Úrskurður nr. 295/2004 - Uppbót/styrkur til bifreiðakaupa
295/2004 – uppbót/styrkur til bifreiðakaupa
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú r s k u r ð u r.
Mál þetta úrskurðuðu Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Ludvig Guðmundsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.
Með kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga dags. 21. október 2004 kærir A synjun Tryggingastofnunar ríkisins á uppbót vegna kaupa á bifreið.
Óskað er endurskoðunar.
Málavextir eru þeir að kærandi sótti með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins dags. 27. apríl 2004 um uppbót/styrk til bifreiðakaupa. Umsóknin var samþykkt þ.e. uppbót, kr. 250.000 með bréfi stofnunarinnar dags. 6. ágúst 2004. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 1. október 2004 var tilkynnt að ekki væri heimilt að greiða uppbót þar sem kærandi væri ekki einn eigandi bifreiðarinnar B. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 13. október 2004 var tilkynnt að kærandi ætti rétt á uppbót að fjárhæð kr. 500.000 þar sem hún væri að kaupa bifreið í fyrsta sinn.
Í rökstuðningi fyrir kæru segir:
„ Tel að brotin sé réttur minn sem einstaklings til að haga mínum fjárfestingum eins og best henta mínum fjárhag.
Sjá bréfið mitt því til stuðnings til TR dags. 13/9´04.
Sendi afrit af gögnum til frekari rökstuðnings.
Sjá t.d. útreikning á greiðslum frá C."
Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi dags. 25. október 2004 eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 18. nóvember 2004. Þar segir m.a.
„ Kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn dags. 27. apríl 2004 og móttekinni 7. maí 2004. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 6. ágúst 2004 var henni tilkynnt að samþykkt hefði verið uppbót að fjárhæð 250.000 kr. sem yrði greidd út á tímabilinu l. september 2004 - 31. ágúst 2005. Með bréfi dags. 13. október var síðan tilkynnt hækkun á samþykktri uppbót í 500.000 kr. á grundvelli þess að umsókn barst fyrir breytingu á reglugerðar 752/2002 þess efnis að hærri fjárhæðin ætti einungis við ef um umsækjandi væri að kaupa bifreið í fyrsta sinn í stað þess að uppbót væri veitt í fyrsta sinn.
Í 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 segir:
"Áður en Tryggingastofnun ríkisins greiðir uppbótina skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Einnig skal hinn hreyfihamlaði eða maki hans vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Skilyrði er að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja."
Kæranda var með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 1. október 2004 synjað um greiðslu uppbótar til kaupa á bifreiðinni B á grundvelli þess að litið hafi verið svo á að uppbót sé einungis heimilt að greiða vegna kaupa á bifreið til einkanota og þar sem hún er ekki skráð sem eini eigandi að bifreiðinni samkvæmt skráningu Umferðarstofu sé ekki heimilt að greiða uppbót vegna kaup á þeirri bifreið.
Samkvæmt skráningu Umferðarstofu hefur C verið skráður eigandi bifreiðarinnar frá 28. apríl 2004. Frá 13. ágúst 2004 hefur kærandi einnig verið skráður eigandi bifreiðarinnar. Samkvæmt upplýsingum frá kæranda og gögnum sem kærandi hefur framvísað með kæru hefur hún gert leigusamning um bifreiðina við SP Fjármögnun hf. Því er skilyrði fyrir greiðslu uppbótar vegna bifreiðakaupa að hún sé eigandi bifreiðarinnar þar af leiðandi ekki fullnægt."
Greinargerðin var send kæranda með bréfi dags. 19. nóvember 2004 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Slíkt barst ekki.
Niðurstaða úrskurðarnefndar:
Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót vegna kaupa á bifreið.
Í rökstuðningi telur kærandi að með synjun Tryggingastofnunar sé verið að brjóta á rétti hennar sem einstaklings til að haga fjárfestingum eins og best henti hennar fjárhag.
Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að litið sé svo á að einungis sé heimilt að greiða uppbót vegna kaupa á bifreið til einkanota og þar sem kærandi sé ekki skráð sem eini eigandi að bifreiðinni samkvæmt skráningu Umferðarstofu sé ekki heimilt að greiða uppbót vegna kaupa á þeirri bifreið.
Í 1. mgr. 11. gr. laga nr. 118/1993 um félagslega aðstoð segir:
,,Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar."
Samkvæmt málsgögnum uppfyllti kærandi lagaskilyrði þar sem Tryggingastofnun samþykkti uppbót til kæranda. Stofnunin breytti síðan ákvörðun sinni með vísan til 6. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 752/2002 þar sem segir:
,,Áður en Tryggingastofnun ríkisins greiðir uppbótina skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðarinnar. Einnig skal hinn hreyfihamlaði eða maki hans vera skráður eigandi bifreiðarinnar."
Stjórnvald getur með reglugerð sett fyllri reglur innan ramma lagaákvæðis. Í máli þessu liggur fyrir kaupleigusamningur dags. 28. apríl 2004. Kærandi er kaupandi/leigutaki. Í kaupleigusamningi um bifreið felst að leigutaki eignast viðkomandi bifreið þegar samningurinn hefur verið að fullu efndur. Leigutaki er að mati úrskurðarnefndar að kaupa bifreið á þeim greiðslukjörum sem í kaupleigu felast. Samningurinn varðar bifeiðina B. Seljandi er D, leigusali er C og kærandi er kaupleigutaki. Kaupverð bílsins er kr. 2.520.000 m.VSK. Leigutaki greiddi í upphafi kr. 600.000 sem innborgun auk stofngjalds kr. 69.637 en greiðir síðan leigu mánaðarlega 84 sinnum eða til 1. maí 2011 þegar kærandi hefur væntanlega greitt bifreiðina að fullu.
Úrskurðarnefndin telur fyrirliggjandi kaupleigusamning nægjanlegan til að skilyrði 11. gr. laga nr. 117/1993 sem lýtur að eignarhaldi eða eignarrétti kæranda varðandi bifreiðina B sé uppfyllt og kærandi uppfylli því skilyrði til uppbótar vegna kaupa á bifreið.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Umsókn A um uppbót vegna kaupa á bifreið er samþykkt.
F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga
___________________________________
Friðjón Örn Friðjónsson,
formaður