Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 123/2024 Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 123/2024

Miðvikudaginn 10. júlí 2024

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með tveimur kærum, mótteknum 10. mars 2024 og 9. apríl 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning búsetuhlutfalls ellilífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um ellilífeyri með rafrænni umsókn 7. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 27. september 2023, samþykkti Tryggingastofnun greiðslur frá 1. september 2023. Í bréfinu kemur fram að réttur til bóta miðist við búsetu á Íslandi samkvæmt skráningu í Þjóðskrá og að búsetuhlutfall hans sé 40,41%.

Kærur bárust úrskurðarnefnd velferðarmála 10. mars 2024 og 9. apríl 2024. Með bréfi, dags. 8. maí 2024, var kæranda tilkynnt um sameiningu kærumálanna tveggja. Sama dag óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. maí 2024, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 4. júní 2024. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að hann hafi komið til Íslands 8. nóvember 2005, fengið kennitölu, unnið hér og greitt skatta. Á árinu 2007 hafi kærandi ákveðið að dveljast á Íslandi til frambúðar og hafi óskað eftir því hjá Þjóðskrá að breyta fæðingarmánuði sínum í kennitölunni þar sem hún hafi verið rangt skráð í upphafi og hafi hann fengið kennitöluna X. Kærandi hafi greitt í Gildi lífeyrissjóð með kennitölunni X. Tryggingastofnun viðurkenni ekki vinnutímabil kæranda frá 8. nóvember 2005 og hafi eingöngu tekið tillit til vinnutímabils frá 7. nóvember 2007.

Í athugasemdum kæranda frá 9. apríl 2024 sé ítrekað að vegna leiðréttrar kennitölu hafi ekki verið tekið tillit til alls vinnutímabils hans hér á landi. Það liggi fyrir staðfesting Þjóðskrár að kærandi sé sami einstaklingurinn en Tryggingastofnun viðurkenni það ekki. Þjóðskrá hafi staðfest að við upphaf vinnu 8. nóvember 2005 hafi kennitala kæranda verið X, sem hafi ekki verið rétt. Kærandi hafi unnið hér og borgað skatta en á árinu 2007 hafi hann ákveðið að lagfæra þessi mistök, hann hafi haft samband við Þjóðskrá og hafi fengið nýja kennitölu þ.e. X. Kærandi hafi greitt til STAPA lífeyrissjóðs með ranga kennitölu. Samt sem áður hafi Tryggingastofnun ekki tekið tillit til vinnuframlags hans. Kærandi spyr hvers vegna.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærð sé ákvörðun, dags. 21. mars 2024, þar sem stofnunin hafi endurskoðað meðferð á erlendum lífeyri við útreikning á lífeyrisgreiðslum í samræmi við lög nr. 18/2023. Einnig hafi verið kannað hvort breyting á kennitölu kæranda hafi haft áhrif á útreikning lífeyris.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnist full réttindi til ellilífeyris með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár á aldursbilinu 16-67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 5. tölul. 1. mgr. laga um almannatryggingar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Í 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur komi fram að lögheimili sé sá staður þar sem einstaklingur hafi fasta búsetu og ekki sé heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt sé einnig að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi með umsókn, dags. 7. ágúst 2023, sótt um ellilífeyrisgreiðslur. Á umsókninni komi fram að kærandi hafi búið og/eða starfað erlendis í B á tímabilinu 5. maí 1976 til 7. ágúst 2004.

Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 27. september 2023, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur ellilífeyris hafi verið samþykktar frá 1. september 2023. Fram komi í bréfinu að réttur til bóta miðist við búsetu á Íslandi samkvæmt skráningu á Þjóðskrá og að búsetuhlutfall væri 40,41% og að greiðslur skerðist samkvæmt því.

Ellilífeyrisréttindi ávinnist með búsetu hér á landi og miðist við skráð lögheimili. Samkvæmt 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnist full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknist réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Samkvæmt vottorði E 205 IS séu búsetutímabil sem veiti rétt til grunnlífeyris, sbr. skráning á lögheimili kæranda, annars vegar að á tímabilinu 29. júní 2007 til 11. janúar hafi kærandi hafi verið búsettur á Íslandi (skráð lögheimili), og hins vegar að frá 27. ágúst 1956 til 28. júní 2007 hafi kærandi verið búsettur í B.

Samkvæmt lögum um almanntryggingar greiðist ellilífeyrir í hlutfalli við búsetutíma hér á landi og sé miðað við skráð lögheimili hér á landi. Full réttindi miðist við 40 ára lögheimili hér á landi á aldursbilinu 16-67 ára. Búsetuhlutfall kæranda hafi náð 40,41% og reiknist réttindi miðað við það.

Samkvæmt yfirliti frá Greiðslustofu lífeyrissjóða komi fram að kærandi hafi verið á íslenskum vinnumarkaði frá árinu 2005 miðað við greidd iðgjöld í Gildi lífeyrissjóð og fái hann greiðslur þaðan miðað við þau iðgjöld sem greidd hafi verið þangað.

Fram komi í gögnum að kærandi hafi haft aðra kennitölu, nánar tiltekið kt. X til 29. júní 2007 og telji hann að það geti haft áhrif á útreikning Tryggingastofnunar. Stofnunin viðurkenni einungis búsetu samkvæmt Þjóðskrá, sbr. 3. tölul. 2. gr. laga um almannatryggingar, en þar sé búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur nema sérstakar ástæður leiði til annars. Ekki sé hægt að sjá að fyrri kennitala kæranda hafi haft einhver áhrif við útreikning á réttindaávinnslu hjá Tryggingastofnun. Samkvæmt gögnum frá Greiðslustofu lífeyrissjóða komi fram að kærandi hafi greitt iðgjöld til Gildi lífeyrissjóðs áður en hann hafi skráð lögheimili sitt hér á landi og hafi væntanlega verið skráður á utangarðsskrá áður en formleg lögheimilisskráning hafi verið gerð. Tryggingastofnun sé bundin því að fara eftir skráningu á lögheimili varðandi útreikning á ellilífeyri, sbr. ákvæði í 17. gr. laga um almannatryggingar.

Í úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 239/2021 komi fram að samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar ávinnist réttur til ellilífeyris með búsetu á Íslandi. Einnig komi fram að Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að taka tillit til starfstímabila á Íslandi við mat á því hvort einstaklingur hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris. Þau vinnutímabil sem kærandi telji að hann hafi unnið hér á landi áður en hann hafi skráð lögheimili sitt hér reiknast þar af leiðandi ekki til grunnlífeyristímabila ef það fari ekki saman við skráð lögheimili hér á landi. Hins vegar reiknist lífeyrir frá starfstengdum lífeyrissjóðum fyrir þau vinnutímabil sem kærandi hafi greitt í lífeyrissjóð hér á landi. Varðandi bréf Tryggingastofnunar, dags. 21. mars 2024, þar sem lífeyrisgreiðslur kæranda hafi verið leiðréttar sem hafi numið 26.197 kr. vegna lagabreytinga frá 1. maí 2023, þá hafi sú leiðrétting ekkert með breytingu á kennitölu kæranda að ræða.

Ágreiningur í máli þessu snúi að því hvort búsetuhlutfall kæranda hafi verið rétt reiknað miðað við þau gögn sem hafa legið fyrir í máli þessu auk þess hvort að tryggingatímabil kæranda hafi verið rétt reiknuð. Tryggingastofnun miði útreikning á ellilífeyri við skráð lögheimilistímabil eins og þau birtist hjá Þjóðskrá Íslands. Tryggingastofnun beri að fara eftir þeirri skráningu og teljist hún vera rétt opinber skráning sem stofnunin sé skuldbundin að fara eftir. Ef kærandi telji þessi búsetutímabil hins vegar ekki vera rétt skráð beri honum að snúa sér til Þjóðskrár um leiðréttingu á skráningu. Tryggingastofnun geti ekki breytt búsetuskráningu þar sem það heyri ekki undir stofnunina að breyta búsetutímabilum eins og þau komi fram hjá Þjóðskrá.

Hvað varði breytingu á kennitölu kæranda þá hafi það ekki haft áhrif á útreikning hjá Tryggingastofnun. Tryggingstofnun taki einungis þau tímabil inn í útreikning miðað við skráð lögheimili kæranda. Með vísan til framangreinds telji stofnunin útreikning á ellilífeyri kæranda vera réttan og í samræmi við lög um almannatryggingar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar útreikning Tryggingastofnunar ríkisins á búsetuhlutfalli kæranda á Íslandi.

Svohljóðandi er 1. mgr. 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um skilyrði og ávinnslu ellilífeyris:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Í 5. tölul. 1. mgr. 2. gr. laganna er búseta skilgreind sem lögheimili í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, nema sérstakar ástæður leiði til annars.

Ákvæði 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur hljóðar svo:

„Lögheimili er sá staður þar sem einstaklingur hefur fasta búsetu. Ekki er heimilt að eiga lögheimili á Íslandi á fleiri en einum stað í senn. Óheimilt er að eiga lögheimili á Íslandi eigi viðkomandi lögheimili erlendis.“

Þá segir í 2. mgr. 2. gr. sömu laga:

„Með fastri búsetu er átt við þann stað þar sem einstaklingur hefur bækistöð sína, dvelst að jafnaði í tómstundum sínum, hefur heimilismuni sína og er svefnstaður hans þegar hann er ekki fjarverandi um stundarsakir vegna náms, orlofs, vinnuferða, veikinda eða annarra hliðstæðra atvika.“

Af framangreindu má ráða að réttur til ellilífeyris ávinnst með fastri búsetu á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með 40 ára búsetu en sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Fyrir liggja upplýsingar frá Þjóðskrá um að kærandi hafi verið með skráð lögheimili hér á landi frá 29. júní 2007. Útreikningur Tryggingastofnunar byggir á þeirri skráningu og leiðir til þess að búsetuhlutfall kæranda hér á landi sé ákvarðað 40,41%. Ellilífeyrisgreiðslur og tengdar bætur til kæranda taka mið af því.

Kærandi byggir á því að hann hafi fengið íslenska kennitölu 8. nóvember 2005 og hafi unnið á Íslandi, greitt skatta og borgað í lífeyrissjóð. Kærandi hafi síðan ákveðið á árinu 2007 að dveljast á Íslandi til frambúðar. Gerð er athugasemd við að Tryggingastofnun viðurkenni ekki vinnutímabil kæranda frá 8. nóvember 2005 og hafi eingöngu tekið tillit til vinnutímabils frá 7. nóvember 2007.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi starfað hér á landi á árunum 2005-2007 fyrir skráningu lögheimilis. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ávinnst réttur til ellilífeyris með búsetu á Íslandi. Tryggingastofnun hefur ekki heimild til að taka tillit til starfstímabils kæranda á Íslandi við mat á því hvort hann hafi áunnið sér rétt til ellilífeyris. Kærandi byggir ekki á því að hann hafi verið með fasta búsetu á Íslandi fyrir skráningu lögheimilis, sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, enda segir í kæru að hann hafi ákveðið á árinu 2007 að dveljast til frambúðar á Íslandi.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli kæranda vegna umsóknar hans um ellilífeyri staðfest.

Úrskurðarnefndin telur þó rétt vekja athygli Tryggingastofnunar á því að ef vafi er uppi um hvort opinber skráning á lögheimili sé rétt ber stofnuninni að gæta að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og kanna hvort lögheimili sé rétt skráð, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála í máli nr. 60/2023. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefndin rétt að benda kæranda á að ef hann líti svo á að hann hafi verið með lögheimili í reynd á Íslandi á árunum 2005 til 2007, þ.e. fasta búsetu í skilningi laga um lögheimili og aðsetur, geti hann lagt fram gögn því til stuðnings og óskað eftir endurskoðun hjá Tryggingastofnun.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning á búsetuhlutfalli A, vegna umsóknar hans um ellilífeyri, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum