Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 305/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 305/2017

Þriðjudaginn 26. september 2017

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Ásmundur Helgason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 18. ágúst 2017, kærði B, f.h. sonar síns A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2017, þar sem kæranda var synjað um endurhæfingarlífeyri.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 11. maí 2017, var umsókn kæranda synjað.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. ágúst 2017. Með kæru bárust útskýringar á þeim drætti sem hafi orðið á að kæra framangreinda ákvörðun.

II. Sjónarmið kæranda

Gerð er krafa um að synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 11. maí 2017 um endurhæfingarlífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru segir að ákvörðun Tryggingastofnunar hafi borist þann 22. maí 2017. Í skýringum vegna tafa á kæru segir að haft hafi verið samband við Tryggingastofnun í byrjun maí 2017 þar sem upplýst hafi verið að kærufrestur væri þrír mánuðir frá móttöku ákvörðunar póstleiðis en að ekki væri miðað við dagsetningu bréfs. Jafnframt komi einnig fram neðanmáls í kærðri ákvörðun að kærufrestur sé þrír mánuðir frá móttöku bréfsins. Farið sé fram á að kæran verði tekin til efnismeðferðar og yfirferðar eins og ef henni hafi verið skilað innan kærufrests.

III. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 11. maí 2017, þar sem kæranda var synjað um endurhæfingarlífeyri.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Samkvæmt gögnum málsins er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins dagsett 11. maí 2017 og kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 22. ágúst 2017. Kærufrestur byrjar að líða þegar aðila máls er tilkynnt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar. Þar sem Tryggingastofnun ríkisins tilkynnir almennt um ákvarðanir sínar með bréfum berast ákvarðanir stofnunarinnar sjaldnast kærendum sama dag og þær eru teknar. Úrskurðarnefndin hefur mótað þá vinnureglu, meðal annars með hliðsjón af almennum afhendingartíma bréfa, að kærufrestur skuli almennt miðast við fimm daga umfram þrjá mánuði ef litið er til dagsetningar hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra í máli þessu barst þegar liðnir voru ellefu dagar umfram þrjá mánuði ef litið er til dagsetningu ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins.

Kærandi byggir á því að hin kærða ákvörðun hafi ekki borist í pósti fyrr en 22. maí 2017 og því hafi kærufrestur ekki verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Samkvæmt vefsíðu Póstsins er 85% af B-pósti borinn út þremur virkum dögum eftir póstlagningu. Ekkert liggur fyrir í málinu sem getur stutt þá staðhæfingu kæranda að hin kærða ákvörðun hafi borist tæplega viku síðar en ætla má að þorri bréfasendinga innanlands sé kominn í hendur móttakanda. Ekki er því fallist á þá málsástæðu kæranda að hin kærða ákvörðun hafi ekki borist henni fyrr en ellefu dögum eftir að ákvörðunin var tekin. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 11. maí 2017 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Þá er eins og áður hefur komið fram ekki fallist að hin kærða ákvörðun hafi ekki borist kæranda fyrr en 22. maí 2017, líkt og kærandi byggir á. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er því ekki afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr. Þá verður ekki heldur séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta