Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 328/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 328/2020

Miðvikudaginn 20. janúar 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 30. júní 2020, kærði B félagsráðgjafi, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. apríl 2020, á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 1. apríl 2020, var kæranda tilkynnt að hún uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir örorkulífeyrisgreiðslum frá 1. febrúar 2020 til 31. janúar 2023. Í bréfinu er kæranda tilkynnt um að réttur til bóta miðist við búsetu á Íslandi og vegna búsetuskerðingar yrðu bætur til kæranda 6,79%.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 30. júní 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 13. júlí 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 15. júlí 2020. Með bréfi, dags. 20. ágúst 2020, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. ágúst 2020. Með bréfi, dags. 4. september 2020, barst viðbótargreinargerð frá stofnunarinni og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. september 2020. Með bréfi, dags. 25. september 2020, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2020. Með bréfi, dags. 22. október 2020, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. október 2020. Með bréfi, dags. 11. nóvember 2020, bárust athugasemdir frá kæranda og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. nóvember 2020. Með bréfi, dags. 25. nóvember 2020, barst viðbótargreinargerð frá Tryggingastofnun og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. apríl 2020, um að greiða kæranda örorkulífeyri og tengdar greiðslur út frá 6,78% búsetuhlutfalli verði ógilt, búsetuhlutfallið hækkað í 66,8% og greiðslur verði leiðréttar afturvirkt frá upphafi 75% örorkumats, þ.e. frá 1. febrúar 2020.

Málsatvik séu þau að kærandi hafi sótt um örorkumat sem hafi verið samþykkt með bréfi, dags. 1. apríl 2020, og gildi örorkumatið frá 1. febrúar 2020. Kærandi hafi áður fengið greiddan endurhæfingarlífeyri til 31. janúar 2020 út frá 66,8% búsetuhlutfalli.

Í meðfylgjandi svörum við fyrirspurnum til Tryggingastofnunar komi fram að við útreikning búsetuhlutfalls kæranda fyrir örorkulífeyri sé beitt hlutfallslegum framreikningi, þ.e. að búsetuhlutfall kæranda á Íslandi á tímabilinu frá 16 ára aldri til 1. febrúar 2020 hafi verið fundið út og það hlutfall síðan framreiknað til 67 ára aldurs með því að skipta framtíðarbúsetu hennar á milli Íslands og C eftir sömu hlutföllum og búsetu á framangreindu tímabili.

Í máli kæranda beiti Tryggingastofnun sömu útreikningsreglu og umboðsmaður Alþingis hafi talið í áliti nr. 8955/2016 að ekki væri lagastoð fyrir í tilviki þess aðila sem hafi sent inn kvörtun. Kærandi sé einnig í þeirri stöðu að fá engar greiðslur frá fyrra búsetulandi. Sá möguleiki að kærandi geti hugsanlega átt rétt á örorkulífeyri frá fyrra búsetulandi réttlæti hvorki né veiti Tryggingastofnun lagastoð til að nota reiknireglu um hlutfallslegan framreikning.

Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 segi meðal annars: „í tilvikum þar sem umsækjandi um örorkumat hefur verið búsettur í ríki utan EES-svæðisins var ákvæði 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 beitt þannig að öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs voru talin til búsetu á Íslandi óháð hlutfallslegri búsetu fram að fyrsta örorkumati, sbr. úrskurð nefndarinnar frá 6. nóvember 2009 í máli nr. 221/2009, þar sem því var jafnframt slegið föstu að Tryggingastofnun gæti ekki vikið frá þessari túlkun með íþyngjandi hætti nema á grundvelli lagabreytingar.“

Umboðsmaður Alþingis hafi í áliti sínu beint þeim tilmælum til úrskurðarnefndarinnar og Tryggingastofnunar að leysa með sama hætti úr öðrum málum sem lokið hafi verið með hliðstæðum hætti. Jafnframt hafi hann mælst til þess að stjórnvöld tækju mið af þeim sjónarmiðum sem fram kæmu í álitinu í framtíðarstörfum sínum. Nú séu liðin rúmlega tvö ár frá því að umboðsmaður hafi skilað áliti sínu og um það bil eitt ár síðan Tryggingastofnun og félagsmálaráðuneytið hafi viðurkennt að fara bæri eftir þeim lagatúlkunarsjónarmiðum sem komi fram í álitinu.

Um örorkulífeyri gildi nú óumdeilt sú regla að fullur lífeyrir greiðist þeim sem hafi verið búsettir í 40 ár á Íslandi á aldrinum 16 til 67 ára. Þar sem umsækjendur um örorkulífeyri hafi sjaldnast náð þeim búsetutíma komi fram í 4. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að við ákvörðun búsetutíma skuli „reikna með tímann fram til 67 ára aldurs umsækjanda“. Þetta sé niðurstaða umboðsmanns Alþingis í framangreindu áliti og Tryggingastofnun og félagsmálaráðuneytið hafi staðfest að þessari reglu beri að beita.

Með ákvörðun Tryggingastofnunar um búsetuhlutfall kæranda sé stofnunin aftur byrjuð að beita hinni ólögmætu framkvæmd sem umboðsmaður hafi talið ólögmæta. Með ákvörðuninni sé verið að beita útreikningsaðferð sem stofnunin og félagsmálaráðuneytið viti að sé röng, enda hafi stjórnvöld viðurkennt það.

Samkvæmt útreikningsreglu fyrir búsetuhlutfall örorkulífeyrisþega, sem hafi stoð í lögum um almannatryggingar, beri að reikna öll árin fram til 67 ára aldurs sem búsetu á Íslandi. Á þennan hátt hafi búsetuhlutfall kæranda fyrir endurhæfingarlífeyri verið reiknað út (búseta á Íslandi fram til fyrsta mats + tíminn frá fyrsta örorkumati fram til 67 ár aldurs deilt með 40).

Samkvæmt réttum útreikningi sé búsetuhlutfall kæranda því 66,8%. Tryggingastofnun hafi aftur á móti tekið þá óforskömmuðu ákvörðun að beita reglu sem stofnunin viti að sé ólögmæt. Þannig skerðist örorkulífeyrir kæranda um 90% og verði einungis 6,78%.

Reynt hafi verið fyrir hönd kæranda að fá skýr svör hjá Tryggingastofnun við spurningum um hvaða greiðslur frá C gætu haft áhrif á útreikning búsetuhlutfallsins og hver áhrif þeirra væru. Svar stofnunarinnar hafi verið eftirfarandi:

Lífeyrisgreiðslur frá öðrum löndum geta haft áhrif á búsetuútreikning vegna lífeyrisgreiðslna hér á land, m.a. varðandi útreikning framtíðartímabila.“

Svarið sé mjög óljóst og virðist stofnunin ekki geta svarað því hvort og þá hvaða greiðslur erlendis frá hafi áhrif á útreikning búsetuhlutfallsins og hvernig.

Stofnuninni sé ekki stætt á því að láta borgarann bera hallann af vafa í málinu. Óljóst sé hvort og þá hvaða greiðslur kærandi eigi rétt á frá öðru landi. Á meðan það sé óljóst hvaða áhrif réttindi hennar í öðru landi kunni að hafa beri að túlka þann vafa kæranda í hag og greiða henni fullan örorkulífeyri miðað við áðurnefndan útreikning á búsetuhlutfalli.

Tryggingastofnun hafi aftur á móti farið þá ólögmætu leið að velja mest íþyngjandi niðurstöðuna sem mögulega gæti leitt af því að kærandi eigi réttindi frá öðru landi. Slíkt sé í andstöðu við lögmætisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar og þau túlkunarsjónarmið sem beita eigi í stjórnsýslunni. Slíkt eigi sérstaklega við í málum sem þessum þar sem Tryggingastofnun taki íþyngjandi ákvörðun um að skerða framfærslu kæranda um 90%.

Auk þess sé þeirri spurningu ósvarað hvernig Tryggingastofnun ætli að nýta upplýsingar frá systurstofnunum um hvernig greiðslur þeirra séu reiknaðar út, hvort heldur um útreikning framtíðartímabils sé að ræða eða ekki. Samkvæmt lögum hafi einungis ein útreikningsregla fyrir búsetuhlutfall örorkulífeyrisþega stoð í lögum og hún sé sú sem notuð hafi verið til að reikna endurhæfingarlífeyri kæranda.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 20. ágúst 2020, segir varðandi málatilbúnað Tryggingastofnunar að þar sé í meginatriðum byggt á því að ef kærandi hafi lífeyrisréttindi í C beri stofnuninni að taka tillit til þess við útreikning á búsetuhlutfalli kæranda. Í rökstuðningi sé vísað til 2. mgr. 50. gr. reglugerðar EB nr. 883/2004 eins og Tryggingastofnun fullyrði að ákvæðið hafi verið túlkað í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016.

Kærandi hafi ekki lífeyrisréttindi í C, mögulega verði það í framtíðinni en það sé óljóst þar sem ákvörðun um lífeyrisréttindi í C hafi ekki enn verið tekin. Í öðru lagi segi ekkert um það í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis að 2. mgr. 50. gr. EB-reglugerðarinnar skuli túlka með þeim hætti sem Tryggingastofnun geri.

Kærandi sé ekki og hafi ekki verið með lífeyrisréttindi í C þegar hin kærða ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið tekin. Samt sem áður byggi stofnunin ákvörðunina á því að slík réttindi séu til staðar.

Það að kærandi eigi mögulega réttindi í C leiði ekki til þess að Tryggingastofnun beri eða sé heimilt að taka tillit til þess við útreikning á búsetuhlutfalli hennar. Rétt sé að taka fram að í framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis sé því sérstaklega hafnað að stofnunin geti byggt ákvörðun á því hvort réttindi séu eða verði mögulega til staðar, hvort sem það sé þegar ákvörðun sé tekin eða í framtíðinni. Í álitinu segi meðal annars:

„Ég tek fram að ekki verður séð að tilvísanir nefndarinnar til þess að A hafi staðið ýmis endurhæfingarúrræði til boða í Danmörku og að hún gæti síðar öðlast rétt til örorkulífeyrisgreiðslna þaðan hafi þýðingu í þessum efnum, enda naut hún ekki lífeyrisgreiðslna við afgreiðslu málsins hér á landi.“

Það sé því alveg skýrt af áliti umboðsmanns Alþingis að Tryggingastofnun skuli einungis miða við þær upplýsingar sem liggja fyrir þegar ákvörðun sé tekin. Framangreind niðurstaða umboðsmanns Alþingis byggi á þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar að stjórnvaldi sé einungis heimilt að taka ákvörðun á grundvelli fyrirliggjandi staðreynda og upplýsinga. Það sé staðreynd að kærandi njóti engra réttinda frá C. Tryggingastofnun sé því óheimilt að líta til þess að mögulega séu til eða verði síðar til staðar réttindi í öðru landi. Með ákvörðuninni fari stofnunin beinlínis gegn meginreglu stjórnsýsluréttar og skýrri niðurstöðu úr áliti umboðsmanns Alþingis.

Þegar ákvörðun Tryggingastofnunar hafi verið tekin hafi einungis legið fyrir upplýsingar um búsetu kæranda í öðru landi og stofnunin hafi byggt ákvörðun sína um að skerða bætur um 90% einungis á fyrri búsetu kæranda. Það sé óumdeilanlega óheimilt, enda hafi umboðsmaður Alþingis kveðið á um það í áðurnefndu áliti og bæði Tryggingastofnun og félagsmálaráðuneytið hafi viðurkennt þá niðurstöðu.

Varðandi umfjöllun um 2. mgr. 50. gr. EB-reglugerðarinnar í áliti umboðsmanns Alþingis, sé í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 ekki að finna þá afstöðu til EB-reglna sem Tryggingastofnun segi að felist í álitinu. Stofnunin setji fram mjög villandi fullyrðingar um það hvað umboðsmaður Alþingis telji leiða af 2. mgr. 50. gr. reglugerðar EB. Stofnunin fullyrði meðal annars að það leiði af áliti umboðsmanns Alþingis að:

„ef kærandi hefur lífeyrisréttindi í C ber Tryggingastofnun að taka tillit til þess við útreikning á búsetuhlutfalli kæranda“.

Þetta sé beinlínis rangt. Ekkert slíkt segi í álitinu og ekkert í álitinu gefi tilefni til þess að Tryggingastofnun geti leyft sér að halda slíku fram.

Rétt sé að nefna að umfjöllun umboðsmanns Alþingis um 2. mgr. 50. gr. reglugerðar EB hafi fyrst og fremst verið beint að því að hafna þeirri túlkun ákvæðisins sem Tryggingastofnun og úrskurðarnefnd velferðarmála hafi byggt á. Niðurstaða umboðsmanns Alþingis um túlkun Tryggingastofnunar og úrskurðarnefndarinnar á 2. mgr. 50. gr. reglugerðarinnar sé dregin saman með eftirfarandi hætti í álitinu:

„Ég fæ hins vegar ekki séð að þessi afstaða eigi sér stoð í orðalagi ákvæðanna og þá hefur nefndin ekki fært röksemdir fyrir þessari afstöðu sinni, s.s. með vísan til dómaframkvæmdar eða fræðiskrifa á þessu sviði.“

Umboðsmaður Alþingis hafni því einfaldlega að Tryggingastofnun sé heimilt að beita hlutfallsútreikningi eins og íslensk stjórnvöld hafi gert. Ekkert í álitinu gefi tilefni til gagnályktana eða annarra ályktana um önnur tilvik. Þannig hafi umboðsmaður Alþingis ekkert fjallað um það hvort og þá hvernig beri að beita íslenskum lögum og eftir atvikum EB-reglugerðinni í þeim tilvikum þegar réttindi til lífeyrisgreiðslna séu til staðar í öðru landi. Tryggingastofnun geti ekki leyft sér að halda öðru fram.

Það sé engin stoð fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins í lögum um almannatryggingar. Meginregla þeirra laga sé sú að öll ár frá örorkumati til 67 ára aldurs skuli teljast sem búsetuár á Íslandi, sbr. 4. mgr. 18. gr. laganna. Tryggingastofnun byggi á undantekningu frá þessari meginreglu. Stofnunin byggi á því að tiltekin regla felist í EB-reglugerð sem beri að beita í stað meginreglu almannatryggingalaga. Kærandi mótmæli því að undantekningarreglan sé efnislega með þeim hætti sem stofnunin haldi fram og einnig að hún geti gengið framar meginreglu almannatryggingalaga.

Aðalatriðið í þessu kærumáli sé þó það að skilyrði undantekningarinnar, eins og Tryggingastofnun lýsi henni, séu ekki til staðar. Þegar af þeirri ástæðu sé ekki hægt að beita reglunni. Kærandi njóti engra réttinda frá C og því sé óheimilt að byggja á reglu sem eigi einungis við um þau tilvik þegar réttindi séu til staðar frá öðru landi.

Tryggingastofnun hafi enga heimild til þess að taka „bráðabirgðaákvörðun“ þ.e. ákvörðun um útreikning búsetuhlutfalls „að svo stöddu eða þar til svör hafa borist frá C varðandi réttindi sem kærandi kann að hafa í því landi.“ Í lögum um almannatryggingar sé ekki gert ráð fyrir bráðabirgðaákvörðun en sérstaka lagaheimild þurfi til slíkra ákvarðana.

Tryggingastofnun hafi aftur á móti heimild til að endurskoða og breyta ákvörðunum síðar. Ef nýjar upplýsingar komi í ljós geti stofnunin því tekið nýja ákvörðun, sbr. 2. mgr. 45. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið eigi við um þá aðstöðu sem Tryggingastofnun telji vera fyrir hendi í þessu máli því að það mæli fyrir um að stofnunin megi endurskoða grundvöll bótaréttar hvenær sem sé og samræma bætur þeim breytingum sem orðið hafa á aðstæðum greiðsluþega. Ákvæðið sé einnig í samræmi við almennar reglur um endurupptöku stjórnsýsluákvarðana, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Komi þannig til þess að kærandi öðlist réttindi frá C í framtíðinni geti Tryggingastofnun kannað hvort það leiði til þess að rétt sé að gera breytingar á bótarétti. Slíkt megi þó ekki gera fyrir fram eins og Tryggingastofnun geri í þessu máli.

Tryggingastofnun brjóti gegn meginreglum stjórnsýsluréttar, lögum um almannatryggingar og áliti umboðsmanns Alþingis. Tryggingastofnun hafi gefið sér staðreyndir og/eða látið kæranda bera hallann af því sem sé óljóst um staðreyndir. Með þessu hafi stofnunin brotið gegn þeim meginreglum sem gildi um túlkun og sönnunarbyrði í stjórnsýslurétti. Þá hafi stofnunin brotið gegn meðalhófsreglu með því að velja mest íþyngjandi niðurstöðuna sem mögulega geti komið til greina í málinu.

Raunar hafi stofnunin gengið lengra og brotið gegn sjálfri EB-reglugerðinni sem stofnunin segist sjálft beita. Eins og áður hafi komið fram hafi Tryggingastofnun túlkað ákvæði reglugerðarinnar með íþyngjandi hætti þannig að hún komi í veg fyrir að kærandi njóti þess réttar sem hún eigi samkvæmt íslenskum lögum. Af lögmætisreglunni leiði að Evrópureglugerð geti ekki þrengt þau réttindi sem leiði af íslenskum lagareglum.

Þá felist það einnig í EB-reglugerðinni að hún sé sett borgurum í hag en henni eigi ekki að beita ef hún leiði til verri niðurstöðu fyrir borgarana. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 komi þetta fram. Þar segi að ekki verði annað ráðið af 28. lið formálsorða reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) um samræmingu almannatryggingakerfa en að

„tilgangurinn með þeim ákvæðum reglugerðarinnar, sem fjalla um aðferðina við útreikning á uppsöfnuðum lífeyri og hlutfallslegan útreikning, sé að ákvörðun um fjárhæð lífeyristaki mið af ákvæðum reglugerðarinnar þegar beiting landslöggjafar yrði óhagstæðari en sú aðferð sem reglugerðin kveður á um. Í máli A virðist beiting reglugerðarinnar hins vegar leiða til óhagstæðari niðurstöðu en beiting íslenskra laga eingöngu. Jafnframt þarf að hafa í huga að beiting hlutfallsreglunnar virðist byggja á þeirri forsendu að einstaklingurinn eigi jafnframt rétt til bóta í öðru EES-ríki og fái þar með hlutfallsgreiðslur þaðan eins og rakið hefur verið að framan. Að sama skapi verður reglunni um söfnun tímabila og úthlutun bóta ekki beitt ef slík beiting er til þess fallin að draga úr réttindum sem viðkomandi einstaklingur gæti krafist á grundvelli löggjafar einstaks aðildarríkis, á grundvelli þeirra tryggingatímabila sem einungis heyrði undir þá löggjöf. (Sjá dóm Evrópudómstólsins frá 21. október 1975 í máli nr. 24/75, 16. mgr.).“

Þrátt fyrir þetta hafi Tryggingastofnun valið að beita EB-reglugerðinni til þess að ná fram óhagstæðari niðurstöðu fyrir kæranda en myndi leiða af beitingu íslenskra laga eingöngu. Þá beiti stofnunin ákvæðum reglugerðarinnar, þrátt fyrir að kærandi sé ekki að fá neinar greiðslur frá öðru EES-ríki.

Í ákvörðun Tryggingastofnunar felist að stofnunin haldi eftir stærstum hluta af réttindum kæranda, þ.e. 90% af réttindunum. Stofnuninni sé óheimilt að gera það, enda komi skýrt fram í 41. gr laga um almannatryggingar að einungis sé hægt að halda eftir og fresta greiðslu bóta ef skort á upplýsingum megi rekja til umsækjanda. Það eigi ekki við í þessu máli.

Að lokum sé því sérstaklega mótmælt að málið verði fellt niður. Sé það raunar með ólíkindum að Tryggingastofnun hafi krafist þess að stofnunin hafi heimild til þess að taka „bráðabirgðaákvörðun“ sem skerðir réttindi og þar með talið tekjur einstaklings um 90% og að sú ákvörðun sé ókæranleg. Hin kærða ákvörðun hafi bein áhrif á réttindi kæranda og uppfylli því öll skilyrði stjórnvaldsákvörðunar og sé því kæranleg.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 25. september 2020, sé þess krafist að málið verði ekki fellt niður heldur verði þvert á móti flýtt niðurstöðu í kærumálinu. Eftirfarandi atriði séu ítrekuð.

Í fyrsta lagi undirliggjandi hagsmunir og þörf kæranda. Kærandi hafi sótt um örorkumat sem hafi verið samþykkt frá 1. febrúar 2020. Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri til 31. janúar 2020 út frá 66,8% búsetuhlutfalli. Í dag hafi kærandi því nú þegar þurft að lifa í rúmt hálft ár á greiðslum sem miðist við 6,78% bótahlutfall. Henni sé því gríðarlega mikilvægt að fá úrlausn sem fyrst og hærri greiðslur til daglegrar framfærslu. Tryggingastofnun virðist engu skeyta um þetta og virðist fyrst og fremst líta á málið sem einhvers konar skjalaafgreiðslu. Stofnunin horfi að engu leyti til þess að úrlausn í málinu sé ekki gerð í tómarúmi heldur hafi bein og gríðarlega íþyngjandi áhrif á líf kæranda. Það sé með ólíkindum að Tryggingastofnun líti alveg fram hjá hagsmunum kæranda við málatilbúnað sinn. Augljóst sé að kærandi hafi gríðarlega hagsmuni af því að daglegt líf og framfærsla hennar miðist ekki við 6,78% greiðsluhlutfall.

Á móti hafi Tryggingastofnun enga andstæða hagsmuni. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, leiði til þess að velja beri vægasta úrræðið. Í þessu tilviki sé vægasta úrræðið augljóslega að miða við búsetu samkvæmt framreiknireglu sem slegið hafi verið fastri í áliti umboðsmanns Alþingis í áliti nr. 8955/2016 og miða við 66,8% búsetuhlutfall. Sú niðurstaða sé einnig hin rétta niðurstaða málsins, enda sé meginregla almannatryggingalaga að framreikningur reiknist þannig að öll framtíðarbúseta teljist sem búseta á Íslandi. Stofnunin geti þannig ekki beitt undantekningu þar til annað komi í ljós. Rétt niðurstaða sé að beita meginreglunni þar til sýnt sé með óyggjandi hætti fram á að annað eigi við.

Í öðru lagi sé engin stoð fyrir frávísun samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar. Úrlausn um það hvort tiltekin ákvörðun teljist „stjórnvaldsákvörðun“ ráðist af því hvort hugtaksskilyrði slíkrar ákvörðunar séu til staðar eða ekki. Ákvörðun um 6,78% búsetuhlutfall og greiðslur samkvæmt því sé stjórnvaldsákvörðun samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga. Sú ákvörðun hafi bein áhrif á réttindi kæranda, enda ráðist greiðslur hennar um hver mánaðamót af þeirri ákvörðun. Það hafi enga þýðingu þótt stofnunin sjálf kalli þetta „bráðabirgðaákvörðun“ eða annað. Ekki verði séð að hugtakið „bráðabirgðaákvörðun“ hafi nokkra stoð í lögum um almannatryggingar og því engin lagastoð fyrir ákvörðun Tryggingastofnunar. Til þess að taka megi „bráðabirgðaákvörðun“ þurfi sérstaka lagaheimild en þær lagaheimildir séu sárafáar og undantekningar í íslenskum lögum. Engin slík heimild sé í löggjöf um almannatryggingar.

Ákvörðunin sé einfaldlega stjórnvaldsákvörðun að fullu og öllu leyti. Vel megi vera að einhvern tímann í framtíðinni verði tekin önnur ákvörðun um málefni kæranda. Það verði þá einfaldlega ný ákvörðun. Það sé ekkert í eðli stjórnvaldsákvörðunar að hún þurfi að vera ótímabundin eða gilda til eilífðar. Stjórnvaldsákvörðun verði því ekki „bráðabirgðaákvörðun“ þótt mögulega verði önnur ákvörðun tekin einhvern tímann í framtíðinni.

Í þriðja lagi sé engin stoð fyrir frávísun samkvæmt reglum sem gildi um örorkulífeyri og fleira. Þá hafi það enga þýðingu þótt 6. gr. EB-reglugerðar nr. 883/2004 mæli fyrir um að kanna beri tímabil í fyrra búsetulandi. Sú könnun sé einfaldlega annað mál. Kærandi sé ekki að hafna því að slík könnun geti farið fram. Kærandi sé einfaldlega að mótmæla því að réttindi hennar séu skert á meðan. Hvorki 6. gr. né önnur ákvæði reglugerðarinnar mæli fyrir um heimild til þess að skerða réttindi á meðan könnun fari fram.

Í athugasemdum umboðsmanns kæranda, dags. 11. nóvember 2020, er ferill málsins og málsmeðferð Tryggingastofnunar ríkisins í máli kæranda rakin. Vísar umboðsmaður kæranda til þess að mjög tímafrek afgreiðsla umsóknar um örorku frá öðru EES-landi sé rétt að hefjast í máli kæranda, rúmu hálfu ári eftir umsókn kæranda um örorku. Í meðfylgjandi stöðluðu nafnahreinsuðu bréfi Tryggingastofnunar til umsækjenda um erlendan lífeyri, sem kærandi hafi ekki enn fengið, komi fram að umsókn um lífeyri á milli landa geti tekið allt að sex mánuði. Ljóst sé að kærandi þurfi að bíða mun lengur en hálft ár eftir niðurstöðu og leiðréttingu búsetuhlutfalls og sé á þeim biðtíma sett í þá stöðu að fá einungis greiddan 6,78% örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins er vísað í kæru vegna ákvörðunar stofnunarinnar um að greiða kæranda örorkulífeyri miðað við 6,78% búsetuhlutfall.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri 15. janúar 2020 og hafi umsóknin verið samþykkt 1. apríl 2020. Tryggingastofnun hafi í kjölfarið reiknað búsetuhlutfall kæranda. Gerður hafi verið bráðabrigðaútreikningur á meðan beðið hafi verið eftir svari frá viðkomandi yfirvöldum um lífeyrisréttindi kæranda í C. Bráðabrigðaútreikningur hefi leitt í ljós 6,79% búsetuhlutfall.

Samkvæmt 17. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar ávinnast full réttindi með búsetu hér á landi í að minnsta kosti 40 almanaksár frá 16 til 67 aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann.

Samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar eiga einstaklingar búsettir á Íslandi rétt til örorkulífeyris. Í 4. mgr. 18. gr. laganna sé síðan kveðið á um að við búsetutíma skuli reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 1. mgr. 17. gr. laganna.

Samkvæmt 2. mgr. 50. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 883/2004 frá 29. apríl 2004 um samræmingu almannatryggingakerfa komi fram að ef hlutaðeigandi einstaklingur fullnægi ekki eða fullnægi ekki lengur skilyrðum sérhverrar þeirrar löggjafar í aðildarríkjunum, sem hann hafi heyrt undir, skulu þær stofnanir sem beita löggjöf þar sem skilyrði séu uppfyllt, ekki taka tillit til tímabila, sem lokið sé samkvæmt löggjöf þar sem skilyrði hafa ekki verið uppfyllt eða séu ekki lengur uppfyllt, við útreikninginn í samræmi við a- eða b-lið. 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar komi síðan fram hvernig reikna beri fjárhæð þeirra bóta sem skulu greiddar.

Samkvæmt lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar séu lífeyristryggingar búsetutengdar. Nánar tiltekið sé miðað við skráningu lögheimils hér á landi í skilningi laga nr. 80/2018 um lögheimili og aðsetur, sbr. 5. tölulið 2. gr. laga um almannatryggingar. Útreikningur á búsetuhlutfalli kæranda miði því við það hversu lengi hún hafi haft lögheimili á Íslandi og til þess dags sem hún hafi hafið greiðslur hjá Tryggingastofnun.

Aðferðin við útreikning á búsetuhlutfalli örorkulífeyrisþega komi ekki skýrt fram í almannatryggingalögum. Af áliti umboðsmanns Alþingis nr. 8955/2016 megi ráða að 2. mgr. 50. gr. reglugerðar um samræmingu almannatryggingakerfa verði skýrð svo að ef einstaklingur uppfylli búsetuskilyrði samkvæmt almannatryggingalögum og hafi ekki lífeyrisréttindi í öðru EES-ríki beri Tryggingastofnun að reikna öll framtíðarár frá fyrsta örorkumati fram til 67 ára aldurs til búsetu á Íslandi en ekki hlutfallslega samkvæmt b-lið 1. mgr. 52. gr. reglugerðarinnar. Af framangreindu leiði að hafi kærandi lífeyrisréttindi í C beri Tryggingastofnun að taka tillit til þess við útreikning á búsetuhlutfalli kæranda.

Í tilviki kæranda reiknist bráðabirgðabúsetuhlutfall hennar frá X 2015, en þá hafi hún flutt til Íslands frá C, og reiknist það til X 2017 þar sem greiðslur til hennar vegna endurhæfingarlífeyris hófust fyrst þá. Búseta kæranda reiknast hlutfallslega að svo stöddu eða þar til svör hafa borist frá C varðandi hvaða réttindi kærandi kunni að hafa í því landi.

Umsókn hafi verið send um lífeyri í öðru EES-ríki og verði búsetuútreikningurinn endurskoðaður þegar svar við þeirri umsókn hafi borist frá viðkomandi stjórnvaldi. Því sé ekki um að ræða endanlegan búsetuútreikning og geti Tryggingastofnun ekki tekið endanlega ákvörðun um búsetuhlutfall kæranda fyrr en allar upplýsingar í málinu liggja fyrir.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða óski Tryggingastofnun eftir niðurfellingu málsins þar sem ljóst sé að ný stjórnvaldsákvörðun verði tekin í máli kæranda þegar ný gögn berast frá C.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 4. september 2020, segi að samkvæmt vottorði E 205 IS veiti búsetutímabil kæranda rétt til grunnlífeyris hér á landi frá X 2015 til X 2017, eða sem nemi 1 ári, 4 mánuðum og 10 dögum. Eins og fram komi í fyrri greinargerð Tryggingastofnunar sé einungis um að ræða bráðabirgðaákvörðun sem muni verða endurskoðuð um leið og svar komi frá C um hvort að kærandi eigi rétt á lífeyri þar í landi. Samkvæmt skráningu í Þjóðskrá hér á landi komi fram að fyrra búsetuland hennar hafi verið C áður en hún hafi flutt til Íslands X 2015. Bráðabirgðaútreikningur hafi verið framkvæmdur og hafi hann leitt í ljós 6,79 % búsetuhlutfall og standi sá útreikningur þar til nýjar upplýsingar komi fráC.

Tryggingastofnun hafi ekki enn borist gögn frá C sem gefi til kynna að kærandi eigi engan rétt til lífeyris í C eins og haldið sé fram í athugasemdum við fyrri greinargerð Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun geti ekki tekið endanlega ákvörðun sína fyrr en öll gögn berast stofnuninni. Tryggingastofnun hafi þess vegna óskað eftir niðurfellingu á málinu þar sem ný stjórnvaldsákvörðun verði tekin í máli kæranda þegar gögn berist frá C. Ekki hafi enn borist svör frá C, sbr. bréf E204, E205 og E207, dags. 11. júní 2020.

Í 6. gr. EB-reglugerðar nr. 883/2004 um framkvæmd almannatrygginga komi eftirfarandi fram:

„Ef ekki er kveðið á um annað í þessari reglugerð skal þar til bær stofnun aðildarríkis, þar sem í löggjöf er kveðið á um: að það að öðlast rétt til bóta, halda bótarétti, lengd bótatímabils eða endurheimt bótaréttar, að gildissvið löggjafar, eða að aðgangur að eða undanþága frá skyldutryggingu, frjálsum viðvarandi tryggingum eða frjálsum tryggingum, sé bundið því skilyrði að tryggingatímabilum, starfstímabilum launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabilum sé lokið, taka tillit til, að því marki sem nauðsynlegt er, tryggingatímabila, starfstímabila launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings eða búsetutímabila, sem er lokið samkvæmt löggjöf annars aðildarríkis, eins og þeim hafi verið lokið samkvæmt þeirri löggjöf sem það sjálft beitir.“

Samkvæmt ofangreindu beri Tryggingastofnun að kanna tímabil í fyrra búsetulandi kæranda við ákvörðun á tryggingatímabilum. Leiða megi líkur að því að kærandi eigi tryggingatímabil í C þar sem ekki sé um langan búsetutíma að ræða hér á landi, þ.e. 1 ár, 4 mánuði og 10 daga. Á meðan ekki hafa borist svör frá C við fyrirspurn Tryggingastofnunar geti stofnunin ekki tekið endanlega ákvörðun í máli kæranda og á meðan gildi bráðabirgðaútreikningurinn.

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. október 2020, segir að stofnuninni hafi ekki enn borist gögn frá C sem gefi til kynna að kærandi eigi engan rétt til lífeyris í C. Stofnuninni hafi nýlega borist beiðni frá C yfirvöldum um að senda E213 IS frá Íslandi en beiðni þess efnis hafi borist stofnuninni á eyðublaði E001 þann 7. október 2020. Vottorð E213 IS sé læknisskýrsla og verði hún send til D í C sem sé tengistofnun almannatrygginga þar í landi. Tryggingastofnun bendi á að málið sé enn til skoðunar hjá stofnuninni og einnig hjá C tryggingastofnuninni. Bréfaskrif frá Ctryggingastofnuninni D bendi einmitt til þess að  með því að kalla eftir vottorði E213 IS frá Íslandi sé verið að kanna mál kæranda þar í landi.

Tryggingastofnun geti ekki tekið undir með kæranda að það skipti engu máli hver réttur hennar sé í C. Ekki sé hægt að gefa sér fyrir fram hver verði efnisleg niðurstaða þegar mál kæranda sé enn til skoðunar hjá tengistofnun D í C. Tryggingastofnun verði í störfum sínum að taka tillit til þeirra reglna og laga sem gildi um málaflokk þennan, sbr. Evrópureglugerð um framkvæmd almannatrygginga nr. 883/2004 og framkvæmdareglugerð nr. 987/2009.

Að öðru leyti vísi Tryggingastofnun til fyrri greinargerðar í máli þessu og óski eftir niðurfellingu málsins þar sem ljóst sé að ný stjórnvaldsákvörðun verði tekin í máli kæranda þegar gögn berast frá C

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 25. nóvember 2020, segir að stofnunin starfi eftir lögum um almannatryggingar og jafnframt beri að taka tillit til þeirra milliríkjasamninga á sviði almannatrygginga og félagsmála sem Ísland sé aðili að. Stofnunin verði í störfum sínum að afla gagna við ákvörðun mála. Afar mismunandi sé eftir löndum hversu fljótt sé brugðist við fyrirspurnum en reynt sé eftir fremsta megni að hraða afgreiðslu mála eins fljótt og hægt sé hverju sinni. Eins og áður hafi komið fram í fyrri greinargerðum Tryggingastofnunar geti stofnunin ekki tekið endanlega ákvörðun í máli þessu fyrr en upplýsingar um tryggingaréttindi og tekjuupplýsingar liggi fyrir frá C. Málið sé enn í vinnslu og endanleg ákvörðun í máli kæranda bíði þar til öll gögn hafi borist til Tryggingastofnunar.

Tryggingastofnun vísi alfarið á bug þeim fullyrðingum um að stofnunin hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýslulaga og valið íþyngjandi niðurstöðu fyrir kæranda. Hversu langan tíma það taki hjá erlendum tengistofnunum að svara erlendum fyrirspurnum sé ekki á forræði Tryggingastofnunar. Að jafnaði taki um sex mánuði hér á landi að afgreiða umsóknir á milli EES-landa, en þó geti einstök tilvik tekið lengri tíma eins og í þessu tiltekna máli.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 1. apríl 2020, á umsókn kæranda um örorkulífeyri.

Kærandi gerir athugasemdir við ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að greiða henni örorkulífeyri og tengdar greiðslur miðað við 6,78% búsetuhlutfall. Samkvæmt greiðsluskjali Tryggingastofnunar ríkisins fær kærandi meðal annars greidda sérstaka uppbót til framfærslu sem er skert vegna búsetu hennar erlendis. Í 9. gr. laga um félagslega aðstoð er fjallað um sérstaka uppbót til framfærslu og útreikning hennar en útreikningurinn er síðan útskýrður nánar í 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018. Í 9. gr. laganna kemur ekki fram að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu. Því kemur til skoðunar hvort ákvæði 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu eigi sér næga stoð í lögum. Um það var meðal annars fjallað í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. júní 2020 í máli nr. E-2516/2016.

Ákvæði 2. - 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð hljóðar svo:

„Heimilt er að greiða örorkulífeyrisþega sem fær greitt skv. 18. gr. laga um almannatryggingar og endurhæfingarlífeyrisþega sem fær greitt skv. 7. gr. laga þessara sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu ef sýnt þykir að hann geti ekki framfleytt sér án þess. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 310.800 kr.  á mánuði. Við mat á því hvort lífeyrisþegi sem ekki fær greidda heimilisuppbót geti framfleytt sér án sérstakrar uppbótar skal miða við að heildartekjur séu undir 247.183 kr. á mánuði.

Til tekna samkvæmt ákvæði þessu teljast allar skattskyldar tekjur, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur sem ekki eru taldar fram hér á landi. Eingreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga skal þó ekki telja til tekna lífeyrisþega.

Við útreikning sérstakrar uppbótar á lífeyri vegna framfærslu skv. 2. mgr. skal telja til tekna 65% af tekjum lífeyrisþega. Bætur samkvæmt lögum þessum og lögum um almannatryggingar skulu þó teljast að fullu til tekna við útreikning uppbótarinnar, að því undanskildu að ekki skal telja til tekna 50% af fjárhæð aldurstengdrar örorkuuppbótar skv. 21. gr. laga um almannatryggingar.

Tryggingastofnun ríkisins metur þörf samkvæmt ákvæði þessu.

Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.“

Reglugerð nr. 1200/2018 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri hefur verið sett með stoð í 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. laganna, og 70. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í IV. kafla reglugerðarinnar er fjallað um sérstaka uppbót til framfærslu. Um útreikning sérstakrar uppbótar er fjallað um í 14. gr. reglugerðarinnar og í 3. mgr. segir:

„Fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar.“

Ákvæði um örorkulífeyri er í 18. gr. um almannatryggingar, með síðari breytingum. Ákvæði 4. mgr. 18. gr. laganna hljóðar svo:

„Fullur örorkulífeyrir skal vera 478.344 kr. á ári. Við ákvörðun búsetutíma, sbr. 1. mgr. 17. gr., skal reikna með tímann fram til ellilífeyrisaldurs umsækjanda, sbr. 17. gr.“

Í 1. mgr. 17. gr. laga um almannatryggingar, sem vísað er til í 4. mgr. 18. gr. laganna, segir:

„Rétt til ellilífeyris öðlast þeir sem náð hafa 67 ára aldri og hafa verið búsettir hér á landi, sbr. I. kafla, a.m.k. þrjú almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Full réttindi ávinnast með búsetu hér á landi í a.m.k. 40 almanaksár frá 16 til 67 ára aldurs. Sé um skemmri tíma að ræða reiknast réttur til ellilífeyris í hlutfalli við búsetutímann. Heimilt er þó að miða lífeyri hjóna, sem bæði fá ellilífeyri, við búsetutíma þess sem á lengri réttindatíma.“

Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á.

Sérstök uppbót til framfærslu kom til framkvæmda 1. september 2008 með reglugerð nr. 878/2008 um sérstaka uppbót til framfærslu lífeyrisþega. Með gildistöku reglugerðarinnar var lífeyrisþegum tryggð lágmarksupphæð til framfærslu ef þeir gátu ekki framfleytt sér án hennar. Í 3. mgr. 2. gr. reglugerðarinnar kom fram að fjárhæð uppbótar skyldi greiðast í samræmi við búsetu hér á landi, sbr. 1. mgr. 17. gr. og 4. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Með 12. gr. laga nr. 120/2009, sem tóku gildi 1. janúar 2010, var lögfest ákvæði um sérstaka uppbót til framfærslu sem samsvaraði að mestu leyti ákvæði 1. gr. framangreindrar reglugerðar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi til laganna kom fram að ekki væri gert ráð fyrir efnislegum breytingum á þágildandi reglugerð eða framkvæmd Tryggingastofnunar ríkisins heldur væri tilgangur ákvæðisins að lögfesta ákvæði um lágmarksupphæð til framfærslu lífeyrisþega. Úrskurðarnefndin telur að ráða megi af framangreindum athugasemdum að þegar ákvæði um sérstaka uppbót til framfærslu var upphaflega lögfest hafi tilgangurinn ekki verið sá að breyta þeirri framkvæmd að greiða sérstaka uppbót í samræmi við búsetu á Íslandi.

Aftur á móti er almennt er ekki heimilt að skerða verulega réttindi til greiðslna samkvæmt lögum um félagslega aðstoð með reglugerð nema hún hafi stoð í skýru og ótvíræðu lagaákvæði. Í 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 er gerð sú krafa að mönnum skuli tryggð tiltekin efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi í lögum. Ef skerða á þau réttindi samkvæmt 76. gr. stjórnarskrárinnar, sem mælt hefur verið fyrir um í lögum, verður slík breyting að gerast með lögum. Sé vilji löggjafans að veita ráðherra heimild til að setja reglugerð sem mæli fyrir um skerðingu slíkra réttinda þarf hún að byggja á skýrri lagaheimild fyrir því.

Reglugerð nr. 1200/2018 er sett með stoð í 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. laganna, og 70. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Ákvæði 70. gr. laga um almannatryggingar veitir ráðherra einungis almenna heimild til að kveða á um nánari framkvæmd laganna í reglugerð. Þá hljóðar reglugerðarheimildin í 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð svo:

„Ráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd ákvæðis þessa, m.a. um tekju- og eignamörk.“

Ljóst er af framangreindu að ráðherra hefur heimild til að kveða á um tekju- og eignamörk uppbóta á lífeyri í reglugerð. Aftur á móti fær úrskurðarnefnd velferðarmála hvorki ráðið að í 70. gr. laga um almannatryggingar né 6. mgr. 9. gr. um félagslega aðstoð felist heimild til þess að skerða sérstaka uppbót til framfærslu. Að mati úrskurðarnefndarinnar hefði þurft að mæla fyrir um heimild til þess að skerða sérstaka uppbót til framfærslu í lögunum sjálfum eða hafa veitt ráðherra heimild til að setja sjálfstæð efnisleg skilyrði í reglugerð með skýrri og ótvíræðri reglugerðarheimild í lögum. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ákvæði 3. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 1200/2018 um að fjárhæð sérstakrar uppbótar greiðist í samræmi við búsetu hér á landi, eigi sér ekki næga stoð í 6. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. laganna, og 70. gr laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun hafi verið óheimilt að skerða sérstaka uppbót til framfærslu til kæranda vegna búsetu hennar erlendis. Þegar af þeirri ástæðu að greiðslur sérstakar uppbótar eru skertar vegna búsetu kæranda erlendis telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og vísa málinu aftur til stofnunarinnar til nýs útreiknings.

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um örorkulífeyri er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Afgreiðsla Tryggingastofnunar ríkisins frá 1. apríl 2020 á umsókn A um örorkulífeyri, er felld úr gildi og málinu vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta