Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 325/2009 - Úrskurður

 

 

Föstudaginn 20. ágúst 2010

 

 

 

325/2009

 

 

 

 

A

 

gegn

 

Sjúkratryggingum Íslands

 

 

 

 

Ú r s k u r ð u r

 

 

 

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

 

Með bréfi, dags. 2. september 2009, kærir A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu. Eftir að kæra í málinu barst úrskurðarnefnd tók B, hrl., að sér að gæta hagsmuna kæranda.Þess er krafist að synjun Sjúkratrygginga Íslands verði felld úr gildi og bótaréttur viðurkenndur.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu sem barst Sjúkratryggingum Íslands þann 15. maí 2009 sótti kærandi um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 vegna þrálátrar sýkingar í sári eftir aðgerð við hásinarsliti. Sjúkratryggingar Íslands öfluðu gagna frá C og D, heimilislækni á E. Með bréfi, dags. 1. júlí 2009, synjuðu Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu.

 

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er málsatvikum lýst svo:

 

„Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafði kærandi verið slæmur í hægri hásin um nokkurt skeið áður en til sjúklingatryggingaratburðar kom. Kærandi leitaði á C X vegna verkja og bólgu í og við hægri hásin. Ómskoðun var þá gerð af hásin og sást spólulaga þykknun á sininni. Ekki voru klinisk einkenni um að sinin væri í sundur. Kærandi fékk því ávísað bólgueyðandi lyfi. Þann X rann kærandi í hálku og fékk sáran verk aftanvert um hægri fótlegg og ökkla. Hann var skoðaður samdægurs og við þá komu er lýst mari og blæðingu um hæl og bólgu í fótlegg. Endurkoma fór síðan fram X. Bólga hafði þá rénað og greina mátti defect í hásininni. Þann X var gerð aðgerð þar sem hásin var saumuð saman og styrkt með plantaris sin. Í aðgerðarlýsingu kemur fram að hásinaendar voru nokkuð afrúnnaðir og höfðu merki þess að slitið væri ekki ferskt. Eftir aðgerð fór kærandi í hefðbunda gifsmeðferð vegna hásinarslits. Saumataka fór fram X. Skurður var þá sagður gróinn nema á litlu svæði og var því lokað með steristrips. Fylgst var áfram með sárinu í allan desembermánuð þar sem það greri ekki og drep virtist koma í húðkanta. Kærandi var settur á fyrirbyggjandi sýklalyfjagjöf þann X vegna þess að sár var opið þótt ekki væru þá nein sýkingareinkenni. Þann X var gerð aðgerð á sári aftan á hægri hásin og eftir þá aðgerð var kærandi lagður inn á C til sýklagjafar í æð. Áfram voru gerðar skiptingar og sárameðferðir. Þriðja aðgerðin fór fram X og var þá allur necrotiskur vefur fjarlægður frá sári og komið 6 cm gap þar sem hásin vantaði. Síðasta aðgerðin var gerð X þar sem enn og aftur var fjarlægður nekrotiskur vefur. Kærandi var áfram í sáraskiptum og sár hefur verið að holdfyllast smám saman.“

 

Í kæru til úrskurðarnefndar segir kærandi að hann hafi orðið fyrir tjóni sem falli undir lög um sjúklingatryggingu. Hann hafi orðið fyrir sýkingu eftir að hafa gengist undir aðgerð þann X vegna hásinaslits sem leitt hafi til þess að drep komst í hásinina sem þurft hafi að fjarlægja í aðgerð þann X.

 

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Sjúkratrygginga Íslands með bréfi dags. 16. september 2009.  Í greinargerðinni, dags. 5. október 2009, segir m.a. svo:

 

Niðurstaða sjúkratrygginga

Eins og fram kemur hér að ofan fékk kærandi svæsna sýkingu í kjölfar viðgerðar á hásin sem erfitt var að uppræta. Sár greri ekki og drep komst í dýpri vefi með þeim afleiðingum að fjarlægja varð alla hásinina.

 

Ekkert í gögnum málsins bendir til annars en að meðferð kæranda hafi verið hagað eins vel og unnt var og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Því var ekki hægt að fella atvikið undir 1. tl. 2. gr. laganna. 2.-3. tl. eiga ekki við í þessu tilviki og kemur 4. tl. því til skoðunar.

 

Sýkingarhætta í hásinaaðgerðum er tölvuvert mikil þar sem léleg blóðrás í sininni, auk þess sem sauma verður hana niður með grófum saumi sem liggur í sininni sem aðskotahlutur. Þá hafa að öllum líkindum verið komnar hrörnunarbreytingar í sinina í þessu tilviki. Sin liggur mjög grunnt undir húð og því töluverð hætta á húðdrepi. Ef sár myndast er veruleg hætta á sýkingu, bæði vegna lélegrar blóðrásar í sininni svo og vegna saumsins sem er aðskotahlutur.

 

Rannsóknir hafa sýnt tíðni sáravandamála og sýkinga í skurðsári á bilinu 2,7% til 8,5%. Yfirleitt er mjög erfitt að greina að einstaka þætti sáravandamála. Alvarlegar sýkingar þar sem skurður grær ekki til fulls vegna dreps í húðköntum og opið sár myndast sem síðan sýkist er vel þekktur fylgikvilli.

 

Fram kemur í bréfi D heimilislæknis dags. 7. september 2009 að um sé að ræða fylgikvilla sem er sjaldgæfari en 1-2%. Sjúkratryggingar vilja benda á í þessu sambandi að tíðnitölur eru mjög á reiki hvað tíðni varðar og ekki alltaf ljóst hvað nákvæmlega er lagt til grundvallar þessum tölum en mjög erfitt getur því verið að greina einstaka þætti sáravandamála. Sjúkratryggingar hafa því lagt til grundvallar í sínu mati á tíðni fylgikvillans sem hér um ræðir að um alvarlega sýkingu hafi verið að ræða. Augljóst er að með því að einangra einstaka þætti sýkingarinnar líkt og kemur fram í áðurnefndu bréfi heimilislæknis kæranda er hugsanlega hægt að finna tíðni sem er undir 1-2%. Í framkvæmd hafa Sjúkratryggingar alla jafna miðað við heildaráhrif fylgikvillans. Þessu til stuðnings má benda á úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga í sambærilegum málum þ.e. í máli nr. 5/2007 og 25/2007.

 

Hvað varðar alvarleika fylgikvillans er nauðsynlegt að bera saman ástand kæranda eftir aðgerðina og það ástand sem hann væri í ef engin meðferð hefði verið veitt. Til þess að skilyrði um alvarleika sé uppfyllt þarf ástand sjúklings eftir meðferð að vera verra en ef engin meðferð hefði verið veitt. Ekki verður séð að ástand kæranda í dag sé verra en ef hann hefði ekki gengist undir umrædda aðgerð. Kærandi er nú í sömu sporum og ef engin aðgerð hefði verið framkvæmd, þ.e. hann er með óstarfhæfa hásin og án spyrnukrafts í hægri fæti.

 

Langlíklegast er að grunnsjúkdómur kæranda sé orsök sýkingar en ekki sú meðferð sem hann fékk í tengslum við slitið.

 

Í ljósi alls framangreind liggur fyrir að fylgikvilli sá sem kærandi fékk eftir hásinaaðgerðina er hvorki nægilega sjaldgæfur né alvarlegur miðað við grunnsjúkdóm til þess að falla undir 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu var því synjað.“

 

Greinargerðin var send kæranda með bréfi, dags. 9. október 2009, og honum gefinn kostur á að koma að frekari gögnum og/eða athugasemdum.  Í bréfi lögmanns kæranda, dags. 12. nóvember 2009, segir m.a. svo:

 

„Fyrir liggur mikill fjöldi gagna um gang málsins og sjúkrasögu A þar með talið læknabréf og aðgerðarlýsingar starfsmanna C þar sem aðgerðir þær sem gerðar voru á fótlegg A fóru fram. Þykir ekki ástæða til málalenginga um málsatvik sem eru ítarlega rakin í gögnum málsins, en rétt er þó að taka fram að bótakrafan er til komin í framhaldi af skurðaðgerðum vegna slits á hásin í hægri fótlegg sem átti sér stað þann X. Fékk umbjóðandi minn djúpa og afar þráláta sýkingu í kjölfarið sem olli drepi í hásin svo að nauðsynlegt var að fjarlægja hana. Fyrsta skurðaðgerðin fór fram þann X. Hálfum mánuði síðar var enn ógróið sár á fætinum, kom mikill vessi út með ólykt þannig að grunur var um sýkingu. Aftur gekkst umbjóðandi minn undir aðgerð þann X og í þriðja sinn þann X. Var þá hásinin tekin og aðeins skilin eftir sinaslíður en hásinin var þá ónýt vegna sýkingar. Að lokinni þessari aðgerð fór umbjóðandi minn í umfangsmikla sárameðferð, en þrátt fyrir það reyndist enn sýking í sárinu og fór fjórða skurðaðgerðin fram þann X.

 

Var öll þessi meðferð sársaukafull fyrir umbjóðanda minn auk þess sem hann var frá vinnu mánuðum saman með tilheyrandi tekjutapi.

 

A er lærður […], var fullfrískur maður áður með mikið starfsþrek og hafa veikindi þessi skert mjög starfsorku hans. Hann er nú farinn að stunda vinnu en aðeins létt innistörf enda skertur til gangs og getur ekki unnið standandi.

 

Ljóst er að heilsutjón umbjóðanda míns er mikið og ómótmælanlegt að beint orsakasamband er á milli hinnar þrálátu og alvarlegu sýkingar ásamt afleiðinga hennar og núverandi heilsufars hans.

 

Umbjóðandi minn telur sig eiga rétt til bóta skv. lögum um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 enda hafi hann óumdeilanlega orðið fyrir líkamlegu tjóni við sjúkdómsmeðferð á sjúkrahúsi en tilgangur laganna er að bæta sjúklingum það tjón sem verður með nánar tilteknum hætti á sjúkrastofnunum.

 

Telur hann ótvírætt að tjón sitt falli undir 2. grein 4. töluliðar ofangreindra laga þar sem segir að bætur skuli greiða ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagagreininni segir ennfremur að annars vegar skuli líta til þess hve tjón sé mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skuli taka tillit til þess hve algengt sé að tjón verði af þeirri meðferð sem sjúklingur gekkst undir.

 

Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur virðist byggð á því að heilsutjón umbjóðanda míns sé í fyrsa lagi ekki “alvarlegt” og í öðru lagi “ekki sjaldgæft”. Þessum staðhæfingum er harðlega mótmælt og er í því sambandi sérstaklega vísað til vandaðs læknisvottorðs sem D læknir gerði 7. september s.l. og lagt er fram í málinu. Tel ég vottorð læknisins hafa mikið vægi enda byggir hann vottorð sitt á fjölda heimilda sem hann hefur rannsakað varðandi þetta mál. Samkvæmt athugunum hans reyndust aðeins örfáir eða um það bil 1% sjúklinga af þessu tagi hafa fengið djúpa sýkingu eða drep. Er niðurstaða læknisins sú að örkuml af því tagi sem umbjóðandi minn varð fyrir sé afar sjaldgæft. Að sögn umbjóðanda míns kveðst læknir sá sem framkvæmdi aðgerðirnar aldrei hafa numið hásin á brott fyrr á löngum ferli sínum.

 

Hvað alvarleika snertir er augljóst að heilsa umbjóðanda míns og tekjuöflunarmöguleikar hafa skerst stórlega og hlýtur það að teljast alvarlegt mál.

 

Í lagagreininni er sérstaklega tekið fram að bæta skuli tjón ef það sé meira en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Tel ég engan vafa leika á því að svo sé og spyrja má hvaða heilsuskerðingu eigi að bæta ef Sjúkratryggingar telja þessar aðstæður umbjóðanda míns ekki bótaskyldar. Er það krafa umbjóðanda míns að fyrrgreind synjun verði felld niður og fullar bætur greiddar til hans.“

 

Framangreint bréf lögmanns kæranda var sent Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi, dags. 23. nóvember 2009.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

 

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi gekkst undir aðgerð þann X vegna hásinarslits. Kærandi gekkst síðan undir þrjár aðrar aðgerðir í kjölfarið. Kærandi fékk svæsna sýkingu í kjölfar fyrstu aðgerðarinnar sem erfiðlega gekk að uppræta. Sár greri ekki og drep komst í dýpri vefi með þeim afleiðingum að fjarlægja þurfti alla hásinina.  Sjúkratryggingar Íslands byggja synjun bótaskyldu á því að langlíklegast hafi verið að grunnsjúkdómur kæranda hafi verið orsök sýkingar en ekki sú meðferð sem hann fékk í tengslum við slitið.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru vísar lögmaður kæranda til bréfs D, læknis, dags. 7. september 2009, en í því segi að læknirinn hafi rannsakað fjölda heimilda vegna máls kæranda. Samkvæmt athugunum D hafi aðeins örfáir eða u.þ.b. 1% sjúklinga eins og kærandi fengið djúpa sýkingu eða drep. Vísar lögmaðurinn til þess að niðurstaða læknisins sé sú að örkuml af því tagi sem kærandi varð fyrir sé afar sjaldgæft. Þá bendir lögmaðurinn á að heilsa kæranda og tekjuöflunarmöguleikar hafi skerst stórlega og það hljóti að teljast alvarlegt mál.

 

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er rökstutt það mat stofnunarinnar að bótaskylda sé ekki fyrir hendi samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000. Ástand kæranda sé ekki verra eftir aðgerðirnar en ef hann hefði ekki gengist undir umrædda aðgerð, þ.e. hann sé með óstarfhæfa hásin og án spyrnukrafts í hægri fæti. Langlíklegst sé að grunnsjúkdómur kæranda sé orsök sýkingar en ekki sú meðferð sem hann fékk í tengslum við slitið. Þá er á það bent í greinargerðinni að fylgikvilli sem kærandi fékk eftir hásinaraðgerðina sé hvorki nægilega sjaldgæfur né alvarlegur miðað við grunnsjúkdóm til þess að falla undir 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

 

Í bréfi D, dags. 7. september 2009, sem hann sendi Sjúkratryggingum Íslands í kjölfar synjunar bótaskyldu í málinu segir m.a. svo:

 

„Ljóst er því að afleiðingar fylgikvillans eru meiri en svo að sanngjarnt sé að hann þoli þær bótalaust. Tæpast verður því á móti mælt að sá fylgikvilli sé alvarlegur, sem sviptir mann vinnugetu sinni. Synjun þín byggir hins vegar á því, að fylgikvillinn sé algengur (6%) og er þar ranglega vitnað til einnar heimildar. Jafnframt er að því ýjað, að sé tíðni fylgikvilla meiri en 1-2% þá sé ekki hægt að fella örkuml undir 4. tl. 2. mgr. ofangreindra laga. Í téðum lögum er hins vegar hvergi að finna skilgreiningu á því, hvað sé algengt og hvað sé sjaldgæft. Alla vega er hvergi minnst á töluna 1-2% í lögunum og ekki heldur í greinargerð með lagafrumvarpinu.

 

Auk þess hafna ég algjörlega þeirri fullyrðingu, að tíðni svo umfangsmikils dreps við hásinaraðgerðir á kennsluspítölum sé í dag 6%. Við leit í læknisfræðigrunninum Medline á árabilinu 1996-2009 er ekkert að finna um tíðni hásinardreps eftir aðgerðir, en má finna nokkrar heimildir um tíðni sýkinga eftir slíkar aðgerðir, sem virðast vera frá 0-5,6%. Augljóst má vera, að tíðni umfangsmikils dreps hlýtur að vera töluvert minni en tíðni sýkinga, því ekki leiða allar sýkingar til eyðileggingar á hásininni. Í bréfi þínu er vitnað í Nistor L, J. Bone & Joint Surg. 66-A 1984 og því haldið fram, að samkvæmt heimildinni megi gera ráð fyrir svona fylgikvilla eftir 6% hásinaraðgerða. Við rafræna leit í ofangreindu læknisfræðiriti er aðeins eina grein að finna eftir þennan höfund og er hún frá 1981. Þar gerir hann grein fyrir árangri rannsóknar, sem hann stjórnaði sjálfur og bar saman skurðaðgerðir og íhaldssama meðferð á hásinarsliti. Þar urðu 2 sýkingar eftir 44 hásinaraðgerðir (4,5%), sem báðar læknuðust við lyfjagjöf svo sinin greri að fullu. Minniháttar fylgikvillar eru ekki fátíðar við þessar aðgerðir og í rannsókn Nistors urðu 2 endurslit hjá þessum 44 sjúklingu, en þar var ekki um sýkingu að ræða. Við athugun hans á fylgikvillum 2647 hásinaraðgerða í rannsóknum birtum fyrir 1981 reyndust aðeins 24 (0,9%) hafa fengið djúpar sýkingar, fistilmyndun 76 (2,9%), drep í húð, sin eða hvorttveggja 52 (2,0%) og endurslit hásinar 45 (1,7%). Í svipaðri úttekt Cetti og samverkamanna á rannsóknum birtum fram til 1990 voru skoðuð afdrif 2347 sjúklinga, sem undirgengist höfðu flóknari gerðir hásinarviðgerða (plantaristækni, Lindholmtækni, Silfverskioldtækni og pull-out wire technique). Þar reyndust 1,6% hafa fengið djúpa sýkingu  og 1,2% endurslit.

 

Örkuml af því tagi, sem A varð fyrir, þar sem sýking veldur drepi og ónýtir hásinina, virðist því afar sjaldgæf. Mælist ég því eindregið til að synjun umsóknarinnar verði endurskoðuð.

 

Í greinargerð meðferðaraðila til Sjúkratrygginga Íslands, sem undirrituð er af F, bæklunardeild C, dags. 23. apríl 2009, segir svo um tjónsatvikið:

 

„Daginn eftir aðgerð leit allt vel út við skiptingu en þó blæddi enn aðeins úr sárinu. Við frekara eftirlit kom smám saman í ljós að enn blæddi úr sárinu og það hafði tilhneigingu til að gliðna og síðan kom kant necrosa í sárið og síðan sýking sem verið hefur erfitt að eiga við. Þetta olli endurteknum heimsóknum sj. til skiptinga og hann hefur þurft að gangast undir nokkrar revisions aðgerðir þar sem sárfistill hefur verið excideraður og degeneruð og necrotisk sin verið fjarlægð smám saman þannig að undir lokin var kominn 6 cm defect í hásinina þegar búið var að hreinsa burt allan necrotiskan vef. Sárið hefur síðan verið mjög lengi að gróa. Sj. hefur gengið í endurteknar sáraskiptingar hjá sárahjúkrunarfræðingi á C. Hann hefur einnig verið í VAC meðferð. Smám saman hefur defect fyllst með granulations vef og húð byrjaði að gróa yfir. Sárið er enn ekki fullgróið en drefect sem myndaðist hefur tiltölulega nýlega fyllst endanlega vel upp með granulations vef og húð er byrjuð að gróa yfir.“

 

Um þá spurningu í hvort tjónsatvikið hafi valdið kæranda varanlegu heilsutjóni svarar F játandi í greinargerð sinni. Síðan segir svo:

 

„Vantar bút í hásinina þannig að hún funcerar ekki. Þar með visst aflleysi við plantar flexio og gang.“

 

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu nr. 111/2000 segir að bætur skuli greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til þeirra tilvika sem rakin eru í 1. – 4. tl. greinarinnar. Það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingarlögum að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir eða slysi sem viðkomandi verður fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í 2. gr. laga nr. 111/2000 er að finna líkindareglu sem ætlað er að auðvelda þeim sem sækir um bætur að sýna fram á orsakasamband milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar. Þannig segir: ,,... enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:..”  Þannig skal bæta tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af t.d. rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Þessi lögskýringasjónarmið eru áréttuð í greinargerð með lögunum.

 

Kærandi byggir kröfu sína um bætur á 4. tl. nefndrar 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Í 4. tl. segir svo:

 

„Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúk­lingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.”

 

Úrskurðarnefnd almannatrygginga, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á hvort bótaskylda telst fyrir hendi  á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg.

 

Óumdeilt er í máli þessu að kærandi fékk afar þráláta og djúpa sýkingu í kjölfar hásinaraðgerðar. Sár greri ekki og drep komast í dýpri vef með þeim afleiðingum að fjarlægja varð alla hásinina. Kærandi býr nú við skertari gönguhæfni en áður en hann varð fyrir hásinarslitinu og er án spyrnukrafts í hægri fæti. Það er álit úrskurðarnefndar almannatrygginga að sýking í kjölfar skurðaðgerða þó hún hafi í för með sér einhverjar varanlegar afleiðingar leiðir ekki sjálfkrafa til bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingu. Skoða þarf hvert mál sérstaklega. Við mat á rétti til bóta vegna sýkingar segir beinlínis í 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu að líta skuli annars vegar til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms eða heilsufars sjúklings að öðru leyti. Ennfremur skuli taka mið af því hvort algengt sé að tjón verði af viðkomandi meðferð eða hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á síku tjóni. Kærandi mátti vita að sýkingarhætta var nokkur, en ekki hefur annað komið fram í málinu en að kærandi hafi mátt eiga von á að einkenni sem hann hafði frá hásininni löguðust við aðgerðina. Svo var ekki vegna afleiðinga sýkingar sem olli drepi sem eyðilagði hásinina. Að mati úrskurðarnefndar voru afleiðingar þær sem kærandi varð fyrir óvenjumiklar og mun meiri en kærandi mátti búast við. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi orðið fyrir heilsutjóni í kjölfar sjúklingatryggingaratburðar. Kærandi er því að mati úrskurðarnefndarinnar verr settur eftir aðgerðina en fyrir hana þar sem hann fékk ekki bót meina sinna heldur þurfti að gangast undir endurteknar aðgerðir og býr við það að hafa óstarfhæfa hásin. Ber því að viðurkenna bótaskyldu í málinu. Í máli þessu er ekki tekið til úrlausnar hvert hið bótaskylda tjón kæranda er. Málið er því sent Sjúkratryggingum Íslands til fyllri meðferðar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

 

Viðurkennd er bótaskylda samkvæmt sjúklingatryggingu vegna afleiðinga aðgerðar sem A, gekkst undir þann X. Málið er sent Sjúkratryggingum Íslands til fyllri meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

 

 

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta