Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 196/2023-Beiðni um endurupptöku

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Beiðni um endurupptöku máls nr. 196/2023

Miðvikudaginn 30. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Unnþór Jónsson lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með tölvupósti 14. júlí 2023 óskaði A, eftir endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar velferðarmála þar sem staðfest var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. apríl 2023 um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 3. janúar 2023. Með ákvörðun stofnunarinnar, dags. 5. apríl 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing hefði ekki verið fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2023. Að lokinni gagnaöflun úrskurðaði nefndin í málinu 5. júlí 2023. Með úrskurðinum staðfesti úrskurðarnefndin ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

II.  Sjónarmið kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að kærandi hafi kært til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að hafna umsókn hans um örorkumat. Hann hafi þurft að afla frekari gagna um heilsufarssögu sína og langur tími hafi farið í það. Þetta hafi verið gögn um greiningar frá því að kærandi var barn, meðal annars frá BUGL, sem í fyrstu hafi ekki fundist og kærandi hafi fengið misvísandi svör um hvernig hann gæti nálgast þessi gögn.

Þetta hafi verið flókið verkefni fyrir kæranda þar sem heilsa hans hafi farið versnandi. Gögnin hafi loks komið um miðjan júní 2023 til heilsugæslunnar. Þá hafi tekið við löng bið eftir að komast að hjá lækni til þess að fá nýtt læknisvottorð til þess að leggja inn og styðja við andmæli til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi hafi fengið tíma hjá lækni 4. júlí 2023.

Í millitíðinni hafi kærandi sent bréf og óskað eftir fresti en fyrir mistök hafi bréfið verið sent til Tryggingastofnunar en ekki úrskurðarnefndarinnar. Þá hafi læknir kæranda einnig sent nýja vottorðið til Tryggingastofnunar.

Þetta hafi leitt til þess að nefndin hafi ekki fengið nein ný gögn um hans mál. Það sé mikið áfall fyrir kæranda að úrskurðarnefndin hafi úrskurðað honum í  óhag. Hann óski eftir því að nefndin taki mál hans aftur til endurskoðunar.

III.  Niðurstaða

Óskað er eftir endurupptöku á úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 5. júlí 2023. Með úrskurðinum var staðfest ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Byggði synjunin á því að ekki hefði verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hefði ekki verið fullreynd. Í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar kom fram að ekki yrði ráðið af læknisvottorði B, dags. 20. mars 2023, eða af eðli veikinda kæranda að frekari endurhæfing gæti ekki komið að gagni.

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Aðili máls getur einnig átt rétt á endurupptöku máls á grundvelli annarra ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar, til að mynda ef ákvörðun stjórnvalds hefur byggst á röngu mati stjórnvalds.

Fyrir liggur nýtt læknisvottorð frá B, dags. 4. júlí 2023, þar sem fram koma sjúkdómsgreiningar sem kærandi fékk sem barn. Í beiðni um endurupptöku segir að læknisvottorðið hafi átt að berast úrskurðarnefndinni við upphaflega meðferð málsins en hafi fyrir mistök verið sent til Tryggingastofnunar.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála verður ekki ráðið af gögnum málsins að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Þá verður ekki séð að kærandi eigi rétt á endurupptöku málsins á grundvelli ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar. Læknisvottorðið sem kærandi lagði fram með beiðni um endurupptöku er að mestu leyti sambærilegt því læknisvottorði sem lá fyrir við upphaflega meðferð málsins, að undanskildum viðbótargreiningum frá barnæsku sem hafa ekki þýðingu fyrir mat á hvort endurhæfing kæranda geti komið að gagni eða ekki.

Með hliðsjón af framangreindu er beiðni kæranda um endurupptöku máls úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 196/2023 synjað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A, um endurupptöku máls nr. 196/2023 hjá úrskurðarnefnd velferðarmála, er synjað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta