Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 244/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 244/2017

Þriðjudaginn 26. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 26. júní 2017, kærði B hrl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2017, um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna og innheimtu á ofgreiddu meðlagi.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2017, var kæranda tilkynnt um stöðvun milligöngu stofnunarinnar á meðlagsgreiðslum með barni hennar og endurkröfu ofgreidds meðlags frá 9. febrúar 2017. Lögmaður kæranda hafði samband við Tryggingastofnun með tölvupósti 23. mars 2017. Í tölvupósti 24. mars 2017 óskaði lögmaður kæranda eftir afriti af DNA prófi sem legið hafi til grundvallar ákvörðun stofnunarinnar og þá upplýsti hún að vefengingarmál hafi verið þingfest 16. mars 2017. Tryggingastofnun sendi lögmanni kæranda afrit af DNA prófi með bréfi, dags. 24. mars 2017.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. júní 2017. Með tölvupósti 10. ágúst 2017 óskaði úrskurðarnefnd eftir að Tryggingastofnun ríkisins sendi nefndinni afrit af bréfi umboðsmanns kæranda í málinu þar sem farið hafi verið fram á afrit af gögnum vegna ákvörðunar stofnunarinnar, dags. 6. mars 2017. Þann sama dag bárust nefndinni umbeðin gögn.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun milligöngu meðlagsgreiðslna verði breytt en til vara að beðið verði með innheimtu ofgreidds meðlags þar til niðurstaða liggi fyrir í vefengingarmáli.

Í kæru segir að barnsfaðir kæranda hafi framvísað til Tryggingastofnunar niðurstöðu erfðafræðilegrar rannsóknar frá C, sem fullnægi ekki þeim kröfum sem gera þurfi til slíkra rannsókna. Barnsfaðir kæranda hafi sjálfur farið með strok úr munni barnsins á rannsóknarstofu en ljóst sé að það sé alls ófullnægjandi rannsókn. Vefengingarmál sé nú til meðferðar fyrir dómi og þar hafi dómari mælt fyrir um rannsókn samkvæmt kröfum sem dómstólar geri til slíkra rannsókna.

Kærandi telji að ekki hafi legið fyrir fullnægjandi gögn til að stöðva greiðslur. Í það minnsta sé ótímabært að endurkrefja hana um greidd meðlög, þar sem ekki liggi fyrir fullnægjandi niðurstaða um að maðurinn sé ekki faðir barnsins. Því sé þess krafist að það verði að minnsta kosti beðið með endurkröfu þar til niðurstaða liggi fyrir í vefengingarmálinu með vísan til þess að meðalhófs skuli gætt.

Varðandi kærufrest málsins þá segir að óskað hafi verið eftir gögnum um málið frá Tryggingastofnun ríkisins. Þau gögn hafi verið send föstudaginn 24. mars 2017 frá Reykjavík og hafi borist mánudaginn 27. mars 2017. Í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 31/1993 komi fram að ef aðili fari fram á rökstuðning hefjist kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hafi verið tilkynntur honum. Byggt sé á því að beiðni um gögn sem liggi að baki ákvörðun verði jafnað til beiðni um rökstuðning og kæran sé því ekki of seint fram komin.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2017, þar sem milliganga meðlagsgreiðslna með barni kæranda var stöðvuð og farið var fram á endurgreiðslu ofgreidds meðlags fyrir tímabilið 9. febrúar 2017 til 31. mars 2017.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 1. mgr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Aðili máls getur krafist þess að stjórnvald rökstyðji ákvörðun sína skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.“

Þá segir svo í 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga:

„Þegar aðili fer fram á rökstuðning skv. 21. gr. hefst kærufrestur ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið tilkynntur honum.“

Samkvæmt gögnum málsins var kæranda tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2017. Með tölvupósti 24. mars 2017 óskaði lögmaður kæranda eftir afriti af DNA prófi sem legið hafi til grundvallar ákvörðuninni. Tryggingastofnun sendi lögmanni kæranda afrit af DNA prófinu með bréfi, dags. 24. mars 2017.

Samkvæmt framangreindu liðu tæplega 4 mánuðir frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. mars 2017, þar til kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 29. júní 2017. Kærandi byggir á því að beiðni um gögn sem liggi að baki ákvörðun verði jafnað til beiðni um rökstuðning í skilningi 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga og því sé kærufrestur ekki liðinn í máli þessu.

Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. mars 2017 er gerð grein fyrir því reglugerðarákvæði sem hin kærða ákvörðun var byggð á. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála fylgdi rökstuðningur því ákvörðun stofnunarinnar. Ekki var farið fram á frekari rökstuðning þegar lögmaður kæranda óskaði eftir gögnum 24. mars 2017. Úrskurðarnefndin fellst því ekki á að beiðni lögmanns kæranda um gögn verði jafnað til beiðni um rökstuðning í skilningi 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga. Úrskurðarnefndin telur því að kærufrestur í máli þessu hafi byrjað að líða þegar kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar og 5. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála ber því næst, með vísan til framangreinds, að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn. Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 6. mars 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður hvorki ráðið að gögnum málsins að afsakanlegt sé að kæra hafi ekki borist fyrr né að veigamiklar ástæðu mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta