Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 363/2021 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 363/2021

Miðvikudaginn 1. desember 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænu erindi, mótteknu 22. nóvember 2021, óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. júlí 2021 þar sem kæranda var synjað um breytingu á gildandi örorkumati.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri með umsókn 23. febrúar 2021. Með örorkumati, dags. 3. júní 2021, var umsókn kæranda synjað en henni metinn örorkustykur vegna tímabilsins 1. júlí 2021 til 30. júní 2023. Með umsókn 14. júní 2021 sótti kærandi á ný um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Með örorkumati, dags. 9. júlí 2021, var beiðni kæranda um breytingu á gildandi örorkumati synjað. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun þann 12. júlí 2021 og var hann veittur með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 13. júlí 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. júlí 2021. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu þann 3. nóvember 2021. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefnd velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um breytingu á gildandi örorkumat.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni um endurupptöku segir að í ljósi 25. gr. stjórnsýslulaga og meginreglna stjórnsýsluréttar þurfi úrskurður nefndar bæði að vera gildur að formi og efni, skorti þar á sé ákvörðun ógildanleg eða eftir atvikum afturkallanleg (endurupptakanleg).

Úrskurðarnefnd byggi niðurstöðu sína að mestu á mati læknis sem sé endurhæfingarlæknir að mennt og ekki sérfræðingur í stoðkerfisvanda og vefjagigt. Þá sé ekki að sjá á úrskurðinum að læknir með sérfræðimenntun á andlegri líðan kæranda hafi komið að, en ljóst sé að á nefndinni hvíli leiðbeiningarskylda þegar kærandi sé einstaklingur og hafi ekki aðstoð lögfræðimenntaðs einstaklings. Þá verði ekki betur séð en að fram komi í máli B læknis að hann hafi afritað eldri vottorð yfir í ný vottorð, án þess að gæta nægilega vel að raunverulegu heilsufarsástandi hverju sinni eða því sem fram hafi komið í skoðun hverju sinni.

Hafa ber í huga að í skýrslu skoðunarlæknis, sem sé ekki sérfræðimenntaður í bæklunarlækningum eða vöðvasjúkdómum, hafi kærandi verið færð úr 34 stigum niður í 13 stig. Um gríðarlega lækkun á örorkustigi sé að ræða sem sé ekki útskýrð í skýrslu skoðunarlæknis og skoðunarlæknir ýki stórlega gæði í lífi og heilsufari kæranda með því að segja frá áhugamálum sem kærandi stundi í undantekningartilfellum með mismiklum neikvæðum áhrifum. Þannig virðist skoðunarlæknir ætla að gera lítið úr heilsufarsvanda kæranda.

Með vísan til ofangreinds sé farið fram á við nefndina að hún afturkalli úrskurð sinn eða ógildi að því frágengnu.

III. Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 3. nóvember 2021. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Í beiðni um endurupptöku kemur fram að niðurstaða úrskurðarnefndar hafi að mestu verið byggð á mati endurhæfingarlæknis sem sé ekki sérfræðingur í stoðkerfisvanda og vefjagigt og hann hafi gert lítið úr heilsufarsvanda kæranda. Þá hafi ekki komið að málinu sérfræðilæknir með menntun á andlegri líðan. Einnig vísar kærandi til þess að í læknisvottorði B hafi ekki verið gætt nægilega vel að raunverulegu heilsufarsástandi kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Engin gögn hafi verið lögð fram sem stutt geti fullyrðingar kæranda þess efnis að úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála hafi verið rangur. Þá er ekki fallist á að skortur hafi verið á sérfræðiþekkingu við úrlausn málsins.

Einnig má benda á að úrskurðarnefndin telur ekki tilefni til að afturkalla úrskurðinn með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 363/2021 synjað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 363/2021 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta