Mál nr. 395/2024-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 395/2024
Miðvikudaginn 20. nóvember 2024
A
gegn
Sjúkratryggingum Íslands
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.
Með kæru, sem barst 28. ágúst 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 27. júní 2024, um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi varð fyrir vinnuslysi X. Tilkynning um slys barst Sjúkratryggingum Íslands þann 10. júlí 2020 sem samþykktu bótaskyldu. Með ákvörðun, dags. 27. júní 2024, mat stofnunin varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 28. ágúst 2024. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 25. september 2024, og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 26. september 2024. Engar athugasemdir bárust.
II. Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um varanlega læknisfræðilega örorku verði endurskoðuð og að tekið verði mið af matsniðurstöðu C læknis hvað varði slysið þann X.
Í kæru er greint frá því að kærandi hafi orðið fyrir vinnuslysum X og X við starfa sinn fyrir D. Slysið X hafi orðið með þeim hætti að kærandi hafi verið á leið heim úr vinnu þegar hún hafi runnið á hálkubletti í splitt. Slysið þann X hafi orðið með þeim hætti að barn hafi hlaupið í veg fyrir kæranda með þeim afleiðingum að hún hafi skollið á vegg og síðan fallið í stéttina. Í slysunum hafi kærandi orðið fyrir meiðslum.
Slysin hafi verið tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands og bótaskylda samþykkt. Með bréfum frá Sjúkratryggingum Íslands, dags. 27. júní 2024 og 4. júlí 2024, sem hafi borist lögmanni kæranda þann 4. júlí 2024, hafi verið tilkynnt sú ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands að ekki yrði um greiðslu örorkubóta að ræða í tilviki kæranda þar sem örorka hennar vegna slysanna hafi verið metin minni en 10% eða 0%. Meðfylgjandi hafi verið matsniðurstaða E tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands.
Kærandi hafi áður verið metin vegna slyssins þann X af C lækni með matsgerð, dags. 13. febrúar 2023. Í þeirri matsgerð hafi verið vísað til kafla B.1.1.7.1. í dönskum miskatöflunum og varanleg læknisfræðileg örorka metin 6%.
Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands en að mati kæranda hafi afleiðingar slyssins þann X verið of lágt metnar í umræddri matsniðurstöðu. Í því samhengi bendi hún á eftirfarandi.
Hvað varði vinnuslysið þann X vísi kærandi til fyrirliggjandi matsgerðar C, dags. 13. febrúar 2023. Að mati kæranda sé matsgerð C ítarleg, vel rökstudd og faglega unnin. Við skoðun greini hann frá því að kærandi hafi tognað í hálsi og herðum við slysið. Þá lýsi hún daglegum óþægindum í hálsi með leiðni í vinstri hendi, sem hafi áhrif á getu hennar til að sinna heimilisstörfum, áhugamálum og börnum í vinnu sinni. Með hliðsjón af framangreindum einkennum kæranda hafi verið vísað til liðar B.1.1.7.1. í dönskum miskatöflunum og varanleg læknisfræðileg örorka hennar vegna slyssins talin hæfilega metin 6%.
Í örorkumatsgerð Sjúkratrygginga Íslands byggi E læknir á því að engar samtímaheimildir lýsi áverka á háls eða axlarsvæði kæranda. E telji því engar forsendur til þess að meta eða staðfesta að um sé að ræða slysáverka.
Kærandi geti ekki fallist á framangreind rök og vísi máli sínu til stuðnings til sjúkraskrár fyrir tímabilið X – X. Þann X hafi kærandi leitað á F þar sem hún hafi kvartað undan minnisleysi, heilaþoku, höfuðverk, sjóntruflunum, ógleði og þreytu. Þá hafi hún sagst hafa dottið á höfuðið í X og velti því upp hvort að framangreind einkenni séu mögulega eftirköst af þeim áverka. Í beiðni til sjúkraþjálfara sem skrifuð sé samdægurs sé greint frá því að kærandi sé með mikla vöðvabólgu í sternocleidomastoideus báðum megin og í hnakkafestum. Kærandi hafi leitað reglulega aftur á heilsugæsluna vegna framangreinda einkenna. Þann X hafi kærandi leitað til G endurhæfingarlæknis. Í nótu læknis sé farið yfir heilsufarsupplýsingar kæranda og segi meðal annars að hún hafi dottið í X er hún hafi verið að hlaupa með börnum. Þá kvarti kærandi undan viðvarandi verkjum aftan í hálsi og milli herðablaða og kveðst vera hjá sjúkraþjálfara vegna einkenna sinna. Þann X hafi kærandi leitað aftur á F þar sem hún hafi kvartað undan viðvarandi verkjum í hálsi og mjóbaki. Þá kveðst hún hafa verið slæm í hálsinum síðan hún hafi lent í slysi í X.
Af öllu framangreindu sé ljós að kærandi hafi margsinnis leitað til læknis eftir slysið og greint frá orsakatengslum milli slyssins og einkenna sinna. Afleiðingar slyssins séu því ranglega metnar til 0% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku af tryggingalækni Sjúkratrygginga Íslands á þeim grundvelli að engar samtímaheimildir lýsi áverkum kæranda.
Með vísan til framangreinds telji kærandi óforsvaranlegt að leggja til grundvallar niðurstöðu örorkumats E tryggingalæknis Sjúkratrygginga Íslands. Frekar skuli taka mið af matsgerð C læknis við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda, þ.e. 6%.
III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands
Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að þann 10. júlí 2020 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist tilkynning um vinnuslys sem kærandi hafi orðið fyrir þann X. Að gagnaöflun lokinni hafi Sjúkratryggingar Íslands tilkynnt með bréfi, dags. 8. september 2020, að um bótaskylt tjón væri að ræða. Með ákvörðun, dags. 27. júní 2024, hafi læknisfræðileg örorka kæranda verið ákveðin 0%.
Í hinni kærðu ákvörðun hafi varanleg læknisfræðileg örorka kæranda verið metin 0%. Við ákvörðun hafi verið byggt á örorkumatstillögu E læknis, CIME, dags. 23. janúar 2024, byggðri á 12. gr. laga nr. 45/2015. Örorkumatstillaga E hafi verið unnin á grundvelli fyrirliggjandi gagna auk viðtals og læknisskoðunar. Það sé mat Sjúkratrygginga Íslands að í tillögunni sé forsendum örorkumats rétt lýst. Tillagan sé því grundvöllur ákvörðunar stofnunarinnar og þess að varanleg læknisfræðileg örorka vegna slyssins sé rétt ákveðin 0%.
Kærð sé niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku og vísað til þess að varanlegar afleiðingar slyssins séu of lágt metnar, sbr. örorkumatstillögu E læknis, dags. 23. janúar 2024. Í kæru sé farið fram á að varanleg læknisfræðileg örorka verði miðuð við matsgerð C, dags. 13. febrúar 2023, þar sem niðurstaðan sé 6 stiga miski vegna eftirstöðva áverka á háls og herðar.
Samkvæmt báðum þeim matsgerðum sem liggi fyrir í málinu hafi kærandi verið með langa sögu um vöðva-, vefja- og slitgigt. Sjúkraskrá beri þetta einnig með sér en þar komi fram að kærandi sé með útbreiddar slitbreytingar sem hafi sést á myndrannsóknum af hrygg og útlimum. Ekki komi skýrt fram í læknisvottorðum eða öðrum gögnum að kærandi hafi kvartað um einkenni um tognun á hálsi eftir slysið eða verki í hálsi fyrstu dagana eftir slysið. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ljóst að kærandi hafi orðið fyrir áverka í umræddu slysi, þ.e. hlotið höfuðhögg og sprungu í rif en ósannað sé að hún hafi hlotið áverka á háls í umræddu slysi.
Tryggingalæknir Sjúkratrygginga hafi farið yfir öll gögn málsins og sé það mat stofnunarinnar að mismunur greinargerða matslæknanna liggi í því að C telji hluta af einkennum kæranda nú sem varanlegar afleiðingar slyssins og bendi sérstaklega á einkenni frá hálsi og herðum í því sambandi. E telji aftur á móti að þau einkenni sem kærandi búi við nú sé að rekja til fyrra sjúkdómsástands. Að mati Sjúkratrygginga Íslands séu þau einkenni sem kærandi búi við í dag tengd grunnsjúkdómi kæranda en ekki umræddu slysi.
Að öllu framansögðu virtu beri því að staðfesta þá afstöðu Sjúkratrygginga Íslands sem gerð hafi verið grein fyrir hér að framan og staðfesta hina kærðu ákvörðun um 0% varanlega læknisfræðilega örorku.
IV. Niðurstaða
Mál þetta varðar ágreining um varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem kærandi varð fyrir X. Með ákvörðun, dags. 27. júní 2024, mátu Sjúkratryggingar Íslands varanlega læknisfræðilega örorku kæranda vegna slyssins 0%.
Í áverkavottorði H læknanema, dags. X, segir um slysið:
„A var […] þegar barn hljóp í veg fyrir hana og hún vék frá og skall á húsvegg og af veggnum niður á götuna
[…]
Skoðun daginn eftir slys leiddi í ljós glóðurauga á vinstra auga og mikil þreifieymsli yfir rifi VIII lateralt. Röntgen mynd sýndi sprungu í VIII rifi vinstra megin.
Ég tel að A muni ná fullum bata þegar 4-6 vikur eru liðnar frá slysi. Í meðferð felst verkjastilling til að viðhalda hreyfanleika.“
Í tillögu E læknis að mati á varanlegri læknisfræðilegri örorku vegna slysa, dags. 23. janúar 2024, segir svo um skoðun á kæranda 9. janúar 2024:
„A kemur ágætlega fyrir. Hún gengur með vægri helti þar sem hún hlífir hægri hnélið enda nýbúin í gerviliðsaðgerð hér. Hún neitar verkjum og einkennum frá mjaðmagrind og er hún því ekki skoðuð frekar.
Við skoðun á öxlum er að sjá axlir samhverfar. það eru engar vöðvarýrnanir.
Hreyfiferlar eru mældir:
|
Hægri |
Vinstri |
Fráfæra (abduktion) |
170° |
140° |
Framfæra (flexion) |
170° |
130° |
Bakfæra (extension) |
70° |
40° |
Það er góður styrkur í axlarhreyfingum mót álagi í öllum plönum. Skyn og styrkur handa og fingra er metinn jafn og góður.
Við skoðun á hálsi eru hreyfiferlar þannig: Við frambeygju vantar 2 cm á að haka nái bringu. Bakfetta mælist 30°. Snúningur til hægri 80°, vinstri 60°.“
Í samantekt og áliti örorkumatstillögunnar segir svo:
„A hefur þekktar greiningar bæði slitgigt og vefjagigt frá fyrri tíð. Fyrri áverkinn sem hún lendir í er tognunaráverki á klyftarsambryskju, virðist hafa jafnað sig að fullu og gefur engin varanleg mein.
Síðara slysið er áverki þar sem hún dettur fyrst með hægir síðu út í húsvegg og svo dettur hún niður á vinstri hlið og fær við þetta að sögn tognunaráverka á háls og vinstra axlarsvæði. Það er við skoðun um að ræða væga skerðingu á hreyfingum hálshryggjar og einnig væga skerðingu á hreyfiferlum axlar.“
Í útskýringu vegna slyssins þann X segir:
„Varðandi slys II eru engar samtímaheimildir sem lýsa áverka á háls eða axlarsvæði. Það er framkvæmd segulómskoðun af hálshrygg X tæpu ári eftir slys og í beiðni er texti læknis þannig: „Viðvarandi verkir í hnakka, aftan á hálsi og leiðni út í vi handlegg. Verið í sjúkraþjálfun. Stirð í hreyfingum í hálsi. Verri við snúning til hægri og vinstri. Verkur í vi. öxl. Getur abducterað aktivt upp í um 90° í hæ öxl.“
Hér er ekki minnst á slys eða óhappatilvik. Ekki liggja fyrir nein gögn frá sjúkraþjálfara um meðferð vegna afleiðinga slyssins. Sjúkraskrá liggur ekki fyrir til að staðfesta slysaáverka. Beiðni um sjúkraþjálfun sem er skrifuð X hér eru sjúkdómsgreiningar vefjagigt, slitgigt, vöðvaverkir og vöðvabólgur. Óskað er eftir meðferð sjúkraþjálfara vegna viðvarandi verkja í hálsi, baki og herðum. Ekki er minnst á slysaatvik eða slysaáverka.
Þá kemur einnig fram að pöntuð er röntgenmynd af vinstri öxlinni X rannsókn er framkvæmd í i og í beiðni læknisins er talað um viðvarandi verki og leiðni út í handlegg. Það er ekki minnst á slysaatburð.
Undirritaður hefur því engar forsendur til þess að meta eða staðfesta að um sé að ræða slysaáverka. A er með þekkta bæði vefjagigt og slitgigt og hefur því í raun margar ástæður fyrir stirðleika og óþægindum í hálshrygg og axlarsvæði. Því er niðurstaðan að ekki sé um að ræða varanleg mein í þessum slysum.“
Í örorkumatsgerð C læknis vegna slyss, dags. 13. febrúar 2023, er skoðun á kæranda þann 4. janúar 2023 lýst svo:
„Um er að ræða X ára gamla konu sem virkar yngri en svo. Hún ber af sér góðan þokka og gefur skýra og greinargóða sögu. Hún er að sögn X cm á hæð, X kg að þyngd og rétthent. Hún gengur óhölt á sléttu gólfi. Hún á ekki í erfiðleikum með að afklæðast peysu og skóm til líkamsskoðunar. Hún leggst á skoðunarbekk og stendur upp aftur með nokkrum tilfæringum sökum óþæginda í baki.
Höfuð:
Lýta- og eymslalaust.
Háls:
Ekki eru eymsli yfir hryggjartindum hálsliða. Óþægindi eru í lönguvöðvum hálsins frá hnakkarótum vinstra megin niður í hálsrætur og þaðan út í herðar. Væg óþægindi eru í höfuðvendum beggja vegna. Minniháttaróþægindi eru í lönguvöðvum hálsins hægra megin. Á mótum háls- og brjósthryggjar er hnúður eins og oft sést á þeim stað.
Hreyfingar:
Í frambeygju vantar þrjár fingurbreiddir upp á að hún nái með höku niður í bringu. Hún réttir um 40°. Snúningur til hægri er metinn um 45° og hún lýsir óþægindum vinstra megin í hálsi og herðum sem leiða niður í vinstri upphandlegg við þessa hreyfingu. Snúningur til vinstri er metinn um 65° og hún lýsir óþægindum í hálsi og herðum vinstra megin.
Við hliðarhalla sem metin er um 20° til beggja átta lýsir hún streng er leiðir niður í vinstri hendi er hún hallar til hægri og er hún hallar til vinstri lýsir hún braki.
Axlir:
Axlir eru samhverfar að öðru leyti en því að hægri öxl stendur neðar og framar. Óþægindi þreifast dreift í vinstri axlarhulsu, krummahrynu og löngusin tvíhöfða. Engin óþægindi eru hægra megin.
Hreyfingar:
Hreyfiferill beggja axla er í framlyftu 145°, fráhverfu 130°, út- og innsnúningur er samhverfur og fullur. Rétta er ágæt. Við framlyftu, útsnúningi og fráhverfu koma fram óþægindi í og á milli herðablaða og upp í herðar beggja vegna. Klemmupróf telst neikvætt.
Griplimir:
Ekki eru óþægindi að finna í olnbogum, framhandleggjum eða úlnliðum. Í fingrum er að sjá ummerki slitgigtar í nokkrum nærkjúkuliðum og fjærkjúkuliðum.
Bak:
Bak er beint. Mjaðmakambar standa jafnhátt svo og herðar. Fetta er góð í lendhrygg og öfug fetta er til staðar í brjósthrygg. Eymsli þreifast á mótum háls- og brjósthryggjar í hnúð þeim sem áður hefur verið nefndur. Væg óþægindi eru við vinstra herðablað á milli herðablaðs og brjósthryggjar. Tekur síðan við verkjalítið bil þar til væg óþægindi þreifast neðan herðablaða. Á mótum lend- og spjaldhryggjar og yfir aftari mjaðmakömbum, yfir spjaldliðum og lendum þreifast óþægindi.
Hreyfingar:
Hún er nokkuð stirð. Í frambeygju nær hún með fingurgómum niður að miðjum leggjum og lýsir við það verkjum í öllum lendhrygg. Hún réttir ágætlega með litlum einkennum. Bolvinda til beggja átta er metinn sitjandi um 45° og lýsir hún óþægindum gagnstæðu megin við vindur neðarlega í lendhrygg. Við hliðarhalla sem er skertur lýsir hún óþægindum í mjóbaki.
Mjaðmir:
Eins og fyrr segir óþægindi í lendum og hnútum. Hreyfing í mjöðmum er full, hún er samhverf en hún lýsir óþægindum neðarlega í lendhrygg beggja vegna við beygju og tilraun til innsnúnings.
Hné:
Ágætis öxulstefna.
Hægra hné:
Í hægra hné þreifast væg óþægindi um innanvert liðbil. Ekki greinist vökvi. Liðþófa álagspróf telst neikvætt og hreyfiferill er frá 0°-140°.
Vinstra hné:
Í vinstra hné eru væg óþægindi yfir innanverðu liðbilil. Ekki greinist vökvi. Hnéð er stöðugt fram og aftur og til hliðanna. Liðþófa álagspróf er neikvætt.
Taugaskoðun – efri útlimir:
Þegar skyn er prófað í efri útlimum þá segir hún skyn sitt sér eðlilegt og samhverft. Grófir kraftar í upphandleggs-, framhandleggs- og smávöðvum handa eru samhverfir. Sinaviðbrögð í tví- og þríhöfðasinum eru samhverf.
Taugaskoðun – neðri útlimir:
Þegar skyn er prófað í neðri útlimum þá segir hún skyn sitt sér eðlilegt og samhverft. Sinaviðbrögð í hnéskeljum- og hásinum eru samhverf. Hún spyrnir sér upp á tær og hæla en lýsir við það verkjum í mjóbaki. Hún getur sest að hálfu leyti niður í hnébeygju og lýsir við það talsverðum verkjum í mjóbaki.“
Í samantekt örorkumatsins segir svo:
„Um er að ræða nú X ára gamla konu A. A er I að mennt og atvinnu og hefur verið síðan X. Hún hefur ekki verið heilsuhraust að öllu leyti í gegnum ævina. Hún er greind með vefjagigt árið X og því haft nokkuð útbreidda stoðkerfisverki af og til. Hún er greind með gigt í fingrum árið X og fékk við því á tímabili lyf sem ekki nýttist henni. Hún lenti í hálkuslysi árið X og hlaut við það áverka á klyftarbrjóski. Þann X var hún við vinnu sína á D. Var hún [..] er barn hljóp í veg fyrir hana og við það hrasaði hún, hljóp á vegg og fékk áverka vinstra megin á höfuð. Féll af veggnum á malbikaða jörðina. Fékk hún við það áverka á vinstri hendi og brjósthol. A leitaði til heimilislæknis þann X og lýsti verkjum í rifjum og því að hún hafði glóðarauga. Röntgenmynd sýndi grun um rifbrot í áttunda rifi vinstra megin. A var sjúkraskrifuð vegna óþæginda sinna til X. Hún lýsti þann X höfuðverk og óþægindum í háls og herðum með leiðni niður í vinstri axlarsvæði. Hún fékk við þessu lyf, sprautað var í hnakkafestur og henni var vísað í sjúkraþjálfun. Þann X var henni vísað til endurhæfingar í Í. Var hún þar til meðferðar og var síðan vísað á J vegna verkja í hálsi, höfði og vegna einkenna vefjagigtar og slitgigtar. Ómskoðun var gerð af vinstri öxl í X og sýndi hún vægar bólgur en heilar sinar. Segulómun af hálshrygg þann X sýndi nokkuð útbreidda slitbreytingar með þrengingum í hálshrygg. Í X var fengin segulómun af hnélið sem sýndi slit og liðþófaskemmdir og var henni vísað til bæklunarlæknis sem setti hana á biðlista til gerviliðsaðgerðar. Hún dvaldi á K í X og X og var hún einnig á J í X. Á matsdegi lýsir hún daglegum óþægindum í háls og herðum sem leiða út í vinstra axlarsvæði auk einbeitingarskorts, minnisleysis og verkja í baki sem hafa talsverð áhrif á líf hennar.“
Um mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku kæranda vegna slyssins segir svo í matsgerðinni:
„Sjúkrasaga A er flókin, hún hefur vefjagigt og útbreidda slitgigt í höndum, hnjám, baki og fleiri liðum og er til meðferðar vegna þessara einkenna hjá gigtarlækni. Hún er einnig á biðlista eftir gerviliðs aðgerð á hné. Þrátt fyrir þessa kvilla og verki hefur A getað unnið erfitt starfa á […] í 85% starfi.
Matsmaður telur að A hafi tognað í hálsi og herðum við slysið. Hún lýsir daglegum óþægindum í hálsi sem leiðir í vinstri hendi. Sem hafa áhrif á getu hennar til að sinna heimilisstörfum, áhugamálum og börnum í vinnu sinni.
Matsmaður getur ekki staðfest að A búi við eftirstöðvar heilahristings, A lýsir því að hafa fengið höfuðhögg og lýsir höfuðverkjum í X eða rúmum tveimur mánuðum eftir slysið en á þeim tíma mælist hún einnig með of háan blóðþrýsting og einnig kom til greina að lyf sem hún var að taka ylli höfuðverk. Talið var að eftir skoðun að höfuðverkurinn starfaði af vöðvabólgu.
A lýsir nokkrum bakverkjum á matsdegi og hefur að sögn verið greind með slit í baki og mænuþröng. Bakverkjum er ekki lýst í sjúkraskrá fyrr en í X en þeirra er getið í heilsufarsögu hennar. Matsmaður getur ekki tengt þá vekri slysinu sem hér um ræðir. Með vísan í lið B.1.1.7.1. í dönsku miskatöflunni er henni metin 6 stiga varanleg læknisfræðileg örorka vegna eftirstöðva áverka á háls og herðar.“
Ákvörðun slysaörorku samkvæmt þágildandi ákvæðum laga nr. 45/2015 um slysatryggingar almannatrygginga er eingöngu læknisfræðileg þar sem tilteknir líkamsáverkar eru metnir til ákveðins örorkustigs. Félagslegir þættir, svo sem vinnufærni og áhrif örorku á getu til tekjuöflunar, koma ekki til álita. Við læknisfræðilegt mat er stuðst við örorkumatsskrár/ miskatöflur örorkunefndar frá árinu 2020 og/eða eftir atvikum hliðsjónarrit taflnanna þar sem ýmsar tegundir líkamsáverka eru metnar til ákveðins miskastigs í hundraðshlutum, án tillits til starfs eða menntunar tjónþola.
Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á örorku kæranda og byggir mat sitt á fyrirliggjandi gögnum sem hún telur nægileg. Fyrir liggur að kærandi var með nokkuð flókna heilsufarssögu að baki sem gerir mat á einkennum hennar flóknara. Þann X var hún við vinnu sína á D er barn hljóp í veg fyrir hana og við það hrasaði hún, hljóp á vegg og fékk áverka vinstra megin á höfuð þegar hún féll af veggnum á malbikaða jörðina. Kærandi leitaði til heimilislæknis þann X og lýsti verkjum í rifjum og því að hún hafði glóðarauga. Grunur var um rifbrot á 8. rifi. Þann X lýsti hún höfuðverk og óþægindum í hálsi og herðum með leiðni niður í vinstra axlarsvæði. Hún fékk við þessu lyf, sprautað var í hnakkafestur og henni var vísað í sjúkraþjálfun. Þann X var henni vísað til endurhæfingar í Í. Var hún þar til meðferðar og var síðan vísað á J vegna verkja í hálsi, höfði og vegna einkenna vefjagigtar og slitgigtar.
Við skoðun matslæknis lýsir kærandi daglegum óþægindum í hálsi og herðum sem leiða út í vinstra axlarsvæði auk einbeitingarskorts, minnisleysis og verkja í baki sem hafa talsverð áhrif á líf hennar. Miðað við sögu verður að teljast að mati úrskurðarnefndar að áverki á hálsi og herðum sé vel líklegur eftir slysaatvik, sérlega í ljósi þess að kærandi var viðkvæm fyrir.
Ekki eru merki í sögu sem benda til heilahristings og verða slík einkenni ekki rakin til atburðar að mati úrskurðarnefndar. Í ljósi þess verður að ætla að læknisfræðileg örorka kæranda vegna slyssins sé vegna einkenna frá hálsi og herðum og er því nákvæmast lýst með vísun í lið B.1.1.7.1. í dönsku miskatöflunum frá Arbejdsmarkedets Erhvervssikring, sem eru hliðsjónarrit íslensku miskataflnanna. Samkvæmt lið B.1.1.7.1. leiða vægir til miðlungi miklir verkir með engri eða vægri hreyfiskerðingu í hnakka eða herðum (d. lette til middelsvære smerter med ingen eller let bevægeindskrænkning i nakke-skulder/skulderåg) til 8% örorku. Að mati nefndarinnar falla einkenni kæranda vegna slyssins að framangreindum lið B.1.1.7.1. og að teknu tilliti til fyrri sögu eru þau metin til 6% varanlegrar læknisfræðilegrar örorku.
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku kæranda er því felld úr gildi. Varanleg læknisfræðileg örorka er ákvörðuð 6%.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um 0% varanlega læknisfræðilega örorku vegna slyss sem A, varð fyrir X, er felld úr gildi og varanleg læknisfræðileg örorka ákvörðuð 6%.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Kári Gunndórsson