Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Úrskurður nr. 16 - Aðild að íslensku almannatryggingakerfi

A

gegn


Tryggingastofnun ríkisins


Ú r s k u r ð u r.


Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.


Með bréfi dags. 17. janúar 2006 til úrskurðarnefndar almannatrygginga kærir A ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2005 þegar honum var synjað áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu eftir búferlaflutninga til Frakklands.


Óskað er endurskoðunar.


Málavextir eru þeir að með erindi dags. 17. ágúst 2005 til Tryggingastofnunar sótti kærandi um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu áður en hann fluttist til Frakklands. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 24. ágúst 2005, var beiðni kæranda synjað af eftirfarandi ástæðum:


„Í umsókn yðar kemur fram að þér hyggist flytjast til Frakklands til frambúðar. Þá kemur einnig fram að ekki sé um að ræða útsendingu á vegum B.


Samkvæmt 9. gr. a. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er búseta hér á landi skilyrði almannatryggingaverndar nema að annað leiði af milliríkjasamningum.


Á milli Frakklands og Íslands gildir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sbr. lög nr. 2/1993. Samkvæmt EES reglugerð nr. 1408/71 er meginreglan sú að einstaklingur skal heyra undir löggjöf þess ríkis þar sem vinna hans fer fram, óháð því hvaðan tekjur eru greiddar. Frá þessari meginreglu eru þó að finna ákveðnar undantekningar. Til dæmis varðandi starfsmenn sem sendir eru tímabundið til starfa erlendis. Eiga þær undantekningar ekki við í tilviki yðar.


Af þessum sökum er ekki unnt að verða við beiðni þinni um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu þrátt fyrir búferlaflutninga til Frakklands.“


Kærandi ítrekaði fyrri umsókn með tölvubréfi til Tryggingastofnunar þann 22. september s.á. Svar stofnunarinnar er dags. 18. október 2005 og er þar ítrekuð fyrri afgreiðsla stofnunarinnar á umsókn kæranda.


Í rökstuðningi fyrir kæru segir m.a.:


„Ég undirritaður, A, kæri hérmeð úrskurð Tryggingastofnunar ríkisins (TR) frá 18. október, sbr. meðfylgjandi bréf, þar sem umsókn minni um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu, þrátt fyrir dvöl erlendis, er hafnað.


Um þá aðild var sótt áður en haldið var af landi brott og svo aftur eftir að út var komið; ekki síst þar sem frönsk stjórnvöld hafa synjað mér um aðild að tryggingakerfi sínu. Það gera þau á þeirri forsendu að ég hafi tekjur af starfsemi fyrir fyrirtæki á Íslandi og borgi skatta þar. Vísa þau í reglur ESB og segja mig heyra undir íslenska löggjöf.“


Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 18. janúar 2006 eftir greinargerð Trygginga­stofnunar. Greinargerðin er dags. 25. janúar 2006. Þar segir:


„Þann 18. ágúst 2005 barst Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu eða útgáfu E-101 IS vottorðs um hvaða löggjöf skuli gilda vegna búsetu og vinnu innan EES svæðisins. Umsókninni var synjað með bréfi stofnunarinnar dags. 24. ágúst 2005 þar sem ekki var um að ræða útsendingu á vegum vinnuveitanda. Með tölvupósti þann 22. september var umsóknin ítrekuð og óskað eftir að gefið yrði út E-106 IS vottorð um rétt til aðstoðar vegna veikinda, meðgöngu og fæðingar fyrir þá sem búa í öðru landi. Var þeirri ítrekun synjað með bréfi alþjóðamála þann 18. október 2005 á þeim grundvelli að miðað við fyrirliggjandi gögn teljist kærandi heyra undir franska löggjöf. Er þessi ákvörðun nú kærð til úrskurðarnefndarinnar.


Samkvæmt 9. gr. a laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er sá sem er búsettur hér á landi tryggður að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt upplýsingum úr lögheimilisskrá þjóðskrár flutti umsækjandi lögheimili sitt frá Íslandi þann 1. september 2005 og samkvæmt umsókn hans er um búferlaflutninga til frambúðar að ræða. Uppfyllir kærandi samkvæmt þessu ekki búsetuskilyrði almannatryggingalaga til þess að teljast tryggður á Íslandi. Koma því milliríkjasamningar til skoðunar.


Á milli Frakklands og Íslands gildir samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sbr. lög nr. 2/1993. Ákvörðun um það undir hvers lands löggjöf launþegi sem flytur á milli aðildarríkja EES-svæðisins heyrir fer því eftir ákvæðum 13. -17. gr. ESB reglugerðar nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja sbr. viðauka VI við EES samninginn sbr. reglugerð 587/2000 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Af þessum sökum fer ákvörðun um það hvort einstaklingur heyri undir íslenska löggjöf eftir ákvæðum ESB reglugerðar nr. 1408/71 en ekki 9. gr. b. laga nr. 117/1993 þegar um er að ræða búferlaflutninga á milli Íslands og Frakklands.


Meginregla ESB reglugerðar nr. 1408/71 er sú að einstaklingur skal heyra undir löggjöf þess ríkis þar sem vinna hans fer fram, óháð því hvaðan tekjur eru greiddar, þ.e.a.s. launþeginn heyrir undir vinnulandslöggjöfina, „lex loci laboris." Kemur þessi regla fram í a.lið 2. mgr. 13. gr. Undantekningar frá meginreglunni er að finna í 14.-­17. gr. reglugerðarinnar. Þar kemur fram að til þess að um útsendingu sé að ræða þurfi viðkomandi að vera sendur til starfa í öðru aðildarríki fyrir það fyrirtæki sem hann starfar að jafnaði hjá, áætlaður dvalartími erlendis má ekki vera lengri en 12 mánuðir. Skilyrði 14. gr. -14. gr. c um útsendingu eru ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Í f. lið 2. mgr. 13. gr. kemur fram að í þeim tilvikum sem einstaklingur hættir að heyra undir löggjöf eins aðildarríkis án þess að löggjöf annars aðildarríkis taki við á grundvelli einhvers af ákvæðum 13. gr. eða í samræmi við undantekningar 14.-17.gr. heyrir undir löggjöf aðildarríkisins þar sem hann er búsettur, í samræmi við ákvæði þeirrar löggjafar einnar. Af þessu má sjá að öll ákvæði II. bálks reglugerðar 1408/71 leiða til þess að kærandi heyri undir franska löggjöf.


Í umsókn kæranda kemur fram að ekki sé um útsendingu að ræða heldur séu um að ræða búferlaflutninga til frambúðar og að hann muni sinna störfum fyrir fyrri vinnuveitanda sinn í lausamennsku. Samkvæmt umsókn kæranda munu þessi störf að öllu leyti fara fram í Frakklandi telst hann því heyra undir franska löggjöf þrátt fyrir að tekjur séu greiddar á Íslandi. Þá kemur fram í kæru að föstu ráðningasambandi kæranda við vinnuveitanda á Íslandi hafi lokið þann 1. desember s.l.


Markmið lagaskilareglna ESB reglugerðar nr. 1408/71 er að koma í veg fyrir að einstaklingar sem falla undir reglugerðina heyri undir löggjöf tveggja aðildarríkja samtímis eða heyri ekki undir löggjöf neins aðildarríkis vegna flutnings milli aðildarríkja. Þannig kveða ákvæði reglugerðarinnar á um það hvers lands löggjöf skuli gilda um viðkomandi einstakling en ekki hvaða réttinda viðkomandi njóti undir þeirri löggjöf.


Af ofangreindu má sjá að kærandi uppfyllir ekki skilyrði ESB reglugerðar nr. 1408/71 um útsendingu og ekki er til að dreifa lagaheimildum til þess að telja kæranda heyra undir íslenska almannatryggingalöggjöf þrátt fyrir búsetu og störf í Frakklandi.


Í ljósi framangreinds var umsókn kæranda um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu og útgáfu E-101 & E- 106 vottorða synjað.“


Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 1. febrúar 2006 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir kæranda bárust 20. febrúar 2006 og hafa þær verið kynntar Tryggingastofnun. Úrskurðarnefndin tók málið fyrir á fundi sínum 1. mars 2006. Var þá óskað eftir gögnum frá Tryggingastofnun um franskt almannatryggingakerfi. Málið var aftur tekið fyrir á fundi nefndarinnar 27. mars 2006 og var þá ákveðið að rita kæranda bréf og óska eftir frekari upplýsingum auk þess sem þar var tekið fram að nefndin myndi afla upplýsinga um skattgreiðslur hans á Íslandi. Málið var enn tekið fyrir á fundi 19. apríl 2006. Var þá fallið frá því að kanna skattgreiðslur þar sem slíkt var ekki talið hafa áhrif á afgreiðslu málsins. Málið var svo tekið fyrir og afgreitt á fundi nefndarinnar 28. apríl 2006.



Niðurstaða úrskurðarnefndar:


Mál þetta varðar kröfu kæranda um að vera áfram innan íslenska almannatryggingakerfsins þrátt fyrir ótímabundna búsetu í Frakklandi frá og með 2. september 2005.


Í rökstuðningi fyrir kæru kemur fram að frönsk stjórnvöld hafi synjað kæranda um aðild að þarlendu almannatryggingakerfi á þeirri forsendu að hann hafi tekjur af starfsemi fyrir fyrirtæki á Íslandi og borgi skatta þar. Fer kærandi þess á leit að tilvik hans verði fellt undir ákvæði 9. gr. b. í lögum nr. 117/1993, með síðari breytingum. Kemur einnig fram að þó svo að kærandi sé ekki í föstu starfi frá 1. desember 2005 sinni hann þó m.a. áfram störfum fyrir fyrrverandi vinnuveitanda, B, og muni áfram greiða skatta og gjöld í ríkissjóð Íslands af launum sínum.


Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kæranda hafi verið synjað um áframhaldandi aðild að íslenska almannatryggingakerfinu með ákvörðun stofnunarinnar frá 18. ágúst 2005. Hafi synjun verið byggð á því að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum teldist kærandi heyra undir almannatryggingakerfið í Frakklandi. Í greinargerðinni er vísað til reglugerðar nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sbr. viðauka VI við EES-samninginn, sbr. reglugerð 587/2000 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar. Meginregla reglugerðar nr. 1408/71 sé að einstaklingur skuli heyra undir löggjöf þess ríkis þar sem vinna hans fari fram, óháð því hvaðan tekjur séu greiddar, þ.e. að launþegi heyri undir vinnulandslöggjöfina, og er um það vísað til a. liðar 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar. Undantekningar sé að finna í 14. - 17. gr. reglugerðarinnar. Svokölluð útsending feli í sér að starfsmaður sé sendur til starfa í öðru aðildarríki fyrir það fyrirtæki sem hann starfi að jafnaði hjá, áætlaður dvalartími erlendis megi ekki vera lengri en 12 mánuðir. Skilyrði 14. - 14. gr. c reglugerðarinnar um útsendingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Kærandi hafi greint frá því að um búferlaflutninga til frambúðar sé að ræða og hann muni sinna störfum fyrir fyrri vinnuveitanda sinn í lausamennsku en föstu ráðningarsambandi hafi, samkvæmt upplýsingum kæranda, lokið 1. desember 2005. Kemur einnig fram í greinargerðinni að þar sem þessi störf muni að öllu leyti fara fram í Frakklandi teljist kærandi heyra undir franska löggjöf þrátt fyrir að tekjur séu greiddar á Íslandi.


Í 9. gr. a. laga nr. 117/1993 kemur fram að þeir sem búsettir eru hérlendis teljist tryggðir samkvæmt lögunum, að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Kemur fram í 2. mgr. 9. gr. að með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi lögheimilislaga. Fyrir liggur að kærandi flutti lögheimili sitt frá Íslandi 1. september 2005.


Kærandi uppfyllir ekki búsetuskilyrði almannatryggingalaga til þess að teljast tryggður á Íslandi og koma milliríkjasamningar því til skoðunar. Bæði Ísland og Frakkland eru aðilar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sbr. lög nr. 2/1993. Reglugerð nr. 1408/71 um beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum, sjálfstætt starfandi einstaklingum og aðstandendum þeirra sem flytjast á milli aðildarríkja, sbr. viðauka VI við EES-samninginn, sbr. reglugerð nr. 587/2000 um gildistöku reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar kemur til skoðunar þegar ákvarða þarf undir hvers lands löggjöf viðkomandi aðili heyrir. Í 13. gr. – 17. gr. reglugerðarinnar eru ákvæði sem hér koma til athugunar. Í a-lið 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar kemur fram sú meginregla að einstaklingur skuli heyra undir löggjöf þess ríkis þar sem vinna fer fram. Í b-lið 2. mgr. 13. gr. segir svo að einstaklingur sem starfar sjálfstætt á yfirráðasvæði eins aðildarríkis skuli heyra undir löggjöf þess ríkis, jafnvel þótt hann búi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis. Undantekningar frá framangreindu er að finna í 14.-17. gr. reglugerðarinnar. Í a-lið 1. mgr. 14. gr. segir að einstaklingur sem ráðinn er hjá fyrirtæki í aðildarríki sem hann starfar að jafnaði hjá og sendur er til annars aðildarríkis til vinnu fyrir fyrirtækið skuli halda áfram að heyra undir löggjöf fyrra ríkisins. Skilyrði þess er að áætlaður dvalartími sé ekki lengri en tólf mánuðir. Á það ekki við um kæranda sem ekki er lengur í föstu ráðningarsambandi við fyrri vinnuveitanda og hefur ekki í hyggju að dvelja tímabundið í Frakklandi. Í a-lið 1. mgr. 14. gr. a. segir að einstaklingur sem starfar að jafnaði sjálfstætt á yfirráðasvæði aðildarríkis en starfar í öðru aðildarríki skuli áfram heyra undir löggjöf fyrra ríkisins, enda sé áætlaður starfstími ekki lengri en tólf mánuðir. Á sú undantekningarregla ekki við um kæranda samkvæmt málsgögnum.


Kemur fram í gögnum málsins að kæranda hafi verið synjað um aðild að franska almannatryggingakerfinu. Ekki liggur fyrir skrifleg synjun franskra stjórnvalda á umsókn kæranda um aðild að franska almannatryggingakerfinu. Af eðli máls leiðir að það varðar kæranda miklu, að fá úr réttarstöðu sinni skorið hjá frönskum stjórnvöldum. Er kæranda bent á, að leggja inn formlega umsókn hjá frönskum stjórnvöldum og leita aðstoðar og upplýsinga íslenskra stjórnvalda ef nauðsyn krefur.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð:


Synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. október 2005 á umsókn A, um áframhaldandi aðild að íslensku almannatryggingakerfi eftir búferlaflutninga til Frakklands, er staðfest.


F. h. úrskurðarnefndar almannatrygginga


_____________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður





Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta