Mál nr. 464/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 464/2024
Miðvikudaginn 19. febrúar 2025
A
gegn
Tryggingastofnun ríkisins
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með rafrænni kæru, móttekinni 24. september 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. september 2024, um upphafstíma endurhæfingarlífeyris.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Með rafrænni umsókn 21. ágúst 2024 sótti kærandi um endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2024. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 23. september 2024, var umsókn kæranda samþykkt fyrir tímabilið 1. til 31. október 2024. Umsókn kæranda um greiðslur frá 1. júlí 2024 var synjað á þeim grundvelli að endurhæfingaráætlun fyrir umbeðið tímabil hafi ekki legið fyrir og virk starfsendurhæfing taldist vart hafa verið í gangi á þeim tíma.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 24. september 2024. Með bréfi, dags. 25. september 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 30. október 2024, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 31. október 2024. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru óskar kærandi eftir því að úrskurður um endurhæfingarlífeyri verði skoðaður. Kærandi hafi áður verið á endurhæfingarlífeyri og hafi alltaf fengið greitt frá upphafi endurhæfingar. Tryggingastofnun vilji ekki greiða kæranda fyrir fulla virkni í endurhæfingu frá 3. september 2024 heldur eingöngu frá 1. október 2024 þar sem að stofnunin beri að „miða við fyrsta dag eftir að skilyrði til veitingar endurhæfingarlífeyris sé uppfyllt.“ Eins og fyrr segi þá hafi kærandi aldrei fengið synjun um afturvirkar greiðslur fyrir þann tíma sem hún hafi verið í endurhæfingu, alveg frá byrjun hafi kærandi alltaf fengið allt greitt. Óskað sé eftir að greiðsla endurhæfingarlífeyris verði samþykkt frá 1. september 2024 til 31. október 2024.
III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins
Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kæra varði upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris. Í kærðri ákvörðun, dags. 23. september 2024, hafi stofnunin synjað kæranda um endurhæfingarlífeyri frá 1. júlí 2024 en í þess stað hafi verið ákvarðaður endurhæfingarlífeyrir frá 1. október 2024 til 31. október 2024.
Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. segi að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18–67 verði til frambúðar eftir slys eða sjúkdóma. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð um allt að 24 mánuði, enda sé starfsendurhæfing með það að markmiði að auka atvinnuþátttöku enn talin raunhæf að mati framkvæmdaraðila, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Tryggingastofnun hafi eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Í áðurnefndri 7. gr. sé skýrt að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.
Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris sé fjallað í reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Í 4. gr. reglugerðarinnar sé fjallað um upphaf, tímalengd og skilyrði greiðslna. Í 5. gr. sé fjallað um sjálfa endurhæfingaráætlunina og tekið sé fram að Tryggingastofnun meti heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt. Í 6. gr. reglugerðarinnar sé tiltekið hverjir geti verið umsjónaraðilar endurhæfingaráætlunar.
Kærandi hafi lokið endurhæfingartímabilum frá 1. september 2022 til 30. júní 2024 og frá 1. október 2024 til 31. október 2024.
Kærandi hafi fengið synjun á umsókn um endurhæfingarlífeyri með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. júlí 2024. Fram kom í bréfinu að við skoðun á málinu hafi ekki þótt vera rök fyrir því að meta endurhæfingartímabil þar sem endurhæfingaráætlun hafi ekki verið talin nógu ítarleg í ljósi heildarvanda hennar og óljóst hvernig endurhæfingin kæmi til með stuðla að endurkomu á vinnumarkað, enda virtist virk endurhæfing þar sem tekið væri á heilsufarsvanda vart hafa verið í gangi. Einnig hafi komið fram að endurhæfingarlífeyrir taki mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri starfsendurhæfingu sem sé hafin. Óvinnufærni ein og sér og/eða bið eftir úrræðum veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Áréttað hafi verið að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem segi að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði, og hafi beiðninni þar af leiðandi verið synjað. Enn fremur hafi verið tekið fram að verði breyting á endurhæfingu eða aðstæðum væri hægt að leggja inn nýja umsókn og endurhæfingaráætlun auk gagna frá fagaðilum sem staðfesti virka þátttöku í endurhæfingu þegar sjúkraþjálfun eða endurhæfing hjá Hæfi myndi hefjast.
Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 23. september 2024, hafi komið fram að kærandi óski eftir afturvirkum greiðslum frá 1. júlí 2024. Einnig hafi komið fram að þegar málið hafi verið skoðað hafi ekki þótt vera rök fyrir að meta endurhæfingarlífeyri afturvirkt þar sem ekki hafi legið fyrir endurhæfingaráætlun fyrir umbeðið tímabil og óljóst væri hvort virk endurhæfing hafi verið í gangi á tímabilinu. Auk þess hafi verið á það bent að greiðslur endurhæfingarlífeyris taki ekki mið af því tímabili sem viðkomandi sé óvinnufær heldur þurfi virk starfsendurhæfing að vera hafin, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem fram komi að skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.
Tryggingastofnun hafi samþykkt endurhæfingartímabil í einn mánuð út frá fyrirliggjandi gögnum og hafi miðað við fyrsta dag næsta mánaðar eftir að skilyrði til veitingar endurhæfingarlífeyris hafi verið talin uppfyllt. Tekið hafi verið fram að ef þörf verði á framlengingu endurhæfingartímabils þurfi að skila inn endurhæfingaráætlun sem innihaldi upplýsingar um framvindu endurhæfingar á síðasta tímabili. Skilyrði um endurhæfingu hafi verið talin uppfyllt frá 1. október 2024 til 31. október 2024.
Samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð verði umsækjandi um endurhæfingarlífeyri að taka þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði, en þar sem endurhæfing hafi ekki lengur verið til staðar hjá VIRK þá hafi ekki verið heimilt að greiða frekari endurhæfingarlífeyri.
Í bréfi frá Tryggingastofnun, dags. 19. júní 2024, hafi kæranda verið veittur frestur til að andmæla ákvörðun Tryggingastofnunar til 14. júlí 2024. Einnig hafi verið bent á að ef breyting verði á endurhæfingu eða aðstæðum hjá kæranda væri hægt að senda inn gögn því til staðfestingar og sækja um að nýju.
Kærandi hafi sótt aftur um endurhæfingarlífeyri með umsókn, dags. 8. júlí 2024. Með umsókninni hafi fylgt staðfesting á að frá 25. júní 2024 hafi kærandi verið á biðlista hjá B endurhæfingu. Auk þess hafi fylgt umsókn kæranda, vottorð frá Hæfi endurhæfingarstöð, dags. 10. júlí 2024, um að þeir hefðu móttekið tilvísun fyrir kæranda í þverfaglega endurhæfingu frá heimilislækni kæranda. Í vottorðinu hafi einnig komið fram að ekki væri hægt að gefa frekari tímasetningu á því hvenær kærandi yrði kallaður í endurhæfingu.
Við mat á greiðslu endurhæfingarlífeyris hafi verið stuðst við fyrirliggjandi gögn.
Í greinargerð Tryggingastofnunar er greint frá því sem kemur fram í læknisvottorði C dags. 21. ágúst 2024, og því sem fram kemur í endurhæfingaráætlun, dags. 2. september 2024.
Við mat á ákvörðun, dags. 23. september 2024, hafi legið fyrir læknisvottorð, dags. 21. ágúst 2024, endurhæfingaráætlun, dags. [2]. september 2024, auk umsóknar um endurhæfingarlífeyri, dags. [21. ágúst] 2024.
Tryggingastofnun leggi sjálfstætt mat á færniskerðingu umsækjanda á grundvelli framlagðra gagna þar sem m.a. sé horft til sjúkdómsgreininga, heilsufarssögu og upplýsinga um meðferðir/endurhæfingu sem kærandi hafi undirgengist í kjölfar veikinda og/eða slysa.
Í endurhæfingarvottorði, dags. [2]. september 2024, komi fram að læknir búist við því að kærandi geti farið að nýju út á almennan vinnumarkað með vorinu 2025 og að færni kæranda muni aukast. Kærandi hafi lokið endurhæfingartímabilum frá 1. september 2022 til 30. júní 2024 og svo nýlega fengið endurákvarðaðan endurhæfingarlífeyri frá 1. október 2024 til 31. október 2024.
Að öllu framangreindu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að ekki hafi þótt vera rök fyrir því að meta endurhæfingaráætlun kæranda afturvirkt þar sem ekki hafi verið til staðar endurhæfingaráætlun fyrir þann tíma en óskað hafði verið eftir afturvirkum greiðslum frá 1. júlí 2024. Einnig hafi verið bent á að endurhæfingargreiðslur taki ekki mið af því tímabili sem kærandi sé óvinnufær heldur þurfi virk starfsendurhæfing að vera hafin, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.
Tryggingastofnun fari því fram á staðfestingu ákvörðunar, dags. 23. september 2024, varðandi upphafstíma greiðslna endurhæfingarlífeyris og að afgreiðsla á umsókn kæranda, þ.e. að hafna frekari afturvirkni eins og kærandi hafi óskað eftir, eigi ekki við þar sem virk endurhæfing hafi ekki verið til staðar á því tímabili, þ.e. frá 1. júlí 2024.
IV. Niðurstaða
Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort kærandi uppfylli skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris á tímabilinu 1. til 30. september 2024, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í . mgr. ákvæðisins segir:
„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 36 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi hafi átt lögheimili hér á landi samfellt 12 síðustu mánuði og taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“
Samkvæmt 4. mgr. sömu lagagreinar hefur Tryggingastofnun ríkisins eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt.
Á grundvelli 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð hefur verið sett reglugerð nr. 661/2020 um framkvæmd endurhæfingarlífeyris. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir um mat á líklegum árangri endurhæfingar:
„Tryggingastofnun skal meta heildstætt hvort líklegt sé að sú endurhæfing sem lagt er upp með í endurhæfingaráætlun muni stuðla að aukinni starfshæfni. Einnig skal stofnunin leggja mat á það hverju sinni hvort fyrirhuguð endurhæfing sem gerð er grein fyrir í endurhæfingaráætlun, sbr. 5. gr., þ.m.t. viðmið um ástundun og viðtöl, sé fullnægjandi með tilliti til markmiðs endurhæfingarinnar.“
Í 2. málsl. 1. mgr. 4. gr. framangreindrar reglugerðar segir um upphaf greiðslna:
„Grundvöllur greiðslna er að endurhæfingaráætlun liggi fyrir og er heimilt að setja það skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris að umsækjandi hafi formlega hafið endurhæfingu hjá viðurkenndum umsjónaraðila endurhæfingaráætlunar, sbr. 6. gr.“
Í 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar segir um endurhæfingaráætlun:
„Endurhæfingaráætlun skal ávallt taka mið af heilsufarsvanda umsækjanda með það að markmiði að aðstoða umsækjanda við að leita lausna við þeirri færniskerðingu eða heilsubresti sem veldur skertri starfshæfni hans. Leitast skal við að endurhæfingaráætlun byggi á heildstæðri nálgun með það að markmiði að bæta heilsu og auka starfsorku og starfshæfni. Tryggingastofnun metur heildstætt í hverju tilviki hvort endurhæfingaráætlun teljist fullnægjandi til að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt.“
Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur séu heimilar. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort framangreind skilyrði hafi verið uppfyllt á umdeildu tímabili.
Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli IV. kafla A, V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og að bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð C, dags. 5. júlí 2024, þar sem fram koma sjúkdómsgreiningarnar bakverkur og kvíði. Um sjúkrasögu segir:
„Bakverkir og óvinnufærni frá feb 2022, leiðniverk niður vinstri fótlegg. MRI maí 2022, brjóskútbungun L5-S1 ýtir við vinstri S1 rót. Fengið álit heila og taugaskurðlækna, ekki talin áb f. aðgerð. Versnun aukin verkjaleiðni áramót 2022/2023, MRI jan 2023, klár versnun brjóstklosi, álit heila og tauga (Elfar) mars 2023 - taldi brjósklos vera að ganga til baka, ekki mælt með aðgerðFékk höfnun VIRK jan 2023 (talið að greiningu og meðferð innan heilbrigðiskerfis væri ekki lokið).Sótt um aftur og meðferð VIRK 16/2/2024-30.05.2024var í endurhæfingu í 2 mánupi, mæting undir meðallagi (mætti ekki vegna bakverkja sögn) og því útskrifuð í heilbrigðiskerfið.Verið að glíma við kvíða, farið í gegnum HAM námskeið og nú á fluoxetin 60 mg x1, líðan mun betri.Lýsir viðvarandi verk mjóbaki vinstra megin, versnar við allt álag, erfitt að sinna heimilisstörfum vegna. Erfitt að standa sitja lengi. Á erfitt með að reisa sig við vegna verkja baki.msu bílveltu 2004 og einhverjar aftanákeyrslur, verið viðkvæm í baki síðan. Fer upp á tær og hæla, kraftar ok, minnkað skyn lat á vinstri læri og kálfa. Las neg. palp eymsl kringum SI lið vinstra megin.- Ráðgerð blpr ? tilv Hæfi / gigtlæknis frh“
Í tillögu að meðferð sem er áætlað að standi yfir í sex mánuði segir:
„Sjúkraþjálfun- Dagleg hreyfing eins og hægt er - dagleg hugleiðsla- regluleg eftirfylgd heimilislæknis“
Einnig liggur fyrir læknisvottorð C, dags. 21. ágúst 2024, þar sem greint er frá sömu sjúkdómsgreiningum og sjúkrasögu og kemur fram í vottorði hennar, dags. 5. júlí 2024. Í tillögu að meðferð sem áætlað er að standi yfir í sex mánuði segir:
„Endurhæfing hjá ráðgjafa D sjá hennar endurhæfingaráætlun“
Í endurhæfingaráætlun E læknis, dags. 2. september 2024, segir:
„A er X barna móðir […]. Börnin eru í leikskóla og skóla […]
Hún […] hefur nú ekkert unnið í tæplega þrjú ár. Var um tíma hjá VIRK sem gafst upp og sendi hana frá sér eftir sjúkraþjálfun og sálfræðimeðferð og einhver námskeið. […] Hún var um tíma á endurhæfingarlífeyri en er ekki lengur en D, sem er heimilislæknir hennar […], hefur skrifað vottorð þar að lútandi til TR
Hún rekur bakverki til bílslyss sem varð fyrir um 20 árum, eða 2004, en hefur þar að auki lent í ýmsum minni háttar slysum síðast árið 2019. Það fyrsta var bílvelta en röntgenmyndir sýndu ekki neitt og henni var sagt að það væri „ekkert að henni“. Ekkert slysanna hefur verið metið til örorku.
Milli jóla og nýárs 2021 fékk hún mjög slæma bakverki allt í einu og hefur ekkert unnið frá því í febrúar 2022. Verkir leiða alltaf til í vinstri ganglim þegar verst lætur en MRI í maí 2022 sýndi útbungun L:V-S:I sem ýtti við S:l-rótinni vinstra megin. Hún var skoðuð af heila- og taugaskurðlækni en ekki talin ástæða til aðgerðar. Segulómun í janúar 2023 sýndi versnun á brjósklosi en taugalæknir taldi ekki ástæðu til aðgerða og brjósklosið færi frekar að ganga til baka. Hún hefur verið hjá VIRK eftir að hafa fyrst fengið höfnun þar í janúar 2023 en var frá miðjum febrúar og fram í lok maí 2024 hjá VIRK, sem ýtti henni frá sér eins og áður sagði, og sagði henni að leita til heilbrigðiskerfisins. Fékk væntanlega endurhæfingarlífeyri á meðan hún var í VIRK en ekki lengur. Auk verkja glímir hún við kvíða og tekur Fluoxctin 60 mg x 1 en ekki önnur lyf. Sefur mjög illa. Á í ákveðnum erfiðleikum með heimilisverk og hreyfir sig mjög lítið. Reynir að fara með yngsta barnið á leikskóla sem er stutt frá heimili hennar. Við að ganga upp og niður stiga niður […] fær hún aukna bakverki.“
Endurhæfingaráætlun E vegna tímabilsins 1. september til 31. október 2024 er svohljóðandi:
„A kom í þverfaglegt mat í Hæfi endurhæfingu (Læknir, sálfræðingur og sjúkraþjálfari) þann 20. mars 2024.
Hún skoraði á GAD-7: 15 stig sem getur bent til miðlungs alvarlegs kvíða og á PHQ-9: 12 stig sem getur bent til miðlungs alvarlegs þunglyndis
Frá sálfræðingi
Kona sem vísað er vegna langvarandi bakverkja. Hún sefur illa vegna verkja og áhyggjur trufla líka. Í sögu koma fram eldri áföll sem ekki hefur verið unnið úr auk þess sem mikið álag hefur verið í félagsumhverfi hennar. Mælt er með sálfræðimeðferð með áherslu a EMDR áfallameðferð til að takast á við fyrri áföll.
Niðurstöður ályktun:
1. Einstaklingsmeðferð hjá sálfræðingi þar sem unnið er með eldri áföll með EMDR meðferð
2. Bakmennt hjá Hæfi sem er tvisvar í viku í mánuð
3. Einstaklingsmeðferð hjá sjúkraþjálfara þar sem unnið er með stoðkerfisverki
4. Verkjafræðsla hjá Hæfi alls fjögur skipti
5. Rætt við hana um svefn, E ræðir við hana um það
6. Endurhæfingarlífeyris umsókn sem E skrifar upp á og hittir svo mánaðarlega“
Ágreiningur í máli þessu snýst um það hvort kærandi eigi rétt á greiðslum endurhæfingarlífeyris vegna tímabilsins 1. til 30. september 2024. Tryggingastofnun ríkisins telur að skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi ekki verið uppfyllt fyrr en 1. október 2024, n.t.t. fyrsta degi næsta mánaðar eftir að endurhæfing hófst í september 2024 samkvæmt endurhæfingaráætlun E læknis.
Við mat á upphafstíma greiðslu endurhæfingarlífeyris lítur úrskurðarnefnd velferðarmála til þess að skýrt er kveðið á um það í 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð að endurhæfingarlífeyrir greiðist á grundvelli endurhæfingaráætlunar og tekur mið af því tímabili sem viðkomandi tekur þátt í fullnægjandi endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi byrjaði ekki endurhæfingu fyrr en í september 2024 samkvæmt fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun. Að mati úrskurðarnefndar uppfyllti kærandi því ekki skilyrði fyrir greiðslum endurhæfingarlífeyris fyrr en 1. október 2024, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð og 1. mgr. 32. gr. laga um almannatryggingar.
Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyris kæranda.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma endurhæfingarlífeyrisgreiðslna til A, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Rakel Þorsteinsdóttir