Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 564/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 564/2022

Miðvikudaginn 8. febrúar 2023

A

v/B

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. nóvember 2022 vegna sonar kæranda, B. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um umönnunarmat með syni sínum 10. nóvember 2022. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um umönnunarmat, dags. 23. nóvember 2022, var umönnun sonar kæranda annars vegar felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og hins vegar undir 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. maí 2023.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 4. desember 2022. Með bréfi, dags. 5. desember 2022, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 20. desember 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. desember 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 2. janúar 2023 og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2023. Efnislegar athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að sótt hafi verið um umönnunarbætur fyrir son kæranda. Vafi hafi verið metinn foreldrum í hag og veittar hafi verið tímabundnar greiðslur. Skilyrði umönnunarmats sé uppfyllt frá 1. desember 2020 til 31. maí 2023 en samt sem áður hafi drengurinn verið metinn í 5. flokk frá 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og 4. flokk frá 1. desember 2022 til 31. maí 2023.

Sonur kæranda hafi verið greindur með ADHD, mótþróa- og þrjóskuröskun og alvarlega málþroskaröskun. Árið 2019 hafi hann fengið greiningu á ADHD og málþroskaröskun í kjölfarið. Drengurinn sé að glíma við gríðarlega mikinn og erfiðan hegðunarvanda, bæði í skóla og heima. Fyrir liggi umsókn í […] (frá vorinu 2021) þar sem skólinn sé orðinn úrræðalaus vegna erfiðrar hegðunar drengsins og aukinnar ofbeldishegðunar. Frá árinu 2018 hafi kærandi af og til verið beðin um að mæta með drengnum í tíma í skólann þegar kennarar hafi ekki ráðið við hann. Auk þess mæti hún á reglulega teymisfundi sem séu nauðsynlegir ásamt því að þurfa að vera alltaf til taks að geta mætt á slíka fundi þegar eitthvað alvarlegt hafi komið upp á. Haustið 2022 hafi kærandi mætt á sex neyðarfundi. Skólinn hafi þurft að skerða stundaskrá drengsins, bæði vegna hans og annarra barna skólans. Í […] 2022 hafi drengurinn ráðist á og sparkaði í kennara og hafi slasað hana. Kærandi hafi verið í frábærum samskiptum við skólann, mætt reglulega með drengnum á stofu til talmeinafræðings, hitt barnageðlækni, ónæmissérfræðing, en í febrúar 2022 hafi hann mælst lágur í ákveðnum mótefnum ásamt jákvæðum gigtarprófum, hún hafi farið á fundi og verið í samskiptum við barnavernd en ekki fengið neina aðstoð þar, þegið tilsjón heim frá þjónustumiðstöð, verið í reglulegum samskiptum við félagsráðgjafa hjá C og núna sé drengurinn kominn að í skammtímadvöl (SkaHm). Skólinn hafi gert allt sem hann geti gert, meðal annars fengið farteymi til að aðstoða í skólanum en án árangurs.

Drengurinn skemmi og klippi fötin sín. Hann týni öllu, fötum, skóm, símum, skólatöskum, úlpum, sundfötum og svo framvegis. Auk þess sé hann með aukna áhættuhegðun sem sé skráð hjá Barnaspítala Hringsins og barnavernd.

Kærandi hafi alltaf staðið ein í öllu sem við komi drengnum, þrátt fyrir að um sameiginlega forsjá sé að ræða. Faðir drengsins hafi farið og sótt lyfin hans án leyfis sem hún hafi kært samkvæmt ráðleggingum Lyfjastofnunar og Embættis landlæknis. Faðir drengsins mæti ekki á neina fundi, hann svari ekki erindum frá skólanum og þeir sem komi að málum drengsins nái ekki í hann. Kærandi standi gjörsamlega úrræðalaus og sé búin á því andlega, líkamlega og fjárhagslega ásamt því að vera sjálf að glíma við alvarleg líkamleg veikindi.

Með vísan til framangreinds sé þessi ákvörðun kærð og þess óskað að drengurinn verði metinn í 4. flokk frá 1. desember 2020.

Skólinn, þjónustumiðstöðin C, læknar og allir sem að málum drengsins hafi komið geti vitnað til um að þessi gríðarlegi hegðunarvandi sé ekki að byrja eða aukast fyrst núna og hafi verið til staðar frá því hann hafi verið mjög lítill.

Í athugasemdum kæranda, dags. 2. janúar 2022, kemur fram að gerðar séu athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi samþykkt mat samkvæmt 5. flokki frá 1. desember 2020 til 29. nóvember 2022.

Bent sé á að þó að vissulega sé vandi sonar kæranda að aukast þá hafi svo sannarlega verið um gríðarlega mikinn og alvarlegan vanda að etja fyrir 1. desember 2022 sem ekki hafi verið tekið tillit til.

Snemma hafi komið í ljós að drengurinn eigi við mikla erfiðleika að etja og hafi máli hans fyrst verið vísað til þjónustumiðstöðvar hjá D árið 2016 vegna erfiðrar hegðunar, ósamvinnuþýði, stuttrar athygli og erfiðleika í félagslegum samskiptum. Vandinn hafi verið það mikill að sótt hafi verið um hegðunarráðgjöf á vegum leikskólans sem hafi verið inni í málinu þar til drengurinn hafi byrjað í grunnskóla, bæði til að ráðleggja kennurum á leikskólanum og foreldrum. Það sama ár hafi barnavernd óskað eftir því að drengurinn færi í listmeðferð vegna vanda síns.

Árið […] hafi drengurinn byrjað í grunnskóla og hafi strax verið óskað eftir því að hegðunarráðgjafi grunnskóla yrði settur í málið og að hann tæki við af hegðunarráðgjafa í leikskóla. Honum hafi aftur verið vísað til sálfræðings á þjónustumiðstöð vegna hvatvísi, reiði, ógnandi hegðunar og erfiðleika með að fara eftir fyrirmælum. Einnig hafi kennsluráðgjafi fljótlega komið inn í málið. Þrátt fyrir mikinn stuðning virtist vandi drengsins hafa verið að aukast og þess vegna hafi verið sótt um hjá farteymi í málefni drengsins árið 2017. Niðurstaðan hafi verið sú að drengurinn þyrfti meiri aðstoð en farteymi gæti veitt. Sótt hafi verið um uppeldisráðgjöf á heimilið fyrir kæranda sem hafi svo byrjað árið 2018. Það sama ár hafi drengurinn farið til talmeinafræðings og þá hafi komið í ljós mjög alvarlegur málþroskavandi.

Þrátt fyrir víðtækan stuðning hafi vandi drengsins haldið áfram að aukast og þegar skólinn hafði gert ýmislegt til að koma til móts við vandann hafi verið ákveðið að sækja um í […] vorið 2021. Það sama vor hafi verið sótt um SkaHm hjá D sem sé sérhæft úrræði fyrir börn með fjölþættan vanda. Drengurinn sé búinn að vera á biðlista hjá D eftir einstaklingsstuðningi frá því í janúar 2021.

Með þessu vilji kæranda benda á þá staðreynd að vandi drengsins hafi verið umtalsverður til margra ára og sé það ástæða þess að kærandi hafi sótt um að fá umönnunarbætur aftur í tímann frá 10. nóvember 2020.

Eins og áður hafi komið fram sé bent á að E, félagsráðgjafi þeirra, fötlunarteymi þjónustumiðstöðvar, heimilislæknir, SkHam, farteymið, hegðunarráðgjafar hjá þjónustumiðstöð, kennsluráðgjafi, talmeinafræðingur og fleiri aðilar sem hafi komið að málum drengsins geti og séu tilbúin til að upplýsa Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála um hversu umtalsverður og alvarlegur vandi hafi verið frá því að drengurinn var mjög lítill.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um umönnunarmat fyrir son kæranda.

Ágreiningur málsins lúti að þeim flokkum sem ákveðnir séu í umönnunarmatinu. Skilyrði umönnunarmats hafi verið talin uppfyllt frá 1. desember 2020 til 31. maí 2023, en drengurinn hafi verið metinn í 5. flokk (0% hlutfall) frá 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og í 4. flokk (25% hlutfall) frá 1. desember 2022 til 31. maí 2023.

Kærandi óski eftir að metið verði til hærri flokks og afturvirkum greiðslum í samræmi við slíkt endurmat, frá 1. desember 2020.

Umönnunargreiðslur séu fjárhagsleg aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna sem byggist á heimild í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Nánar sé rætt um heimildir og skilyrði greiðslna í reglugerð nr. 504/1997 um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna, með síðari breytingum.

Í lagaákvæðinu og í 1. gr. reglugerðarinnar sé það gert að skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð frá Tryggingastofnun að barn sé haldið sjúkdómi eða andlegri eða líkamlegri hömlun og að sjúkdómur eða andleg eða líkamleg hömlun hafi í för með sér sannanleg tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu.

Í 5. gr. reglugerðarinnar sé skilgreining á fötlunar- og sjúkdómsstigum. Þar sé tilgreint að fara skuli fram flokkun á erfiðleikum barna út frá umönnun, gæslu og útgjöldum, annars vegar vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir og hins vegar vegna sjúkra barna (börn með langvinn veikindi).

Í máli kæranda sé um að ræða umönnun, gæslu og útgjöld vegna „fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir“ og skilgreiningin á flokkum þar sé eftirfarandi:

1. flokkur: Börn, sem vegna mjög alvarlegrar fötlunar, fjölfötlunar, eru algjörlega háð öðrum með hreyfifærni og/eða flestar athafnir daglegs lífs.

2. flokkur: Börn, sem vegna alvarlegrar fötlunar þurfa aðstoð og nær stöðuga gæslu í daglegu lífi t.d. vegna alvarlegrar eða miðlungs þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar hjólastóls, verulegrar tengslaskerðingar, einhverfu, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar táknmáls/varalesturs, og blindu.

3. flokkur: Börn, sem vegna fötlunar þurfa aðstoð og gæslu í daglegu lífi t.d. vegna vægrar þroskahömlunar, hreyfihömlunar, sem krefst notkunar spelka og/eða hækja við ferli, heyrnarskerðingar, sem krefst notkunar heyrnartækja í bæði eyru, og verulegrar sjónskerðingar á báðum augum.

4. flokkur: Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

5. flokkur: Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.“

Kærandi hafi sótt um umönnunargreiðslur 10. nóvember 2022. Greint er frá því í greinargerð Tryggingastofnunar sem fram kemur í læknisvottorði E, dags. 9. nóvember 2022.

Í umsókn kæranda um umönnunargreiðslur sé lýsing á heilsuvanda drengsins, sem rími við læknisvottorðið. Þar sé einnig lýsing á sérstakri umönnun eða gæslu og tilgreindur sé hegðunarvandi í skóla, tímar hjá talmeinafræðingi, áhættuhegðun sem valdi áhyggjum, nauðsyn sé á sálfræðitímum sem kærandi segist ekki hafa tök á að greiða fyrir. Varðandi útgjöld vegna heilsuvanda sé tilgreint að drengurinn týni alls kyns hlutum, auk þess að skemma föt sín með því að klippa þau, en kærandi taki þó fram að ekki hafi verið haldið utan um kostnað vegna vandans.

Eftir að hafa farið yfir gögn málsins hafi sérfræðingar Tryggingastofnunar komist að framangreindri niðurstöðu. Þau gögn sem hafi legið til grundvallar umönnunarmati og hafi verið skoðuð af sérfræðingum stofnunarinnar áður en ákvörðun hafi verið tekin og hafi verið yfirfarin í aðdraganda þessarar greinargerðar séu læknisvottorðið og umsóknin sjálf.

Með hliðsjón af viðeigandi ákvæði reglugerðar nr. 504/1997 hafi sérfræðingar Tryggingastofnunar komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að fella umönnun, gæslu og útgjöld vegna drengsins undir mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, afturvirkt fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022, enda falli þar undir börn sem vegna atferlis- og þroskaraskana þurfi aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.

Þó að um 5. flokk, 0% greiðslur, sé að ræða fyrir tímabilið sé samt umönnunarmat samþykkt sem veiti umönnunarkort með tilheyrandi afslætti af ýmissi heilbrigðisþjónustu, svo sem vegna komugjalda hjá sérfræðingum.

Auk þess hafi verið ákveðið að samþykkja mat samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. maí 2023 þar sem álitið hafi verið að vandi drengsins hefði aukist til muna og þörf væri á sérhæfðum úrræðum, auk þess sem umönnun foreldra væri krefjandi. Undir 4. flokk falli, eins og áður hafi komið fram, börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

Að mati sérfræðinga Tryggingastofnunar sé þó vafi á því hvort vandi drengsins sé svo alvarlegur sem greinir í lýsingu á 4. flokki, en þar sem fyrirliggjandi upplýsingar gefi mynd af versnandi líðan og hegðun drengsins og þörfum á sérhæfðum úrlausnum, hafi verið ákveðið að meta vafann kæranda í hag og veita tímabundnar greiðslur. Komist hafi verið að þeirri niðurstöðu þó að við vinnslu matsins hafi ekki legið fyrir staðfesting á kostnaði vegna vanda drengsins.

Umönnunarmat og umönnunargreiðslur séu hugsaðar til þess að koma til móts við foreldra vegna umönnunar og kostnaðar sem hljótist af meðferð og þjálfun barns umfram það sem eðlilegt geti talist. Litið sé svo á að með umönnunarmati samkvæmt 5. flokki (0% greiðslur) og 4. flokki (25% greiðslur) sé komið til móts við foreldri vegna aukinnar umönnunar, eftirlits sérfræðinga og kostnaðar vegna meðferðar sem barnið þurfi á að halda.

Tryggingastofnun leggi áherslu á að hvert mál sé metið sjálfstætt og sé skoðað út frá fyrirliggjandi gögnum og metið í samræmi við áðurnefnd lög og reglugerð.

Að lokum sé rétt að árétta að í samræmi við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar, beri Tryggingastofnun skylda til að gæta þess að sambærileg mál njóti sambærilegrar meðferðar og því líta sérfræðingar stofnunarinnar í hvívetna til úrlausna í fyrri málum af sama toga til þess að jafnræðis og sanngirni sé gætt.

Í ljósi alls framangreinds sé niðurstaða Tryggingastofnunar sú að afgreiðsla á umsókn kæranda sé rétt. Sú niðurstaða sé byggð á faglegum sjónarmiðum, sem eigi stoð í gildandi lögum og reglum. Farið sé fram á staðfestingu á kærðu umönnunarmati frá 23. nóvember 2022.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar umönnunarmat Tryggingastofnunar ríkisins frá 23. nóvember 2022 þar sem umönnun sonar kæranda hafi annars vegar verið metin samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og hins vegar undir 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. maí 2023.

Ákvæði um umönnunargreiðslur er að finna í 4. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Segir í 1. mgr. þeirrar lagagreinar að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að taka aukinn þátt í greiðslu sjúkrakostnaðar ef andleg eða líkamleg hömlun barns hafi í för með sér tilfinnanleg útgjöld og sérstaka umönnun eða gæslu. Þá sé heimilt að inna af hendi umönnunargreiðslur til framfærenda barna með alvarleg þroskafrávik, sem jafna megi við fötlun, og barna með alvarleg hegðunarvandamál sem jafna megi við geðræna sjúkdóma.

Í 3. mgr. 4. gr. laga um félagslega aðstoð segir að Tryggingastofnun ríkisins meti þörf samkvæmt ákvæðinu og í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Gildandi reglugerð um fjárhagslega aðstoð við framfærendur fatlaðra og langveikra barna er nr. 504/1997, ásamt síðari breytingum.

Í 5. gr. reglugerðarinnar er mælt fyrir um fimm mismunandi flokka vegna langveikra barna og fimm flokka vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir. Falla alvarlegustu tilvikin í 1. flokk en þau vægustu í 5. flokk. Vegna þeirra barna sem falla í 5. flokk eru gefin út skírteini til lækkunar lyfja- og lækniskostnaðar en ekki eru greiddar sérstakar mánaðarlegar greiðslur, en það er gert vegna annarra flokka og fara þær greiðslur stighækkandi.

Í reglugerðinni er um að ræða tvenns konar flokkanir, annars vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, tafla I, og hins vegar vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna langveikra barna, tafla II.

Um fyrri tegund flokkunar, þ.e. vegna umönnunar, gæslu og útgjalda vegna fatlaðra barna og barna með þroska- og atferlisraskanir, segir um 4. og 5. flokk:

„fl. 4.     Börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna má við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjast þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra.

fl. 5.     Börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga.“

Í umsókn kæranda um umönnunarmat frá 10. nóvember 2022, kemur fram í lýsingu á sérstakri umönnun eða gæslu að drengurinn glími við gríðarlega alvarlegan hegðunarvanda, bæði heima og í skóla. Þar sem skóli drengsins treysti sér varla til að hafa hann inni í bekk hafi verið sótt um fyrir hann í […]. Þá hafi borið á aukinni ofbeldishegðun gagnvart kennurum og börnum. Drengurinn sæki tíma hjá talmeinafræðingi en þyrfti einnig að sækja sálfræðitíma sem kosti sem kærandi hafi ekki tök á að greiða.

Í greinargerð um tilfinnanleg útgjöld vegna heilsuvanda og meðferðar segir í umsókn að drengurinn týni öllu sem hann fari með út eins og skólatöskum, íþróttafötum, sundfötum, lyklum, úlpum, kuldafötum, símum og fleira. Auk þess skemmi hann fötin sín með því að klippa þau.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði E, dags. 9. nóvember 2022, eru eftirfarandi sjúkdómsgreiningar drengsins tilgreindar:

„Attention deficit disorder without hyperactivity

Svefnleysi

Gigt, ótilgreind

Tourettesheilkenni

Tal- og málþroskaröskun, ótilgreind“

Sjúkrasögu drengsins er lýst svo í vottorðinu:

„Greindur með ADHD af sálfræðingi vegna hegðunar- og einbeitngarerfiðleika og og erfiðleika í félagsumhverfi.WISC í meðallagi en slakt vinnsluminni og mjög hæg vinnsla.Alvarleg og hamlandi einkenni ADHD bæði heima og í skóla. Teymi um hann þar.Hann tekur Concerta 36 mg og risperidon 0,5 mg mane. Haft Circadin v á tímabilum.Nú að reyna lyfjabreytingar vegna vaxandi hegðunarerfiðleika, áhættuhegðun mikil.Miklir hegðunarerfiðleikar í skóla, Er hjá talmeinafræðingi 2. x í hverri viku.“

Núverandi stöðu drengsins er lýst svo í vottorðinu:

„Myndar ekki augnkontakt og er ör.Erfitt að meta einkenni annars, neitar kvíða og depurð.“

Um umönnunarþörf segir:

„Þarf mjög mikla umönnun, leiðbeiningu og stýringu.Talþjálfun.Fundir v.hegðunar.Týnir hlutum, mikil kostnaður fyrir móður.Lyf.“

Af kæru fær úrskurðarnefnd ráðið að ágreiningur varði upphafstíma umönnunarmats samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur. Óskað er eftir að upphafstími mats samkvæmt 4. flokki, 25% greiðslur, verði ákvarðaður fyrir 1. desember 2022 með þeim rökum að vandi sonar kæranda hafi verið gríðarlega mikill og alvarlegur fyrir þann tíma. Í kærðu umönnunarmati frá 23. nóvember 2022 var umönnun drengsins felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, frá 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. maí 2023. Í matinu segir annars vegar að vafi hafi verið metinn foreldrum í hag og veittar hafi verið tímabundnar greiðslur. Hins vegar hafi verið samþykkt mat samkvæmt 5. flokki, 0% greiðslur, þar sem drengurinn þarfnist stuðnings og eftirlits sérfræðinga og veitt hafi verið umönnunarkort sem gefi afslátt af heilbrigðisþjónustu.

Til þess að falla undir mat samkvæmt 4. flokki, töflu I, 25% greiðslur, þarf að vera um að ræða börn með alvarlegar þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem jafna megi við fötlun eða geðræna sjúkdóma og krefjist þjálfunar og eftirlits sérfræðinga og aðstoðar í skóla og á heimili og meðal jafnaldra. Aftur á móti falla börn með vægari þroskaraskanir og/eða atferlisraskanir, sem þurfa aðstoð, þjálfun og eftirlit sérfræðinga, undir 5. flokk í töflu I, 0% greiðslur. Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, horfir til þess að sonur kæranda hefur verið greindur með ADHD, svefnleysi, ótilgreinda gigt, Tourettesheilkenni, ótilgreinda tal- og málþroskaröskun og veikleika í vinnsluhraða. Með hliðsjón af framangreindu og heildstæðu mati á vandamálum sonar kæranda telur úrskurðarnefndin að umönnun drengsins hafi réttilega verið felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, frá 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022. Þá gerir úrskurðarnefndin ekki athugasemdir við að Tryggingastofnun hafi metið vafa kæranda í hag og fellt umönnun vegna sonar hennar undir 4. flokk, 25% greiðslur, vegna tímabilsins 1. desember 2022 til 31. maí 2023 í ljósi upplýsinga um versnandi líðan og hegðun hans og þörfum á sérhæfðum úrlausnum.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í máli A, þar sem umönnun sonar hennar, B, var felld undir 5. flokk, 0% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2020 til 30. nóvember 2022 og hins vegar undir 4. flokk, 25% greiðslur, fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. maí 2023, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta