Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Úrskurður nr. 45/2005 - Sjúklingatrygging

45/2005 - sjúklingatrygging

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú r s k u r ð u r.

Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfum dags. 18. og 25. febrúar 2005 kærir B, hrl. f.h. A til úrskurðarnefndar almannatrygginga synjun Tryggingastofnunar ríkisins um bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingu.

Óskað er endurskoðunar.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að með tilkynningu lögmanns kæranda dags. 11. maí 2004 var tilkynnt um meint bótaskylt atvik samkvæmt sjúklingatryggingu. Í tilkynningu segir:

,, ….. falið mér að að tilkynna til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum um sjúklingatryggingar atvik tengd aðgerð er C læknir gerði í X ca í júlí 2001 vegna kviðslits. Vegna ástands kviðvöðva tók kviðslitið sig upp. Tveimur mánuðum seinna var móðurlífið tekið úr umbj. mínum á D. Skurðurinn hélt ekki. Árið 2002 gekkst umbj. minn undir aðgerð til að lagfæra kviðvegginn vegna ástands hans eftir umræddar aðgerðir. Mikil sýking komst í skurðinn og átti umbj. minn lengi í afleiðingum þess. Var umbj. minn lögð bráðainnlögn á E vegna þessa sumarið 2002.

Atvikið er tilkynnt samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu."

Um afleiðingar tjónsatviksins segir að kviðurinn líti ennþá illa út. Kærandi sé alltaf með verki í kviðnum og finni að netið tekur í.

Tryggingastofnun aflaði gagna vegna málsins m.a. var óskað umsagnar utanaðkomandi lýtalæknis.

Tryggingastofnun synjaði um bótaskyldu með bréfi dags. 22. nóvember 2004.

Í rökstuðningi með kæru segir:

,, Niðurstaða TR byggir á eðli aðgerðarinnar og heilsufarssögu umbj. míns, þ.e. að í ljósi þessara atriða væru þeir fylgikvillar sem umbj. minn þjáðist af innan þeirra marka sem búast mátti við að gætu komið upp. Umbj. minn er ekki sammála þessu mati stofnunarinnar. Virðist stofnunin telja að þar sem aukin sýkingarhætta hafi verið til staðar hjá umbj. mínum vegna forsögu hennar, verði áhættan af sýkingu að falla á hana. Telur umbj. minn að í raun sé verið að segja að með því að fara í endurteknar aðgerðir, sem þó læknar telja nauðsynlegar, sé um leið verið að fyrirgera bótarétti vegna fylgikvilla.

Ástæða þess að umbj. minn fór í áðurgreinda aðgerð í júlí 2002 var til að lagfæra skemmdir á kviðvegg sem voru í raun tilkomnar vegna annarra nauðsynlegra aðgerða sem umbj. minn hafði þurft að undirgangast, er þar um að ræða 3 keisaraskurði, gallblöðrunám, kviðslitaðgerð og legnám. Sú sýking sem upp kom í kjölfar aðgerðarinnar var afar kvalafull fyrir umbj. minn og kostaði hana sjúkrahúslegu, þörf fyrir heimahjúkrun og margendurteknar heimsóknir á heilsugæslustöð fyrir sáraskiptingar o.fl. Varð umbj. minn fyrir umtalsverðu fjárhagslegu tjóni af þessum sökum, auk þess miska og þjáninga sem fylgdu."

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar með bréfi dags. 18. febrúar 2005. Barst greinargerð dags. 16. mars 2005. Þar segir:

„ Lögmaður A sótti um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 fyrir hennar hönd með umsókn sem barst Tryggingastofnun ríkisins 13. maí 2004. Sótt var um bætur vegna afleiðinga aðgerðar til að lagfæra kviðvegg sem kærandi gekkst undir á D þann 2. júlí 2002. Umsókninni var hafnað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. nóvember 2004. Aflað var gagna frá D og einnig lágu fyrir gögn frá E og F. Auk þess var leitað álits G, reynds sérfræðings í lýtalækningum.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu er tilgreint til hvaða tjónsatvika lögin taka. Skilyrði er að heilsutjón sjúklings megi að öllum líkindum rekja til einhverra af fjórum tilgreindum atvikum sem nánar eru rakin í 1.-4. tölulið 2. gr. laganna. 1. tl. lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð, 2. tl. fjallar um bilun eða galla í tækjum eða áhöldum, 3. tl. um hvort beita hefði mátt annarri meðferðaraðferð eða tækni og 4. tl. tekur til heilsutjóns sem hlýst af sýkingu eða öðrum fylgikvilla meðferðar sem ósanngjarnt þykir að sjúklingur þoli bótalaust. Fyrst kemur til skoðunar hvort 1. töluliður eigi við, ef ekki þá 2. töluliður og svo framvegis.

Forsaga málsins er sú að kærandi hefur undirgengist margar skurðaðgerðir á kvið, meðal annars þrjá keisaraskurði, gallblaðra var fjarlægð árið 1976 og gekkst hún undir kviðslitsaðgerð sama ár, botnlangaaðgerð var framkvæmd árið 1975, aftur var gert við ofanverðan kvið í júlí 2001 og var leg numið á brott tveimur mánuðum síðar. Í kjölfarið á tveimur síðastnefndu aðgerðunum gaf kviðveggurinn sig þannig að veikleiki var kominn í kviðvegginn, bæði fyrir ofan og neðan naflann með tilheyrandi útbungun og verkjum. Kærandi vildi ekki una við þetta ástand og kemur fram í aðgerðarlýsingu að hún fór fram á að gerð væri "ein stór radical aðgerð á kviðnum og sett inn net". Í kjölfarið var framkvæmd aðgerð sú sem kærandi telur að falli undir sjúklingatryggingu. Ekki verður annað séð en að meðferð A hafi verið eðlileg og í fullu samræmi við þær aðferðir sem tíðkaðar eru í tilvikum sem þessum. Í sérfræðiáliti G kemur meðal annars fram að aðgerðin hafi verið framkvæmd af kostgæfni. Bætur samkvæmt l. tl. 2. gr. komu því ekki til greina. 2. tl. 2. gr. á ekki við í þessu tilviki.

Vel var staðið að aðgerðinni og ekki er að sjá að neitt hafi farið úrskeiðis við framkvæmd hennar. Með hliðsjón af sjúkrasögu A var réttri aðferð beitt við aðgerðina og ekkert bendir til þess að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð. Bætur samkvæmt 3. tl. 2. gr. komu því ekki til greina. Samkvæmt 4. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur ef tjón hlýst af meðferð eða rannsókn og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Í lagaákvæðinu er sérstaklega tekið fram að annars vegar skuli líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.

Við mat á því hvort heilsutjón fellur undir 4. tl. 2. gr. ber að líta til þess hvort misvægi er milli annars vegar þess hversu tjón er mikið og hins vegar hve veikindi sjúklings voru alvarleg og þeim afleiðingum af rannsókn eða meðferð sem almennt mátti búast við. Fylgikvillinn þarf því bæði að vera alvarlegur í samanburði við veikindi sjúklings og tiltölulega sjaldgæfur (minna en 1-2% tilvika) til að réttlætanlegt sé að fella hann undir 4. tl. Því meiri sem hættan er á fylgikvilla eftir eðlilega meðferð, þeim mun meira tjón verður sjúklingur að bera bótalaust. Einnig skal taka mið af eðli veikinda sjúklings og því hversu mikil þau eru svo og almennu heilbrigðisástandi hans. Leggja þarf mat á það hvaða fylgikvillum mátti búast við miðað við aðgerðina sem framkvæmd var og heilsufar sjúklings.

Í máli kæranda var þann 2. júlí 2002 framkvæmd aðgerð til lagfæringar á kviðvegg sem áður hafði undirgengist margar skurðaðgerðir. Var tilgangurinn með aðgerðinni að lagfæra þær andlegu og líkamlegu þjáningar sem kærandi hafði vegna fyrri aðgerða á kvið. Að öllum líkindum fylgdi aðgerðinni talsvert aukin áhætta þar sem tvær síðustu aðgerðir höfðu endað með rofi í viðgerð. Af gögnum málsins má ráða að bæði sjúklingur og læknir gerðu sér grein fyrir þessari auknu áhættu.

Einnig fylgdi aðgerðinni aukin sýkingarhætta þar sem sýkingarhætta er meiri í vef sem hefur undirgengist skurðagerðir og hefur þar með lélegra blóðfæði. Enn fremur liggur fyrir að sjúklingur er stórreykingamanneskja og vitað er að reykingar hafa áhrif á sýkingarhættu. Kærandi var meðal annars sett á sýklalyf í aðgerð og notast var við sýklalyf fyrstu dagana eftir umrædda aðgerð í fyrirbyggjandi skyni. Tveimur vikum eftir aðgerðina var ljóst að aðgerðarsvæðið var sýkt. Í áliti G kemur fram að sýking í skurðsári með framandi efni er alvarlegt vandamál við að eiga og oftast nær er ráðlögð langtíma sýklalyfjameðferð í æð í allt að 6-8 vikur. Í tilviki kærandi hafi sýklalyfjameðferðin verið nokkuð skemmri en þó náðst að uppræta sýkinguna.

Það var því ljóst að töluverð áhætta fylgdi þeirri aðgerð sem kærandi gekkst undir vegna eðlis aðgerðarinnar og heilsufarssögu kæranda og að kærandi gerði sér grein fyrir því. Kærandi varð ekki fyrir varanlegu heilsutjóni og fylgikvillar þeir sem kærandi fékk voru innan marka þess sem búast mátti við að gætu komið upp og fékk kærandi jafnframt fullnægjandi meðferð við þeim.

Þegar litið er til ofangreinds var niðurstaðan sú að ekki væri unnt að fella atvikið undir ákvæði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu var því synjað."

Greinargerðin var send lögmanni kæranda með bréfi dags. 17. mars 2005. Lögmaður kæranda óskaði frests til að koma að frekari athugasemdum. Bárust athugasemdir lögmannsins dags. 18. apríl 2005, þar sem segir:

„ Umbj. minn telur nauðsynlegt að nefndin skoði tryggingaratburð þennan í því ljósi sem tilkynning umbj. míns og kæra hennar er sett fram. Þ.e. að sú aðgerð sem Tryggingastofnun einblínir á í greinargerð sinni og raunar einnig í hinni kærðu ákvörðun var einungis endapunkturinn á langri sjúkdómssögu umbj. míns.

Sú aðgerð sem fram fór í júlí 2002 til að laga kviðvegginn, og þurfti að þola kvalarfulla sýkingu í skurðinum í kjölfarið er tilkomin vegna mistaka og ónægilegrar eftirmeðferðar eftir fyrri aðgerðir. Er þar ekki síst vísað til aðgerðar þar sem fjarlægt var móðurlífið úr umbj. mínum, en sú aðgerð var framkvæmd á D árið 2001. Um þetta er skýrt kveðið á um í tilkynningu til TR vegna sjúklingatryggingaratburðar, dags. 11. maí 2004 og jafnframt hnykkt á þessu í kæru til úrskurðarnefndarinnar, dags. 25. febrúar 2005. Svo virðist sem að í greinargerð TR, dags. 16. mars sl. sé einblínt á síðustu aðgerðina, þ.e. um lagfæringuna á kviðveggnum.

Vill umbj. minn að það komi skýrt fram að málatilbúnaður hennar hefur verið á þá leið að allar þær aðgerðir sem hún þurfti að þola, leggi samanlagt til heilsuástands hennar eins og það er í dag. Er það ósk umbj. míns að úrskurðarnefndin endurskoði afstöðu TR til bótaskyldu í málinu á þessum forsendum."

Athugasemdir voru kynntar Tryggingastofnun.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, en þann 2. júlí 2002 gekkst kærandi undir aðgerð til að lagfæra kviðvegg, en hún hafði áður gengist undir margar aðgerðir á kviðvegg. Hún fékk sýkingu í kjölfar aðgerðarinnar, sem nokkurn tíma tók að uppræta.

Í rökstuðningi með kæru segir að sýkingin sem upp kom í kjölfar aðgerðarinnar í júlí 2002 hafi verið kæranda afar kvalafull og kostað hana sjúkrahúslegu, þörf fyrir heimahjúkrun og margendurteknar heimsóknir á heilsugæslustöð til sáraskiptinga. Þá er því mótmælt að bótarétti verði fyrirgert vegna þess að kærandi hafi áður farið í margar aðgerðir sem auki sýkingarhættu.

Í athugasemdum lögmanns kæranda dags. 18. apríl 2005 segir að kærandi vilji að það komi skýrt fram að málatilbúnaður hennar hafi verið á þá leið að allar þær aðgerðir sem hún hefur þurft að þola, leggi samanlagt til heilsuástands hennar eins og það sé í dag. Sé það ósk kæranda að úrskurðarnefndin endurskoði afstöðu Tryggingastofnunar til bótaskyldu í málinu á þessum forsendum. Í kæru dags. 18. febrúar 2005 segir að kæra sé vegna afleiðinga aðgerðar til að lægfæra kviðvegg sem fram fór á D 2. júlí 2002. Meðferð máls kæranda hjá Tryggingastofnun varðaði einnig afleiðingar þeirrar aðgerðar en ekki var fjallað um mögulega bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingu vegna fyrri aðgerða. Úrskurðarnefnd almannatrygginga fjallar eingöngu um mál þegar fyrir liggur afgreiðsla Tryggingastofnunar. Því verður í úrskurði þessum eingöngu fjallað um aðgerðina í júlí 2002 og rétt kæranda til bóta vegna hennar. Hins vegar skiptir fyrra heilsufar og fyrri aðgerðir máli við mat á bótaskyldu vegna aðgerðarinnar í júlí 2002.

Í greinargerð Tryggingastofnunar dags. 11. október 2004 er rökstutt það mat stofnunarinnar að bótaskylda sé ekki fyrir hendi samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000. Töluverð áhætta hafi fylgt aðgerð kæranda vegna eðlis hennar og heilsufarssögu kæranda. Ekki sé um að ræða varanlegt heilsutjón og fylgikvillar kæranda hafi verið innan marka þess sem búast mátti við og fullnægjandi meðferð hafi verið veitt við þeim.

Í 2. gr. laga nr. 111/2000 segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„ Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1. Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni."

Það er skilyrði bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingalögum að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir eða slysi sem kærandi verður fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar við greiningu eða meðferð. Í 2. gr. laga nr. 111/2000 er að finna líkindareglu sem ætlað er að auðvelda þeim sem sækir um bætur að sýna fram á orsakasamband milli tjóns og rannsóknar eða meðferðar. Þannig segir: ,,... enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:.." Þannig skal bæta tjón sjúklings, ef könnun og mat á málsatvikum leiðir í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af t.d. rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan er hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni er bótaréttur ekki fyrir hendi. Þessi lögskýringasjónarmið eru áréttuð í greinargerð með lögunum.

Kærandi hafði gengist undir margar aðgerðir á kvið fyrir aðgerðina í júlí 2002. Þrjá keisaraskurði, gallblöðruaðgerð, botnlangaaðgerð og kviðslitsaðgerð. Og loks tvær aðgerðir á árinu 2001. Í kjölfarið á síðustu tveim aðgerðunum gaf kviðveggurinn sig þannig að veikleiki var kominn í kviðvegginn bæði fyrir ofan og neðan naflann með útbungun og verkjum. Því var ákveðið að gera eina stóra aðgerð á kviðveggnum og setja inn net.

Fyrir liggur umsögn utanaðkomandi sérfræðings G, lýtalæknis, dags. 20. október 2004. þar segir: ,,Ljóst er að öllum líkindum fylgdu þessari aðgerð talsvert aukin áhætta þar sem tvær sl. aðgerðir höfðu endað með rofi í viðgerð. Sömuleiðis hefur fylgt aðgerðinni aukin sýkingarhætta þar sem sýkingarhætta er meiri í vef sem hefur undirgengist skurðaðgerðir og hefur þar með lélegra blóðflæði. Tveimur vikum eftir fyrrgreinda aðgerð var ljóst að aðgerðarsvæðið var sýkt en sýking í skurðsári með framandi efni er alvarlegt vandamál við að eiga og oftast nær ráðlögð langtíma sýklalyfjameðferð í æð í allt að 6-8 vikur. Í þessu tilviki mun sýklalyfjameðferð hafa verið nokkuð skemmri en þó tekist að uppræta sýkingu."

Samkvæmt 1. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 skal greiða bætur ef ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 varðar það er tjón verður vegna bilunar eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3. tl. 2. gr. laga nr. 111/2000 varðar atvik þegar mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða –tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

Að mati úrskurðarnefndar verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að rétt og eðlilega hafi verið staðið að aðgerðinni sem kærandi gekkst undir. Ekkert hefur komið fram sem bendir til þess að 1. til og með 3. tl. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu eigi við.

4. tl. 2. gr. varðar atvik þegar tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli bótalaust.

Talsverð aukin áhætta fylgdi aðgerð kæranda þar sem tvær fyrri aðgerðir höfðu endað með rofi í viðgerð. Skurðaðgerðum fylgir alltaf sýkingarhætta og kærandi var í aukinni áhættu sem vitað var um fyrirfram, en sýkingarhætta er meiri í vef sem skurðaðgerðir hafa verið gerðar á þar sem blóðflæði er þá lélegra. Ekki verður heldur horft fram hjá því að kærandi hafði reykt talsvert um árabil sem veldur aukinni sýkingarhættu. Hún var því sett á sýklalyf strax í aðgerð og fékk sýklalyf í æð fyrstu dagana eftir aðgerðina. Þrátt fyrir það fékk kærandi tímabundna sýkingu eftir aðgerðina. Brugðist var við sýkingunni með eðlilegum hætti og venjubundinni meðferð sem vann bug á vandanum, en olli kæranda tímabundnum erfiðleikum. Við mat á rétti til bóta vegna sýkingar segir beinlínis í 4. tl. að líta skuli annars vegar til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Ennfremur skuli taka mið af því hvort algengt sé að tjón verði af viðkomandi meðferð og hvort eða að hve miklu leyti mátti gera ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni. Þegar öll þessi atriði eru virt er það niðurstaða úrskurðarnefndar að bótakylda sé ekki fyrir hendi í tilviki kæranda. Ekki er um varanlegt tjón að ræða, talsverðar líkur voru á sýkingu í ljósi fyrri heilsufarssögu og kæranda var kunnugt um þær. Reynt var að komast hjá tjóni með því að gefa strax sýklalyf, en þrátt fyrir það fékk hún sýkingu. Telur nefndin að sýkingin hafi ekki leitt til mikils tjóns fyrir kæranda í skilningi 4. tl. 2.gr. laga um sjúklingatryggingu, heldur hafi hún verið afleiðing sem gera mátti ráð fyrir vegna aðgerðarinnar.

Það er því niðurstaða úrskurðarnefndar að bótaskylda samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu sé ekki fyrir hendi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfu A um viðurkenningu bótaskyldu samkvæmt sjúklingatryggingu vegna aðgerðar 2. júlí 2002 er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

______________________________________

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta