Mál nr. 141/2023-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 141/2023
Miðvikudaginn 21. júní 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 9. mars 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2022, um leiðréttingu á greiðslum sérstakrar uppbótar til framfærslu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2022, var kærandi upplýstur um leiðréttingu á greiðslum sérstakrar uppbótar til framfærslu frá stofnuninni í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 sem féll í apríl 2022. Auk þess fylgdi kæru bréf Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. febrúar 2023, vegna móttöku nýrrar tekjuáætlunar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. mars 2023. Með bréfi nefndarinnar, dags. 14. mars 2023, var kærandi beðinn um að upplýsa hvaða ákvörðun væri að kæra. Jafnframt var honum tilkynnt að kæra vegna ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2022, hafi borist að liðnum kærufresti og var honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum, teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gætu átt við í málinu. Bréf nefndarinnar var ítrekað með tölvupósti 11. maí 2023. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun um leiðréttingu og fjárhæð uppbótar frá 2018. Kærandi sé ekki sammála því að hann hafi verið meira erlendis en á Íslandi á árunum 2018 til 2022.
Á árinu 2018 hafi kærandi verið í endurhæfingu, hann hafi farið í aðgerð á Landspítalanum, farið í meðferð og lent í bílslysi. Auk þess hafi hann verið í stöðugri umönnun læknis á Heilsugæslunni B og þurfi enn verkjalyf sem hann kaupi alltaf. Þar að auki fari hann í segulómskoðun á nokkurra mánaða fresti.
Kærandi hafi leigt íbúð í 15 ár eða til 1. janúar 2021 en vegna peningaleysis og þörf hans á aðstoð við heimilisstörf hafi hann flutt til […] í 14 mánuði.
Kærandi eigi bíl, borgi skatta, tryggingar og heimanet. Fjölskyldan hjálpi honum mikið með búsetu og hversdagsleikann. Kærandi hafi verið í stöðugu sambandi við lögfræðing í fimm ár.
Það sé rétt að kærandi hafi farið til C, eins og allir aðrir, en hann búi enn á Íslandi. Í C eigi hann ekkert en hér hafi hann allt og fjölskyldu hans.
[…] kæranda hafi verið mjög veik í nokkur ár og þau hafi sent peninga til C vegna hennar. Kærandi hafi farið til […] vegna þess að læknirinn hafi sagt að dauðinn væri að nálgast. Hún hafi fallið frá 20. nóvember 2022, sem hafi haft áhrif á sálarlíf hans. Auk þess hafi […] látist 14. desember 2022. Það hafi haft mjög slæm áhrif á sálarlíf kæranda og allt hans líf að hafa farið í tvær jarðafarir á svo stuttum tíma. Kærandi sé að upplifa áföll, kannski sé dagurinn í dag betri en sumir dagar séu mjög slæmir og einnig sjúkdómur hans. Kærandi fari vinsamlegast fram á leiðréttingu á gjaldföllnum greiðslum vegna þess að allt sem hann eigi sé á Íslandi og hann eigi ekkert.
III. Niðurstaða
Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að mál þetta varði ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. desember 2022, þar sem kærandi var upplýstur um leiðréttingu á greiðslum sérstakrar uppbótar til framfærslu frá 1. maí 2018 til 1. maí 2022 frá stofnuninni í samræmi við dóm Hæstaréttar í máli nr. 52/2021 sem féll í apríl 2022.
Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.
Samkvæmt gögnum málsins liðu þrír mánuðir og átta dagar frá því að kæranda var tilkynnt um kærða ákvörðun 1. desember 2022 þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. mars 2023. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæran barst nefndinni.
Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:
„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:
1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“
Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort atvik séu með þeim hætti að afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.
Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 1. desember 2022 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. mars 2023, var kæranda veittur kostur á að koma að athugasemdum og/eða gögnum teldi hann að skilyrði, sem fram kæmu í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, gætu átt við í málinu. Hvorki bárust athugasemdir né gögn frá kæranda. Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að […] hafi fallið frá í nóvember 2022 og í desember sama ár hafi […] einnig fallið frá og að þessi áföll hafi leitt til andlegra erfiðleika. Úrskurðarnefndin telur framangreindar upplýsingar ekki þess eðlis að unnt sé að líta svo á að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.
Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir