Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Úrskurður-Mál 341/2020

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 341/2020

Fimmtudaginn 25. febrúar 2021

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 10. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 3. júlí 2020, um greiðslu atvinnuleysisbóta.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi fékk greiddar atvinnuleysisbætur samhliða minnkuðu starfshlutfalli í mars og apríl 2020. Með umsókn, dags. 28. apríl 2020, sótti kærandi um almennar atvinnuleysisbætur og var umsókn hans samþykkt með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 22. júní 2020.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 10. júlí 2020 þar sem fram kom að Vinnumálastofnun hafi ekki reiknað greiðslur til hans með réttum hætti. Kærandi hafi sent Vinnumálastofnun tölvupósta og hringt í stofnunina en ekki fengið neina aðstoð. Þá hafi kærandi þurft að bíða í meira en þrjá mánuði eftir greiðslum.

Með bréfi, dags. 24. ágúst 2020, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar vegna kærunnar. Með bréfi, dags. 30. október 2020, barst greinargerð Vinnumálastofnunar þar sem fram kom að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Af kæru væri hvorki unnt að greina hvaða ákvörðun stofnunarinnar sætti kæru til nefndarinnar né hvaða niðurstöðu kærandi sæktist eftir. Því teldi Vinnumálastofnun þörf á að kærandi gerði ítarlegri grein fyrir málatilbúnaði sínum áður en stofnunin gæti veitt fullnægjandi umsögn í málinu. Með erindi úrskurðarnefndar, dags. 10. nóvember 2020, var kæranda kynnt greinargerð Vinnumálastofnunar og óskað eftir upplýsingum um hver hin kærða ákvörðun væri og hvað kærandi væri ósáttur við. Sú beiðni var ítrekuð með erindum úrskurðarnefndar 14. desember 2020 og 2. febrúar 2021. Svar barst ekki.

II.  Niðurstaða

Í kæru til úrskurðarnefndar gerir kærandi athugasemd við afgreiðslu Vinnumálastofnunar vegna greiðslna atvinnuleysisbóta til hans. Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndarinnar var vísað til þess að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Úrskurðarnefndin óskaði eftir upplýsingum frá kæranda um hver hin kærða ákvörðun væri og hvað kærandi væri ósáttur við. Svar barst ekki.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar, sbr. 11. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

                                                                                                                                                                                    Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta