Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 588/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 588/2023

Miðvikudaginn 15. maí 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, sem barst 3. desember 2023, kærði A, ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 22. nóvember 2023 um niðurfellingu skráningar kæranda og þeirra sem með honum dvöldust erlendis til sjúkratrygginga.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi flutti til B í nám ásamt eiginkonu sinni og börnum og nutu þau undanþágu frá lögum nr. 112/2008 um sjúkratryggingar til að halda sjúkratryggingu á meðan námi stæði og í allt að sex mánuði frá námslokum. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 29. mars 2023, tilkynnti stofnunin kæranda að sjúkratrygging hans hefði verið felld niður frá 16. febrúar 2022 þar sem hann hefði lokið námi þann 15. ágúst 2021. Kærandi lagði fram staðfestingu á framlengingu námsins og að námslok yrðu 31. desember 2022. Sjúkratryggingar Íslands tilkynntu með bréfi, dags. 12. apríl 2023, að ekkert yrði af niðurfellingu sjúkratrygginganna fyrr en 30. júní 2023, þ.e. sex mánuðum eftir námslok. Kærandi sendi Sjúkratryggingum Íslands tölvupóst þann 19. nóvember 2023 og óskaði endurskoðunar á niðurfellingu skráningar til sjúkratrygginga. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. nóvember 2023, var kæranda tilkynnt um að niðurfelling sjúkratrygginga stæði óbreytt, þ.e. hún hafi fallið niður 30. júní 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 3. desember 2023. Með bréfi, dags. 16. janúar 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 5. febrúar 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 7. febrúar 2024. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2024 bárust athugasemdir frá kæranda ásamt viðbótargögnum og voru þau send Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. mars 2024. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands og að sjúkratrygging verði endurnýjuð samstundis.

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi nýverið lokið […]námi í B og hafi fylgt því eftir með […] til að sækja sér ákveðna sérfræðiþekkingu. Þau séu þó á heimleið til Íslands núna eftir að náminu hafi lokið. Sem standi séu þau með annan fótinn í B og annan á Íslandi á meðan þau séu að ganga frá lausum endum og sinna þeim fjölmörgu erindum sem fylgi búferlaflutningum á milli landa. Þau séu með lögheimili á Íslandi og hafi dvalið þar löngum stundum á þessu ári til að sinna þessum erindum, til að mynda hafi þau eytt sumrinu á Íslandi, kærandi hafi verið þar í september og eiginkona hans sé nýkomin til B eftir nokkurra vikna dvöl á Íslandi. Jafnframt sé elsti sonur þeirra alkominn til Íslands á undan þeim. Hann hafi farið á undan til að geta hafið nám við framhaldsskóla á Íslandi.

Með öðrum orðum þá standi þau frammi fyrir því að standa í flutningunum án sjúkratrygginga. Þau geti því ekki sótt sér nauðsynlega læknisþjónustu þessa stundina, hvorki í B né á Íslandi. Jafnframt eigi þau ekki rétt á tryggingu í B þar sem þau séu á heimleið. Þar af leiðandi gæti sú staða komið upp að einhver í fjölskyldunni veikist, börn eða fullorðnir, en þau hefðu enga tryggingu fyrir því að sækja sér viðeigandi læknisþjónustu. Það sé fullkomlega ólíðandi og kærandi geti ekki ímyndað sér að hægt sé að útskúfa þeim á þennan hátt fyrir að sækja sérfræðinám erlendis og flytja þá þekkingu heim að nýju.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að sjúkratryggingar kæranda og fjölskyldu hans hafi verið felldar niður þann 30. júní 2023 á þeim forsendum að sex mánuðir væru liðnir frá námslokum og þau væru ekki flutt búferlum til baka til Íslands. Þessi niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands sé kærð á þeim forsendum að þau séu með lögheimili á Íslandi, dvelji þar löngum stundum, meðal annars vegna atvinnu, og þurfi nauðsynlega á aðgengi að læknisþjónustu að halda. Því fari þau fram á undanþágu frá afnámi sjúkratryggingar til samræmis við 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá.

Fram kemur að kærandi og fjölskylda hafi flutt búferlum til B vegna […]náms kæranda árið 2017. Formlegu námi hafi lokið í desember 2022. Eftir námslok hafi kærandi þegið tímabundna vinnu við sama háskóla og sinni hann þeirri stöðu að svo stöddu. Þar sem um sé að ræða tímabundna stöðu þá séu þau með tímabundið landvistarleyfi til samræmis (H1B/H2B). Þar sem leyfið sé gefið út í nafni kæranda eigi hann rétt á því að fá B kennitölu (e. Social Security Number), sem geri honum kleift að sækja ýmsa þjónustu sem ríki […] sinni. Hann eigi þó ekki réttindi í almannatryggingakerfinu, þ.m.t. sjúkratryggingakerfinu. Aftur á móti eigi eiginkona hans, dóttir og sonur ekki rétt á neinni þjónustu innan samræmds almannatryggingakerfis þar sem þau eigi ekki rétt á því að sækja um kennitölu. Af þeim sökum hafi þau verið með annan fótinn á Íslandi síðastliðin ár og mánuði þar sem þau geti sótt þá læknisþjónustu sem þörf sé á.

Þessi staða hafi eðlilega áhrif á þau öll þar sem þau standi nú í raun utan við sjúkratryggingakerfið bæði á Íslandi og í B. Kona kæranda sé öryrki og glími við langvarandi heilsukvilla sem geti reynst lífshættulegir án læknisþjónustu, þ.m.t. […]. Upp á síðkastið hafi hún ekki getað sótt þá þjónustu sem hún nauðsynlega þarfnist, meðal annars vegna þess að sjúkrahúsið bjóði ekki upp á að greiða fyrir þjónustu á borð við járngjöf (sem hún þarfnist) án tilkomu tryggingafélags. Jafnframt eigi börnin engan rétt er komi að heilbrigðisþjónustu þar, né á Íslandi, eftir niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands.

Verandi með lögheimili á Íslandi, annan fótinn þar vegna vinnu, og óljósa framtíðarstöðu í B, þá telji þau ólíðandi að þeim sé útskúfað úr almannatryggingakerfinu á Íslandi. Það setji þau í gríðarlega erfiða stöðu og skapi heilsufarslega áhættu sem mætti fyrirbyggja með einföldum hætti. Það leiki enginn vafi á því að lagalegur grundvöllur sé til þess að framlengja sjúkratryggingu þeirra, meðal annars samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999, þar sem fjallað sé um rétt til nauðsynlegrar þjónustu vegna alvarlegra sjúkdómstilfella, og 11. gr. sömu reglugerðar þar sem heimilað sé að framlengja tryggingaskráningu í allt að fjögur ár sé talin þörf á því.

Með hliðsjón af því óöryggi sem skapist af því að standa utan við almannatryggingakerfi Sjúkratrygginga Íslands og að öllum skilyrðum uppfylltum biðli þau til úrskurðanefndar velferðarmála að endurskoða afnám tryggingaskráningar þeirra. Þau leggi til að sjúkratryggingin verði staðfest og tryggð svo lengi sem unnt sé svo þau geti sótt nauðsynlega læknisþjónustu og tryggt heilbrigði fjölskyldunnar.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að með ákvörðun, dags. 22. nóvember 2023, hafi Sjúkratryggingar Íslands fellt niður skráningu kæranda og þeirra sem með honum hafi dvalist erlendis til sjúkratrygginga frá og með 30. júní 2023.

Samkvæmt 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sé sjúkratryggður sá sem sé búsettur á Íslandi og hafi verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta sé óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna. Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að ákveða að einstaklingur sé sjúkratryggður samkvæmt lögum nr. 112/2008 þótt hann uppfylli ekki skilyrði 10. gr. laganna, enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki sjúkratryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildi um maka hans sem hafi verið sjúkratryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljist. Sjúkratryggingar Íslands ákvarði hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögum nr. 112/2008, sbr. 4. mgr. 10. gr. laganna. Um nánari útfærslu þessara ákvæða sé fjallað í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá. Í 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 sé fjallað um námsmenn. Þar segi að sá sem sé búsettur og tryggður hér á landi og dveljist erlendis við nám sé áfram tryggður meðan á námi standi enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildi um aðstandendur hans sem með honum dveljist. Með námsmanni sé átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem sé við nám eða starfsþjálfun er ljúki með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt sé af yfirvöldum. Heimilt sé að veita námsmönnum og fjölskyldum þeirra sömu aðstoð og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi njóti meðan á tímabundinni dvöl hér á landi standi á námstímanum. Samkvæmt sömu grein reglugerðarinnar sé heimilt að hafa skráningu óbreytta í tryggingaskrá í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma falli réttur til að vera skráður í tryggingaskrá niður.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. nóvember 2023, komi auk framangreinds fram að:

„Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum þá laukst þú námi við C þann 31. desember árið 2022, sbr. staðfesting á skólavist sem barst Sjúkratryggingum. Með vísan til framangreinds fellur skráning þín og þeirra sem með þér dvöldust, til sjúkratrygginga, niður þann 30.6.2023 eða sex mánuðum eftir námslok.“

Áður hafi Sjúkratryggingar Íslands fellt niður sjúkratryggingu kæranda frá 16. febrúar 2022 eða sex mánuðum frá námslokum. Framangreind ákvörðun hafi verið tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 29. mars 2023, á þeim grundvelli að samkvæmt innsendum gögnum á þeim tíma hafi kærandi lokið námi við C þann 15. ágúst 2021. Af hálfu kæranda hafi verið lögð fram staðfesting á framlengingu námsins, þ.e. með bréfi, dags. 23. mars 2023. Í bréfinu, undirrituðu af einum fyrirsvarsmanna C, hafi komið fram að námslok vegna framlengingar á náminu yrðu 31. desember 2022. Með bréfi Sjúkratrygginga Íslands, dags. 12. apríl 2023, hafi verið tilkynnt að ekki yrði af niðurfellingu sjúkratrygginga, kæranda og þeirra sem með honum dvöldust, fyrr en 30. júní 2023 eða sex mánuðum eftir námslok samkvæmt framangreindu bréfi, dags. 23. mars 2023, sbr.:

„Þann 31.3.2023 sendir þú Sjúkratryggingum frekari gögn þar sem staðfest er að námslok hafi ekki verið fyrr en 31.12.2022. Með vísan til framangreinds þá hafa Sjúkratryggingar tekið til endurskoðunar niðurfellingu sjúkratrygginga, fellur skráning þín og þeirra sem með þér dvöldust, til sjúkratrygginga, niður þann 30.6.2023 eða sex mánuðum frá námslokum ef ekki er flutt aftur heim fyrir þann tíma.“

Þann 19. nóvember 2023 hafi kærandi sent tölvupóst til Sjúkratrygginga Íslands þar sem segi að

„Svo virðist sem búið sé að afskrá okkur hjá SÍ frá og með 30. júní sl. Það er væntanlega gert á þeim forsendum að við erum talin búa erlendis en ekki á Íslandi. Það er þó ekki rétt. Við tókum ákvörðun fyrr á þessu ári um að flytja ekki erlendis, heldur halda okkur á Íslandi. Við erum sem stendur að ganga frá lausum endum, en erum með fulla búsetu og lögheimili á Íslandi. Við eyðum meiri hluta þessa árs á Íslandi og höldum þannig öllum réttindum sem fylgja þeirri búsetu, þ.m.t. sjúkratryggingu. Getið þið vinsamlegast endurskoðað þessa skráningu?“

Að fengnum umbeðnum viðbótarupplýsingum hafi Sjúkratryggingar Íslands sent kæranda tölvupóst þann 22. nóvember 2023. Þar komi fram að:

„Sjúkratryggingar námsmanna gilda á meðan námsmenn eru í staðfestri skólavist við nám og einnig sex mánuðum eftir námslok. Ef einstaklingur ætlar að dveljast erlendis í sex mánuði eða lengur skal tilkynna flutning lögheimilis úr landi til Þjóðskrár Íslands, skv. 3. mgr. 13. gr. laga um lögheimili og aðsetur nr. 80/2018. Þjóðskrá Íslands hefur heimild til að veita undanþágu frá lögheimilisskráningu en Sjúkratryggingar hafa ákvörðunarvald vegna sjúkratrygginga. Í þínu tilfelli eru námslok 31.12.2022 og þar af leiðandi urðuð þið ósjúkratryggð hér á landi frá og með 30.6.2023. Flugmiðarnir sem þú sendir inn eru fyrir flugi til Íslands þann 10.6.2023 og síðan flug aftur út 16.9.2023, það telst ekki fullnægjandi tími til að halda í sjúkratrygginguna þína hér á landi. Sjúkratryggingarstofnuninni er heimilt að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem sjúkratryggður er samkvæmt lögunum sé áfram sjúkratryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 10. gr., enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki sjúkratryggður í almannatryggingum námslandsins. Ákvörðun Sjúkratrygginga [dags. 12.4.2023] varðandi niðurfellingu sjúkratrygginga stendur því óbreytt. Nýtt afgreiðslubréf hefur verið sent í Réttindagáttina þína og bendi þér á kæruheimildina.“

Með vísan til þess er að framan greini sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að kærandi hafi dvalist lengur en sex mánuði erlendis eftir að námi hafi lokið og skilyrði 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 séu ekki uppfyllt. Kæranda hafi verið tilkynnt með ákvörðun þann 12. apríl 2023 að sjúkratrygging kæranda og þeirra sem með honum hafi dvalist, myndi falla niður þann 30. júní 2023, sbr. heimild Sjúkratrygginga Íslands til ákvörðunar um sjúkratryggingu í 4. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008. Sú niðurstaða hafi verið ítrekuð í hinni kærðu ákvörðun, dags. 22. nóvember 2023.

Með vísan til alls þess er að framan greini sé því óskað eftir því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 22. nóvember 2023, sé staðfest.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að um fella niður skráningu kæranda og þeirra sem með honum dvöldust erlendis til sjúkratrygginga.

Í 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er fjallað um það hverjir séu sjúkratryggðir samkvæmt lögunum. Þar segir í 1. mgr. að sjúkratryggður sé sá sem sé búsettur á Íslandi og hafi verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta sé óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Með búsetu sé átt við lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins hafa Sjúkratryggingar Íslands það hlutverk að ákvarða hvort einstaklingur teljist sjúkratryggður hér á landi samkvæmt lögunum.

Í 2. gr. 11. gr. laganna er að finna heimild fyrir Sjúkratryggingar Íslands til að ákveða samkvæmt umsókn að einstaklingur sem sjúkratryggður er samkvæmt lögunum sé áfram sjúkratryggður þótt hann uppfylli ekki skilyrði 10. gr., enda dveljist hann erlendis við nám og sé ekki sjúkratryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um maka hans sem var sjúkratryggður hér á landi við upphaf námsins og börn námsmannsins undir 18 ára aldri sem með honum dveljast.

Í reglugerð nr. 463/1999 um framkvæmd almannatrygginga og skráningu í tryggingaskrá er fjallað nánar um sjúkratryggingu í tilviki námsmanna í 15. gr. Þar segir:

„Sá sem er búsettur og tryggður hér á landi og dvelst erlendis við nám er áfram tryggður meðan á námi stendur enda sé hann ekki tryggður í almannatryggingum námslandsins. Sama gildir um aðstandendur hans sem með honum dveljast.

Með námsmanni í þessari reglugerð er átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Heimilt er að veita námsmönnum og fjölskyldum þeirra sömu aðstoð og sjúkratryggðir einstaklingar á Íslandi njóta meðan á tímabundinni dvöl hér á landi stendur á námstímanum.

Heimilt er að hafa skráningu óbreytta í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.“

Fyrir liggur að kærandi var í námi í B sem lauk þann 15. ágúst 2021. Á grundvelli framangreindra reglna felldu Sjúkratryggingar Íslands niður sjúkratryggingu kæranda og þeirra sem með honum dvöldust þar sex mánuðum frá námslokum kæranda þann 16. febrúar 2022. Kærandi lagði fram staðfestingu á framlengingu námsins til 31. desember 2022. Sjúkratryggingar Íslands felldu þá niður sjúkratryggingarnar 30. júní 2023, þ.e. sex mánuðum eftir námslok.

Ágreiningur í máli þessu lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á að vera sjúkratryggður samkvæmt lögum nr. 112/2008. Óumdeilt er að námi kæranda lauk 31. desember 2022 og er hann nú í tímabundinni vinnu við sama háskóla í B og hann stundaði nám við. Kærandi bendir meðal annars á að hann og fjölskylda hans séu með lögheimili á Íslandi, hafi haft verulega viðveru á Íslandi á síðasta ári og séu á heimleið til Íslands. Kærandi byggir á því að lagalegur grundvöllur sé til að framlengja sjúkratryggingu með vísan til 8. gr. og 11. gr. reglugerðar nr. 463/1999.

Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar eru þeir sjúkratryggðir samkvæmt lögunum sem eru búsettir á Íslandi og hafa verið það að minnsta kosti síðustu sex mánuðina áður en bóta er óskað úr sjúkratryggingum að uppfylltum öðrum skilyrðum laganna, nema annað leiði af milliríkjasamningum. Samkvæmt 3. mgr. 10. gr. er meginreglan sú að sjúkratrygging fellur niður þegar sjúkratryggður flytur búsetu sína frá Íslandi. Undanþága er þó gerð í ákveðnum tilvikum, meðal annars þegar um að ræða dvöl erlendis vegna náms en á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laganna og 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 geta námsmenn og aðstandendur þeirra sem með þeim dveljast verið sjúkratryggðir á meðan á námi stendur og í allt að sex mánuði eftir að námi lýkur. Snúi námsmaður ekki aftur til Íslands innan þess tíma fellur réttur til að vera skráður niður.

Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála ljóst að heimild kæranda og þeirra sem með honum dvöldu í B til skráningar í sjúkratryggingar féll réttilega niður þann 30. júní 2023 þegar sex mánuðir voru liðnir frá námslokum.

Í 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999 er að finna undanþágur vegna sjúkratrygginga en ákvæðið er svohljóðandi:

„Heimilt er að veita ótryggðum einstaklingum undanþágur frá ákvæðum 37. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um að einstaklingar hafi verið búsettir á Íslandi í sex mánuði áður en þeir teljist sjúkratryggðir, í eftirfarandi tilvikum:

a)  Þegar um er að ræða nauðsynlega þjónustu í skyndilegum sjúkdómstilfellum.

b)  Þegar um er að ræða einstakling sem íslensk sóttvarnayfirvöld krefjast að undirgangist skoðun og/eða rannsókn vegna gruns um alvarlegan smitsjúkdóm eða ef staðfest er að viðkomandi hafi veikst af slíkum sjúkdómi og að nauðsynlegt er að hefja meðferð án tafar. Undanþágan tekur einungis til greiningar og meðferðar sbr. sóttvarnarlög og reglugerðir á grundvelli þeirra.

c)  Þegar um er að ræða nýrnasjúkling sem þarfnast reglulega meðferðar í nýrnavél eða sjúkling sem þarfnast súrefnis. Undanþágan tekur einungis til nefndrar meðferðar.

d) Þegar um er að ræða námsmann sem flutt hefur lögheimili sitt frá Íslandi á námstíma vegna náms erlendis og flytur aftur til Íslands innan sex mánaða frá námslokum.

e)  Þegar um er að ræða einstakling sem haldinn er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands til varanlegrar búsetu, enda hafi hann áður verið búsettur hér á landi í a.m.k. 20 ár og eigi hér nána ættingja. Sama á við um barn undir 20 ára aldri sem haldið er lífshættulegum sjúkdómi og flytur hingað til lands með foreldrum eða foreldri sem uppfyllir framangreint skilyrði um búsetu.

Tryggingastofnun ríkisins veitir ofangreindar undanþágur og gefur út sérstakt skírteini ef skilyrðum er fullnægt. Umsókn skal fylgja læknisvottorð og upplýsingar um tryggingar.“

Með hliðsjón af fyrirliggjandi gögnum málsins fær úrskurðarnefnd velferðarmála ekki ráðið að tilvik kæranda falli undir neinn þeirra töluliða sem tilgreindir eru í framangreindu ákvæði 8. gr. reglugerðar nr. 463/1999 og því ekki heimilt að veita sjúkratryggingu á grundvelli þess.

Loks er í 11. gr. reglugerðarinnar fjallað um heimild til sjúkratryggingu þegar dvalið er erlendis í atvinnuskyni en þar segir:

„Sá sem fer af landi brott í atvinnuskyni telst ekki tryggður, enda leiði annað ekki af lögum, milliríkjasamningum eða ákvæðum reglugerðar þessarar.

Heimilt er að veita einstaklingi sem fullnægir skilyrðum 5. gr. um búsetu, yfirlýsingu um sjúkratryggingu í skyndilegum tilvikum, þegar um er að ræða lausavinnu erlendis sem ekki er ætlað að standa lengur en í þrjá mánuði, en viðkomandi fer ekki til starfa erlendis á vegum vinnuveitanda.

Heimilt er að ákveða að einstaklingur sé tryggður í allt að eitt ár þrátt fyrir starf erlendis, enda sé hann tryggður við upphaf starfsins. Starfið skal vera innt af hendi erlendis fyrir aðila með aðsetur og starfsemi á Íslandi og greiða skal tryggingagjald, sbr. lög um tryggingagjald, hér á landi af launum viðkomandi á starfstímanum.

Sama gildir um maka og börn undir 18 ára aldri sem dveljast með honum.

Heimilt er að framlengja tryggingaskráningu skv. 3. mgr. í allt að fjögur ár til viðbótar, að loknu fyrsta tímabilinu, að undangengnu mati, þar sem m.a. verði kannað hvort skilyrði séu áfram uppfyllt.

Sækja skal um staðfestingu á tryggingu þessari til Tryggingastofnunar eigi síðar en fjórum vikum fyrir brottför af landinu.

Þegar einstaklingur er sendur til starfa í löndum sem samningar hafa verið gerðir við um almannatryggingar, gilda ákvæði þeirra samninga eftir því sem við á.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur tilvik kæranda ekki falla undir framangreint ákvæði enda starfar kærandi ekki erlendis fyrir aðila með aðsetur og starfsemi á Íslandi. Þá sýna framlagðir flugmiðar ekki fram á að kærandi hafi dvalið á Íslandi í það langan tíma að það nái sex mánuðum.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 22. nóvember 2023 um niðurfellingu skráningar kæranda og þeirra sem með honum dvöldust erlendis til sjúkratrygginga staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 3. desember 2023 um að fella niður skráningu A, og þeirra sem með honum dvöldust erlendis til sjúkratrygginga er staðfest.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta