Mál nr. 259/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 259/2024
Miðvikudaginn 18. september 2024
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, móttekinni 6. júní 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024, um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2023.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2023 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 84.955 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu kröfunnar með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. maí 2024.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 6. júní 2024. Með bréfi, dags. 11. júní 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. júní 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 1. júlí 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. júlí 2024 sem voru sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júlí 2024. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru kemur fram að við endurútreikning Tryggingastofnunar hafi verið tekið mið af leigutekjum og hugsanlega öðrum fjármagnstekjum frá fyrverandi maka. Þau hjónin hafi skilið á árinu 2023 og hafi fjármál þeirra verið aðskilin það ár. Leigutekjur fyrrverandi eiginkonu kæranda hafi verið tilkomnar eftir skilnað þeirra og séu kæranda óviðkomandi. Þess sé óskað að eingöngu hans tekjur séu teknar til viðmiðunar í málinu.
Í athugasemdum kæranda frá 2. júlí 2024 kemur fram að í fyrsta lagi hafi kærandi andmælt endurútreikningnum, í því sambandi vísar kærandi í skjáskot af samskiptum hans við starfsmann Tryggingastofnunar.
Í öðru lagi hafi kærandi ekki getað breytt tekjuáætlun þar sem leigutekjurnar hafi verið frá fyrrverandi maka og hafi ekki orðið til fyrr en eftir skilnað og þess vegna hafi hann ekki vitað um þær, enda hafi honum skilist á samtali nýlega að fyrrverandi eiginkona hans hafi stofnað til þessarar leigu eftir fjárskipti þeirra.
Í þriðja lagi sé ekki hægt að sjá fyrir hversu miklir vextir verði af innistæðum árið 2024 þannig að settir hafi verið inn vextir af innistæðum til viðmiðunar.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði uppgjör og endurreikning.
Í 22. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar sé kveðið á um tilhögun tekjutengdra bóta. Í 1. mgr. komi fram hvað teljist til tekna samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2033 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4., og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.
Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 48. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Einnig komi fram í 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem komi fram í skattframtölum.
Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið ofgreiddar fari um það samkvæmt 34. gr. laganna. Þar komi fram sú skylda Tryggingastofnunar að innheimta ofgreiddar bætur. Sú meginregla sé ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Kærandi hafi verið á örorkulífeyri hjá Tryggingastofnun frá 1. maí 2021. Með bréfi, dags. 28. maí 2024, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2023. Niðurstaðan hafi verið skuld að upphæð 84.955 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2023 hafi numið hærri upphæð en hann hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2023.
Samkvæmt framangreindu hafi leigutekjur kæranda fyrir árið 2023 verið 992.775 kr. sem ekki hafi verið gert var ráð fyrir í tekjuáætlun og hafi þær leitt til ofgreiðslukröfu. Þetta hafi leitt til 84.955 kr. mismunar að frátaldri staðgreiðslu skatta. Kærandi geri athugasemd við kröfuna þar sem hann hafi ekki verið með leigutekjur skráðar á sig þar sem uppruni þeirra hafi verið hjá fyrrum maka sem hann hafi skilið við um mitt ár 2023. Kærandi hafi ekki andmælt niðurstöðu endurreikningsins heldur kært niðurstöðuna beint til úrskurðarnefndar.
Við útreikning Tryggingastofnunar hafi leigutekjurnar haft áhrif á réttindi á þeim tíma sem hann hafi verið giftur. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi skilið við maka sinn 25. maí 2023. Í uppgjöri hjá Tryggingastofnun hafi leigutekjunum verið skipt til helminga tímabilið janúar til maí, þegar kærandi hafi enn verið giftur. Eftir júnímánuð hafi ekki verið reiknað með leigutekjunum. Útreikningurinn sé þar af leiðandi tímabilaskiptur og réttindi hafi miðast við þær forsendur. Kæranda hafi jafnframt verið boðið að greiða ofgreiðslukröfuna á 12 mánuðum og nemi endurgreiðsla á mánuði 7.079 kr. vaxtalaus.
Sökum þess að kærandi hafi ekki sent inn uppfærða tekjuáætlun varðandi leigutekjur sem hann hafi fengið greiddar hafi það leitt til 84.955 kr. mismunur. Til grundvallar bótaútreikningi hafi verið tekjur bótagreiðsluársins í samræmi við 1 mgr. 33. gr. laga um almanntryggingar. Tekjurnar hafi verið áætlaðar á grundvelli upplýsinga frá kæranda í samræmi við 47. og 48. gr. laga um almannatryggingar.
Eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur greiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum hafi Tryggingastofnun verið skylt að endurreikna fjárhæðir greiðslna á grundvelli endanlegra upplýsinga um tekjur greiðsluþega á árinu sem hafi legið þá fyrir, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Hafi Tryggingastofnun ofgreitt bætur til greiðsluþega sé stofnuninni skylt að endurkrefja það sem ofgreitt hafi verið í samræmi við 34. gr. laganna. Meginreglan sé því sú að ef tekjur sem lagðar séu til grundvallar endurreikningi hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður skuli sú ofgreiðsla endurkrafin. Skipti þá ekki máli hvort greiðsluþegi hafi getað séð fyrir þessa tekjuaukningu eða vegna breyttra aðstæðna.
Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna kæranda vegna ársins 2023 hafi verið réttur, byggður á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum. Tryggingastofnun fari því fram á að niðurstöður endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna verði staðfestar af nefndinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023.
Kærandi fékk greiddan örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins á árinu 2023. Samkvæmt 47. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.
Í 30. gr. og 33. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 1. mgr. greinarinnar segir að til tekna samkvæmt VI. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt með tilteknum undantekningum. Á grundvelli 3. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Leiði endurreikningur í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 34. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.
Meginreglan er sú að til grundvallar útreikningi greiðslna hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum almanaksárs, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 33. gr. laga um almannatryggingar. Í 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 er fjallað um endurreikning við breyttar aðstæður innan bótagreiðsluárs. Í 1. mgr. 2. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að við endurreikning bóta til þeirra sem bótaréttur breytist hjá í kjölfar breyttra aðstæðna, sbr. 2. mgr. 6. gr., gildi eftirfarandi:
„a. Byggja skal á upplýsingum úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda þegar um er að ræða tekjur sem eru staðgreiðsluskyldar samkvæmt lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda. Ef bótagreiðsluár skiptist í tvö eða fleiri útreikningstímabil skal endurreikningur bóta taka mið af því á hvaða tímabili þessar tekjur eru skráðar í staðgreiðsluskrá.
b. Aðrar tekjur en þær sem greinir í a-lið 2. mgr. skulu hafa áhrif á endurreikning bóta í hlutfalli við fjölda þeirra mánaða sem tilheyra hverju tímabili. Þegar hjúskap eða sambúð er slitið á bótagreiðsluári er þó heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist.“
Í 46. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að Tryggingastofnun skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun um bótarétt er tekin, þar á meðal að öll nauðsynleg gögn og upplýsingar liggi fyrir.
Samkvæmt gögnum málsins gerði tillaga Tryggingastofnunar ríkisins að tekjuáætlun ráð fyrir að kærandi fengi 4.844.940 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 229.584 kr. í fjármagnstekjur á árinu 2023. Kærandi lagði fram nýja tekjuáætlun 31. júlí 2023 þar sem hann gerði ráð fyrir 5.128.543 kr. í lífeyrissjóðstekjur og 229.584 kr. í fjármagnstekjur, sem Tryggingastofnun samþykkti með bréfi, dags. 31. júlí 2024. Greiðslur ársins voru greiddar út frá framangreindum tekjuforsendum.
Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2023 reyndust tekjur kæranda hafa verið 75.000 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 4.966.472 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 4.367 kr. í aðrar tekjur. Þá miðaði Tryggingastofnun við að kærandi hefði haft 1.069.503 kr. í fjármagnstekjur, nánar til tekið 76.728 kr. í vexti og verðbætur og 992.775 kr. í leigutekjur, að hluta til sameiginlegar með fyrrverandi maka. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins leiddi í ljós 84.955 kr. ofgreiðslu á árinu 2023 að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.
Samkvæmt framangreindu reyndust tekjur kæranda vera hærri á árinu 2023 en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða hagnað af atvinnustarfsemi og fjármagnstekjur, n.t.t. leigutekjur og vextir og verðbætur, sem eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 30. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A-lið og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist á hendur kæranda er að umræddir tekjustofnar voru vanáætlaðir í tekjuáætlun. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.
Í máli þessu snýst ágreiningurinn um hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að skerða bætur kæranda vegna leigutekna fyrrverandi maka kæranda sem mynduðust á árinu 2023. Kærandi byggir á því að framangreindar leigutekjur hafi orðið til eftir skilnað þeirra og eigi því ekki að skerða greiðslur til hans.
Tryggingastofnun hefur ekki svarað framangreindri málsástæðu kæranda í greinargerð til úrskurðarnefndarinnar og af gögnum málsins verður ráðið að stofnunin hafi ekki rannsakað hvort hún ætti við rök að styðjast. Í b-lið 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 598/2009 kemur fram að þegar hjúskap eða sambúð er slitið á bótagreiðsluári sé heimilt að undanskilja þessar tekjur að hluta eða öllu leyti við endurreikning tímabilsins eftir að hjúskaparstaða breyttist. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála gefa upplýsingar í kæru tilefni til að rannsaka málið frekar og gefa kæranda kost á að sýna fram á hvenær umræddar leigutekjur féllu til á árinu 2023.
Úrskurðarnefndin telur því að málið sé ekki nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 46. gr. laga um almannatryggingar. Að því virtu telur úrskurðarnefndin rétt að vísa málinu aftur til Tryggingastofnunar til rannsóknar á framangreindu.
Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að fella úr gildi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2023. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2023, er felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir