til tímabundins tjóns fyrir kæranda og þá sé spurning hvort ekki sé rétt að það tjón verði metið eins og gert sé þegar bótaskylda úr sjúklingatryggingu sé viðurkennd hjá stofnuninni, en um þetta segi eftirfarandi í ákvörðun stofnunarinnar: ,,Vangreiningin leiddi þannig til ellefu dögum lengra veikindatímabils en hún leiddi ekki til þess að varanleg mein yrðu meiri. Þannig virðist aðeins hafa átt sér stað tímabundið tjón vegna vangreiningarinnar en ekkert varanlegt,…“

Staða kæranda í dag sé sú að hann kveðst vera með skerta hreyfigetu í vinstri fætinum og alltaf hafa einhver óþægindi í fætinum. Hann kveðst fá þreytuverki og náladofatilfinningu þar við álag og þetta fari vaxandi eftir því sem líði á vinnudaginn. Verkurinn geti verið sár þegar vinnudegi ljúki og fram eftir kvöldi. Að sögn kæranda nái verkurinn frá ökkla og upp undir hné og haldi oft fyrir honum vöku að kvöldi til og fyrir komi að hann vakni við verk á næturnar. Þá kveðst kærandi hafa skertan kraft við að lyfta vinstri fætinum um ökklann. Kærandi telji því ljóst að hann hafi orðið fyrir líkamstjóni sem bótaskylt sé samkvæmt lögum nr. 111/2000.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi höfnun Sjúkratrygginga Íslands á bótarétti hans samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telji að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hann eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns þess sem hafi hlotist af vangreiningu á sinaskaða á bráðadeild Landspítalans þann X.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að umsóknin hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 2. júlí 2014. Kærandi hafi slasast á hægri fæti X þegar hann missti [...] og fékk af honum sár á neðanverðan hægri fótlegg að framanverðu. Hann hafi leitað á bráðadeild Landspítala eftir slysið þar sem gert var að áverkanum. Tilkynning um sjúklingatryggingaratvik hafi verið grundvölluð á því að læknum bráðadeildar Landspítala hafi yfirsést rof í sin fremri sköflungsvöðva (m. tibialis anterior). Við saumatöku um níu dögum eftir slysið hafi komið í ljós að sinin var í sundur og hefði að öllum líkindum verið það á slysdegi.

Sjúkratryggingar Íslands hafi farið yfir mál kæranda og það liggi fyrir að vangreining hafi átt sér stað á þeim áverka sem kærandi hlaut í slysinu. Sinin hafi verið í sundur, að hluta til eða að fullu, og það hafi leitt til aðgerðar þann X, tíu dögum eftir slysið. Samkvæmt öllum gögnum málsins hafi hún heppnast vel og vel hafið gengið að sauma sinaendana saman. Ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. janúar 2016, hafi tekið mið af því að aðgerð hafi tekist, enda hafi hún verið gerð vel innan þeirra marka sem unnt sé með viðunandi árangri. Þar sem ekkert varanlegt tjón hafi leitt af sjúklingatryggingaratvikinu, vangreiningu á rofi í sin fremri sköflungsvöðva, hafi umsókninni verið synjað. Sú ákvörðun hafi verið kærð og þar sem kærandi telji að hann hafi orðið fyrir varanlegum afleiðingum vegna sjúklingatryggingaratviks þyki rétt að rekja aðeins inntak 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Við mat á því hvort heilsutjón falli undir 1. tölul. 2. gr. beri að líta til þess hvort ranglega hafi verið staðið að meðferð sjúklings. Þegar um vangreiningu eða ranga greiningu sé að ræða hafi verið miðað við hvað gegn og skynsamur læknir hefði gert undir sömu kringumstæðum. Með orðalaginu „að öllum líkindum“ sé átt við að það verði að vera meiri líkur en minni á því að tjónið megi rekja til einhverra þessara atvika. Það sé ófrávíkjanlegt skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar eða rannsóknar sem hann hafi gengist undir. Í greinargerð með lögunum kemur fram að áskilið sé að meiri líkur en minni þurfi alltaf að vera til staðar fyrir því að atvik sé að rekja til þess að greining hafi verið röng eða læknismeðferð ekki forsvaranleg.

Að framansögðu verði að leggja til grundvallar að bæði skilyrðin, er varði orsök og afleiðingu, þurfi að vera uppfyllt. Að öðrum kosti teljist bótaskylda ekki vera til staðar. Því sé ekki nóg að viðkomandi hafi fengið meðferð, sem alla jafna sé ekki talin sú besta eða viðunandi miðað við aðstæður, heldur þurfi að sýna fram á að meiri líkur en minni séu fyrir því að tjón sé að rekja til þess. Þetta komi fram í athugasemd í greinargerð með 2. gr. laganna, að sjúklingatrygging bæti ekki tjón sem sé afleiðing grunnsjúkdóms eða áverka. Ef engu verði slegið föstu um orsök tjóns verði að vega og meta allar hugsanlegar orsakir. Ef niðurstaðan sé sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi. Sama gildir ef ekkert verði sagt um hver sé líklegasta orsök tjóns. Það sé því skilyrði bóta úr sjúklingatryggingu að orsakatengsl séu á milli heilsutjóns sjúklings og þeirrar meðferðar sem hann hafi gengist undir, þ.e. tjón sé afleiðing meðferðarinnar.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram rökstuðningur fyrir því að ekki hafi leitt tjón af því þótt rétt greining og meðferð hafi dregist um tíu daga. Aðgerðin hafi farið fram vel innan þess tímaramma sem miðað sé við enda liggi fyrir að vel hafi tekist til og engum vandkvæðum hafi verið bundið að sauma saman sinina. Ekki hafi verið bent á það í kæru hvað í ferlinu hafi leitt til tjónsins. Það sé vel þekkt að árangur af því að sauma eða beita svokallaðri conservatívri meðferð tryggi aldrei öruggan árangur. Það sé því ljóst, um leið og fyrir liggi að sinin hafi verið í sundur, að mörgum óvissuþáttum sé háð hvernig til takist. Það hafi ekkert með það að gera að aðgerðin hafi dregist um 10 daga.

Kærandi hafi orðið fyrir tjóni við slysið, sin hafi skorist í sundur, og þá þegar hafi mátt vera ljóst að einhverjar líkur stæðu til þess að hann yrði ekki eins settur og hefði slysið ekki átt sér stað. Það sé einfaldlega eðli sinaáverka. Fram komi í gögnum málsins, meðal annars kæru, að hreyfigeta sé nánast sú sama um hægri og vinstri ökkla. Ekkert sé óeðlilegt við það að stirðleiki ásamt einhverri rýrnun leiði af því að vera í umbúðum og án ástigs um tíma vegna batatímabils eftir aðgerð á fæti. Sem fyrr segi hafi það ekki leitt af því að aðgerðin hafi frestast um tíu daga.

Líkt og vikið sé að í kæru sé ekki ágreiningur um það að læknum bráðadeildar Landspítala hafi yfirsést að sinin hafi verið sködduð eða í sundur þegar kærandi hafi mætt þar til aðhlynningar eftir slys þann X. Afstaða Sjúkratrygginga Íslands í ákvörðun, dags. 5. janúar 2016, liggi í því að ekki hafi orðið tjón af völdum vangreiningarinnar, sem nái lágmarki samkvæmt 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Ákvæði 5. gr. laganna miðist við bótafjárhæðir þegar lögin voru sett, þann 1. janúar 2001. Fjárhæðir séu vísitölutryggðar þannig að greind fjárhæð sé öllu hærri eða 89.773 kr. þann 1. janúar 2011. Ljóst sé að þjáningabætur í tíu daga hafi ekki gefið það tjón sem um ræði og nái lágmarki, en útséð sé að annað tjón hafi ekki leitt af nefndri töf. Með vísan í framanritað beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun, enda hafi engin ný gögn komið fram sem bendi til þess að tjón hafi orðið af sjúklingatryggingaratvikinu.

Það sé þannig mat Sjúkratrygginga Íslands að í málinu hafi átt sér stað vangreining en sú vangreining hafi ekki leitt til tjóns, hvorki tímabundins né varanlegs, fyrir kæranda. Þau einkenni sem hann kenni nú verði því að öllu leyti rakin til upphaflega áverkans, en ekki meðferðarinnar sem hafi verið veitt við áverkanum. Með vísan til þessa séu skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ágreining um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna vangreiningar á rofi á sin í fremri sköflungsvöðva á bráðadeild Landspítala þann X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr., eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem hefði mátt komast hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga nr. 111/2000. Sjúkratryggingar Íslands hafa viðurkennt að vangreining hafi átt sér stað í tilviki kæranda en synjuðu bótaskyldu í málinu á þeim grundvelli að vangreiningin hefði ekki leitt til varanlegs tjóns fyrir kæranda heldur einungis tímabundins tjóns. Kærandi mótmælir þeirri afstöðu Sjúkratrygginga Íslands að ekkert varanlegt tjón hafi hlotist af vangreiningunni og byggir á því að meta þurfi það atriði sérstaklega. Þá telur kærandi rétt að tímabundið tjón hans sé metið. Kemur því til skoðunar hvort framangreind töf á greiningu hafi haft í för með sér tjón fyrir kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Samkvæmt gögnum málsins leitaði kærandi á bráðadeild Landspítala þann X eftir að hafa misst [...] og fengið af honum sár á neðanverðan hægri fótlegg að framanverðu. Í áverkavottorði er lýst 2 cm löngum skurði neðarlega á sköflungi með skítugum skurðbrúnum. Fram kemur að skurðurinn hafi verið hreinsaður og saumaður en ekki hafi sést nein merki um sinaskaða. Kærandi fór í saumatöku á Heilsugæsluna C þann X og við skoðun er því lýst að hann geti ekki hreyft fótinn eðlilega upp og þroti og bjúgur séu í kringum sár. Kæranda var vísað til bráðadeildar Landspítala og hann leitaði þangað sama dag. Hann var sendur í ómskoðun sem leiddi í ljós að sin í fremri sköflungsvöðva var í sundur. Kærandi gekkst undir aðgerð þann X þar sem endar sinarinnar voru saumaðir saman. Í lok aðgerðar voru lagðar gipsumbúðir og áformuð slík meðferð í sex vikur. Við eftirlit þann X voru saumar fjarlægðir og kærandi fékk göngugips. Við eftirlit þann til X var gips fjarlægt og kærandi fékk beiðni til sjúkraþjálfara og ráðleggingar varðandi æfingar. Við eftirlit þann X kvartaði kærandi undan verkjum í fætinum og fram kom að hann hefði verið í sjúkraþjálfun töluvert lengi. Við skoðun var því lýst að kærandi væri aðeins aumur yfir sininni en samfella væri góð við þreifingu. Þá segir að þegar kærandi beygi ökklann þá spennist sinin töluvert út. Hreyfigetu er lýst sem ágætri en sagt að kannski sé hægri ökklinn örlítið stífari en sá vinstri.

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 er það skilyrði fyrir greiðslu bóta að tjón megi að öllum líkindum rekja til sjúklingatryggingaratburðar. Fyrir liggur að töf varð á greiningu á rofi á sin í fremri sköflungsvöðva. Vegna tafarinnar gekkst kærandi ekki undir aðgerð til að sauma saman enda sinarinnar fyrr en X eða tíu dögum eftir slysið. Í ljósi þess að það dróst að gera aðgerðina er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að batatímabil kæranda hafi lengst sem nemur tíu dögum vegna vangreiningarinnar. Hefur kærandi því orðið fyrir tímabundnu tjóni sem er bótaskylt samkvæmt 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000. Eins og málið er upplýst liggur þó ekki nægilega fyrir hvert tjón kæranda er af þessum sökum og er málinu því vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni kæranda vegna sjúklinga-tryggingaratviksins.

Með vísan til þess sem rakið er hér að framan er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að bótaskylda í málinu sé viðurkennd. Málinu er vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Viðurkennd er bótaskylda í máli A, samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna vangreiningar á rofi á sin í fremri sköflungsvöðva á bráðadeild Landspítala þann X. Málinu er vísað aftur til Sjúkratrygginga Íslands til mats á tjóni kæranda.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta