Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 72/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 72/2023

Miðvikudaginn 31. maí 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 5. febrúar 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. september 2022 um upphafstíma greiðslna örorkulífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, móttekinni 11. september 2019. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 17. september 2019, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. Með beiðni, dags. 25. september 2019, fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og ákvað Tryggingastofnun í kjölfarið að endurupptaka mál kæranda og boða hann til skoðunarlæknis. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 14. október 2019, var kærandi ekki talinn uppfylla skilyrði staðals um örorkulífeyri en var metinn örorkustyrkur frá 1. júlí 2019 til 31. ágúst 2022. Með beiðni 16. október 2019 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 24. október 2019. Kærandi óskaði eftir ítarlegri rökstuðningi 24. október 2019, 11. nóvember 2019 og 14. nóvember 2019 og var hann veittur með bréfum, dags. 13. og 15. nóvember 2019. Kærandi óskaði eftir endurupptöku með símtali og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. mars 2020, var beiðninni synjað. Kærandi kærði synjun á endurupptöku til úrskurðarnefndar velferðarmála 26. mars 2020 og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 151/2020 þann 2. september 2020 var synjun á endurupptöku staðfest. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á ný frá 9. júní 2020 með rafrænni umsókn, móttekinni 9. júní 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. september 2022, var kæranda metinn örorkulífeyrir og var gildistími matsins ákvarðaður varanlegur frá 1. janúar 2022. Með beiðni 26. október 2022 fór kærandi fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og var hann veittur með bréfi, dags. 10. nóvember 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 5. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 7. febrúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 7. mars 2023, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 16. mars 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 30. mars 2023 og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. apríl 2023. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru vísar kærandi til þess að hafa sótt um örorkulífeyri fyrst árið 2019 og hafi þá verið metinn til 50% örorku. Kærandi hafi talið og telji enn að það mat hafi verið rangt og að hann hefði átt að vera metinn með 75% örorku. Hann hafi sótt um leiðréttingu á því, en hafi verið neitað. Rök hans hafi verið þau að örorka sé metin eftir punktakerfi sem nánar sé skilgreint í fylgiskjali með reglugerð nr. 379/1999. Samkvæmt því fylgiskjali hefði hann átt að fá 16 stig sem sé nóg til að vera metinn 75% öryrki, en vegna misskilnings sem hafi orðið á milli hans og skoðunarlæknis hafi hann aðeins fengið 10 stig sem nægi einungis fyrir mati upp á 50% örorku.

Matið frá 2019 hafi gilt í þrjú ár og hafi hann nú verið endurmetinn með 75% örorku. Þar sem kærandi telji að fyrra mat hafi verið rangt hafi hann sótt um að nýja matið yrði látið gilda tvö ár aftur í tímann, en það sé það lengsta sem hægt sé að sækja um á vef Tryggingastofnunar ríkisins. Nýja matið hafi hins vegar ekki verið látið gilda nema tæpt hálft ár aftur í tímann frá umsóknardegi sem hafi verið 9. júní 2022, eða frá 1. janúar 2022. Þegar hann hafi beðið um rökstuðning hafi hann fengið ég svar frá Tryggingastofnun þar sem hafi staðið meðal annars: „Umsækjandi sótti afturvirkt um greiðslur til 2 ára. Fram kemur í gögnum að ástand umsækjanda hafi versnað og er tiltekið 'vefjagigt' sem aðalástæða og hún greind um sl.áramót.. Hana er ekki að finna sem greiningu fyrr en í síðasta læknisvottorði. Er hún þvílögð til grundvallar mati nú og miðað örorku við 01.01.2022“ Það sé ekki rétt. Hvorki sé minnst á vefjagigt í vottorði frá heimilislækni né í skýrslu álitslæknis. Sennilega sé átt við fjölvöðvagigt, en hún sé nefnd í báðum skýrslunum, kölluð Polymyalgia rheumatica í vottorði frá heimilislækni.

Hvorugur læknirinn nefni hins vegar að það sé aðalástæða aukinnar örorku, enda hafi hún ekki aukist heldur verið 75% allan tíman. Í skýrslu álitslæknis segi að núverandi örorka, 75%, hafi varað í tvö ár, en heimilislæknir telji hana hafa varað frá því í mars 2019. Kærandi biðji um að nýja matið verði látið gilda lengra aftur í tímann en nú sé, helst aftur til ársins 2019 þegar kærandi hafi fyrst fengið greiddan örorkustyrk, en ef það sé ekki hægt þá tvö ár aftur í tímann frá umsóknardegi um endurmat, þ.e. aftur til 9. júní 2020.

Í athugasemdum kæranda, dags. 30. mars 2023, gerir hann nokkrar athugasemdir við greinargerð Tryggingastofnunar. Fyrst sé að nefna á hverju örorkumat sé byggt. Í greinargerð Tryggingastofnunar sé vísað í lög nr. 100/2007 um almannatryggingar og sagt að stofnunin greiði örorkulífeyri samkvæmt þeim lögum. Síðar í greinargerðinni segi að Tryggingastofnun sé ekki bundin af ályktunum lækna, heldur leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna. Framlögð gögn í máli kæranda séu læknisvottorð frá B heimilislækni, vottorð frá C lækni á vegum VIRK, skýrsla frá D, skoðunarlækni Tryggingastofnunar, og skýrsla frá E, skoðunarlækni Tryggingastofnunar.

Þar sem engin önnur gögn hafi verið lögð fram og enginn frá Tryggingastofnun hafi skoðað kæranda, þá geti ekkert sjálfstætt mat farið fram sem byggt sé á öðru en skýrslum þessara fjögurra lækna. Í fyrrnefndum lögum komi fram að Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Staðalinn sé að finna í fylgiskjali með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í lögunum sé ekkert minnst á sjálfstætt mat. Það sé læknir, sem tilnefndur sé af Tryggingastofnun, sem fari yfir staðalinn með hverjum umsækjanda og meti ástand hans. Kærandi telji því að Tryggingastofnun sé bundin af því að fara eftir niðurstöðu lækna í þessu máli. Sú niðurstaða, samkvæmt skýrslu E, sé að núverandi örorka, 75%, hafi varað í að minnsta kosti tvö ár en samkvæmt læknisvottorði frá heimilislækni að örorkan hafi varað frá 2019.

Annað sem kærandi vilji nefna sé ástæða örorku hans. Í greinargerð Tryggingastofnunar segi að í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 19. ágúst 2019, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. október 2019, komi fram að kærandi hafi talið aðalhömlun sína til atvinnuþátttöku vera gigt, bakverki og aldur. Þá segi í greinargerðinni að í bréfinu sé ákvörðun um upphafstíma örorkumats kæranda rökstudd á þann hátt að fram komi í gögnum málsins að ástand kæranda hafi versnað og tiltekið að vefjagigt, sem greind hafi verið síðastliðin áramót og komið fyrst fram í nýjasta læknisvottorði kæranda, sé aðalástæða versnunar. Hvorki heimilislæknir né skoðunarlæknir hafi nefnt vefjagigt sem aðalástæðu aukinnar örorku. Eins og fram komi hjá Tryggingastofnun hafi kærandi talið árið 2019 að gigt og afleiðingar […]slyss væru aðalástæður örorku hans og svo telji hann enn vera. Kærandi hafi talið fyrir rúmum þremur árum að örorka hans væri 75% og ef hann hefði fengið að leiðrétta þann misskilning sem þá hafi orðið, telji hann að hann hefði verið metinn þannig.

Þá greinir kærandi frá athugasemdum sínum við skýrslu skoðunarlæknis haustið 2019. Kærandi hafi greint skoðunarlækni frá því að hann ætti erfitt með að ganga í stiga og hann þyrfti oft að fara eina tröppu í einu. Þá hafi hann greint frá því að hann héldi sér alltaf í handriðið ef hann gæti ef hann væri ekki með báðar hendur fullar. Enn fremur að hann væri orðinn lafmóður þegar komið hafi verið upp á þriðju hæð þar sem hann búi. Einnig hafi hann sagt skoðunarlækni að hann ætti erfitt með að standa upp af stól eftir að hafa setið í einhvern tíma, til dæmis við að horfa á sjónvarpið. En einhverra hluta vegna hafi skoðunarlæknir skrifað í skýrslu sína að kærandi ætti í engum vandræðum við að standa upp af stól og í engum vandræðum með að ganga í stiga. Hefði það tvennt verið rétt skráð hefði hann verið með 16 stig í líkamlega hluta matsins og hefði þar með verið metinn 75% öryrki. Það sé því ekki um raunverulega aukningu á örorku nú, heldur aðeins leiðrétting á þeim mistökum sem hafi orðið fyrir þremur árum og ætti að leiðrétta þau mistök eins langt aftur í tímann og reglur leyfi.

Þá segi í greinargerð Tryggingastofnunar: „Þá segir að kærandi hafi talið vinnugetu sína vera 70% á þeim tímapunkti sem skýrslan er skrifuð og að hann hafi talið góðar líkur á að hann yrði kominn á vinnumarkað eftir 6 mánuði.“ Það sé ekki alls kostar rétt, enda séu misvísandi upplýsingar í skýrslunni frá VIRK og viðurkenni kærandi að hann hafi bara ekki lesið skýrsluna nógu vel til að átta sig á því fyrr en nú. Í skýrslunni segi: „A telur sig hafa verið öryrki lengi en haldist á vinnumarkaði. Hann hefur núna klárað atvinnuleysisbætur og leitaði þá eftir því að komast á örorku þar sem hann telur ekki líklegt að hann komist aftur á vinnumarkað... Hann metur vinnugetu sína 70% í dag en telur mjög góðar líkur á að hann verði komin á vinnumarkað eftir 6 mánuði.“ Þar segi bæði að kærandi hafi talið litlar líkur á að hann kæmist aftur á vinnumarkað og að hann hafi talið góðar líkur á að hann kæmist aftur á vinnumarkað. Hið rétta sé að hann hafi talið litlar sem engar líkur á því að hann kæmist aftur á vinnumarkað. Þar segi einnig að hann hafi talið vinnugetu sína vera 70%, en hið rétta sé að hann hafi talið örorku sína vera 75%.

Að lokum vilji kærandi benda á að í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „Við það mat skiptir þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd.“ Þar sé verið að vísa í það sjálfstæða mat sem hafi verið nefnt hér að ofan. Báðir skoðunarlæknarnir, D, sem hafi skoðað kæranda í október 2019, og E, sem hafi skoðað hann í ágúst 2022, séu tilnefndir af Tryggingastofnun. Kæranda finnist undarlegt að verið sé að efast um hlutleysi þeirra. Þar sem Tryggingastofnun hafi tilnefnt E og hafi aldrei dregið skýrslu hans í efa fyrr en eftir að kærandi hafi kært ákvörðun stofnunarinnar, beri að fara eftir því sem komi fram í skýrslu E að öllu leyti, en ekki bara sumu, og leiðrétta örorkumatið aftur í tímann um að minnsta kosti tvö ár.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæran varði niðurstöðu örorkumats. Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 9. júní 2022, og hafi fengið hana samþykkta með bréfi, dags. 6. september 2022, með vísan til þess að læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris væru uppfyllt. Upphafstími örorkumatsins hafi verið ákveðinn frá 1. janúar 2022 og gildistími þess varanlegur. Ágreiningur málsins lúti að upphafstíma örorkumatsins.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Örorkustaðallinn sé byggður á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlunum og sé að finna í fylgiskjali 1 með reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat, sbr. 2. gr. hennar.

Örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda við stöðluðum spurningalista, læknisvottorðs og ef þurfa þyki læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 379/1999.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar stofnist réttur til bóta frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.

Í 4. mgr. sömu greinar segi svo að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að Tryggingastofnun berist umsókn og önnur gögn sem nauðsynleg séu til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta.

Kærandi hafi fyrst sótt um örorkulífeyri með umsókn, dags. 11. september 2019, en þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi, dags. 17. september 2019, með vísan til þess að ekki hefði verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem læknisfræðileg endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti, dags. 25. september 2019. Í kjölfarið hafi Tryggingastofnun ákveðið að endurupptaka mál kæranda og boða hann til álitslæknis. Þann 14. október 2019 hafi kæranda svo verið birt ný ákvörðun. Þá hafi kæranda verið tilkynnt að hann uppfyllti ekki skilyrði staðals um örorkulífeyri en að færni til almennra starfa teldist skert að hluta. Læknisfræðileg skilyrði um örorkustyrk hafi því verið talin uppfyllt og örorka kæranda metin 50% frá 1. júlí 2019 til 31. ágúst 2022.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir þeirri ákvörðun með tölvupósti, dags. 16. október 2019. Kærandi hafi fengið þann rökstuðning með bréfi, dags. 24. október 2019. Þá hafi hann óskað eftir ítarlegri rökstuðningi með tölvupóstum, dags. 25. október 2019, 11. nóvember 2019 og 14. nóvember 2019. Kærandi hafi fengið slíka rökstuðninga með bréfum, dags. 13. og 15. nóvember 2019.

Synjun á beiðni um endurupptöku ákvörðunar Tryggingastofnunar frá 14. október 2019 þann 4. mars 2020 hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 26. mars 2020. Með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 151/2020 þann 2. september 2020 hafi ákvörðun Tryggingastofnunar, um að synja kæranda um endurupptöku á örorkumati hans, verið staðfest.

Kærandi hafi sótt um örorkulífeyri á ný með umsókn, dags. 9. júní 2022, af því tilefni að gildistími áður samþykkts örorkumats hafi verið við það að renna út. Þá hafi kærandi sótt um tvö ár aftur í tímann, þ.e. frá 9. júní 2020. Sú umsókn hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 6. september 2022, með vísan til þess að læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris væru uppfyllt. Upphafstími örorkumatsins hafi hins vegar verið ákveðinn frá 1. janúar 2022 og gildistími þess varanlegur.

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um upphafstíma örorkumatsins með tölvupósti 26. október 2022. Kærandi hafi fengið slíkan rökstuðning með bréfi, dags. 10. nóvember 2022. Í því bréfi sé ákvörðun um upphafstíma örorkumats kæranda rökstudd á þann hátt að fram komi í gögnum málsins að ástand kæranda hafi versnað og tiltekið að vefjagigt, sem greind hafi verið síðastliðin áramót og birtist fyrst í nýjasta læknisvottorði kæranda, sé aðalástæða versnunar. Sú greining hafi því verið lögð til grundvallar mati nú og miðað við upphaf örorkumats kæranda 1. janúar 2022.

Þann 5. febrúar 2023 hafi ákvörðun Tryggingastofnunar frá 6. september 2022, um að samþykkja umsókn kæranda um örorkulífeyri og miða upphaf gildistíma örorkumatsins við 1. janúar 2022, verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við örorkumat þann 6. september 2022 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 9. júní 2022, læknisvottorð, dags. 8. júní 2022, og önnur eldri gögn vegna fyrri umsókna um endurhæfingar- og örorkulífeyri.

Við örorkumat þann 14. október 2019 hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 11. september 2019, læknisvottorð, dags. 27. ágúst 2019, spurningalisti vegna færniskerðingar, dags. 16. september 2019, og þjónustulokaskýrsla VIRK, dags. 19. ágúst 2019.

Í læknisvottorði B, dags. 27. ágúst 2019, byggt á læknisskoðun sem hafi farið fram 27. ágúst 2019 og hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. október 2019, sé kærandi greindur með flogaveiki (e. epilepsy) (G40.9), þvagsýrugigt (e. gout) (M10.9), háþrýstingshjartasjúkdóm (e. hypertension) (I11.0) og skjaldvakabrest (e. hypothyroidism) (E03.9), sbr. ICD-10. Um heilsuvanda kæranda segi að kærandi sé með flogaveiki og hefði verið með frá X ára aldri. Þá segi að kærandi glími einnig við þvagsýrugigt, vanstarfsemi í skjaldkirtli og verki í brjóstbaki í kjölfar […]slyss. Um færniskerðingu kæranda segi að hann hafi unnið sem […]fræðingur hjá F þar til í X þegar honum hafi verið sagt upp vegna hagræðingar. Þá segi að kærandi hefði verið í virkri atvinnuleit frá því að honum hafi verið sagt upp og þar til vottorðið hafi verið skrifað. Enn fremur segi að kærandi eigi erfitt með að vinna upp fyrir sig og að vinna á hnjánum en að hann treysti sér vel til þess að vinna skrifstofustörf. Um endurhæfingu segi að kæranda hafi verið vísað til VIRK starfsendurhæfingarsjóðs sumarið 2019 en þjónustu VIRK hafi lokið á þeim grundvelli að starfsendurhæfing kæranda hafi verið talin óraunhæf. Að lokum segi að það sé mat vottorðshöfundar að kærandi hafi verið óvinnufær frá 15. júní 2019 og að ekki megi búast við að færni hans aukist með tímanum.

Í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 19. ágúst 2019, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. október 2019 segi að kærandi hafi talið aðalhömlun sína til atvinnuþátttöku vera gigt, bakverki og aldur. Þá segi að kærandi hafi talið vinnugetu sína vera 70% á þeim tímapunkti sem skýrslan sé skrifuð og að hann hafi talið góðar líkur á að hann yrði kominn á vinnumarkað eftir sex mánuði. Samkvæmt sérfræðingum VIRK hafi starfsendurhæfing verið talin óraunhæf á þeim tímapunkti þar sem meðhöndlun stoðkerfiseinkenna myndi ekki auka atvinnufærni en engu að síður talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði.

Í spurningalista vegna færniskerðingar, dags. 16. september 2019, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 14. október 2019, segi að heilsuvandi kæranda sé skert hreyfi- og vinnugeta vegna slæmrar þvagsýrugigtar og meiðsla í baki eftir […]slys.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi verið ákveðið að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri með bréfi, dags. 11. september 2019, á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 14. október 2019, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis sem byggð hafi verið á skoðun sem hafi farið fram 7. október 2019. Í skýrslunni komi fram að þrátt fyrir flogaveiki kæranda hafi hann, þökk sé lyfjameðferð, verið flogalaus í áratug. Þá segi að þrátt fyrir þvagsýrugigt kæranda hafi hann, þökk sé lyfjameðferð, ekki fengið þvagsýrugigtarkast síðan árið 2013. Um andlegan vanda segi í skýrslunni að kærandi telji sig ekki glíma við slíkt. Þá segi að kærandi hafi sótt um mörg störf eftir að honum hafi verið sagt upp árið X en að hann telji að erfiðleika sína við að fá starf megi rekja til aldurs hans. Að mati skoðunarlæknis við gerð skýrslunnar hafi endurhæfing kæranda ekki verið fullreynd og hafi skoðunarlæknir bent á að samkvæmt gögnum málsins hefði starfsendurhæfing hjá VIRK meðal annars verið talin óraunhæf vegna aldurs hans og að kærandi sjálfur teldi ástæðu þess að hann hefði ekki vinnu vera aldur sinn.

Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis Tryggingastofnunar vegna viðtals og skoðunar sem hafi farið fram þann 7. október 2019 hafi kærandi fengið tíu stig í líkamlega hluta örorkustaðals en tvö í þeim andlega. Þessi stigagjöf hafi að mati Tryggingastofnunar verið í samræmi við lýsingu læknisvottorðs, dags. 27. ágúst 2019, og skoðunarlæknis á færniskerðingu kæranda.

Í læknisvottorði B, dags. 8. júní 2022, byggt á læknisskoðun sem hafi farið fram 8. júní 2022 og hafi legið fyrir við samþykkt Tryggingastofnunar á umsókn um örorkulífeyri þann 6. september 2022, sé kærandi greindur með flogaveiki (e. epilepsy) (G40.9), (e. parkinson's disease) (G20), (e. polymyalgia rheumatica) (M35.3), (e. gonarthrosis) (M17.9) og þvagsýrugigt (e. gout) (M10.9), sbr. ICD-10. Í vottorðinu komi fram sömu upplýsingar um heilsuvanda kæranda og fram komi í læknisvottorði, dags. 27. ágúst 2019, hvað varði þvagsýrugigt, vanstarfsemi í skjaldkirtli og verki í brjóstbaki í kjölfar […]slyss. Í læknisvottorði, dags. 8. júní 2022, segi þó auk þess að kærandi hafi greinst með fjölvöðvagigt um síðustu áramót, þ.e. áramótin 2021 og 2022, og að kærandi hafi verið greindur með Parkinson sjúkdóm í apríl 2022. Að lokum segi að það sé mat vottorðshöfundar að kærandi hafi verið óvinnufær frá 15. júní 2019 og að ekki megi búast við að færni hans aukist með tímanum.

Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi verið ákveðið að samþykkja umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 9. júní 2022, á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 6. september 2022, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis sem hafi verið byggð á skoðun sem hafi farið fram 16. ágúst 2022. Í þeirri skýrslu segi að kærandi telji að hnén og bakið hái sér einna mest í daglegu lífi og því til viðbótar Parkinson sjúkdómur, aðallega vegna skjálfta í hægri hendi. Þá segi einnig að það sé mat skoðunarlæknis að endurhæfing kæranda sé fullreynd.

Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis Tryggingastofnunar vegna viðtals og skoðunar sem hafi farið fram þann 16. ágúst 2022 hafi kærandi fengið 58 stig í líkamlega hluta örorkustaðals en ekkert í þeim andlega. Þessi stigagjöf sé að mati Tryggingastofnunar í samræmi við lýsingu læknisvottorðs, dags. 8. júní 2022, og skoðunarlæknis á færniskerðingu kæranda.

Samkvæmt 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar stofnist réttur til örorkulífeyris frá og með þeim degi sem umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til örorkulífeyris og skulu bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.

Umsækjandi um örorkulífeyri teljist uppfylla læknisfræðileg skilyrði til örorkulífeyris þegar hann hafi verið metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjenda á grundvelli framlagðra gagna þar sem meðal annars sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarsögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem umsækjandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa. Við gerð örorkumats sé Tryggingastofnun því ekki bundin af ályktunum lækna eða annarra meðferðaraðila um meinta örorku eða óvinnufærni umsækjanda. Við það mat skipti þannig máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfi Tryggingastofnun til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst sé í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Tryggingastofnun hafi á ný lagt mat á fyrirliggjandi gögn og virt þau í ljósi athugasemda kæranda með kæru.

Kærandi hafi ekki verið talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris við örorkumat, dags. 14. október 2019. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi verið ákveðið að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 14. október 2019, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis sem útbúin hafi verið 7. október 2019 þar sem kærandi hafi fengið tíu stig í líkamlega hluta örorkustaðals en tvö í þeim andlega. Tryggingastofnun sé bundin af staðlinum eins og hann hafi verið ákveðinn. Sú stigagjöf nægi ekki til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig en örorka þeirra sem sæki um örorkulífeyri skuli að meginreglu metin samkvæmt staðli. Enn fremur sé þessi stigagjöf í samræmi við umsögn skoðunarlæknis í skoðunarskýrslu. Niðurstaða örorkumats Tryggingastofnunar hafi því verið sú að skilyrði staðals um hæsta örorkustig væru ekki uppfyllt og á þeim grundvelli hafi umsókn kæranda um örorkulífeyri verið synjað. Þá hafi það einnig verið niðurstaða örorkumats að færni kæranda til almennra starfa teldist skert að hluta og því að skilyrði örorkustyrks væru uppfyllt.

Kærandi hafi verið talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði til örorkulífeyris við örorkumat, dags. 6. september 2022. Samkvæmt gögnum Tryggingastofnunar hafi verið ákveðið að samþykkja umsókn kæranda um örorkulífeyri á grundvelli örorkumats sem hafi farið fram 6. september 2022, að teknu tilliti til skýrslu skoðunarlæknis sem útbúin hafi verið 16. ágúst 2022 þar sem kærandi hafi fengið 58 stig í líkamlega hluta örorkustaðals en ekkert í þeim andlega. Sú stigagjöf nægi til að uppfylla skilyrði staðals um hæsta örorkustig.

Færniskerðing kæranda hafi versnað á tímabilinu 14. október 2019 til 6. september 2022. Munur sé á sjúkdómsgreiningum og lýsingu á heilsuvanda kæranda sem sé að finna í læknisvottorðum, dags. 27. ágúst 2019 og 8. júní 2022. Í læknisvottorði, dags. 8. júní 2022, segi að kærandi hafi greinst með fjölvöðvagigt um síðustu áramót, þ.e. áramótin 2021 og 2022, og að kærandi hafi verið greindur með Parkinson sjúkdóm í apríl 2022. Þessar sjúkdómsgreiningar hafi ekki verið að finna í læknisvottorði, dags. 27. ágúst 2019. Þá bendi Tryggingastofnun á að kærandi hafi fengið 58 stig í líkamlega hluta staðalsins við skoðun sem hafi farið fram 16. ágúst 2022 en einungis 10 stig við skoðun sem hafi farið fram 7. október 2019. Auk þess vísi stofnunin til þess að í skýrslu skoðunarlæknis frá 7. október 2019 komi fram að færniskerðing kæranda vegna flogaveiki og þvagsýrugigtar sé engin og að raunar felist færniskerðing kæranda fyrst og fremst í aldursfordómum á vinnumarkaði. Þá segi einnig í þjónustulokaskýrslu VIRK, dags. 19. ágúst 2019, að kærandi hafi talið vinnugetu sína vera 70% á þeim tímapunkti sem skýrslan sé skrifuð og að hann hafi talið góðar líkur á að hann yrði kominn á vinnumarkað eftir sex mánuði. Enn fremur sé vísað til þess að endurhæfing hans hafi ekki verið talin fullreynd á þeim tímapunkti af skoðunarlækni. Af stigagjöf í skýrslu skoðunarlæknis frá 16. ágúst 2022 að dæma, megi rekja stóran hluta færniskerðingar kæranda til máttleysis og skjálfta sem sé afleiðing Parkinson sjúkdóms kæranda sem hafi verið fyrst greindur í apríl 2022. Þá vísi stofnunin máli sínu til stuðnings til þess að í skoðunarskýrslu, dags. 16. ágúst 2022, segi að kærandi telji að hnén og bakið hái sér einna mest í daglegu lífi og því til viðbótar Parkinson sjúkdómur.

Það sé því niðurstaða sjálfstæðs mats Tryggingastofnunar að kærandi hafi fyrst uppfyllt skilyrði 18. gr. almannatryggingalaga til þess að vera metinn til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar þann 1. janúar 2022.

Athugasemdir kæranda með kæru gefi að mati Tryggingastofnunar ekki tilefni til breytinga á þeirri niðurstöðu. Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, dags. 6. september 2022, þ.e. að samþykkja umsókn kæranda um örorkulífeyri og miða upphaf gildistíma örorkumats hans við 1. janúar 2022 þegar kærandi hafi verið talinn fyrst uppfylla læknisfræðileg skilyrði um örorkulífeyri eins og þau séu útfærð samkvæmt staðli, sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum sem og gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á að umdeild ákvörðun frá 6. september 2022, þess efnis að miða upphaf gildistíma örorkumats kæranda við 1. janúar 2022, verði staðfest.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. september 2022 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var samþykkt frá 1. janúar 2022 og var gildistími matsins varanlegur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á frekari afturvirkum greiðslum örorkulífeyris.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Örorkustaðallinn er byggður upp af stöðluðum spurningum sem varða líkamlega og andlega færni viðkomandi. Almennt er leitað eftir svörum og mati umsækjanda sjálfs á þeim spurningum sem í staðlinum eru. Enn fremur liggur fyrir skoðunarskýrsla læknis sem á grundvelli skoðunar og viðtals við umsækjanda fyllir út staðalinn. Umsækjandi fær stig miðað við færni sína. Til að metin verði 75% örorka þarf að ná fimmtán stigum í líkamlega hluta staðalsins eða tíu stigum í andlega hlutanum eða sex stigum í báðum. Í undantekningartilvikum er samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat hægt að meta viðkomandi utan staðals.

Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 52. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar skal sækja um allar bætur samkvæmt þeim lögum. Örorkubætur reiknast frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt þágildandi 1. mgr. 53. gr. laganna. Samkvæmt þágildandi 4. mgr. nefndrar 53. gr. skulu bætur aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur gögn, sem nauðsynleg eru til að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt og fjárhæð bóta, berst Tryggingastofnun.

Af framangreindu má ráða að örorkulífeyrir skal reiknaður frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi en þó aldrei lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn og önnur nauðsynleg gögn berast Tryggingastofnun ríkisins. Við mat á upphafstíma örorkumats kæranda lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess frá hvaða tíma kærandi uppfyllti skilyrði 75% örorku. Þegar úrskurðarnefndin metur hvort skilyrði örorku séu uppfyllt aftur í tímann horfir úrskurðarnefndin til þess hvers eðlis sjúkdómur eða fötlun viðkomandi er. Margs konar líkamleg fötlun er þess eðlis að hún kemur fram strax við fæðingu eða til dæmis við slys þannig að viðkomandi uppfyllir ótvírætt skilyrði örorku. Í öðrum tilvikum geta veikindi eða fötlun verið þess eðlis að hún sé hægt versnandi eða breytileg frá einum tíma til annars, svo sem ýmis andleg veikindi og hrörnunarsjúkdómar. Úrskurðarnefndin horfir einnig til þess hvort fyrir liggja samtímagögn, svo sem læknisvottorð eða mat annarra sambærilegra sérfræðinga, sem séu það ítarleg og skýr að byggja megi á þeim mat á örorku.

Eins og áður hefur komið fram var kærandi talinn uppfylla læknisfræðileg skilyrði örorkulífeyris með örorkumati, dags. 6. september 2022, og var upphafstími matsins ákvarðaður frá 1. janúar 2022. Áður hafði kærandi sótt um örorkulífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. 11. september 2019, sem Tryggingastofnun synjaði en hann var talinn uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. júlí 2019 til 31. ágúst 2022. Það örorkumat er byggt á skoðunarskýrslu D læknis, dags. 7. október 2019, þar sem kærandi hlaut tíu stig í líkamlega hluta staðalsins en tvö stig í andlega hluta staðalsins. Með símtali óskaði kærandi eftir endurupptöku og með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. mars 2020, var beiðninni synjað. Kærandi kærði synjun á endurupptöku til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, dags. 26. mars 2020, og með úrskurði nefndarinnar í máli nr. 151/2020 þann 2. september 2020 var synjun á endurupptöku staðfest. Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur á ný frá 9. júní 2020 með rafrænni umsókn, móttekinni 9. júní 2022. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 6. september 2022, var kæranda metinn örorkulífeyrir og gildistími matsins var ákvarðaður varanlegur frá 1. janúar 2022.

Í læknisvottorði B, dags. 27. ágúst 2019, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri, dags. 11. september 2019, er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Epilepsy, unspecified

Gout, unspecified

Essential (primary) hypertension

Hypothyroidism, unspecified“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„A hefur verið með þekkta flogaveiki frá X ára aldri. Tekur Orfiril ret 300 mg, 2x1. Tekur Hydromet 25 mg við bþ, 2x1.

Uloric 80 mg x1 við þvagsýrugikt. Levaxin 0.05 mg x1 við vanstarfsemi á skjaldkirtli. Tekið Parkodin og Naproxen pn við þvagsýrugiktarköstum en tekur lítið nú orðið e. að hann bryjaði að taka Uloric.

A lenti í […]slysi f. 12 árum, […] og síðan fundið f. verkjum í brjóstbaki, á milli herðarblaða.

A hefur unnið sem […]færðingur hjá F en var sagt upp v. hagræðingar í X en hélt launum út árið. Síðan verið á atvinnuleysisbótum, í virkri atvinnuleit, og er nú búinn að klára rétt sinn til slíkra bóta.

A segist eiga erfitt með að vinna upp fyrir sig og að vinna á hnjánum. Treystir sér vel til að vinna skrifstofustörf.

Honum var vísað til Virk í byrjun sumars 2019 en fékk þann úrskurð að starfsendurhæfing væri óraunhæf, m.a. vegna aldurs.“

Í lýsingu á læknisskoðun segir:

„A er meðalhár og rúmlega í meðalholdum. Kemur vel fyrir og gefur góða sögu. Bþ 125/80.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær síðan 15. júní 2019 og að ekki megi búast við að færni aukist. Í nánara áliti á vinnufærni er vísað í niðurstöður starfsgetumats VIRK, dags. 19. ágúst 2019.

Í starfsgetumati VIRK, dags. 19. ágúst 2019, segir meðal annars svo í samantekt og áliti:

„Missti vinnu sem […]fræðingur í X, vegna hagræðingar hjá F. Verið í virkri atvinnuleit síðan, án árangurs. Segir bak og hnévanda hamlandi. Hann verkjar í hnén við að sitja en getur gengið nánast að vild. Hann hefur farið í röntgen sem gigtarlæknir segir sýna sklit en það sé ekki mikið.

Mjög góð áhugahvöt til vinnu, einkum skrifstofustarfa. Kveðst eiga erfitt með að vinna upp fyrir sig og á hnjánum og að gigt og bakverkir séu sín aðalhömlun til atvinnuþátttöku.

A telur sig hafa verið öryrki lengi en haldist á vinnumarkaði. Hann hefur núna klárað atvinnuleysisbætur og leitaði þá eftir því að komast á örorku þar sem hann telur ekki líklegt að hann komist aftur á vinnumarkað. Hann hefur nú sótt um á yfir 100 stöðum og komist í tvö viðtöl. Hann telur sína helstu hömlu til atvinnuþátttöku vera kennitöluna.

Hann metur vinnugetu sína 70% í dag en telur mjög góðar líkur á að hann verði komin á vinnumarkað eftir 6 mánuði. Hann telur frekar mikilvægt fyrir sig að vera í vinnu og telur sig alveg tilbúinn í það og að hálfu öruggur um að það takist.

A er búinn að vera í virkri atvinnuleit og sótt um fjölda atvinna án viðbragða og telur kennitölu sína sína aðal hömlun á vinnumarkaði og að meðhöndlun stoðkerfiseinkenna myndi ekki auka atvinnufærni.

19.08.2019 21 :20 - C

Niðurstaða: Heilsubrestur til staðar sem veldur óvinnufærni. Starfsendurhæfing hjá Virk er talin óraunhæf. Raunhæft er talið að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði Virk“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 9. júní 2022, var læknisvottorð B, dags. 8. júní 2022. Í vottorðinu er greint frá eftirfarandi sjúkdómsgreiningum:

„Epilepsy, unspecified

Parkinson's disease

Polymyalgia rheumatica

Gonarthrosis, unspecified

Gout, unspecified“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„A hefur verið með þekkta flogaveiki frá X ára aldri. Tekur Orfiril rel 300 mg, 2x1. 2x1. Aburic 80 mg x1 við þvagsýrugikt. Levaxin 0.05 mg x1 við vanstarfsemi á skjaldkirtli. Tekið Parkodin og Naproxen pn við þvagsýrugiktarköstum en tekur lítið nú orðið e. að hann bryjaðí að taka Abnuric.

A lenti í […]slysi f. 13 árum, […] og síðan fundið f. verkjum í brjóstbaki, á milli herðarblaða.

A greindist með fjölvöðvagikt um síðustu áramót og settur á stera. Er nú kominn í 7.5 mg af Decortin.

A hefur í nokkra mánuði verið með skjálfta í hæ hendi og var vísað til taugalæknis sem hann hitti i apríl s.l. sem greindi hann með Parkinson sjúkdóm og byrjaði meðferð með Oprymea 0.18 mg x2 sem síðan verður fylgt eftir með Madopar.

Með þekkta væga slitgikt í hnjám.“

Í lýsingu á læknisskoðun segir:

„A er meðalhár og rúmlega í meðalholdum. Með áberandi skjálfta í hæ hendi. Gengur með staf.

Kemur vel fyrir og gefur góða sögu. Bþ 135/85.“

Í læknisvottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær og að ekki megi búast við að færni aukist. Í nánara áliti á vinnufærni segir:

„A hefur unnið sem […]fræðingur hjá F en var sagt upp v. hagræðingar í X en hélt launum út árið. Fór svo á atvinnuleysisbætur og kláraði rétt sinn til slíkra bóta.

A segist eiga erfitt með að vinna upp fyrir sig og að vinna á hnjánum. Treystir sér vel til að vinna skrifstofustörf.

Honum var vísað til Virk í byrjun sumars 2019 en fékk þann úrskurð að starfsendurhæfing væri óraunhæf, m.a. vegna aldurs.“

Skýrsla D skoðunarlæknis, dags. 7. október 2019, lá fyrir við örorkumat kæranda 14. október 2019. Samkvæmt skoðunarskýrslunni taldi skoðunarlæknir að kærandi gæti ekki setið á stól í meira en tvær klukkustundir. Skoðunarlæknir mat það svo að kærandi gæti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Skoðunarlæknir taldi að kærandi gæti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að ganga um. Skoðunarlæknir mat það svo að kærandi gæti ekki gengið nema 800 metra án þess að nema staðar eða fá veruleg óþægindi. Skoðunarlæknir taldi að kærandi gæti ekki lyft hvorum handlegg sem væri upp fyrir höfuð. Skoðunarlæknir mat það svo að kærandi gæti ekki tekið upp og borið tveggja kílóa poka af kartöflum með hvorri hendi sem væri. Hvað andlega færniskerðingu varðar taldi skoðunarlæknir að kærandi myndi ergja sig yfir því sem ekki hefði angrað hann áður en hann varð veikur. Skoðunarlæknir mat það svo að kærandi kysi að vera einn sex tíma á dag eða lengur. Að öðru leyti taldi skoðunarlæknir að kærandi byggi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsti líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„Gengur með eðlilegan limaburð en er aðeins hokinn um herðar sem lúta fram. Hreyfingar um alla liðferla útlima virðast í lagi. Virkur snúningur á hálshrygg er um 45°í hvora átt, bakfetta er skert og það vantar um 1 fingurbreidd að haka nái að bringu. Snúningur í brjóstbaki eru næsta eðlilegir. Það vantar um 28cm að fingur nái gólfi við frambeygju í mjöðmum, hliðarsveigja og bakfetta eru skertar. Kraftar í útlimur, húðskyn, viðbrögð og tonus er eðlilegt. Fingrafimi er eðlileg. Þreifieymsli eru ekki til staðar yfir helstu vöðvafestum.“

Skýrsla E skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hann að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 16. ágúst 2022. Samkvæmt skoðunarskýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi geti ekki setið á stól í meira en eina klukkustund. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið upp af stól án þess að styðja sig við eitthvað. Skoðunarlæknir telur að kærandi geti stundum ekki beygt sig eða kropið til að taka pappírsblað upp af gólfinu og rétt sig upp aftur. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í tíu mínútur án þess að setjast. Skoðunarlæknir telur að kærandi geti ekki gengið nema 400 metra án þess að nema staðar eða fá veruleg óþægindi. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki gengið upp og niður á milli hæða án þess að halda sér og hvíla sig. Skoðunarlæknir telur að kærandi geti ekki notað penna eða blýant. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti með hvorugri hendi tekið upp og borið tveggja kílóa poka af kartöflum. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Samkvæmt skoðunarskýrslunni telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir líkamsskoðun kæranda þannig í skýrslu sinni:

„174 sm og 100 kg. Mjög hægur í hreyfingum, lotlegur og hokinn. Stutt skref og varfærin. Nokkuð dæmigert Parkinsons útlit. Talverður skjálfti í hægri hendi.“

Geðheilsu kæranda er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Verið heilsuhraustur á geði.“

Atferli kæranda í viðtali er lýst svo í skoðunarskýrslu:

„Ekki merki um depurð né kvíða. Svarar öllum spurningum greiðlega. Heldur vel einbeitingu. Ekki merki um þráhyggju. Andleg líðan í jafnvægi. Sjálfsmat í góðu lagi“

Dæmigerðum degi er lýst svo í skoðunarskýrslunni:

„Fer á fætur um kl. 9-10. Sefur vel. Vaknar úthvíldur. Fer út flesta daga. Fer og gengur smávegis. Engin önnur hreyfing. Ekki í sjúkraþjálfun. Keyrir bíl. Engin handavinn. Er mestan tíma í tölvunni. Mest vafrandi um hinar og þessar síður. Horfir á sjónvarp, les lítið, áhugaleysi, hlustar á tónlist, ekki hljóðbækur. Sinnir sínu heimili sjálfur. Fer og hittir fólk en mun minna en áður. Telur að hnén og bakið hái sér einna mest í daglegu og til viðbótar Parkinsons sjúkdómur, aðallega í hægri hendi.“

Að mati skoðunarlæknis hefur færni kæranda verið svipuð og nú er í tvö ár og hann telur endurhæfingu fullreynda.

Mál þetta varðar kröfu um afturvirkar greiðslur örorkulífeyris. Með örorkumati Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. september 2022, var kæranda metinn örorkulífeyrir frá 1. janúar 2022. Kærandi krefst þess að upphafstíminn verði ákvarðaður lengra aftur í tímann.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll gögn málsins. Ljóst er að kærandi uppfyllti læknisfræðileg skilyrði örorku þegar skoðun skoðunarlæknis fór fram þann 16. ágúst 2022. Tryggingastofnun miðaði upphafstíma örorkumats kæranda við 1. janúar 2022, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að greining á vefjagigt lá fyrir, sbr. læknisvottorð B, dags. 8. júní 2022. Úrskurðarnefnd velferðarmála horfir til þess að veikindi kæranda eru þess eðlis að einkenni sjúkdómsins geta byrjað hægt en ágerst svo smám saman eftir því sem tíminn líður. Að teknu tilliti til þess er það mat úrskurðarnefndar að gögn málsins staðfesti ekki með fullnægjandi hætti að kærandi hafi uppfyllt læknisfræðileg skilyrði örorku fyrir þann tíma sem Tryggingastofnun miðar við.

Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. september 2022 um upphafstíma örorkumats kæranda.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, um upphafstíma örorkumats, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta