Mál nr. 154/2024 Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 154/2024
Þriðjudaginn 25. júní 2024
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, dags. 26. mars 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. mars 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn sem barst Sjúkratryggingum Íslands 7. október 2021, vegna meðferðar á Heilsugæslunni B og Landspítalanum, á árunum X til X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 26. mars 2024, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 26. mars 2024. Með bréfi, dags. 5. apríl 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst þann 9. apríl 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 16. apríl 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. apríl 2024 og voru þær sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. apríl 2024. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi kveðst kæra meðferð sem hann hafi fengið á Heilsugæslunni B og Landspítala á árunum X til X.
Í kæru greinir kærandi frá því að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands í máli hans sé röng. Í ákvörðuninni segi að hann hafi fengið skrifað upp á lyfið Kaleorid árið X vegna kalíumskorts en það sé ekki rétt. Árið X hafi C heimilislæknir kæranda látið hann hafi lyfið Presmin þar sem kærandi hafði verið að upplifa vanlíðan vegna blóðþrýstings. Læknirinn hafi ekki athugað kalíum gildi kæranda. Árið X hafi hann farið í endurmat á blóðþynningarmeðferð hjá D blóðsjúkdómasérfræðingi. D hafi farið yfir blóðprufur kæranda og komist að því að hann væri með kalíum skort. D hafi skrifað upp á fjórar pakkningar af lyfinu Kaleorid fyrir kæranda með 100 töflum í hverri þeirra. Það hafi verið í fyrsta sinn sem kærandi hafi fengið lyfið uppáskrifað þar sem hann muni enn hve sölt taflan hafi verið. Kærandi hafi haldið að hann ætti að klára þann skammt og yrði svo hress eftir það. Hann hafi ekki fengið meiri tilsögn eða leiðbeiningar en það. Heimilislæknir hans hafi svo farið í aðgerð og hafi ekki haft tíma til að sinna sjúklingum. Kærandi hafi talið í lagi að minnka Kaleorid skammtinn þar sem hann hafi alveg verið að verða búinn með það sem skrifað hafði verið upp á fyrir hann. Hann hafi svo endað á bráðamóttöku árið X eftir […] þar sem kalíum gildi hans hafi mælst svo lágt að það hafi næstum verið neyðartilfelli. Kærandi hafi heyrt vangaveltur frá hjartalæknum á hjartagátt að bráðamóttakan hafi ekki viljað skrifa það sem neyðartilfelli þar sem þá hefði þurft að leggja kæranda inn. Í sjúkrabílnum hafi blóðþrýstingur kæranda mælst 200/100 og mikil slímmyndum verið í lungum og hann hafi átt erfitt með andardrátt.
Þá sé fullyrt í hinni kærðu ákvörðun að kærandi sé ekki með stækkun á hjarta. Hann sé að taka 47,5 mg af lyfinu Seloken ZOC sem hafi ansi breiða verkun og hægi meðal annars á hjartanu. Hvíldarpúls kæranda sé hraðari en hann hafi verið fyrir áðurnefnda […] og hann hafi orðið að taka inn lyfið Seloken til að hægja á hjartslætti. Kærandi telji að hann muni aldrei geta stundað eðlilegt kynlíf því hann upplifi vökvasöfnun í lungum við líkamlega áreynslu sem tengist kynlífi. Fullyrðingar um að hjarta hans sé í lagi séu því furðulegar. Kærandi hafi leitað á heilsugæsluna B árið X og beðið um púst fyrir lungu. Læknirinn sem hann hafi talað við á heilsugæslunni hafi viljað senda hann í röntgen af brjóstkassa fyrst. Röntgenmyndin hafi sýnt mikla vökvasöfnun í lungum og stækkun á hjarta og lækninum hafi verið brugðið. Kærandi hafi fengið púst og ráðleggingar að auka vatnslosandi skammta. Kærandi haldi að vökvasöfnun í lungum sé klassískt einkenni vegna stækkunar á hjarta.
Í hinni kærðu ákvörðun sé enn fremur talað um blóðþynnandi lyf að staðaldri. Kærandi hafi verið á blóðþynnandi lyfjum frá X til X en hann telji það ekki vera að staðaldri. Það sé langt tímabil ef það sé horft á að það sé „rottueitur“. Honum hafi verið sagt að oft væri lyfið Kaleorid gefið með blóðþynnandi lyfjum til að koma í veg fyrir kalíum skort. Það hafi ekki verið gert í tilfelli kæranda. Hann hafi ítrekað kvartað til lækna, m.a. heimilislæknis, undan vanlíðunar við inntöku lyfsins Warfarin en það hafi ekki verið hlustað á það. Í dag séu hné kæranda mjög slitin og velti hann því fyrir sér hvort það sé vegna langvarandi kalíumskorts þar sem kalíum hafi áhrif á bein og liðamót. Hann hafi hætt að taka inn blóðþynnandi lyf árið X vegna mikillar vanlíðunar vegna inntöku lyfsins.
Í hinni kærðu ákvörðun sé talað um sjálfsprottinn [háþrýsting] og lágt testosterone. Kærandi hafi talað við hjartalækni á hjartagátt, unga konu sem hafi skrifað ritgerð um kalíum skort og áhrif hans á blóðþrýsting. Kærandi hafi talað við innkirtlalækni og viti að lágt testosterone sé stór áhættuþáttur fyrir hjartasjúkdóma. Það séu margar ástæður fyrir því að testosterone sé lágt, til dæmis hár blóðþrýstingur því testosterone hækki blóðþrýsting. Þá séu næringarskortur og áföll tengd lungum áhættuþættir, kærandi hafi til dæmis fengið blóðtappa í lungun árið X. Heimilislæknir hans hafi verið búinn að sjá að kærandi væri með lágt testosterone árið X þar sem kærandi hafi beðið heimilislækninn að athuga það vegna slappleika sem kærandi hafi verið að upplifa. Kærandi hafi heyrt lækna á hjartagátt tala um að meðferð vegna kalíumskorts hafi verið ónæg. Hann hafi verið hjá hjartalækni árið X sem hafi ekki gert neitt fyrir hann, læknirinn hafi skrifað upp á vatnslosandi lyf ofan í kalíum skort sem hafi gert ástand kæranda verra því lyfið Kaleorid hafi ekki fylgt þeirri meðferð. Árið X hafi kærandi fengið að vita að hann væri lágur í magnesíum en magnesíum og kalíum haldist oft í hendur. Kærandi sé búinn að upplifa margt neikvætt og hafi heilsa hans hlotið skaða af.
Í athugasemdum kæranda, dags. 19. apríl 2024, ítreki kærandi að þáverandi heimilislæknir hans, C, hafi aldrei skrifað upp á lyfið Kaleorid fyrir hann. Ef gögn sýni annað þá séu þau ekki rétt. Hann hafi farið í endurmat á blóðþynningarmeðferð árið X hjá D lækni sem hafi farið yfir blóðprufur kæranda. D læknir hafi komist að því að kærandi væri með kalíum skort og hafi skrifað upp á lyfið Kaleorid fyrir hann. Kærandi telji að það hljóti að vera til gögn um það á Landspítala.
Kærandi hafi komist að því að læknar vilji ekki skilja að fólki geti liðið illa við að taka inn lyfið Warfarin. Talað sé um að það séu mjög litlar aukaverkanir en samt séu aukaverkanir lyfsins margar, sem dæmi megi óléttar konur ekki taka inn lyfið því það geti valdið skemmdum eða vansköpun á fóstri. Læknir á bráðamótttöku hafi talað um óskilgreinda hjartabilun og kalíum skort hjá kæranda.
Kærandi hafi haft samband við Landspítala og spurt hvort það komi fram í sjúkraskrá hans að D hafi skrifað upp á Kaleorid fyrir hann. Hann sé enn að bíða eftir svari frá spítalanum. Kærandi sé ekki búinn að finna neitt um það að þáverandi heimilislæknir hans hafi skrifað upp á Kaleorid fyrir hann árið X. Hann velti því fyrir sér hvort Sjúkratryggingar Íslands hafi gengið út frá því að endurnýjun á lyfinu Kovar væri það sama og Kaleorid. Kovar sé annað orð yfir Warfarin sem sé blóðþynnandi lyf sem hann hafi verið á í um X ár.
Þá vilji kærandi benda á að lág kalíum gildi geti aukið líkur á blóðtappa.
Kærandi hafi lent í því árið X að hjartalæknir á M hafi skrifað upp á vatnslosandi lyf ofan í kalíum skort hans sem sé stórhættulegt.
Kærandi hafi beðið um að nýru hans væru skoðuð árið X og niðurstaða þeirrar skoðunar hafi verið að þau væru óvenju stór. Það hafi einnig verið vísbending um að eitthvað væri að en heimilislæknir hans hafi ekkert gert í því. Það hafi ekki verið fyrr en kærandi hafi lent inni á hjartagátt árið X að það hafi farið fram mælingar á hormónum í nýrum og hvort ástæða fyrir kalíum skorti gæti verið vegna nýrna.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 7. febrúar 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á Heilsugæslunni B og Landspítalanum á árunum X til X. Umsóknin hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni og málið hafi verið talið að fullu upplýst. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 26. mars 2024, hafi umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu verið synjað á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða tjón sem félli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sú ákvörðun sé nú kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Í hinni kærðu ákvörðun segir meðal annars svo:
„MÁLAVEXTIR
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru kalíumgildi umsækjanda lítillega lækkuð árið X. Í sjúkraskrárnótu B, dags. X, kom fram að blóðþrýstingur umsækjanda mældist hár. Umsækjandi fékk í kjölfarið ávísað Kaleorid. Þann X var umsækjandi sendur sneiðmyndatöku á nýrnahettum, af læknir á B. Niðurstaða myndatökunnar var að ekki voru til staðar merki um æxlisvöxt, engar fyrirferðir fundust og engin merki um skerta nýrnastarfsemi. Þann X var gerð kalíummæling hjá umsækjanda.
Þann X fékk umsækjandi ávísað Presmín til þess að vinna gegn háþrýstingi. Þann X var umsækjanda fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku LSH vegna skyndilegrar mæði og þróttleysis. Þar greindist umsækjandi með háþrýsting, hjartabilun og kalíumbrest. Í kjölfarið var umsækjandi settur á Kalíum auk fleiri lyfja til að stilla af háþrýstinginn og var reglulega fylgst með blóðþrýstingi umsækjanda í nóvember.
Mál umsækjanda var tekið upp á fundi lækna á B snemma árs X og var nýleg yfirlitsgrein um málið reifað. Ekki þótti ástæða til frekari rannsókna hjá umsækjanda en haldið áfram með uppbótarmeðferð.
Umsækjandi var einnig í meðferð hjá hjartalækni á M frá árinu X. Þann X var gerð rannsókn á umsækjanda þar sem kom í ljós að kransæðar umsækjanda voru eðlilegar, vinstri slegill eðlilegur að stærð en vægt þykknaður, gáttir voru í eðlilegri stærð og lokur voru eðlilegar.
FORSENDUR NIÐURSTÖÐU
Við ákvörðun um hvort einstaklingur eigi rétt til bóta samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er litið til þess hvort tjón megi rekja til þess að ekki hafi verið rétt staðið að meðferð sjúklings, mistaka heilbrigðisstarfsmanna, vangreiningar, tækjabúnaðar og/eða áhalda, hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni eða hvort heilsutjón hafi orðið vegna sýkingar eða annars fylgikvilla sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fylgikvilli þarf að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur svo skilyrði séu fyrir greiðslu bóta.
Að mati SÍ verður, af gögnum málsins, ekki annað séð en að meðferð umsækjanda á LSH og B hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við almennt viðurkennda og gagnreynda læknisfræði.
Fyrir liggur að umsækjandi var með lítillega lækkað kalíumgildi árið X. Í framhaldinu fór kalíumgildi umsækjanda lækkandi og einnig var hann með háan blóðþrýsting. Umsækjandi leitaði meðferðar á B, LSH og hjá hjartalækni vegna þessa. Umsækjanda var ávísað kalíumtöflum árið X. Læknir á B fylgdi eftir kalíumgildum umsækjanda og jók kalíumskammta eftir þörfum. Þá athugaði læknirinn einnig hver gæti verið möguleg orsök skortsins með mælingum á nýrnahettuhormóni og myndgreiningu á nýrnahettum þann X, sem sýndi ekki merki æxlisvaxtar. Að mati SÍ, er ekki hægt að rekja þau einkenni sem umsækjandi glímir við í dag til þess tíma sem leið frá því að kalíumskortur uppgötvast fyrst, fram að því að brugðist var við með lyfjagjöf. Þá telja SÍ rétt að benda á að lág kalíumgildi valda ekki háþrýstingi en geta haft í för með sér hjartsláttartruflanir og þreytu. Alvarlegustu einkenni lágs kalíumgilda í sermi eru hjartsláttartruflanir en ekki er getið um slíkt hjá umsækjanda í fyrirliggjandi gögnum. Lág kalíumgildi geta stafað af ofstarfsemi nýrnahettna (primary hyperaldasteronism), meðferð við ofstarfsemi beggja nýrnahettna felst oftar en ekki í gjöf háþrýstingslyfja, t.a.m. spironolaktóns[1] , sem umsækjandi fékk ávísað þann X. Að mati SÍ, er engin ástæða að jafnaði til kalíumgjafar hjá sjúklingum sem taka blóðþynningarlyf að staðaldri. Fyrirliggjandi gögn benda ekki til þess að umsækjandi hafi orðið fyrir nýrnaskaða.
Í sjúkraskrárfærslu B, þann X, ritaði heimilislæknir að umsækjandi væri með lækkað testósterón. Umsækjanda var gefin nebido inndæling, ekki varð framhald á meðferðinni fyrr en X. Testósteróngjöf getur haft í för með sér ýmsar hjáverkanir, t.d. versnandi kæfisvefn og minnkaði frjósemi.[2] Að mati SÍ, var rétt metið af læknum umsækjanda að fara sér hægt í testósteróngjöf.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var umsækjandi í reglulegu eftirliti hjá læknum og fékk þar ráðleggingar og lyf. Þrátt fyrir að upphaf meðferðar hafi nokkuð dregist er, að mati SÍ, ekkert sem bendir til þess að hægt sé að rekja þau einkenni sem umsækjanda glímir við í dag til þeirrar tafar. Í lang flestum tilvikum finnast ekki skilgreindar sjúkdómsorsakir og er þá rætt um sjálfsprottinn háþrýsting (essential hypertension). Meðal helstu þekktra orsaka háþrýstings eru nýrnasjúkdómar og sjúkdómar í nýrnahettum og ekki fundust merki um slíka sjúkdóma í tilviki umsækjanda. Þá er ekki að sjá samkvæmt gögnum málsins að umsækjandi hafi orðið fyrir nýrnaskaða.
Með vísan til framangreinds er ljóst að ekkert í gögnum málsins bendir til þess að meðferð umsækjanda hafi ekki verið hagað með fullnægjandi hætti. Það er því mat SÍ að ekki sé hægt rekja þau einkenni sem umsækjandi glímir við til ófullnægjandi meðferðar heldur megi rekja þau til grunnástands umsækjanda. Með vísan til þessa eru skilyrði 1. – 4. tl. 2. gr. laganna ekki uppfyllt.
SÍ benda þó á að kröfu um bætur úr sjúklingatryggingu vegna tjóns í tengslum við sjúkdómsmeðferð hjá sjálfstætt starfandi læknum skal beina til vátryggingafélags viðkomandi læknis en ekki SÍ, sbr. 12. gr. laga um sjúklingatryggingu. Í umsókn kvartar umsækjandi yfir meðferð sem fór fram á B, LSH og M og vísar til þess að hafa m.a. verið í samskiptum við lækna á M. Telji umsækjandi að hann hafi orðið fyrir tjóni í tengslum við meðferð á M bendum við umsækjanda á að hafa samband við vátryggingafélag viðkomandi læknis.
NIÐURSTAÐA
Með vísan til þess sem að framan greinir og fyrirliggjandi gagna málsins er það mat Sjúkratrygginga að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falla undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.
Ekki er því heimilt að verða við umsókn umsækjanda um bætur úr sjúklingatryggingu.“
Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í framangreindri ákvörðun stofnunarinnar. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Stofnunin vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.
Þó sé rétt að árétta það að samkvæmt sjúkraskrárnótu frá Heilsugæslunni B, dags. X, hafi kæranda verið ávísað Kaleorid töflum af heimilislækni sínum árið X en ekki fyrst árið X líkt og haldið sé fram í kæru. Lyfseðillinn hafi svo reglulega verið endurnýjaður eftir það.
Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telji að afleiðingar meðferðar sem hann hlaut á Heilsugæslunni B og Landspítalanum, á árunum X til X séu bótaskyldar samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:
„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:
1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.
2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.
3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.
4. Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“
Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.
Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.
Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.
Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Hann hafi leitað á Heilsugæsluna B þar sem hann hafi fundið fyrir vanlíðan vegna blóðþrýstings. Heimilislæknir kæranda hafi ekki athugað kalíum gildi hans en hafi skrifað upp á lyfið Presmin fyrir hann. Árið X hafi hann farið til D læknis sem hafi greint kæranda með kalíum skort og skrifað upp á lyfið Kaleorid fyrir hann. Það hafi verið í fyrsta sinn sem kærandi hafi fengið það lyf uppáskrifað. Það sama ár hafi hann endað á bráðamótttöku eftir […] og hafi kalíum gildi hans mælst mjög lág. Hvíldarpúls kæranda sé hraðari nú en hann hafi verið fyrir […] og þurfi að taka inn lyfið Seloken til að hægja á hjartslættinum. Hann sé með vökvasöfnun í lungum og stækkun á hjarta. Hné kæranda séu mjög slitin og telji hann að það gæti tengst langvarandi kalíumskorti. Kærandi telur að líkamstjón hans megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna.
Í framvindunótu í sjúkraskrá kæranda, dags. X, segir að kalsíum gildi kæranda hafi verið 3,1 og að honum hafi verið gefnar tvær Kaleorid töflur. Í framvindunótu, dags. X, segir að kærandi hafi byrjað í kóvar meðferð. Í ráðgjöf E læknis, dags. X, segir að hann ráðleggi blóðþynningarmeðferð í tólf mánuði vegna dreifðra embolia í lungum. Í niðurstöðu blóðrannsóknar, dags. X, mældust kalíum gildi kæranda 3,3.
Í læknabréfi F læknis, dags. X, segir:
„Lega: X - X: Deild: Bráðalyflækningadeild A-2 Ábyrgur sérfræðingur: G. Sjúkrasaga: A er X ára maður í yfirþyngd og með sögu um háþrýsting og kæfisvefn sem leitar á bráðamóttöku þann X vegna vegna vaxandi andþyngsla og mæði í gegnum 4 vikur. Lýsir mæði við áreynslu ss. að labba upp tröppur heima hjá sér. Ekki hvíldarmóður eða móður útafliggjandi. Verið með einhvern hósta og "flautandi" öndun þegar mæðin sem mest. Enginn uppgangur eða hiti. Fundið fyrir vaxandi handa-og fótabjúg, sem hann mögulega tengir við eftir að hann byrjaði á t.Lopress Comp í X sl. Er einnig með aukinn bjúg á vinstri kálfa eftir húðsýkingu þar árið X. Ekki takverkur, brjóstverkur eða kviðverkur. Engin ógleði eða uppköst. Segir hægðir reglulegar. Engin óþægindi við þvaglát. Er atvinnulaus og hefur farið minna út úr húsi sl. vikurmánuði vegna veðurs. Ekki nýleg ferðasaga. Gangur á bráðamóttöku (BM1): Sjúklingur fær atrovent +ventalinvið komu á BMT og léttir á mæðinni við það. Er með hækkaðan D-dímer og fór CT-angio vegna gruns um lungnaembolíu. Fór í tvö skönn þar sem ekki var nægjanlegt skuggaefnisupphleðsla í lungnaslagæðum í fyrra skiptið. Sjúklingur fær stuttu eftir tölvusneiðmyndina ofæmisviðbrögð (óþægindi fyri höfði, aukinn bjúg á hendur og roða) sem var talið ofnæmisviðbröðð út frá skuggaefni. Fékk solu-cortef, antihistamín og H2 blokker. Lætur ágætlega af sér við komu á deild. Er betri af mæðinni en súrefniháður á 2L. Finnst bjúgur vera að ganga til baka á höndum. Engir verkir. Ofnæmi: Skuggaefni. Gangur og vandamál á deild: 1. Lungnaembolíur - Fór í V/Q skann sem staðfesti dreifðar lungnaembolíur. Ekki merki um DVT við ómun þann X sl. - Settur á Klexane 100 mg s.cx2. á meðan verið er að stilla inn Kovar. - INR 1,0 við útskrift en eftirlit með INR gildi hjá Segavörnum. - Farið yfir áhættuþættir fyrir PE sem í hans tilfelli er offita (BMI > 40) og einnig minni hreyfing undanfarna mánuði vegna veðurs, þó ekki algjört hreyfingaleysi. Hætti reykingum fyrir X-X árum. - Fengin ráðgjöf hemataloga sem ráðlögðu meðferðalengd á blóðþynningu í 12 mánuði vegna dreifðra embolia í lungum. Ráðlögðu einnig að 1 mánuði eftir að blóðþynningu lýkur þyrfti að fá prufur f. bláæðasegahneigð (antithrombin, prótein C, prótein S, APC viðnám, stökkbreytingarnar faktor V Leiden og prothrombin 20210A, lupus anticoagulant og anticardiolipin mótefni). - Þar sem ómun DVT var neikvæð hefði mátt íhuga að taka CT angio af kvið og pelvis m.t.t. thrombus, en frábending þar sem grunur um anaphylactisk viðbrögð við skuggaefni. Rannsóknir í innlögn:# Blóðprufur við útskrift X: Eðlilegur blóðhagur, APTT, PT, Na+ og krea. K+ 3,3 vægt lækkað. Hb1Ac 6,0%. CRP 16, vægt hækkað.# ÍSÓTÓPASKANN AF LUNGUM: Bæði gerð perfusio og ventilatio. Í perfusions skanninu koma fram tiltölulega vel afmarkaðir fleygdefectar perifert í báðum lungum sem ekki eru eins greinilegir í ventilation svo hér er um mismatch að ræða. Þannig sterkur grunur að um dreifðar emboliur sé að ræða af segmentstærð. Lyf við útskrift: t. Losartan HCT bluefish 62,5 mg x1 t. Kovar skv. skömmtun Segavarna Klexane 100 mg s.c. x2 Ventalin pn - notar ef slæmur af hósta. Hvert útskrifast sjúklingur. heim Eftirlit: - INR mæling X nk. - Heimilislæknir í B - Tími hjá göngudeild Segavarna hjá D eftir um 1 ár þegar sjúklingur er búinn að vera á blóðþynningu til að meta meðferðarlengd og fá prufurfyrir bláæðasegahneigð.“
Samkvæmt niðurstöðum blóðrannsókna X, X og X mældust kalíum gildi kæranda 3,2. Samkvæmt sjúkraskrá kæranda, dags. X, fékk kærandi lyfseðil vegna Kaleorid með þeim leiðbeiningum að hann ætti að taka eina töflu á dag. Í samskiptaseðli C heimilislæknis, dags. X, segir að kærandi sé enn lágur í kalíum og Kaleorid sé aukið í tvær töflur. Þá segi að næsta skoðun kæranda sé eftir fjórar vikur. Þann X var lyfseðill vegna Kaleorid endurnýjaður. Þann X var skrifað upp á lyfið Kaleorid á ný fyrir kæranda. Í símtali C heimilislæknis við kæranda, dags. X, kemur fram að C hafi ráðlagt kæranda að auka Kaleorid í tvisvar tvær töflur á dag. Þann X var gerð lyfjaendurnýjun fyrir Kaleorid. Í samskiptaseðli C heimilislæknis, dags. X, kemur fram að lækkun sé á testosteron hormóni kæranda. Í kjölfarið skrifaði heimilislæknir kæranda upp á stungulyfið Nebido fyrir hann. Í samskiptaseðli C heimilislæknis, dags. X, kemur fram að mögulega þurfi að skoða nýrnahettur kæranda. Í sjúkraskrá kæranda, dags. X, er skráð að kærandi hafi komið og fengið sprautu. Í niðurstöðum blóðrannsóknar X mældust kalíum gildi kæranda 3,0. Í beiðni C heimilislæknis um myndgreiningu, dags. X, segir meðal annars að kærandi hafi ekki svarað kalíum gjöf.
Í rannsóknarniðurstöðum G læknis, dags. X, segir:
„X TS efri kviður: Byrjað er á rannsókn án skuggaefnis af efri kvið. Sú rannsókn leiðir í ljós eðlilega útlítandi nýrnahettur. Engar fyrirferðir greinast í nýrnahettunum. Því ekki haldið áfram með skuggaefnisfasana þar sem þeir eru gerðir til þess að meta upphleðslumunstur fyrirferða í nýrnahettunum. Skuggaefnisgjöf þjónar því engum tilgangi í þessu tilfelli hvað varðar nýrnahettur. - Engar fyrirferðir greinast í nýrnahettum. ÁGS Afrit af svari úr Carestream PACS..“
Þann X var lyfseðill vegna Kaleorid endurnýjaður. Samkvæmt niðurstöðum blóðrannsókna X mældust kalíum gildi kæranda 3,1.
Í samskiptaseðli H læknakandídats, dags. X, segir:
„X ára maður í mikilli ofþyngd með sögu um háan blóðþrýsting. Er móður og er mæðin misslæm. Hann mælir sig 160/100 heima. Einnig verið með Kalíumgildi um 3,0 til lengri tíma sem illa gengur að meðhöndla. Skoðun: Er talmóður. Fjarlæg öndunarhljóð. Erfitt að greina mögulegan fleiðruvökva. Spyrst einnig fyrir um blóðprufuniðurstöður sem gerðar voru X. Rætt við C sem ráðleggur að breyta Lopress comp í Presmin. Fær svo eftirfylgdartíma hjá C eftir 2-3 vikur.“
Þann X og X var lyfseðill vegna Kaleorid endurnýjaður. Samkvæmt niðurstöðum blóðrannsókna X mældust kalíum gildi kæranda 3,1.
Í göngudeildarnótu E sérfræðings í lungnasjúkdómum, dags. X, segir:
„X […]. Reykt en hætt f X árum. Einkennalaus. Húðsýking X. Llíklega í kringum X kg. Miklir öndunarerfiðleika að næturlagi auk þess sem hann hrýtur og þjáist af mikilli þreytu og dagsyfju. Svefnmæling sýndi kæfisvefn.. HT tekið Lopress comp 62,5 1x1. EF við ómskoðun metin um 45-50%. slagæðablóðgasmæling í des sýndi eðlileg gildi. pH mælist 7.5, pCO2 40.5, pO2 86.2 og mettun 97.3% þetta er af andrumslofti. A segist hafa unnið við […] en síðan hefur hann verið atvinnulaus. Segist vera hjá VIRK núna í einhverskonar endurhæfingu. Hann er sjálfur ekki viss um hvort hann sé með fulla ororku eða hálfa. X Niðurstöður rannsókna II (Orkuhúsið) - Röntgen Orkuhúsið C, Heilsugæslan B X Röntgen lungu: Það er grófur strúktúr basomedialt í hægra lunga mótsvarandi lobus medius þar sem grunur er um íferð. CT gæti komið að gagni við viðvarandi einkenni. Hjartað er stækkað en lungaæðar eru ekki áberandi víðar. Ekki merki um aukinn fleiðruvökva. / I. X (bréf C, lækis, Hgs B. A er gríðarlega feitur með háþrýsting , sögu um lungnaemboliu og á Kóvar vegna þess. Ert á Seretide Discus vegna mæði. Er samt að fá köst með öndunarþrengsum og einhverjum surghljóðum. Þakklátur mat á lungnastatus. […]. Þakklátur ef þú gætir séð hann fljótlega/ mbk C X Obestitas. HT. Sleep apnea. Var á Reykjalundi í eftirfylgt út af þyngd. Lungnamynd í Orkuhúsi sýndi ? neðst í hæ thorax. Presmin var aukið í 100 mg 1 x1 þann X. Finnur stundum að hjartað taki kipp þegar hann er lagstur niður. Tekur nú Presmin 50 mg 1x2; Hann er greindur með kæfisvefn og notar CPAP vél. Neitar brjóstsviða eða nábít. Var til staðar áður en lagaðist þegar hann hætti að drekka gos. Tekur Kóvar, Kaleorid, Seretide, Presmin 50 mg 1x2; Stundum róandi Sobril, grípur í. Foreldrar höfðu ekki astma né systkini. Ekkert gróðurofnæmi sem lítill. Próf fyrir grasi var vístjákvætt en seinna neikvætt. Hann spilar upptöku á öndunarhljóðum öndun er regluleg, innöndun eðlileg en í útöndun heyrast gróf slímhljóð frá efri öndunarvegi. Stundum með verk í hæ síðu. Vægur bjúgur á fótlimum nú að morgni dags SaO2: 97%; p. 81; FEV1: 56%; FVC SS; FEV1/FVC 101; PEF 43%; 132/95-100; Finn ekki merki um astma.. Fer í TS af lungum án kontrasts. NIÐURSTAÐA: Sjúklegar breytingar greinast ekki í lungum./ Úrlestur: Í“
Í göngudeildarskrá D yfirlæknis, dags. X, segir:
„Það vísast í fyrri nótur. A segist fá mikil óþægindi eða vanlíðan annað slagið. Þetta getur komið nokkuð skyndilega en stendur í nokkra daga í senn og hann vill ekki viðurkenna að þetta sé kvíði en hann hefur talið að þetta tengist inntöku á Kóvar og nú warfarini sem er sama virka efnið. Þegar hann fær þessi óþægindi hefur hann sjálfur minnkað skammtinn á warfarini sem aftur hefur leitt til þess að INR mælingar hafa stundum lækkað en almennt hefur hann þó verið mjög vel blóðþynntur með sín markgildi milli 1.5 - 2.5. Hann segir að hann taki stundum Sobril en það virki þó ekki beinlínis á þessa vanlíðan. Hann tekur einnig Losartan og Kaleorid og stöku sinnum Seretide vegna slíms í lungum sem hann kallar. Ég segi honum að þessi vanlíðan sem hann lýsir sé ekki aukaverkun af warfarini sem sé þrautreynt lyf og hafi mjög litlar aukaverkanir aðrar en blæðingar. Segi honum sömuleiðis að vegna hans miklu offitu þá komi ekki til greina að setja hann á önnur blóðþynningarlyf nema ef vera skyldi Fragmin eða Klexane sprautur. DOAC lyf séu frábent í hans tilfelli. Sagði honum að ef hann kysi að reyna slík lyf þá væri það alfarið á hans eigin ábyrgð að blóðþynningin gæti orðið ófullnægjandi og hann væri í mikilli hættu að fá blóðtappa. Sagði honum þó að hugsanlegt væri að stöðva warfarinið í einhvern tíma og setja hann á slíkt lyf og sjá hvort þessi almenna vanlíðan myndi batna en eg sagðist alls ekki mæla með þeirri leið.“
Í bráðamóttökuskrá J læknis, dags. X, segir um sögu kæranda:
„Heilsufarssaga: X ára maður, morbidly obese og með sögu um PE sem fluttur er á BMT vegna frekar skyndilegrar mæði. Var í […], og fór í […] eftir það. Varð þá mjög móður og gat vart komist úr […] vegna mæði og þróttleysis. Tachycard og mettar 90% við komu sjúkraflutningamanna. Ekki með verki. Ekki verið veikur að öðru leyti með hósta, kvef eða annað slíkt. Hefur verið að fá "köst" með mæði, hann vill tengja það við þegar þrýstingur rýkur upp. ATH frá X hefur INR mælst eðlilegt, átti þá að vera á Kóvar. Byrjar á Xarelto X. Lyf Xarelto 20mg x 1 Presmin 50mg x 1 (Síðast ávísað 100stk í mars, yfirheyri hann aðeins um þetta og er að taka lyfið mjög óreglulega, fær suð fyrir eyru)“
Um rannsóknir segir:
„Blpr: Hvít-9,4 Hb-133 APTT-44,1 PT-17,8 Na-142 K-3,0 Krea-69 CRP-18 TnT-14 BNP-438 Venugös: pH-7,41 pCO2-49 Bicarb-28 CT lungu, angio: Tæknilega góð rannsókn með ágætis fyllingu í truncus pulmonalis, HU rétt yfir 250. Engar embólíur greinast. Ground-glass og alveolar íferðir í báðum lungum, meira hæ. megin og sérstaklega dorsalt. Lungnaæðar eru víðar. Væg þykknun á septae basalt. Peribronchial cuffing. Útlit samrýmist helst hjartabilun. Ekki fleiðruvökvi. Niðurstaða: Engar embólíur greinast. Grunur um hjartabilun.“
Um álit og áætlun segir svo:
„Skyndileg mæði. Er hjartabilaður á mynd, með háan BP og vægt hækkað BNP. Þetta er sennilegasta orsökin, engar stærri embolíur sjást á mynd, en síðast þurfti V/Q skann til að greina þær. Hann er á Xarelto, en blæðingarpróf mjög hóflega lengd. Plan: - Eyk Xarelto upp í 30mg x 1 í þrjár vikur, heimilislæknir þyrfti að heyra svo í hematolog hvort að þetta þungur maður ætti ekki að vera á 30mg x 1 til frambúðar. - Hefur ekki verið að taka Presmín sem skyldi, segir frá suði í eyrum. Set hann á Valsartan/Htz, bæði fyrir þrýsting sem og létt þvagræsandi vegna hjartabilunar/bjúgs. - Hann er aðeins lækkaður í kalíum, kominn á valsartan/htz sem gæti lyft því aðeins upp. - Bið hann að bóka sér tíma á heilsugæslu í komandi viku til að taka stöðuna, og væri ágætt að stefna að blóðprufum í þarnæstu viku. útskrifast heim.“
Samkvæmt niðurstöðum blóðrannsókna X mældust kalíum gildi kæranda 2,9. Í samskiptaseðli J læknis, dags. X, segir að Kaleorid skammtur kæranda sé aukinn í 2x3 samkvæmt ráðleggingum frá vakthafandi lækni á Landspítala. Samkvæmt niðurstöðum blóðrannsókna X mældust gildin 3,2. Í göngudeildarskrá N læknis, dags. X, segir að blóðprufur þann daginn hafi sýnt eðlileg kalíum gildi, 4,1. Þá var tekið fram að gildin hafi legið í kringum 3,0 síðastliðin þrjú ár.
Í göngudeildarnótu L hjartalæknis, dags. 6. desember 2019, segir:
„A er X ára offeitur maður með sögu um segarek til lungna og var á Kóvar um tíma. Mæddist skyndilega í X og var greindur með háþrýsting og hjartabilun á LSP. Stasi í lungnamynd, Embólíuskann var neiknvætt en kalium var 2.9 og var gefið kalium og einnig Presmin 100mg og Furix 40mg og kom svo á flýtimóttöku LSP til eftirlits. Hafði verið settur áður á Valpress comp. sem hann leysti þó ekki út. Ekki heldur að taka xarelto. Fyrra heilsufar: - Ofþyngd. - Kætisvefn, sefur í CPAP. - PE X (átti aðeins að vera á þynningu í 12 mánuði skv. læknabréfi) Á hjartaómskoðun frá X: "Vægt skertur þykknaður vinstri slegill en lokustarfsemi virðist innan þess eðlilega. Ómskyggni er mjög slæmt." Núverandi lyf: - Presmin 50 mg 2 +1 - Furix 20 mg x1 - Kaleorid 750 mg 2x3 Ofnæmi: Skuggaefni. Skoðun: Offeitur, 170/90, p 70, ekki bjúgur eða merki um hjartabilun. ÁP: BÞ enn hár, er með hypertensiva cardiomyopathy, bæti í cardosin 4mg með hinu, ekki góð meðferðarheldni og einnig margir að lækna hann á sama tíma. Sé hann aftur eftir 3 mánuði, þarf að fylgjast með kalium en síðasta mæling í lagi.“
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi er langveikur með segarek til lungna, háþrýsting og ofþyngd. Hann var greindur með kalíum skort og fór á uppbótarmeðferð við því. Úrskurðarnefndin telur ljóst að einhver vanhöld voru á eftirfylgni með þeirri uppbótarmeðferð vegna forfalla læknis kæranda. Í grunninn er þó ljóst að hann hefur verið mikið rannsakaður með tilliti til orsaka á vanheilsu hans. Vandséð verður af framlögðum gögnum að kærandi hafi orðið fyrir varanlegu eða tímabundnu tjóni sem hafi verið tengd forföllum heimilislæknis hans og þá að seinkun hafi orðið á eftirliti með kalíum búskap hans. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að meðferð kæranda hafi verið í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði og að ekkert bendi til þess að sjúklingatryggingaratburður hafi orðið. Bótaskylda er því ekki fyrir hendi á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.
Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda.
Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson
[1] UpToDate: Medical therapy — We recommend that patients with bilateral adrenal hyperplasia be treated with medical therapy and not adrenalectomy because: 1. Blood pressure control is often inadequate with unilateral adrenalectomy in patients with bilateral disease. 2. The risks associated with bilateral adrenalectomy (including the need for lifelong glucocorticoid and mineralocorticoid replacement) outweigh the potential benefits First line: Mineralocorticoid receptor antagonists — Optimal treatment of IHA consists of mineralocorticoid receptor blockade with spironolactone or eplerenone. Spironolactone has long been the drug of choice; eplerenone, although shorter-acting, is more specific for the aldosterone receptor and is associated with fewer side effects. The goals of therapy are: raising serum potassium into the highnormal range, normalization of the blood pressure, and reversal of the effects of hyperaldosteronism on the heart and kidneys. (See 'Treatment goals' above.) Choice of MRA — Our current approach is to start with the mineralocorticoid receptor antagonist (MRA) spironolactone.
[2] Asian J Androl. 2014 Mar-Apr; 16(2): 223–231… Low testosterone levels are frequently encountered in obese men who do not otherwise have a recognizable hypothalamic-pituitary-testicular (HPT) axis pathology. Moderate obesity predominantly decreases total testosterone due to insulin resistance-associated reductions in sex hormone binding globulin. More severe obesity is additionally associated with reductions in free testosterone levels due to suppression of the HPT axis. Low testosterone by itself leads to increasing adiposity, creating a self-perpetuating cycle of metabolic complications. Obesity associated hypotestosteronemia is a functional, non-permanent state, which can be reversible, but this requires substantial weight loss. While testosterone treatment can lead to moderate reductions in fat mass, obesity by itself, in the absence of symptomatic androgen deficiency, is not an established indication for testosterone therapy. Testosterone therapy may lead to a worsening of untreated sleep apnea and compromise fertility. Whether testosterone therapy augments diet- and exercise-induced weight loss requires evaluation in adequately designed randomized controlled clinical trials.
Ann Intern Med. 2020 Jan 21;172(2):126-133. Recommendation 1a: ACP suggests that clinicians discuss whether to initiate testosterone treatment in men with age-related low testosterone with sexual dysfunction who want to improve sexual function (conditional recommendation; low-certainty evidence). The discussion should include the potential benefits, harms, costs, and patient's preferences. Recommendation 1b: ACP suggests that clinicians should reevaluate symptoms within 12 months and periodically thereafter. Clinicians should discontinue testosterone treatment in men with age-related low testosterone with sexual dysfunction in whom there is no improvement in sexual function (conditional recommendation; low certainty evidence). Recommendation 1c: ACP suggests that clinicians consider intramuscular rather than transdermal formulations when initiating testosterone treatment to improve sexual function in men with age-related low testosterone, as costs are considerably lower for the intramuscular formulation and clinical effectiveness and harms are similar. Recommendation 2: ACP suggests that clinicians not initiate testosterone treatment in men with age-related low testosterone to improve energy, vitality, physical function, or cognition (conditional recommendation; low-certainty evidence).