Nr. 419/2009
Miðvikudaginn 1. desember 2010
419/2009
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r
Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Úrskurðarnefnd almannatrygginga barst þann 2. nóvember 2009, kæra B f.h. A, um niðurfellingu endurkröfu á hendur henni vegna ofgreiddra bóta.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að við endurreikning Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótagreiðslna ársins 2008 reiknaðist stofnuninni að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 401.294 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Með bréfi, dags. 30. júlí 2009, var kæranda tilkynnt framangreind niðurstaða.
Í kæru til úrskurðarnefndar segir svo:
„Umbjóðandi okkar voru samkvæmt greiðsluáætlun Tryggingastofnunar dags. 21.03.2008 ákvarðaður örorkustyrkur að fjárhæð kr. 1.793 fyrir árið 2008. Örorkustyrkurinn var greiddur með kr. 489 í apríl það ár og kr. 163 á mánuði á tímabilinu maí til desember. Jafnframt kemur fram á greiðsluáætluninni að umbjóðanda okkar verði greidd viðbótargreiðsla vegna barns kr. 400.140 og var hún greidd með mánaðarlegum greiðslum til ársloka það ár.
Með bréfi frá Tryggingastofnun dags. 30. júlí 2009 er umbjóðanda okkar gerð gerð krafa um endurgreiðslu að fjárhæð kr. 401.294 þar sem um tekjutengdar bætur hafi verið að ræða og tekjur umbjóðanda okkar hafi verið umfram þær viðmiðunartekjur sem lagðar voru til grundvallar við ákvörðun bótanna.
Umbjóðandi okkar andmælti þessari kröfu með bréfi dags. 28. ágúst 2009 og vísað til þess að viðbót vegna örorkustyrks séu ekki tekjutengdar greiðslur og því bæri henni ekki að greiða til baka örorkustyrk vegna barns. Í svari Tryggingastofnunar dags. 13. október 2009 er fallist á að viðbót við örorkustyrk vegna barna séu ekki tekjutengdar greiðslur en hins vegar séu þær greiðslur byggðar á því að bótaþegi eigi rétt á örorkustyrk skv. 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.
Við kærum þessa kröfu Tryggingastofnunar um endurgreiðslu viðbótar örorkustyrks vegna barns að fjárhæð kr. 400.140 og krefjumst þess að krafan verði felld niður. Kæra okkar byggir á því að viðbót við örorkustyrk vegna barna er ekki tekjutengd samkvæmt 3. mgr. 19. gr. umræddra laga með sama hætti og örorkustyrkur sem skerðist eftir sömu reglum og örorkulífeyrir samkvæmt ákvæði 3. mgr. sömu greinar. Sú fullyrðing Tryggingastofnunar að viðbótargreiðslan sé ekki tekjutengd en krefjast því næst endurgreiðslu á grundvelli tekna umbjóðanda okkar fær ekki staðist.
Umbjóðandi okkar var í góðri trú um að henni hafi verið úrskurðaðar ótekjutengdar greiðslur. Hún leitaði ítrekað eftir því við starfsfólk Tryggingastofnunarinnar hvort þessi bótagreiðsla væri rétt og var fullvissuð um að svo væri. Hér er ekki um ofgreiddar bætur að ræða í skilningi 55. gr. laganna um almannatryggingar nr. 100/2007 heldur ákvörðun Tryggingastofnunar um viðbótargreiðslur samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laganna sem hlýtur að standa óbreytt þar sem þessar greiðslur eru ekki tekjutengdar.“
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 4. desember 2009, eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins. Í greinargerð stofnunarinnar, dags. 18. desember 2009, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag segir svo:
„1. Kæruefni.
Kærð er endurkrafa viðbótar við örorkustyrk vegna barna.
2. Málavextir.
Kærandi hefur haft örorkumat upp á örorku á milli 50 – 74 % síðan árið 1999. Það mat veitir kæranda rétt á örorkustyrk uppfylli hún önnur skilyrði, þar á meðal tekjuskilyrði. Árið 2008 fékk kærandi greiddan örorkustyrk. Þar sem að kærandi var á örorkustyrk á þessu tímabili fékk hún einnig greidda viðbót við örorkustyrk vegna barna.
Sumarið 2009 var árið 2008 gert upp og kom þá í ljós að kærandi hafði ekki gefið Tryggingastofnun upp réttar tekjur. Við uppgjör var ljóst að kærandi hafði vegna tekna ekki átt rétt á örorkustyrk og þar með ekki átt rétt á viðbót á örorkustyrk vegna barna.
3. Uppgjör 2008 - lagaákvæði.
Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er kveðið á um tilhögun útreiknings bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.
Í 55. gr. almannatryggingalaga segir að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Er þessi skylda síðan nánar útfærð í ákvæðinu m.a. varðandi tilhögun frádráttar.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Í framangreindu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.
Sumarið 2009 fór fram endurreikningur og uppgjör bótagreiðslna ársins 2008. Uppgjör ársins 2008, sem kæranda var tilkynnt um með bréfi dags. 30. júlí sl., leiddi til ofgreiðslu að fjárhæð 401.294 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Ástæða þess að endurkrafa myndaðist í uppgjöri er að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2009 vegna tekjuársins 2008 hafði farið fram, kom í ljós að tekjur kæranda á árinu 2008 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir.
4. Viðbót við örorkustyrk vegna barna.
Af kæru kæranda, sem og öðrum gögnum, má ráða að hún telji eðlilegt að örorkustyrkur hennar sé skertur vegna hærri tekna samkvæmt skattframtali en gert var ráð fyrir í tekjuáætlun. Kærandi finnur hins vegar að því að viðbót við örorkustyrk barna sé skert vegna rangra upplýsinga í tekjuáætlun.
Um örorkustyrk er fjallað í 19. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæði um viðbót við örorkustyrk vegna barna er að finna í 3. mgr. greinarinnar en það hljóðar svo:
Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin má ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.
Ljóst er að viðbót við örorkustyrk vegna barna skerðist ekki á sama hátt og örorkustyrkurinn sjálfur vegna tekna. Hins vegar er það svo að rétturinn til þess að fá viðbót við örorkustyrk vegna barna byggist á því að bótaþegi eigi rétt á örorkustyrk, skv. 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þar sem að kærandi var of tekjuhá árið 2008 til að eiga rétt á örorkustyrk þá átti kærandi ekki heldur rétt á viðbót á örorkustyrk vegna barna.
Það skilyrði að einstaklingur sem fær viðbót við örorkustyrk fái einnig örorkustyrk er ófrávíkjanlegt, benda má á að það felst m.a. í nafni bótaflokksins. Fjöldi einstaklinga sem hefur örorkumat sem veitti rétt til örorkustyrks en nýtur ekki greiðslna samkvæmt því mati vegna tekna, er í sömu sporum og kærandi. Tryggingastofnun er ómögulegt með tilliti til jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar að veita kæranda réttindi sem aðrir í sömu aðstæðum njóta ekki.
Rétt er að benda sérstaklega á að eins og fram hefur komið er það á ábyrgð kæranda að veita Tryggingastofnun réttar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Í framangreindu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki.
Í nóvember 2007 sendi Tryggingastofnun kæranda meðfylgjandi tekjuáætlun vegna ársins 2008. Ekki er hægt að sjá á gögnum stofnunarinnar að kærandi hafi á nokkurn hátt reynt að leiðrétta þá tekjuáætlun.
Einnig er rétt að benda sérstaklega á að skylda Tryggingastofnunar um að innheimta ofgreiddar bætur á ekki eingöngu við um tekjutengdar bætur heldur er alveg ljóst af 1. mgr. 55. gr. almannatryggingalaga að hún á við allar þær bætur sem að ofgreiddar eru af Tryggingastofnun. Sú skylda á við um bætur ákvarðaðar samkvæmt 3. mgr. 19. gr. líkt og allar aðrar bætur greiddar samkvæmt almannatryggingalögum. Rétt er að leggja áherslu á að ekki er um að ræða heimildaákvæði um innheimtu heldur er lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta þessar ofgreiddu bætur. Sú fullyrðing umboðs manns kæranda að viðbót við örorkustyrk vegna barna sé þess eðlis að ekki eigi að endurkrefja umbjóðanda hans um ofgreiðsluna er einfaldlega ekki í samræmi við almannatryggingalög.
Að lokum er rétt að minnast á að í kæru kemur fram að umboðsmaður kæranda telur að umbjóðandi sinn hafi verið í góðri trú og hafi leitað ítrekað eftir því við starfsfólk Tryggingastofnunar hvort að þessi bótagreiðsla væri rétt og að hún hafi verið fullvissuð um að svo væri. Tryggingastofnun tekur fram að hún hefur engin gögn um þessi samskipti kæranda og stofnunarinnar. Ljóst er þó að allan þann tíma sem að kærandi fékk greidda viðbót við örorkustyrk vegna barna þá hafði Tryggingastofnun rangar upplýsingar um tekjur kæranda, hefðu þær upplýsingar verið réttar þá hefði kærandi átt fullan rétt á þeim bótum. Þrátt fyrir að kærandi hafi að sögn umboðsmanns síns ítrekað haft samband við stofnunina að athuga réttmæti bóta sinna þá virðist hún á engum tímapunkti hafa leiðrétt tekjuáætlun sína eins og henni bar þó skylda til.
5. Niðurstaða.
Í ljósi ofangreinds telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til að breyta fyrri ákvörðun sinni.“
Greinargerð Tryggingastofnunar var kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 25. febrúar 2010, og honum veittur kostur á að koma á framfæri athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda þann 16. mars 2010. Þar segir m.a. svo:
„Til frekari rökstuðnings áður sendri kæru og sem andmæli við greinargerð Tryggingastofnunar vill undirritaður taka fram eftirfarandi:
- Eins og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar hefur umbjóðandi okkar haft örorkumat á milli 50 og 74% frá árinu 1999. Árið 2008 fékk hún greiddan örorkustyrk á grundvelli tekjuáætlunar fyrir árið 2007 sem Tryggingastofnun sendi henni í nóvember 2007.
Eins og fram kemur í kæru þar sem vísað er í greiðsluáætlun Tryggingastofnunar dags. 21.03.2008 er umbjóðanda okkar ákvarðaður örorkustyrkur að fjárhæð kr. 1.793 fyrir árið 2008. Það er enginn ágreiningur um það að þessi örorkustyrkur sé tekjutengdur og taki breytingum ef rauntekjur reynast aðrar en áætlunin gerði ráð fyrir. Hins vegar vekur það athygli að þó bótafjárhæðin sé svo lág að engu megi muna að rauntekjur ársins felli skilyrði til bóta niður eru henni að því er virðist sjálfkrafa ákvarðaðar kr. 400.140 í viðbótarstyrk vegna barns. Þessi viðbótarstyrkur er ákvarðaður samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Viðbótarstyrkurinn lýtur að því leyti ekki sömu reglum og örorkustyrkurinn að viðbótarstyrkurinn er ekki tekjutengdur eins og fram kemur í svarbréfi Tryggingastofnunar frá 13. október 2009 og aftur í greinargerðinni sem vísað er til hér að ofan.
Í 1. og 2. mgr. 19. gr. laganna um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu örorkustyrks en engin slík tekjutenging er í 3. mgr. sömu greinar þar sem kveðið er á um viðbótarstyrk vegna barna. Umbjóðandi okkar mátti því vera í góðri trú að viðbótarstyrkurinn yrði ekki skertur vegna áhrifa tekna og þess heldur þar sem viðbótarstyrkurinn var ákveðinn þrátt fyrir mjög lágan örorkustyrk sem ákveðinn var á grundvelli tekjuáætlunar 2008.
- Í greinargerð Tryggingastofnunar er lögð rík áhersla á skyldu bótaþega að upplýsa Tryggingastofnunar ef breytingar verða á tekjum sem haft geta áhrif á bótagreiðslur. Umbjóðandi okkar teldi að sú tekjuáætlun sem Tryggingastofnun sendi í nóvember 2007 vegna ársins 2008 stæðist enda væru allar forsendur óbreyttar. Það varð hins vegar ekki ljóst fyrr en í nóvember 2008 að tekjur hennar yrðu hærri en áætlunin gerði ráð fyrir þar sem hún hafði þá skipt um starf. Eins og fram kom í kærubréfi hafði umbjóðandi okkar margsinnis samband við þjónustufulltrúa Tryggingastofnunarinnar til þess að fá upplýsingar um það hvort bótafjárhæð væri rétt og var fullvissuð um að svo væri. Það breytir engu þó Tryggingastofnun hafi engin gögn um þessi samskipti enda gefst almenningi kostur á að leita til sérstakra fulltrúa stofnunarinnar til þess að fá leiðbeiningar. Hafi stofnunin ekki hljóðritað slík samtöl eða lagt áherslu á það við þjónustufulltrúa að kalla eftir skriflegum samskiptum þegar um álitamál er að ræða er það ekki við þann að sakast sem leitar eftir upplýsingum. Í lok greinargerðar sinnar segir að „þrátt fyrir að kærandi hafi að sögn umboðsmanns síns ítrekað haft samband við stofnunina að athuga réttmæti bóta sinna þá virðist hún á engum tímapunkti hafa leiðrétt tekjuáæltun sína eins og henni bar þó skylda til.“ Það er skýlaus skylda Tryggingastofnunar samkvæmt Stjórnsýslulögum að leiðbeina þeim sem þangað leita með hagsmuni sína en vísa ekki allri ábyrði til baka til þess sem til hennar leita.
Það getur engan veginn staðist að Tryggingastofnun samþykki að bótaflokkur sé ótekjutengdur en hann skuli samt falla niður vegna áhrifa tekna. Örorkustyrkurinn var réttilega ákvarðaður á grundvelli tekjuáætlunar og eins og áður segir hafði umbjóðandi okkar enga ástæðu til þess að ætla annað en að tekjur hennar yrðu í samræmi við áætlun þangað til hún breytti um vinnustað í lok ársins og fékk við það hærri heildarlaun á árinu en gert hafði verið ráð fyrir.
Umbjóðandi okkar var í góðri trú um að henni hafi verið úrskurðaðar ótekjutengdar greiðslur. Hún leitaði ítrekað eftir því við starfsfólk Tryggingastofnunar hvort þessi bótagreiðsla væri rétt og var fullvissuð um að svo væri. Hér er ekki um ofgreiddar bætur að ræða í skilningi 55. gr. laganna um almannatryggingar nr. 100/2007 heldur ákvörðun Tryggingastofnunar um viðbótargreiðslur skv. 3. mgr. 19. gr. laganna sem hlýtur að standa óbreytt þar sem þessar greiðslur eru ekki tekjutengdar.“
Athugasemdir lögmanns kæranda voru sendar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 18. mars 2010. Í viðbótargreinargerð stofnunarinnar, dags. 21. apríl 2010, sem barst 28. s.m. segir m.a. svo:
„Í viðbótargreinargerð kæranda ítrekar umboðsmaður kæranda þann skilning sinn að Tryggingastofnun sé óheimilt að endurkrefja kæranda um viðbót við örorkustyrk vegna barna, þar sem að þær greiðslur skerðast ekki á sama hátt og örorkustyrkur, en eru bundnar við að bótaþegi njóti örorkustyrksgreiðslna. Tryggingastofnun vill leggja áherslu á að þessi skilningur er ekki í samræmi við lög nr. 100/2007 um almannatryggingar og ekki heldur í samræmi við ótal úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga, en í málum sem hafa legið fyrir nefndinni hefur ítrekað reynt á heimildir Tryggingastofnunar til að endurkrefja um ofgreiddar bætur sem eru sambærilegar við þær bætur sem hér er deilt um.
Þó að viðbót við örorkustyrk vegna barna séu ekki tekjutengd í þeim skilningi að hún skerðist hlutfallslega líkt og örorkustyrkurinn, þá er viðbótin tekjutengd í þeim skilningi að hún er einungis greidd út ef að bótaþegi uppfyllir tiltekin tekjuskilyrði og rétturinn til þeirra er bundinn við að þessi tekjuskilyrði séu uppfyllt. Ef Tryggingastofnun hefði ekki heimild til að endurkrefja bætur sambærilegar viðbót við örorkustyrk vegna barna, er ljóst að 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar væri marklaus.
Tryggingastofnun sér líka ástæðu til að vekja athygli á ósamræmi því sem virðist vera á milli fullyrðinga umboðsmanns kæranda um að kærandi hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitenda í nóvember 2008 og þeirra upplýsinga sem lesa má út úr staðgreiðsluskrá skattyfirvalda, en samkvæmt staðgreiðsluskrá fékk kærandi greidd laun frá nýjum vinnuveitendum frá mánaðamótunum ágúst-september árið 2008.
Miðað við það verður að teljast ljóst að kærandi hafi vitað af breytingum á tekjum sínum í síðasta lagi í ágúst mánuði árið 2008, og mjög líklega fyrr þar sem að á íslenskum vinnumarkaði eru laun að jafnaði greidd út afturvirkt. Rétt er að benda sérstaklega á að hefði kærandi sinnt skyldu sinni til að veita Tryggingstofnun réttar upplýsingar hefði mátt koma í veg fyrir þó nokkurn hluta af ofgreiðslunni, jafnvel þó að fullyrðing umboðsmanns kæranda um að kærandi hafi hafið störf hjá nýjum vinnuveitenda í nóvember 2008 væri rétt.
Tryggingastofnun vill þó taka fram að skylda stofnunarinnar til að endurkrefja kæranda um ofgreiðslu á viðbót við örorkustyrk vegna barna er ekki háð því hvenær kæranda mátti vera ljóst að tekjuupplýsingar sem hann veitti Tryggingastofnun voru rangar.“
Viðbótargreinargerðin var send umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 11. maí 2010. Frekari athugasemdir bárust frá umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. 20. maí 2010, sem barst nefndinni þann 25. maí 2010. Athugasemdirnar voru kynntar Tryggingastofnun með bréfi, dags. sama dag. Viðbótargreinargerð stofnunarinnar barst þann 28. maí 2010 og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi, dags. sama dag.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Tryggingastofnun ríkisins mat örorku kæranda 50 – 74% á árinu 1999. Kærandi átti því rétt á örorkustyrk. Árið 2008 fékk kærandi greiddan örorkustyrk og viðbót við örorkustyrkinn vegna barna. Við endurreikning Tryggingstofnunar árið 2009 kom í ljós að kærandi hafði vegna tekna á árinu 2008 ekki átt rétt á örorkustyrk. Í máli þessu er ágreiningur um hvort kæranda ber að greiða endurkröfu stofnunarinnar vegna viðbótar við örorkustyrk vegna barnabóta.
Af hálfu kæranda er óskað niðurfellingar á endurkröfu Tryggingastofnunar vegna viðbótar vegna barns. Er á því byggt að viðbót við örorkustyrk sé ekki tekjutengd samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar og ekki sé því um að ræða ofgreiddar bætur í skilningi 55. gr. laganna. Þá er á það bent að kærandi hafi verið í góðri trú þegar hún tók við greiðslunum að hún hafi ítrekað leitað til starfsmanna Tryggingastofnunar og verið fullvissuð um að bætur til hennar hafi verið réttilega ákvarðaðar.
Af hálfu Tryggingastofnunar er á því byggt að umrædd krafa sé réttmæt og að ástæða ofgreiðslunnar sé röng tekjuáætlun þar sem tekjur kæranda hafi verið vanáætlaðar. Er á það bent af hálfu stofnunarinnar að viðbót við örorkustyrk vegna barna skerðist ekki á sama hátt og örorkustyrkurinn sjálfur vegna tekna en hins vegar byggist rétturinn til þess að fá viðbót við örorkstyrk vegna barna á því að bótaþegi eigi rétt á örorkustyrk.
Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er Tryggingastofnun heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og bótaþega hjá skattyfirvöldum o.fl. Ennfremur er umsækjanda og bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.
Við endurreikning bótafjárhæða eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs lágu fyrir, sbr. 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, reiknaðist Tryggingastofnun ríkisins að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á árinu 2008 að fjárhæð 400.140 kr. vegna viðbótar við örorkustyrk vegna barna.
Í 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007 segir svo:
„Greiða skal viðbót við örorkustyrk til þeirra sem hafa börn innan 18 ára á framfæri sínu. Viðbótin má ekki vera hærri en 75% af barnalífeyri, sbr. 20. gr., fyrir hvert barn á framfæri.“
Í 55. gr. almannatryggingalaga er kveðið á um að ofgreiddar bætur skuli innheimtar. Þar segir m.a. í 2. mgr. að ef tekjutengdar bætur samkvæmt almannatryggingalögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu. Þar segir:
„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“
Af gögnum málsins verður ráðið að í tekjuáætlun kæranda fyrir árið 2008 hafi verið reiknað með að launatekjur hennar yrðu að fjárhæð 3.753.960 kr., en samkvæmt skattframtali kæranda árið 2009 fyrir tekjuárið 2008 reyndust tekjur hennar vera nokkuð hærri eða 4.458.592 kr. Þá var í tekjuáætlun gert ráð fyrir að tekjur maka kæranda yrðu að fjárhæð 6.258.240 kr. en samkvæmt framtali reyndust tekjur maka hennar vera 6.425.551 kr. Í tekjuáætluninni var ekki gert ráð fyrir fjármagnstekjum en samkvæmt skattframtali reyndust fjármagnstekjur kæranda vera 17.869 kr. Leiddi samanburður á greiðslum og réttindum kæranda til þess að kærandi ætti ekki rétt til örorkustyrks.
Ekki er ágreiningur í málinu um það að kærandi hafi vegna tekna á árinu 2008 ekki átt rétt til örorkustyrks. Samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga um almannatryggingar er viðbót við örorkulífeyri vegna barna föst fjárhæð og skerðist ekki vegna tekna. Að mati úrskurðarnefndar er hins vegar ljóst af skýru orðalagi nefndrar 3. mgr. 19. gr. að viðbót við örorkustyrk greiðist aðeins þeim sem eiga rétt til örorkustyrks. Vegna tekna á árinu 2008 átti kærandi ekki rétt til örorkustyrks og þegar af þeirri ástæðu átti ekki rétt til viðbótar vegna barna. Það er því niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem kærandi átti ekki rétt til að fá greiddan örorkustyrk átti hún ekki rétt til viðbótar við örorkustyrk vegna barna.
Eins og rakið hefur verið hér að framan voru tekjur kæranda vanáætlaðar í tekjuáætlun fyrir árið 2008 og voru henni af þeim sökum greidd viðbót við örorkustyrk vegna barna sem hún átti ekki rétt á. Í ljósi þessa, svo og fyrirliggjandi upplýsinga sem fyrir liggja um fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda telur úrskurðarnefnd almannatrygginga aðstæður kæranda ekki vera með þeim hætti að uppfyllt séu skilyrði framangreindrar 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 fyrir niðurfellingu endurkröfu. Greiðslur umræddrar viðbótar var byggð á tekjuætlun kæranda og bar kæranda að tilkynna Tryggingastofnun ríkisins um breytingar á tekjum sínum og eins og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar hefði mátt koma í veg fyrir að kærandi fengi greiðslur vegna síðari hluta ársins.
Með vísan til framangreinds er staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar að synja kæranda um niðurfellingu endurkröfu vegna viðbótar við örorkustyrk vegna barna.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um niðurfellingu endurkröfu að fjárhæð 401.294 vegna ofgreiddrar viðbótar við örorkustyrk vegna barna á árinu 2008.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
____________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður