Mál nr. 112/2020
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 112/2020
Miðvikudaginn 18. nóvember 2020
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.
Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 1. mars 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 9. janúar 2020, um að stöðva greiðslu heimilisuppbótar afturvirkt frá 1. maí 2019 og krefjast endurgreiðslu ofgreiddrar heimilisuppbótar með 15% álagi.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Málavextir eru þeir að kærandi hefur fengið greidda heimilisuppbót frá árinu 1995. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. nóvember 2019, var kærandi upplýst um að ábending hefði borist stofnuninni um að dóttir kæranda væri skráð til heimilis á sama stað og hún. Fram kemur að þar sem kærandi virtist ekki uppfylla skilyrði um að vera ein um heimilisrekstur yrði heimilisuppbótin stöðvuð 1. desember 2019. Kæranda var veittur 14 daga frestur til að andmæla og senda gögn sem staðfestu að þær byggju ekki í sömu íbúð eða hefðu fjárhagslegt hagræði af sambýlinu. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2019, var umsókn kæranda um heimilisuppbót, dagsett sama dag, samþykkt og greiðslur ákveðnar frá 1. desember 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 9. janúar 2020, var kæranda tilkynnt um stöðvun greiðslna heimilisuppbótar frá 1. maí 2019 til 30. nóvember 2019 og um endurgreiðslukröfu að fjárhæð 355.799 kr. með 15% álagi.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. mars 2020 og kærunni fylgdi ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. nóvember 2019. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. mars 2020, var kæranda tilkynnt um að kæran hefði borist að liðnum lögboðnum kærufresti og kæranda veittur 14 daga frestur til þess að koma að athugasemdum eða gögnum, teldi hún að skilyrði 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga gætu átt við í málinu. Gögn bárust frá Tryggingastofnun ríkisins 11. maí 2020, nánar tiltekið ákvörðun frá 9. janúar 2020. Með bréfi, dags. 13. maí 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ásamt gögnum málsins. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 26. maí 2020, óskaði Tryggingastofnun eftir því að úrskurðarnefndin vísaði kærunni frá vegna þess að stofnunin hefði tekið ákvörðun um að endurskoða ákvörðun sína og rannsaka málið nánar. Úrskurðarnefndin óskaði eftir afstöðu kæranda með bréfi, dagsettu sama dag. Í símtali þann 29. júlí 2020 óskaði kærandi eftir því að málinu yrði fram haldið hjá úrskurðarnefndinni. Með bréfi til Tryggingastofnunar, dags. 5. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir efnislegri greinargerð stofnunarinnar. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 28. ágúst 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust ekki.
Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. október 2020, var kæranda veittur kostur á að leggja fram gögn sem sýndu fram á að dóttir hennar hefði ekki verið búsett hjá henni. Engin gögn eða upplýsingar bárust frá kæranda.
II. Sjónarmið kæranda
Úrskurðarnefndin leggur þann skilning í kæru að kærandi fari fram á að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun heimilisuppbótar til hennar og endurgreiðslukröfu með álagi verði felld úr gildi.
Í kæru segir að strax eftir að bréfið hafi borist hafi kærandi haft samband við þjónustuver Tryggingastofnunar símleiðis þar sem hún hafi rætt áhyggjur sínar vegna innihalds bréfsins. Þar hafi hún sagt þjónustufulltrúa að hún hafi ekki vitað af því að dóttir hennar hafi verið skráð að heimili hennar, þær búi ekki saman og þær hafi ekki fjárhagslegt hagræði af sambýli. Dóttir kæranda hafi verið skráð að […]. Eftir samtalið við þjónustuverið hafi kærandi því haldið að hún væri búin að andmæla bréfinu og hafi því beðið eftir svari við því. Síðan hafi komið annað bréf þann 9. janúar 2020 um að búið væri að reikna bótarétt og krafa til innheimtu væri 355.799 kr. Þá hafi kærandi leitað sér aðstoðar við að skrifa bréf, enda hafi hún ekki aðgang að tölvu og glími við mikinn kvíða. Það virðist sem svo að dóttir kæranda hafi fært lögheimili sitt til hennar án þess að gera sér grein fyrir því að þetta myndi koma kæranda svona illa. Dóttir kæranda hafi beðið móður sína um að taka á móti sendingum frá póstinum en hún hafi verið að panta mikið af erlendum vefsíðum á þessu tímabili. Um leið og bréfið hafi borist hafi kærandi haft samband við dóttur sína og spurt hana hvar hún væri skráð og farið yfir með henni hversu alvarleg þessi ákvörðun hennar hafi verið að flytja lögheimilið sitt án þess að ráðfæra sig við kæranda. Strax eftir þetta hafi hún fært lögheimilið sitt til baka þar sem hún búi og þar sem hún hafi verið og sé með aðsetur.
Til að staðfesta ofangreint sé hægt að hafa samband við eiganda X sem leigi dóttur kæranda herbergi. Eins geti fólk sem búi í stigagangi kæranda staðfest að dóttir kæranda hafi ekki búið hjá kæranda í langan tíma.
Kærandi óski eftir því að þetta mál verði skoðað aftur, enda hafi þessi tekjuskerðing mikil áhrif á fjárhag hennar. Hún sé einstæðingur og ein um heimilisreksturinn. Þetta hafi valdið kæranda miklum kvíða, hún sé með nóg á sínum herðum og geti ekki leitað sér aðstoðar hjá ættingjum til að greiða skuld sem sé tilkomin vegna misskilnings. Heilsu hennar hafi hrakað mikið og ekki bjóðandi að peningaáhyggjur bætist ofan á það.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé stöðvun Tryggingastofnunar á greiðslu heimilisuppbótar til kæranda frá 1. maí 2019 og krafa endurgreiðslna frá þeim tíma til og með 30. nóvember 2019, að viðbættu 15% álagi.
Tryggingastofnun hafi óskað eftir frávísun málsins þar sem ákveðið hafi verið að rannsaka málið nánar og óska eftir nánari upplýsingum frá kæranda vegna málsins. Engin gögn hafi borist frá kæranda og nú hafi úrskurðarnefndin óskað eftir efnislegri greinargerð vegna málsins.
Málavextir séu þeir að með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 15. nóvember 2019, hafi heimilisuppbót kæranda verið stöðvuð frá 1. desember 2019 þar sem kærandi hafi ekki lengur talist uppfylla það skilyrði laga og reglugerðar að vera ein um heimilisrekstur. Nánar tiltekið hafi heimilisuppbót kæranda verið stöðvuð þar sem við reglubundið eftirlit Tryggingastofnunar hafi komið í ljós að dóttir kæranda væri skráð til heimilis á sama stað og kærandi.
Eftir símtal við kæranda þann 27. nóvember 2019 þar sem kærandi hafi látið vita að dóttir hennar væri ekki lengur með sama lögheimili og hún, var samþykkt að greiða kæranda heimilisuppbót að nýju frá 1. desember 2019, sbr. bréf, dags. 27. nóvember 2019.
Með bréfi, dags. 9. janúar 2020, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur heimilisuppbótar hefðu verið stöðvaðar frá 1. maí 2019 miðað við upplýsingar úr Þjóðskrá um flutning lögheimilis dóttur kæranda til kæranda og að fyrir lægi krafa að viðbættu 15% álagi að fjárhæð 355.799 kr. fyrir tímabilið 1. maí 2019 til og með 30. nóvember 2019.
Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem búi einn og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé fjallað um heimilisuppbót. Í 7. gr. reglugerðarinnar segi:
„Einstaklingar sem eru skráðir með sama lögheimili og eru eldri en 18 ára teljast að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Heimilisuppbót verður ekki greidd til aðila sem svo er ástatt um sem hér segir:
1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
2. Ef umsækjandi nýtur hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.
3. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að leigja herbergi eða húsnæði með sameiginlegri eldunaraðstöðu með öðrum.
Ef heimilismaður er á aldrinum 18-20 ára og í fullu námi skulu aðrir heimilismenn þó ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við hann. Þá skal einstaklingur sem er á aldrinum 20-25 ára og stundar nám fjarri lögheimili sínu ekki teljast hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum við aðra einstaklinga á skráðu lögheimili sínu og öfugt ef hann hefur sannarlega tímabundið aðsetur annars staðar.“
Jafnframt komi fram í 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi. Samkvæmt 45. gr. laga um almannatryggingar skuli Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Í 2. mgr. 45. gr. komi fram að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Í 3. mgr. 45. gr. komi svo fram að leiki rökstuddur grunur á að bótaréttur sé ekki fyrir hendi sé heimilt að fresta greiðslum tímabundið á meðan mál sé rannsakað frekar og stöðva greiðslur komi í ljós að bótaréttur sé ekki fyrir hendi. Um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. laganna. Í 5. mgr. 45. gr. segi að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.
Í þessu máli hafi dóttir kæranda verið skráð búsett á sama lögheimili og kærandi frá 3. apríl 2019 til 18. nóvember 2019, samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá. Kæranda hafi verið gefinn kostur á að leggja fram gögn því til stuðnings að dóttir hennar hafi ekki búið hjá henni á þessum tíma heldur leigt herbergi í X og hafi búið þar á umræddum tíma, eins og kærandi haldi fram í kæru sinni. Engin gögn hafi komið frá kæranda sem styðji hennar fullyrðingar um að dóttir hennar hafi ekki búið hjá henni.
Í reglugerð nr. 1200/2018 segi að einstaklingar, sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára, teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Í 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar segi að komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur, skuli greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi.
Fyrir liggi að lögheimili kæranda og dóttur hennar hafi verið það sama frá 3. apríl 2019 til 18. nóvember 2019. Með vísan til ofangreinds reglugerðarákvæðis og þess að kærandi hafi ekki lagt fram upplýsingar um að dóttir hennar hafi ekki verið búsett hjá henni á þessum tíma hafi kærandi því ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum þann tíma. Kæranda hafi verið skylt að upplýsa Tryggingastofnun um lögheimilisbreytingu dóttur sinnar, sbr. 39. gr. laga um almannatryggingar. Tryggingastofnun telji að kærandi hafi verið meðvituð um þá skyldu sína, enda hafi hún verið á greiðslum frá stofnuninni frá árinu 1995 og hafi ítrekað verið upplýst um skyldu til að láta vita ef breytingar verða á aðstæðum í umsóknum sem hún hefur skilað inn til stofnunarinnar. Í ljósi þess telji Tryggingastofnun að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því beri kæranda að endurgreiða ofgreiddar bætur með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.
Tryggingastofnun telji ljóst að stöðvun stofnunarinnar á greiðslum heimilisuppbótar til kæranda og endurkrafa þeirra greiðslna með 15% álagi á grundvelli þeirra gagna sem lágu fyrir hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög, reglugerðir og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga þar sem almennt hafi verið talið að einstaklingur sem búi með öðrum einstaklingi hafi fjárhagslegt hagræði af sambýlinu.
Þar sem engin gögn hafi verð lögð fram sem styðji fullyrðingar kæranda um að dóttir hennar hafi flutt lögheimili sitt til hennar án þess að láta hana vita og hefði aldrei búið þar telji Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta þeirri ákvörðun sinni.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar og endurkrefja kæranda um ofgreiðslu heimilisuppbótar frá 1. maí 2019 með 15% álagi.
Kveðið er á um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, en þar sem segir í 1. mgr.:
„Heimilt er að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“
Til þess að eiga rétt á heimilisuppbót þurfa öll skilyrði ákvæðisins að vera uppfyllt. Í reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingu, eru skilyrði ákvæðisins nánar útfærð. Í 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar segir að einstaklingar sem séu skráðir með sama lögheimili og séu eldri en 18 ára teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan. Í 1. og 2. tölulið 1. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar kemur fram að heimilisuppbót verði ekki greidd til aðila sem svo sé ástatt um sem hér segi::
„1. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af því að hafa sameiginlega aðstöðu varðandi fæði eða húsnæði, t.d. sambýli á vegum félagasamtaka, ríkis og sveitarfélaga.
2. Ef umsækjandi nýtur fjárhagslegs hagræðis af sambýli við aðra aðila um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.“
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda lög nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna.
Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laga um almannatryggingar, sem er í V. kafla laganna, er greiðsluþega skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Um eftirlit og viðurlög er fjallað í 45. gr. laganna sem er jafnframt í V. kafla laganna. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins skal Tryggingastofnun reglubundið sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á. Einnig segir í 2. mgr. 45. gr. að grundvöll bótaréttar megi endurskoða hvenær sem er og samræma betur þeim breytingum sem orðið hafi á aðstæðum greiðsluþega. Þá segir í 2. málsl. 3. mgr. ákvæðisins að um ofgreiðslur og vangreiðslur fari samkvæmt 55. gr. Ákvæði 1. mgr. 55. gr. laganna hljóðar svo:
„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“
Þá segir svo í 5. mgr. 45. gr. laganna:
„Komi í ljós að rangar, villandi eða ófullnægjandi upplýsingar hafi vísvitandi verið veittar eða einstaklingur hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að njóta tryggingar eða fá óréttmætar greiðslur skal greiðsluþegi endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi.“
Fyrir liggur að Tryggingastofnun ríkisins hefur greitt kæranda heimilisuppbót frá árinu 1995.
Samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands var dóttir kæranda, sem er fædd árið X, skráð til heimilis á sama lögheimili og kærandi frá 3. apríl 2019 til 18. nóvember 2019. Kærandi byggir á því að dóttir hennar hafi ekki búið hjá henni á framangreindu tímabili en hefur ekki lagt fram nein gögn því til stuðnings, þrátt fyrir að bæði Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi sérstaklega veitt henni kost á því. Úrskurðarnefndin telur því að ráðið verði af gögnum málsins að dóttir kæranda hafi búið hjá henni á því tímabili sem er skráð í Þjóðskrá.
Úrskurðarnefndin telur að einstaklingar eldri en 18 ára sem búi saman teljist að jafnaði hafa fjárhagslegt hagræði af sambýli eða samlögum hver við annan, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009. Dóttir kæranda er á fullorðinsaldri. Að mati úrskurðarnefndarinnar er ekkert í gögnum málsins sem bendir til annars en að kærandi hafi notið einhvers fjárhagslegs hagræðis af sambýlinu. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir greiðslum heimilisuppbótar samkvæmt 8. gr. laga um félagslega aðstoð á tímabilinu 1. maí 2019 til 30. nóvember 2019.
Fyrir liggur að Tryggingastofnun greiddi kæranda heimilisuppbót vegna tímabilsins 1. maí 2019 til 30. nóvember 2019, þrátt fyrir að kærandi uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum. Tryggingastofnun á því endurkröfurétt á hendur kæranda samkvæmt almennum reglum, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Kæranda var skylt að upplýsa Tryggingastofnun um breytingu á heimilisaðstæðum, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 39. gr. laganna. Úrskurðarnefndin telur að kærandi hafi verið meðvituð um þá skyldu sína, enda hefur hún fengið greidda heimilisuppbót frá árinu 1995 og upplýst er um slíka skyldu í umsóknum til Tryggingastofnunar, meðal annars í umsóknum kæranda um heimilisuppbót, dags. 28. mars 2017 og 17. september 2015. Í ljósi þess telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi látið hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar í því skyni að fá óréttmætar greiðslur. Því er fallist á að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna tímabilsins 1. maí 2019 til 30. nóvember 2019 með 15% álagi, sbr. 5. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar.
Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til kæranda og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur frá 1. maí 2019 með 15% álagi staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að stöðva greiðslur heimilisuppbótar til A, og endurkrefja hana um ofgreiddar bætur frá 1. maí 2019 með 15% álagi, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir