Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 529/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 529/2019

Miðvikudaginn 10. júní 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 12. desember 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 18. september 2019 um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá X 2019 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar með 15% álagi

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Málavextir eru þeir að með bréfi, dags. 14. mars 2016, samþykkti Tryggingastofnun ríkisins umsókn kæranda um heimilisuppbót frá 1. mars 2016. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 18. september 2019, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslu heimilisuppbótar frá X 2019 á þeim forsendum að hann búi ekki einn á skráðu lögheimili og um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 357.390 kr. með 15% álagi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. desember 2019. Með bréfi, dags. 16. desember 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 31. janúar 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. febrúar 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um sviptingu heimilisuppbótar til kæranda þar sem enginn fótur sé fyrir henni og þá hafi honum ekki verið veittur andmælaréttur vegna ákvörðunarinnar.

Kærandi og barnsmóður hans séu ekki í sambúð, þau búi hvort á sínum stað og reki hvort sitt heimili. Þau séu góðir vinir og verji miklum tíma saman þar sem þau eigi barn saman og hafi óvænt eignast annað barn. Barnsmóðir kæranda hafi búið með syni þeirra á B í lítilli íbúð þegar seinna barn þeirra hafi komið í heiminn. Þau hafi þá [...] Kærandi hafi flutt á B og barnsmóðir hans og börnin í C þar sem börnin hafi fengið sín eigin herbergi. Þó svo að kærandi og barnsmóðir hans séu ekki í sambandi/sambúð séu þau öll fjögur fjölskylda.

Kærandi hafi fengið bréf frá Tryggingastofnun, dags. 18. september 2019, en hafi aldrei fengið bréf, dags. 13. ágúst 2019, og hafi því ekki getað andmælt ákvörðun stofnunarinnar.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun og endurkrafa á ofgreiddri heimilisuppbót.

Heimilisuppbót samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé heimilt að greiða til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi fengið greidda heimilisuppbót vegna búsetu sinnar [...], frá því að hann hafi flutt þangað […]. Með bréfi til barnsmóður kæranda, dags. 13. ágúst 2019,  hafi verið tilkynnt að við eftirlit hjá Tryggingastofnun hafi vaknað grunsemdir um að hún hafi ekki veitt upplýsingar sem séu nauðsynlegar vegna greiðslna hjá stofnuninni er varði sambúð hennar með kæranda. Vegna mistaka hafi sambærilegt bréf ekki verið sent kæranda en fyrirliggjandi gögn beri með sér að kæranda hafi verið kunnugt um að um rannsókn á meintri sambúð þeirra væri í gangi hjá Tryggingastofnun. Með bréfi, dags. 18. september 2019, hafi kæranda verið tilkynnt um stöðvun greiðslna og innheimtu ofgreiðslu miðað við fæðingu yngra barns þeirra, þ.e. frá X 2019.

Grunur um sambúð kæranda og barnsmóður hans hafi byggst á upplýsingum um að þau eigi saman tvö börn, annars vegar fætt X og hins vegar fætt X. Einnig hafi legið fyrir upplýsingar um að [...]. Loks hafi verið uppi grunur um að D búi í íbúðinni að B, en hann hafi flutt lögheimili sitt þangað X 2018. 

Bréfi Tryggingastofnunar hafi verið svarað af hálfu barnsmóður kæranda með því að D væri búsettur í íbúðinni fyrir ofan en hann hafi skráð vitlaust heimilisfang. Hún sé búin að tala við hann og hann muni leiðrétta það.

Varðandi áætlaða sambúð hafi barnsmóðir kæranda sagt þau hvorki vera saman né í sambúð en að þau eigi saman barn sem þurfi sérstaka umönnun og þess vegna haldi þau mjög nánu vina-/foreldrasambandi. Síðan hafi óvænt komið annað barn. Þess vegna hafi [...] og hann hafi flutt þangað en hún sé flutt ásamt börnunum í C (sem sé X herbergja íbúð) og sé með í vinnslu að kaupa þá íbúð.

Samkvæmt upplýsingum í Fasteignaskrá hafi barnsmóðir kæranda keypt C, með afsali og kaupsamningi, dags. 16. september 2019. Flutningur á lögheimilum hennar og barnanna frá [...] hafi verið framkvæmdur 10. október 2019 og hafi flutningur þeirra allra miðast við 27. september 2019.

Í húsinu að B séu þrjár íbúðir. Auk umræddrar íbúðar í þessu máli sé einnig um að ræða tvær íbúðir sem séu í eigu annarra aðila. Samkvæmt Fasteignaskrá hafi önnur þeirra verið leigð samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi frá 1. nóvember 2018 og leigjandinn verið með skráð lögheimili þar á tímabilinu 1. nóvember 2018 til 1. nóvember 2019. Hin íbúðin hafi einnig verið leigð samkvæmt þinglýstum húsaleigusamningi frá 1. desember 2018 og sá leigjandi hafi verið skráð með lögheimili þar á tímabilinu 27. nóvember 2018 til 31. október 2019.

Fullyrðingar barnsmóður kæranda um að D hafi verið búsettur í annarri íbúð á B en um ræði í þessu máli séu því ekki í samræmi við upplýsingar um búsetu annarra einstaklinga í þeim íbúðum.

Með bréfi, dags. 12. september 2019, hafi Tryggingastofnun óskað eftir aðstoð frá Lögreglustjóranum á X við að kanna hvort lögheimili kæranda væri rétt skráð. Í lögregluskýrslu frá 10. október 2019 hafi komið fram upplýsingar um að barnsmóðir kæranda hafi verið búsett í C í töluverðan tíma.

Gögn málsins beri því með sér að kærandi hafi verið í sambúð með barnsmóður sinni í töluverðan tíma og njóti fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Tryggingastofnun telji að stöðvun heimilisuppbótar kæranda og endurkrafa ofgreiðslu vegna rangra greiðslna aftur í tímann hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá X 2019 með 15% álagi.

Um heimilisuppbót er kveðið á um í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, þar sem segir í 1. mgr.:

„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð. Í 1. og 2. tölul. 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um:

„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.

2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.

Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Þá má leiða af ákvæðinu að stofnuninni sé heimilt í þágu eftirlits að óska eftir upplýsingum og gögnum, meðal annars frá Þjóðskrá Íslands og Ríkislögreglustjóra sem nauðsynleg eru til að sannreyna réttmæti ákvarðana og greiðslna. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Þá segir svo í 5. mgr. 45. gr. laganna:

„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“

Með bréfi, dags. 13. september 2019, óskaði Tryggingastofnun eftir að Lögreglustjórinn á X myndi rannsaka hvort skráning lögheimilis kæranda væri rétt með vísan til 43. gr. laga nr. 100/2007 og 1. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. Fyrir liggur lögregluskýrsla Lögreglustjórans á X, dags. 10. október 2019, vegna ætlaðs brots á lögum um lögheimili og aðsetur. Þar segir:

„Ég undirritaður er með bréf frá Tryggingastofnun ríkisins um að kanna með lögheimili [barnsmóður kæranda] […]

Þar sem ég […] þekki aðeins til hennar og [kæranda] […] þá get ég sagt ykkur það að [barnsmóðir kæranda] er búin að vera búsett í C í töluverðan tíma.

Ég fór á báða staði, B og C, og gerði vart við mig. Ég heimsótti B 05. okt síðast liðinn.

Þar reyndist enginn heima í B, X hæð, X helmingurinn, og allt var slökkt. Ég vissi að þar bjó X sem hefur verið að [...]. X, D […] var hins vegar kominn á efri hæð B og ræddi ég aðeins við hann þar. Þess ber að geta að ég kynnti D ekki hvers vegna ég væri kominn. D sagðist vera búinn að vera í B, neðri hæð, íbúð [barnsmóður kæranda] síðan 2018 og hann væri mjög nýlega kominn upp á efri hæðina. Samtal okkar fór fram á íslensku og ensku.

Þess má geta að þegar ég kom að B kom [kærandi] gangandi frá íbúð á neðri hæð, kom mjög sennilega frá íbúð [...]. Ég ræddi aðeins við hann og sagðist hann vera búinn að kaupa fasteign í E […] (hún er staðsett skammt frá B) og hann væri núna að standsetja hana. Hann talaði um að endurnýja X í C og stefndu þau [barnsmóðir hans] að flytja í E. ([Kærandi] talaði ekkert um að þau væru að skilja eins og fram kemur á eftir í skýrslunni). [Kærandi] talaði líka um það að hann ætlaði að standsetja neðri hæðin á B, íbúð [...].

Ég fór síðan að C nú í morgun, fimmtudaginn 10. Okt, kl. 10:40. Til dyra kom [barnsmóðir kæranda]. Ég kynnti henni að ég væri komin þarna að boði ykkar, til að athuga hvort hún byggi þarna ásamt [kæranda] […]. Aðspurð skildi hún það. Ég sagðist vita að hún væri búin að búa lengi hér í C ásamt [kæranda] og játaði hún því. Hún sagði að samband hennar og [kæranda] væri búið […]. Ég sá að bifreið [kæranda] […] stóð fyrir utan og spurði ég [barnsmóður kæranda] hvort [kærandi] væri staddur hérna. Þá sagði hún að hann væri í búðinni en hefði komið til að skutla henni og öðru barna þeirra. Ég heyrði engan umgang og enga íbúa sjáanlegan í íbúðinni. Var það mitt mat að [kærandi] væri sofandi þarna inni.

Ég sagði [barnsmóður kæranda] að ég myndi send TR skriflegt svar varðandi fyrirspurn þeirra um hana og hennar heimili. Hún gerði ekki athugasemdir við það.“

Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá 1. mars 2016. Kærandi og barnsmóðir hans eignuðust sitt fyrsta barn X og annað barn sitt í X og samkvæmt lögregluskýrslu hafa þau búið lengi saman á C. Þá liggur fyrir að [...]. Í málinu liggja einnig fyrir gögn úr Þjóðskrá þess efnis að D hafi verið með skráð lögheimili á B frá X 2018. Samkvæmt lögregluskýrslu mun hann hafa búið í íbúð [...] um nokkurt skeið eða frá árinu 2018. Loks liggja fyrir húsaleigusamningar sem varpa ljósi á búsetu annarra einstaklinga í húsinu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að búi einstaklingur með öðrum fullorðnum einstaklingi teljist sá hinn sami að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hvor við annan, sbr. 8. gr. laga um félagslega aðstoð og 7. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Úrskurðarnefndin telur að þau gögn sem liggja fyrir í málinu séu nægjanleg til þess að sýna fram á að kærandi og barnsmóðir hans hafa búið saman í töluverðan tíma og hann hafi því ekki uppfyllt skilyrði til greiðslna heimilisuppbótar þegar hin kærða ákvörðun var tekin 18. september 2019. Tryggingastofnun stöðvaði greiðslur heimilisuppbótar til kæranda frá X 2019. Stofnunin miðaði við að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum frá því að yngra barn kæranda fæddist X. Í ljósi þess að yngra barn kæranda fæddist í X og að leigusamningarnar um hinar íbúðirnar tvær á B tóku gildi, annars vegar 1. nóvember 2018 og hins vegar 1. desember 2018, gerir úrskurðarnefnd velferðarmála ekki athugasemdir við það mat Tryggingastofnunar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði greiðslna frá X 2019.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda heimilisuppbót vegna tímabilsins X 2019 til X 2019, þrátt fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Þá var kæranda skylt að upplýsa Tryggingastofnun um breytingu á heimilisaðstæðum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi verið meðvitaður um þá skyldu sína, enda kemur fram í umsókn kæranda um heimilisuppbót frá 15. febrúar 2016 að hann hafi lesið og samþykki skilmála Tryggingastofnunar. Í þeim kemur fram að kærandi staðfesti að hann muni tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur til hans. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því er fallist á að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna tímabilsins X 2019 til X 2019 með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.

Kærandi byggir á því að Tryggingastofnun hafi brotið gegn andmælarétti hans. Um andmælarétt er fjallað í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar segir að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald taki ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun upplýsti kæranda ekki um rannsókn á réttmæti greiðslna heimilisuppbótar vegna gruns um sambúð með barnsmóður hans. Kæranda var tilkynnt um framangreinda kröfu með bréfi, dags. 18. september 2019, og var kæranda því ekki gefinn kostur á að skila andmælum áður en ákvörðun var tekin í málinu. Í greinargerð Tryggingastofnun ríkisins er bent á að svo virðist sem að kærandi hafi vitað um rannsóknina og hafi barnsmóðir hans komið á framfæri skýringum á málavöxtum. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Tryggingastofnunar. Úrskurðarnefndin telur þó að úr þeim annmörkum hafi verið bætt við málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni þar sem kæranda hafi verið veittur andmælaréttur. Þá telur úrskurðarnefndin að efnisleg niðurstaða Tryggingastofnunar sé rétt, þrátt fyrir framangreinda annmarka á málsmeðferð stofnunarinnar. Að því virtu telur úrskurðarnefndin umrædda annmarka ekki leiða til þess að rétt sé að ógilda ákvörðun Tryggingastofnunar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hann um ofgreiddar bætur frá X 2019 með 15% álagi staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja um ofgreiddar bætur frá X 2019 með 15% álagi, er staðfest

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta