Mál nr. 540/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 540/2022
Miðvikudaginn 15. febrúar 2023
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.
Með rafrænni kæru, dags. 15. nóvember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. ágúst 2022 um að synja umsókn kæranda um viðbótarstyrk til bifreiðakaupa.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi sótti um 50-60% styrk til kaupa á bifreið með umsókn, móttekinni 20. september 2019. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. desember 2019, var umsókn kæranda samþykkt. Þann 18. júní 2020 fékk kærandi greiddan styrk að fjárhæð 5.220.000 kr. frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi sótti um viðbótarstyrk vegna breytinga á bifreiðinni með umsókn, dags. 19. október 2021. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 19. ágúst 2022, var umsókn kæranda synjað á grundvelli þess að eingöngu væri heimilt að greiða styrki vegna kaupa á bifreiðum en ekki vegna breytinga eða viðgerða sem síðar væru tilkomnar.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 15. nóvember 2022. Með bréfi, dags. 21. nóvember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 5. desember 2022, barst greinargerð frá Tryggingastofnun og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar þann 6. desember 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. desember 2022, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. desember 2022. Með bréfi, dags. 28. desember 2022, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar þann 29. desember 2022. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru er greint frá því að […] 2019 hafi kærandi skoðað nýlegan […] á hlaðinu heima hjá sér og fengið að fara inn í hann. Kærandi hafi orðið svo hrifinn af bílnum að hann hafi tekið ákvörðun að kaupa einn slíkan og tilkynnt B þá ákvörðun sína. Þann 10. september 2019 hafi hann sótt um hámarksstyrk hjá Tryggingastofnun vegna kaupa á bifreiðinni, en kaupverðið hafi verið tilgreint X kr. fyrir óbreytta sendibifreið. Þann 19. desember 2019 hafi kæranda borist svar frá Tryggingastofnun þar sem honum hafi verið tilkynnt að samþykktur hafi verið 60% styrkur til hans af grunnverði bifreiðar, þó ekki hærri en 5.000.000 kr.
Dráttur hafi orðið á komu bílsins en hann hafi verið forskráður sem sendibifreið þann 29. febrúar 2020. Fljótlega hafi verið byrjað að breyta bílnum og útbúa hann að þörfum kæranda í samráði við Sjúkratryggingar Íslands, en hann og B hafi falið C að annast þær framkvæmdir. Kærandi hafi samið við C um verð á þeim framkvæmdum sem hafi fallið í hans hlut og hafi tekist samkomulag um X kr.
Bíllinn hafi verið skráður fyrir þrjá farþega þann 12. júní 2020. Kærandi hafi ekki komið nálægt þeirri skráningu. Þann 15. júní 2020 hafi tekið í gildi reglugerð sem hafi hækkað hámarksstyrk til bifreiðakaupa úr 5.000.000 kr. í 6.000.000 kr.
Þann 16. júní 2020 hafi sendinefnd frá B komið til kæranda með blaðamann og ljósmyndara og afhent honum bílinn og handsalað kaupin. Hvorki hafi kaupsamningur né afsal verið gefið út fyrir bílnum og þá hafi engir reikningar vegna kaupanna borist kæranda. Einhliða tilkynning seljanda til Samgöngustofu þann 12. júní 2020 geti vart talist kaupdagur heldur miklu frekar 16. júní 2020 þegar bíllinn hafi verið afhentur kæranda og kaupin handsöluð. Bíllinn hafi ekki verið á ábyrgð kæranda fyrr en þá.
Þann 18. júní 2020 hafi styrkur að fjárhæð 5.220.000 kr. verið lagður inn á bankareikning kæranda. Honum hafi fljótlega verið ljóst að 600.000 kr. hafi vantað upp á að hann fengi 60% styrk af kaupverði bílsins sem hafi verið X kr. grunnverð og X kr. vegna breytinga úr sendiferðabíl í fólksbifreið, ökutæki hreyfihamlaðra.
Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að B hafði gefið upp X kr. sem kaupverð bílsins en sleppt X kr. vegna breytinganna. B hafi sjálfsagt ekki talið þörf á því með tilliti til þágildandi reglna um hámarksstyrk, 5.000.000 kr.
Þegar kærandi hafi sent inn beiðni sína um viðbótarstyrk hafi hann ekki haft reikninginn fyrir breytingunum undir höndum og hafi ekki fengið viðbrögð frá C þegar hann hafi kallað eftir reikningnum. Mörgum mánuðum seinna hafi hann fengið upplýsingar frá B um að reikningurinn væri hjá þeim, stílaður á B vegna breytinganna á bifreiðinni D. Kærandi hafi fljótlega fengið reikninginn í hendurnar og komið honum til Tryggingastofnunar.
Þann 11. nóvember 2020 hafi kærandi greitt X kr. inn á bankareikning B, upphæð sem hafði verið samið um vegna breytinganna, þrátt fyrir að enn hafi ekki verið gefinn út reikningur á hann vegna þeirra viðskipta. Reikningurinn hafi svo verið gefinn út á kæranda þann 17. ágúst 2021.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, hafi umsókn kæranda um viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupanna verið synjað þar sem tilgreint hafi verið að kaupdagur bifreiðarinnar hafi verið 12. júní 2020 samkvæmt skráningu Samgöngustofu sem gerð hafi verið með atbeina seljanda, þ.e. B, en án nokkurrar aðkomu frá kæranda. Starfsmenn B hafi komið með blaðamann og ljósmyndara heim til kæranda og afhent honum bílinn fullbúinn þann 16. júní 2020. Kærandi telji 16. júní 2020 vera kaupdag bílsins.
Ástæða synjunar Tryggingastofnunar um viðbótarstyrk sé tilgreind í bréfi stofnunarinnar, þ.e. að Tryggingastofnun sé eingöngu heimilt að greiða styrki vegna kaupa á bifreiðum en ekki vegna breytinga eða viðgerða sem síðar séu tilkomnar. Breytingarnar hafi allar átt sér stað fyrir afhendingu bílsins þann 16. júní 2020, samanber yfirlýsingu frá B, dags. 19. október 2022, þar sem B viðurkenni mistök við frágang mála.
Misskilnings virðist gæta hjá Tryggingastofnun varðandi þátttöku Sjúkratrygginga Íslands í kostnaði af breytingum þeim sem hér um ræði.
Í athugasemdum kæranda, dags. 17. desember 2022, segi að synjun Tryggingastofnunar á 600.000 kr. viðbótarstyrk byggi í fyrsta lagi á því að 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 nái ekki til þeirra breytinga sem gerðar hafi verið á bifreiðinni.
Bíllinn hafi verið fluttur inn sem óinnréttuð sendibifreið sem hafi átt eftir að aðlaga að þörfum kæranda. Seljandi bílsins, B, hafi falið C að annast þá aðlögun. Fastmótaðar reglur hafi myndast um hvernig kostnaður við aðlögun skiptist á milli Sjúkratrygginga Íslands og kaupanda. Kærandi hafi treyst því að Sjúkratryggingar Íslands og C virtu þá skiptingu. Sjúkratryggingar Íslands hafi greitt fyrir lyftu og uppsetningu hennar, stjórntæki til hemlunar, olíugjafar og stefnuljósa og festingar í gólfi fyrir hjólastólinn.
Af því sem hafi fallið í hlut kæranda vegi þyngst lagning gólfefna og brauta fyrir hjólastól og tvo farþegastóla sem einnig hafi verið greitt fyrir. Ekkert af því geti talist til aukabúnaðar í skilningi 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Kærandi hafi greitt X kr. fyrir þær breytingar og hafi því heildarverð, sem hann hafi greitt fyrir bílinn, verið X kr. Aðgerðir þær séu tilgreindar á reikningi þeim sem frammi liggi í máli þessu frá C til B. Auk þess sem bifreið kæranda hafi ætíð verið tilbúin til skoðunar fyrir starfsmenn Tryggingastofnunar og sé það núna fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála til að athuga hvort þar sé um einhvern aukabúnað í merkingu reglugerðarinnar að ræða.
Kærandi viti um þónokkur dæmi þess að bílum hafi verið breytt á svipaðan hátt og hjá honum og kostnaðurinn hafi verið felldur inn í kaupverð bílsins. Sjálfur hafi hann keypt bifreið árið 2012 sem hafi verið í svipuðu ástandi og viðkomandi […] bifreið og hafi því þurft að aðlaga bifreiðina að hans þörfum. Söluaðili bifreiðarinnar hafi séð um öll samskipti við Tryggingastofnun vegna styrksins sem kæranda hafi verið veittur og bílaumboðið hafi gætt þess að allur sá kostnaður kæmi til mats þegar styrkurinn hafi verið metinn og honum hafi verið veittur fullur styrkur.
Í öðru lagi byggi Tryggingastofnun á því að reglugerðarákvæðið, sem hafi hækkað hámark styrksins, hafði ekki tekið gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt. Reglugerðin þar sem styrkurinn hafi hækkað úr fimm milljónum í sex milljónir hafi verið gefin út af ráðherra þann 15. júní 2020 og hafi strax tekið gildi samkvæmt texta reglugerðarinnar. Reglugerðin hafi því verið í fullu gildi þegar Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun um að veita kæranda styrk að fjárhæð 5.220.000 kr. þann 18. júní 2020 í samræmi við hækkunina.
Kærandi hafi ekki sóst eftir útborgun styrksins þegar hann hafi verið greiddur honum. Hann hafi treyst B til þess að skila inn til Tryggingastofnunar réttum upplýsingum um raunverulegt kaupverð bílsins, X kr., en það hafi brugðist eins og B hafi viðurkennt. Upplýsingar og gögn því til staðfestingar hafi verið sendar til Tryggingastofnunar þegar kærandi hafi sótt um viðbótarstyrkinn og hafi því verið til staðar þegar Tryggingastofnun hafi að lokum synjað honum með lögformlegum hætti um viðbótarstyrkinn með ákvörðun, dags. 19. ágúst 2022, en fyrri synjanir hafi ekki verið með lögformlegum hætti.
Reglugerð um hækkun styrksins hafi öðlast gildi þegar Tryggingastofnun hafi tekið ákvörðun um styrkinn þann 18. júní 2020.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé synjun á umsókn um viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupa, sem borist hafi Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 21. nóvember [2021], og varði synjun umsóknar um viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupa.
Kærandi hafi sótt um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið með umsókn, dags. 10. september 2019, sem móttekin hafi verið þann 20. september 2019. Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 19. desember 2019. Styrkur að upphæð 5.220.000 kr. hafi verið veittur þann 18. júní 2020, en 19. október 2021 hafi kærandi sent endurnýjaða umsókn um viðbótarstyrk vegna bílakaupanna þar sem hann hafi greitt X kr. aukalega fyrir breytingar á bifreiðinni og hafi talið sig eiga rétt á viðbótarstyrk að upphæð 600.000 kr. Umsókn um viðbótarstyrk hafi verið synjað með bréfi frá réttindasviði Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, og það sé sú synjun sem nú liggi til grundvallar kærunni í þessu máli.
Ágreiningur málsins lúti þannig að því hvort kærandi eigi rétt á viðbótarbifreiðastyrk umfram þann styrk sem honum hafi verið veittur. Nánar tiltekið lúti ágreiningurinn að eftirtöldum tveimur atriðum. Í fyrsta lagi hvort Tryggingastofnun sé rétt stjórnvald til að veita styrk vegna breytinga á bifreiðinni því að ef veita eigi slíkan styrk megi halda því fram að Sjúkratryggingar Íslands séu hið rétta stjórnvald fyrir slíka styrkveitingu. Í öðru lagi hvort reglugerðarbreyting nr. 590/2020, sem hafi breytt reglugerð nr. 170/2009, eigi við í málinu. Breytingin hafi verið birt 16. júní 2020 og tekið gildi daginn eftir, eða 17. júní, en ekki 15. júní eins og ranglega sé tiltekið í bréfi frá réttindasviði Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, og hafi hún heimilað hámarksstyrk upp á 6.000.000 kr., en það hámark hafi verið 5.000.000 kr. í tíð eldra reglugerðarákvæðis. Styrkurinn, sem hafi verið samþykktur 19. desember 2019, hafi tiltekið hámarkið 5.000.000 kr. í samræmi við þá reglugerð sem hafi verið í gildi. Þó að kærandi hafi fengið hærri styrk þá haldi Tryggingastofnun því fram í málinu að ofgreitt hafi verið fyrir mistök því að eldri reglugerð hafi sannarlega enn verið í gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt. Varðandi það atriði hafi verið deilt um tímamark kaupanna, hvort tímamarkið eigi að miðast við skráningu bifreiðar 12. júní 2020 eða afhendingu bifreiðar fjórum dögum síðar, eða þann 16. júní 2020. Með tilliti til framangreindrar leiðréttingar á tímamarki reglugerðarbreytingar ætti tímamark kaupanna hins vegar ekki að skipta máli lengur.
Sú reglugerð sem eigi við í málinu sé reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Sú útgáfa reglugerðar nr. 170/2009 sem hafi verið í gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt sé 14. útgáfa hennar, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2020 með reglugerðarbreytingu nr. 1125/2019, og hafi verið í gildi þangað til 15. útgáfa reglugerðar nr. 170/2009 hafi tekið gildi 17. júní 2020 með reglugerðarbreytingu nr. 590/2020.
Ráðherra hafi skrifað undir reglugerðarbreytinguna 15. júní 2020, sem sé sú dagsetning sem ranglega sé nefnd sem gildisdagur í bréfi réttindasviðs Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, en hún hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda fyrr en 16. júní og samkvæmt hefð taki hún formlega gildi daginn eftir, eða þann 17. júní. Slíku viðmiði varðandi tímasetningu sé fylgt á vefslóðinni island.is þar sem hið opinbera birti upplýsingar um gildistíma reglugerða. Í samræmi við það sé staðhæft á island.is að reglugerðarbreyting nr. 1125/2019 hafi verið í gildi á tímabilinu 1. janúar 2020 til 17. júní 2020. Einnig sé staðhæft að reglugerðarbreyting nr. 590/2020 hafi verið í gildi á tímabilinu 17. júní 2020 til 1. janúar 2021.
Ákvæði 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 varði styrki til kaupa á sérútbúnum og dýrum bifreiðum. Svohljóðandi sé 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar:
„Heimilt er að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 4. gr.“
Athygli sé vakin á að styrkur samkvæmt greininni nái einungis til grunnverðs bifreiðar, án aukabúnaðar. Þurfi umsækjandi um viðkomandi bifreiðarstyrk aukabúnað í bifreiðina komi til álita að sækja um slíkan styrk til Sjúkratrygginga Íslands, sbr. reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja. Samkvæmt 4. gr. þeirrar reglugerðar séu styrkir veittir til kaupa á hjálpartækjum sem tilgreind séu í fylgiskjali með henni. Liður 1212 fylgiskjalsins tiltaki alls kyns hjálpartæki í bifreiðar. Í fylgigögnum með umsókn kæranda um viðbótarstyrk sé að finna reikning frá C þar sem B greiði fyrir breytingar á bifreiðinni. Þar sé að finna ýmis atriði sem kunni að falla innan þeirra atriða sem nefnd séu í lið 1212. Hins vegar sé ekki í verkahring Tryggingastofnunar að meta hvaða atriði falli undir lið 1212 heldur sé slíkt mat framkvæmt af Sjúkratryggingum Íslands. Kærandi hafi ekki gert grein fyrir hvaða styrki hann hafi fengið frá Sjúkratryggingum Íslands þó að gögn málsins bendi til að þess sé þörf til að tryggja að ekki sé tvígreitt fyrir sömu hluti, það er að segja að kærandi þiggi styrk, bæði frá Sjúkratryggingum Íslands og Tryggingastofnun ríkisins vegna þeirra breytinga sem um ræði.
Ákvæði 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hafi breyst á milli 14. og 15. útgáfu hennar. Í 14. útgáfunni, sem hafi verið í gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt, hljóði 2. mgr. 5. gr. svo:
„Styrk er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Styrkur samkvæmt þessu ákvæði getur aldrei verið hærri en 5.000.000 kr.“
Eftir að 15. útgáfa reglugerðarinnar hafi tekið gildi 17. júní 2020 hafi 2. mgr. 5. gr. breyst á þann hátt að tilgreint hámark styrks hafi farið úr 5.000.000 kr. í 6.000.000 kr. og kæranda hafi fyrir mistök verið greiddur styrkur samkvæmt nýju reglugerðinni þó að hún hefði ekki tekið gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt. Reglugerð nr. 170/2009 hafi síðan verið felld á brott 1. september 2021 og við hafi tekið reglugerð nr. 905/2021 sem nú sé í gildi.
Kærandi hafi skilað inn umsókn um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið sem hafi verið móttekin þann 20. september 2019. Umsóknin hafi verið samþykkt með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. desember 2019.
Áður en styrkur sé greiddur skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar, sbr. 3. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 (óbreytt milli útgáfa). Kærandi hafi skilað inn yfirlýsingu til Tryggingastofnunar vegna kaupa á bifreið, dags. 11. júní 2020, sem hafi verið móttekin 16. júní 2020. Samkvæmt yfirlýsingunni sé um að ræða bifreið af tegundinni […], árgerð X, með númerið D. Kaupverð bifreiðarinnar samkvæmt yfirlýsingunni sé X kr. og dagsetning samningsins sé 12. desember 2019. Með yfirlýsingunni hafi verið reikningur sem hafi staðfest kaupverð bifreiðarinnar.
Kærandi hafi fengið greidd 60% af X milljónum, eða 5.220.000 kr., þann 18. júní 2020, tveimur dögum eftir að yfirlýsing varðandi bifreiðakaupin hafi verið móttekin. Þegar umsóknin um bifreiðastyrkinn hafi verið samþykkt 19. desember 2019 hafi verið tiltekið að hámark styrksins væri 5.000.000 kr. í samræmi við gildandi reglugerðarákvæði. Það ákvæði hafi enn verið í gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt þann 12. júní 2020, sbr. dagsetningu á innsendum reikningi B sem sé í samræmi við skráningu Samgöngustofu. Þannig hefði kærandi einungis átt að fá styrk upp á 5.000.000 kr., en ofgreitt hafi verið um 220.000 fyrir mistök. Mistökin eigi án efa rætur í því að degi áður en greiðslan hafi verið innt af hendi þann 18. júní 2020 hafi nýtt reglugerðarákvæði tekið gildi þar sem hámark styrks hafi hækkað um 1.000.000 kr. og því hafi styrkurinn verið ranglega reiknaður 60% af sex milljónum en ekki fimm milljónum.
Styrkur að upphæð 5.220.000 kr. hafi verið veittur 18. júní 2020. Þann 19. október 2021, sextán mánuðum eftir styrkveitinguna, hafi kærandi hins vegar sent inn endurnýjaða umsókn um viðbótarstyrk vegna bílakaupa. Sú umsókn hafi hljóðað svo:
„Þann 18.6.2020 veittuð þið mér styrk að fjárhæð kr. 5.220.000 vegna kaupa minna á bifreið D […] sendibifreið sem kostaði X kr.
Nú átti eftir að breyta bílnum til þess að hann fullnægði mínum þörfum. Sá kostnaður sem féll á mig samkvæmt meðfylgjandi gögnum og reglum sjúkratrygginga var kr. X. Ég hef þegar greitt meðfylgjandi reikning og tel mig eiga rétt á viðbótarstyrk að upphæð kr. 600.000 sem ég sæki hér með um.“
Umsókninni um viðbótarstyrk hafi verið synjað með bréfi frá réttindasviði Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, og sé það sú synjun sem nú liggi til grundvallar kærunni í þessu máli.
Í kæru haldi kærandi því fram að raunverulegur kaupdagur bifreiðarinnar hafi ekki verið 12. júní 2020, sem sé dagsetning reiknings B og dagsetning skráningar Samgöngustofu, heldur fjórum dögum síðar, eða hinn 16. júní 2020, þegar starfsmenn B hafi mætt með blaðamann og ljósmyndara heim til kæranda og afhent honum bílinn fullbúinn.
Sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að synja kæranda um viðbótarbifreiðarstyrk sé byggð á upplýsingum sem komi fram í umsókn um 50-60% styrk vegna kaupa á bifreið, dags. 10. september 2019, móttekinni 20. september 2019, umsókn um styrk til kaupa á bifreið samþykktri af Tryggingastofnun þann 19. desember 2019, yfirlýsingu til Tryggingastofnunar vegna kaupa á bifreið, dags. 11. júní 2020, móttekinni 16. júní 2020, reikningi B fyrir greiðslu að upphæð X kr., dags. 12. júní 2020, mótteknum 16. júní 2020, skjáskoti úr Ölmu, kerfi Tryggingastofnunar, sem sýni skráningardag bifreiðar hjá Samgöngustofu, greiðsluskjali frá Tryggingastofnun varðandi greiðslu upp á 5.220.000 kr., dags. 18. júní 2020, beiðni um viðbótarstyrk ásamt fylgiskjölum, dags. 19. október 2021, bréfi til kæranda frá réttindasviði Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022, skjáskoti úr Ölmu, kerfi Tryggingastofnunar, sem sýni styrki til kæranda frá Sjúkratryggingum Íslands varðandi hjálpartæki.
Þau efnisatriði í gögnunum, sem hafi skipt mestu máli við úrvinnslu málsins, séu að samkvæmt beiðni um viðbótarstyrk ásamt fylgiskjölum sé sótt um viðbótarstyrk vegna breytinga á bifreiðinni hjá C til að bifreiðin fullnægi þörfum kæranda. Jafnvel þó að breytingarnar hafi verið gerðar áður en bifreiðin hafi verið afhent kæranda, nái 5. gr. reglugerðarinnar ekki til slíkra breytinga heldur einungis til grunnverðs bifreiðar, án aukabúnaðar. Samkvæmt reikningi frá B og skráningu hjá Samgöngustofu teljist bifreiðin keypt 12. júní 2020, fimm dögum áður en reglugerðarbreyting taki gildi sem hækki hámark styrks úr fimm milljónum í sex milljónir.
Eins og áður segir lúti ágreiningur málsins þannig að því hvort kærandi eigi rétt á viðbótarbifreiðarstyrk umfram þann styrk sem honum hafi verið veittur. Tryggingastofnun byggi synjun sína um að veita kæranda viðbótarstyrk á tveimur málsástæðum. Annars vegar byggi Tryggingastofnun synjun sína á þeirri málsástæðu að stofnunin sé ekki rétt stjórnvald til að veita að styrk vegna breytinga á bifreiðinni því að ef veita eigi slíkan styrk þurfi að sækja um hann til Sjúkratrygginga Íslands. Með öðrum orðum, umsókn kæranda um viðbótarstyrk varði breytingar á bifreið sem séu undanskildar styrkveitingu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. þágildandi reglugerðar nr. 170/2009, en eigi ef til vill að einhverju leyti undir reglugerð nr. 760/2021 um styrki vegna hjálpartækja.
Fallist úrskurðarnefnd velferðarmála hins vegar ekki á framangreinda túlkun þá beri að líta til þess að Tryggingastofnun byggi synjun sína einnig á þeirri málsástæðu að 14. útgáfa reglugerðar nr. 170/2009 hafi verið í gildi þegar bifreiðin hafi verið keypt og að kærandi eigi þannig ekki tilkall til meira en þess hámarks sem sú útgáfa reglugerðarinnar tilgreini, það er að segja fimm milljóna króna. Þó að kærandi hafi fengið hærri styrk en honum hafi borið frá Tryggingastofnun, þýði það ekki að stofnunin þurfi að greiða honum enn meira en hann hafi nú þegar fengið.
Tryggingastofnun byggi á því að bifreiðin teljist keypt þann dag sem tilgreindur sé á reikningi frá B og sem skráður sé hjá Samgöngustofu, það er að segja 12. júní 2020. Jafnvel þó að bifreiðin teljist keypt við afhendingu þann 16. júní 2020, eins og kærandi haldi fram í málinu, dugi það ekki til að styrkur til kæranda falli undir reglugerðarbreytinguna sem hafi tekið gildi daginn eftir, eða þann 17. júní 2020.
Í ljósi alls framangreinds þegar málavextir, gögn og lagarök í málinu séu skoðuð, sé það mat Tryggingastofnunar að kærandi eigi ekki rétt á þeim viðbótarstyrk sem um hafi verið sótt. Niðurstaða Tryggingastofnunar sé þannig sú að synja beri um viðbótarstyrkinn.
Fyrir nefndinni fari Tryggingastofnun því fram á staðfestingu á ákvörðun stofnunarinnar frá 19. ágúst síðastliðnum um að synja kæranda um viðbótarstyrk vegna bifreiðarkaupa.
Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 28. desember 2022, er fjallað nánar um hvaða útgáfa reglugerðar nr. 170/2009 hafi verið í gildi þegar styrkurinn hafi verið veittur. Ráða megi af athugasemdum kæranda að tímamarkið sem miða eigi við sé 18. júní 2020 sem kærandi telji að sé tímamarkið þegar ákvörðun hafi verið tekin um styrkinn. Hins vegar sé 18. júní 2020 einungis sú dagsetning þegar greiðsla frá Tryggingastofnun til kæranda hafi verið innt af hendi. Ákvörðun um að veita styrkinn hafi með sanni verið 19. desember 2019 þegar Tryggingastofnun hafi sent kæranda bréf þar sem umsókn um styrk til kaupa á bifreið hafi verið samþykkt, sbr. bréf dagsett þann dag, þar sem segi: „Samþykktur hefur verið 60% styrkur af grunnverði bifreiðar án aukabúnaðar, þó ekki hærri en 5.000.000 kr. og verður hann greiddur á tímabilinu 1. október 2019 til 1. október 2020.“
Tímamarkið sem miða verði við í málinu sé dagsetningin þegar bifreiðin sé keypt og sé þá miðað við innsendan reikning og skráningu Samgöngustofu, sem sé 12. júní 2020, áður en reglugerðarbreyting hafði tekið gildi þar sem hámark styrks var hækkað. Hafa verði í huga að það tímamark þegar réttur til bóta stofnist sé á þeim degi þegar umsækjandi uppfylli öll skilyrði bóta eftir að umsókn hafi verið send inn sem í þessu tilfelli sé þegar gengið hafi verið frá kaupum á bifreiðinni. Benda megi á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1832/1996 þar sem umboðsmaður hafi komist að svofelldri niðurstöðu varðandi tímamark varðandi umsókn til stjórnvalds:
„Umsókn A frá 26. október 1995 var afgreidd á grundvelli reglna nr. 364/1996, um veitingu réttinda í snyrtifræði, sem samþykktar voru 20. júní 1996, þó að umsóknin hefði borist ráðuneytinu í gildistíð eldri reglugerðar. Umboðsmaður taldi ljóst að nýjar reglur um veitingu réttinda eins og þeirra sem hér um ræddi, yrðu ekki lagðar til grundvallar við afgreiðslu eldri umsókna.“
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupa.
Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar/styrkja til kaupa á bifreið er að finna í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í nefndri 10. gr. segir meðal annars svo:
„Heimilt er að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.
[...]
Heimilt er að greiða styrk til að afla bifreiðar sem nauðsynleg er vegna þess að líkamsstarfsemi er hömluð eða vantar líkamshluta. Heimilt er að veita styrk á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Ráðherra setur reglugerð um greiðslur samkvæmt ákvæði þessu, m.a. um sex mánaða búsetuskilyrði.“
Fyrir liggur að kærandi fékk greiddan styrk að fjárhæð 5.220.000 kr. þann 18. júní 2020 vegna kaupa á bifreið af tegundinni […]. Kaupverð bifreiðarinnar var X kr. og greiddi kærandi að auki X kr. fyrir breytingar á bifreiðinni. Kærandi lagði inn umsókn um viðbótarstyrk til Tryggingastofnunar þann 19. október 2021 vegna breytinga á bifreiðinni. Umsókn um viðbótarstyrk var synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 19. ágúst 2022. Ágreiningur málsins lýtur þannig að því hvort kærandi eigi rétt á viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupa.
Með stoð í 3. málsl. 3. mgr. nefndrar 10. gr. setti ráðherra reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða.
Í 5. gr. reglugerðarinnar var fjallað um heimild til að veita styrk til kaupa á sérútbúinni bifreið. Ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar hljóðaði svo áður en því var breytt með reglugerð nr. 590/2020:
„Heimilt er að veita styrk til að afla bifreiðar sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, ef um er að ræða einstakling sem ekki kemst af án sérútbúinnar og dýrrar bifreiðar vegna mikillar fötlunar. Heimildin á þó einungis við þegar umsækjandi uppfyllir skilyrði 4. gr.
Styrk er heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Styrkur samkvæmt þessu ákvæði getur aldrei verið hærri en 5.000.000 kr.
Áður en styrkur er greiddur skulu lagðar fram upplýsingar um kaupverð og kaup bifreiðar. Einnig skal hinn hreyfihamlaði eða maki hans vera skráður eigandi bifreiðarinnar. Skilyrði er að mat liggi fyrir um þörf á bifreið með hliðsjón af notkun hjálpartækja og að Tryggingastofnun ríkisins samþykki val á bifreið. Er Tryggingastofnun heimilt að óska eftir áliti sjúkratryggingastofnunar á þörf umsækjanda fyrir hjálpartæki og bifreið.“
Með reglugerð nr. 590/2020 um breytingu á reglugerð nr. 170/2009 var hámarksstyrkur 50-60% styrks samkvæmt 2. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009 hækkaður úr 5.000.000 kr. í 6.000.000 kr. Reglugerð nr. 590/2020 var birt í Stjórnartíðindum 16. júní 2020 og tók því gildi 17. júní 2020, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.
Fyrir liggur að Tryggingastofnun samþykkti umsókn kæranda um 50-60% styrk til bifreiðakaupa með bréfi, dags. 19. desember 2019. Kærandi skilaði inn yfirlýsingu, dags. 11. júní 2020, til Tryggingastofnunar vegna kaupa á bifreiðinni sem var móttekin af stofnunni 16. júní 2020. Einnig liggur fyrir reikningur frá B vegna bifreiðakaupanna, dags. 12. júní 2020, og upplýsingar frá Samgöngusögu um að kaupdagur hafi verið 12. júní 2020. Þá greinir kærandi frá því að hann hafi fengið bifreiðina afhenta 16. júní 2020.
Í ljósi þess að umsókn kæranda um 50-60% styrk til bifreiðakaupa var samþykkt og kærandi keypti sér bifreið á grundvelli þess samþykkis áður en reglugerð nr. 590/2020 um breytingu á reglugerð nr. 170/2009 tók gildi þann 17. júní 2020, telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við afstöðu Tryggingastofnunar þess efnis að sú breyting sem gerð var með reglugerð nr. 590/2020, eigi ekki við í máli kæranda. Í því felst að hámarksstyrkur vegna bifreiðakaupa kæranda er 5.000.000 kr.
Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greiddan bifreiðastyrk að fjárhæð 5.220.000 kr. þann 18. júní 2020 og því hefur kærandi nú þegar fengið greiddan hærri styrk en reglugerðin kvað á um.
Einnig er rétt að benda á að einungis er heimilt að veita styrk sem nemur allt að 50-60% af kaupverði bifreiðar, þ.e. grunnverði án aukabúnaðar, sbr. þágildandi 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 170/2009. Fyrir liggur að kærandi greiddi X kr. til viðbótar við kaupverðið fyrir breytingar á bifreiðinni. Samkvæmt því sem fram kemur í kæru er kostnaðurinn að mestu leyti tilkominn vegna lagningar gólfefna og brauta fyrir hjólastól og tvo farþegastóla. Að mati úrskurðarnefndar gefa gögn málsins til kynna að um aukabúnað í skilningi reglugerðarinnar sé að ræða, enda er verið að breyta sendibifreið þannig að hún henti kæranda sem hjólastólanotenda.
Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. ágúst 2022 á umsókn kæranda um viðbótarstyrk til bifreiðakaupa staðfest.
Úrskurðarnefndin telur rétt að benda kæranda á að hann geti sótt um styrk vegna hjálpartækja til Sjúkratrygginga Íslands.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 19. ágúst 2022 um að synja A, um viðbótarstyrk vegna bifreiðakaupa, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir