Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 232/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 232/2022

Fimmtudaginn 25. ágúst 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 29. apríl 2022, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar og að innheimta ofgreiddar bætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun 31. maí 2021 og var umsóknin samþykkt 12. júlí 2021. Við samkeyrslu Vinnumálastofnunar við nemendaskrá kom í ljós að kærandi var skráð í 37 eininga nám við Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á haustönn 2021. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 8. desember 2021, var óskað eftir að kærandi legði fram skólavottorð og skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki upplýst stofnunina um nám sitt. Kærandi skilaði skólavottorði þann 21. desember 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, var kæranda tilkynnt að greiðslur atvinnuleysisbóta hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga nr. 54/2006 og að henni bæri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021 að fjárhæð 987.535 kr., að meðtöldu álagi. Með bréfi, dags. 14. janúar 2022, óskaði lögmaður kæranda eftir endurupptöku málsins og/eða að veittur yrði frekari rökstuðningur fyrir ákvörðuninni. Rökstuðningur var veittur með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. apríl 2022. Með bréfi, dags. 11. maí 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 21. júní 2022, og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að kæranda hafi verið tilkynnt með bréfi Greiðslustofu Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, að hún væri krafin um endurgreiðslu á atvinnuleysisbótum að fjárhæð 987.535 kr. fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. desember 2021. Vísað hafi verið til 52. gr. laga nr. 54/2006 og þeirrar staðreyndar að þeir sem stundi nám eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Jafnframt hafi á þeim tíma verið tilkynnt um niðurfellingu frekari greiðslna eða að þeim yrði hætt. Farið hafi verið á leit við Vinnumálastofnun að málið yrði endurupptekið með vísan til 24. gr. laga nr. 37/1993 og að fallið yrði frá framangreindum ákvörðunum og/eða að frekari rökstuðningur fyrir umræddum ákvörðunum yrði veittur með vísan til 21. gr. laga nr. 37/1993.

Fyrir liggi að kærandi, einstæð móðir, hafi orðið atvinnulaus á árinu 2021 en hafi verið virk í atvinnuleit frá þeim tíma sem hún hafi orðið atvinnulaus. Hún hafi ekki lokið stúdentsprófi á hefðbundnum tíma en hafi fyrir rúmum áratugi lokið tilteknum einingum til stúdentsprófs. Kærandi hafi ákveðið árið 2021 að taka áfanga í fjarnámi í Mími og sótt um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ samhliða því. Fjárhagsaðstoð hafi verið hafnað á þeim grunni að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum, þrátt fyrir að hún væri í námi. Með vísan til þessa hafi kærandi ákveðið sumarið 2021 að skrá sig í fjarnám/kvöldskóla samhliða atvinnuleit í háskólabrú á vegum Keilis. Um hafi verið að ræða áfanga sem hún hafi áður lokið, auk nýrra áfanga og kærandi hafi fengið þær upplýsingar að slíkt væri heimilt þar sem um kvöldskóla og að hluta til upprifjunarnám væri að ræða. Ekki væri um að ræða umfangsmeiri kvöldskóla en gæti haft áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Hún hafi tekið tiltölulega margar einingar þar sem að mestu hafi verið um upprifjunarnám að ræða.

Ákvörðun um endurkröfu hafi verið mótmælt á þeim grundvelli að kærandi hafi þegið bætur í góðri trú eftir samskipti sín við Vinnumálastofnun og Hafnarfjarðarbæ. Því hafi einnig verið mótmælt sérstaklega að greiðslur yrðu felldar niður til frambúðar. Enn fremur liggi fyrir að kærandi hafi eingöngu verið í kvöldskóla. Hún hafi verið í virkri atvinnuleit þann tíma sem um ræði og farið í atvinnuviðtal á leikskóla sem hafi þó ekki leitt til ráðningar. Erindi kæranda hafi verið svarað með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. janúar 2022, þar sem beiðni um endurskoðun ákvörðunar hafi verið hafnað en að auki hafi verið bætt við 15% álagi ofan á endurkröfuna.

Krafa kæranda lúti að því að kröfu um endurgreiðslu verði breytt og hún felld niður og til vara að álag verði fellt niður og endurgreiðslukrafa lækkuð samsvarandi. Kærandi bendi á að í fyrsta lagi hafi hún verið í góðri trú þegar hún hafi þegið atvinnuleysisbætur. Í öðru lagi hafi hún ekki stundað nám í sex mánuði á þeim tíma sem málið varði, enda liggi fyrir vottorð frá Keili fyrir tímabilið 16. ágúst 2021 til 31. desember 2021 og því sé ekki grundvöllur fyrir umræddri endurkröfu. Þá vísi kærandi í þriðja lagi til þess að hún uppfylli skilyrði vegna sérstakra aðgerða ríkisstjórnarinnar sem hafi heimilað nám í dagskóla á haustönn 2021 og vorönn 2021. Af því leiði að ljóst sé að niðurfelling bóta sé í andstöðu við þá aðgerð stjórnvalda og ekki sé ljóst af hverju kærandi hafi ekki notið þess jafnræðis að hafa verið í hópi þeirra einstaklinga sem hafi notið umrædds úrræðis.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslu atvinnuleysistrygginga hjá Vinnumálastofnun með umsókn, dags. 31. maí 2021. Kærandi hafi tilgreint í skýringum með umsókn að hún hafi nýlokið námi. Þá hafi hún einungis verið í tilfallandi vinnu sem hafi ekki dugað til framfærslu en henni hafi verið neitað um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún hafi átt rétt á greiðslum atvinnuleysisbóta. Með erindi, dags. 12. júlí 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að umsókn hennar um greiðslu atvinnuleysistrygginga hefði verið samþykkt og að útreiknaður bótaréttur væri 100%. Til grundvallar ákvörðun um bótarétt hafi legið staðfesting á námslokum og útskrift úr Menntastoðum hjá Mími - símenntun á vorönn 2021, dags. 30. júní 2021, auk staðfestingar á starfstímabili hjá Hafnarfjarðarkaupstað, dags. 15. júní 2021.

Við reglubundið eftirlit í nóvember 2021 hafi komið í ljós að kærandi hafi verið skráð í 37 ECTS-eininga nám við Keili - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs, nánar tiltekið nám við félagsvísinda- og lagadeild á haustmisseri 2021 samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysistrygginga. Með erindi, dags. 8. desember 2021, hafi Vinnumálastofnun óskað eftir upplýsingum frá kæranda vegna náms á haustmisseri 2021 samhliða því að þiggja greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina. Athygli kæranda hafi verið vakin á að samkvæmt 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væru námsmenn ekki tryggðir á grundvelli laganna á sama tímabili og þeir stundi nám, enda sé námið ekki hluti vinnumarkaðsúrræða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar. Óskað hafi verið eftir því að kærandi færði fram skólavottorð þar sem umfang náms væri tilgreint ásamt skýringum á því hvers vegna hún upplýsti stofnunina ekki um að hún stundaði nám á tímabilinu 1. september til 31. desember 2021.

Þann 21. desember 2021 hafi kærandi sent staðfestingu á skólavist á haustönn 2021 við Keili - Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs þar sem fram hafi komið að hún hafi stundað 37 eininga nám í fjarnámi við félagsvísinda- og lagadeild á tímabilinu 16. ágúst til 31. desember. Engar skýringar hafi fylgt með skólavottorði kæranda.

Með erindi, dags. 5. janúar 2022, hafi kæranda verið tilkynnt að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hennar hefðu verið stöðvaðar með vísan til 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar þar sem ekki lægi fyrir námssamningur við stofnunina. Kæranda hafi verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Með erindi, dags. 17. janúar 2022, hafi lögmaður kæranda óskað eftir endurupptöku í málinu, auk þess sem óskað hafi verið eftir frekari rökstuðningi ákvörðunarinnar. Með erindi, dags. 31. janúar 2022, hafi rökstuðningur verið birtur kæranda.

Í kæru til úrskurðarnefndar vísi kærandi til þess að hafa verið í virkri atvinnuleit frá þeim tíma sem hún hafi orðið atvinnulaus. Á árinu 2021 hafi hún ákveðið að taka áfanga í fjarnámi og hafi samhliða því sótt um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ en hafi verið hafnað á þeim grundvelli að hún ætti rétt á atvinnuleysisbótum, þrátt fyrir að vera í námi. Hún hafi því ákveðið sumarið 2021 að vera í fjarnámi/kvöldskóla samhliða atvinnuleit þar sem hún hafi fengið þær upplýsingar að það væri heimilt þar sem um væri að ræða kvöldskóla og ekki svo umfangsmikið að það hefði áhrif á rétt hennar til atvinnuleysisbóta. Kærandi mótmæli ákvörðun um endurkröfu þar sem hún hafi verið í góðri trú eftir samskipti sín við Vinnumálastofnun og Hafnarfjarðarbæ. Þá liggi fyrir að kærandi hafi einungis verið í kvöldskóla, auk þess sem hún hafi verið virk í atvinnuleit þann tíma sem um ræði. Kærandi vísi til þess að hún hafi uppfyllt skilyrði vegna sérstakra aðgerða ríkisstjórnarinnar sem hafi heimilað nám í dagskóla á vorönn og haustönn 2021 og því sé ljóst að niðurfelling bóta sé í andstöðu við þá aðgerð. Ekki sé ljóst af hverju hún hafi ekki notið þess jafnræðis að hafa verið í hópi þeirra einstaklinga sem hafi notið úrræðisins að áliti Vinnumálastofnunar.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysistrygginga til kæranda fyrir tímabilið 1. september 2021 til 31. desember 2021 þar sem hún hafi stundað nám samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að fyrir hafi legið námssamningur við stofnunina.

Í 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um umsókn um atvinnuleysisbætur. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laganna skuli umsókn vera skrifleg og henni skuli fylgja nauðsynleg gögn og upplýsingar um hagi atvinnuleitanda. Við útfyllingu umsóknar þurfi umsækjandi jafnframt að kynna sér mikilvægar upplýsingar um réttindi og skyldur og við staðfestingu umsóknar staðfesti atvinnuleitandi jafnframt að hafa lesið og kynnt sér þá skilmála sem um greiðslur atvinnuleysistryggingar gildi. Samkvæmt 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitanda sem tryggður sé samkvæmt lögunum að upplýsa stofnunina um það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, svo sem upplýsingar um námsþátttöku. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem telst tryggður á grundvelli laga þessara skal upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunna að verða á högum hans á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, svo sem um námsþátttöku, tekjur sem hann fær fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan stendur yfir.“

Í c-lið 3. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé að finna eftirfarandi skilgreiningu á námi:

,,Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um þá meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum samhliða námi. Samkvæmt athugasemdum með 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 gildi það einu hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Í 1. mgr. 52. gr. núgildandi laga segi orðrétt:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.“

Mælt sé fyrir um undanþágur frá meginreglunni í 2. til 5. mgr. 52. gr. Þar segi:

„Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr. án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Fyrir liggi að kærandi hafi stundað 37 ECTS-eininga nám við Keili – Miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs á sama tíma og hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga. Undanþága frá framangreindri meginreglu sem mælt sé fyrir um í 2. mgr. og 3. mgr. 52. gr. laganna eigi ekki við í máli kæranda, enda hafi hún stundað nám umfram 12 og 20 ECTS-eininga hámarkið sem tilgreint sé í ákvæðunum.

Þá sé nám kæranda ekki skipulagt samhliða vinnu, sbr. 4. mgr. 52. gr. laganna, og eigi sú undanþága því ekki við. Heimild 5. mgr. ákvæðisins um að atvinnuleitanda sé heimilt að ljúka þeirri önn sem sé yfirstandandi við starfslok hans eigi heldur ekki við, enda hafi kærandi síðast starfað í desember 2020 og sótt um greiðslur atvinnuleysisbóta í lok maí 2021.

Í bráðabirgðaákvæði XVII með lögum um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um að þrátt fyrir 52. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda. Ákvæði 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis XVII hljóði svo:

„Þrátt fyrir 52. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin.“

Í 2. mgr. sé mælt fyrir um skilyrði fyrir samningi samkvæmt 1. mgr. Þau séu meðal annars:

a. að viðkomandi atvinnuleitandi hafi verið í virkri atvinnuleit og skráður án atvinnu hjá Vinnumálastofnun í a.m.k. sex mánuði áður en hann óskar eftir samningi skv. 1. mgr.,

b. að námið sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. d-lið 1. mgr. 12. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006, sbr. einnig reglugerð um nám og námskeið sem eru viðurkennd sem vinnumarkaðsúrræði, og falli undir átakið Nám er tækifæri,

c. að námið kunni að nýtast viðkomandi atvinnuleitanda við atvinnuleit að námi loknu að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar,

d. að viðkomandi hafi ekki nýtt sér rétt sinn til námsláns hjá Menntasjóði námsmanna.

Undanþága samkvæmt bráðabirgðaákvæði XVII sé bundin við að atvinnuleitandi hafi gert námssamning við Vinnumálastofnun. Þar sem ekki liggi fyrir námssamningur séu skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt. Þar að auki verði ekki séð að það nám sem kærandi stundi sé viðurkennt sem vinnumarkaðsúrræði, sbr. reglugerð nr. 919/2020 um námsbrautir í framhaldsfræðslu, framhaldsskólum og háskólum sem falli undir átakið „Nám er tækifæri.“

Í ljósi alls framangreinds sé það afstaða Vinnumálastofnunar að meginregla 1. mgr. 52. gr. eigi við í máli kæranda. Kærandi hafi því ekki uppfyllt skilyrði þess að fá greiddar atvinnuleysisbætur á tímabilinu 1. september 2021 til 31. desember 2021. Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um endurgreiðslu á ofgreiddum atvinnuleysisbótum. Í 2. mgr. 39. gr. segi orðrétt:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Samkvæmt skýru orðalagi 2. mgr. 39. gr. beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem atvinnuleitandi uppfylli ekki skilyrði laganna. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps þess er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslunnar hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. sé því fortakslaust að því er varði skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur.

Kæranda beri því að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hún hafi fengið greiddar fyrir tímabilið 1. september til 31. desember 2021, samtals 858.726 kr., enda liggi fyrir að hún hafi ekki uppfyllt skilyrði laganna á umræddu tímabili, sbr. 1. mgr. 52. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Heildarskuld kæranda nemi 987.535 kr., þar af sé álag að fjárhæð 128.809 kr. Eins og kveðið sé á um í lokamálslið 2. mgr. 39. gr. skuli fella niður álagið ef hinn tryggði færi rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka sem hafi leitt til skuldamyndunar. Í því samhengi vísi Vinnumálastofnun til þess að það sé á ábyrgð þess sem fái greiddar atvinnuleysisbætur að tryggja að Vinnumálastofnun berist nauðsynlegar upplýsingar sem geti haft áhrif á rétt hans til greiðslu atvinnuleysisbóta. Fyrir liggi að kærandi hafi hvorki upplýst Vinnumálastofnun um nám sitt samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga né óskað eftir námssamningi á haustönn 2021. Þá liggi fyrir að kærandi hafi ekki skilað inn skólavottorði fyrr en óskað hafi verið eftir því í desember 2021. Rík skylda hvíli á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum og að tilkynna Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem verði á högum þeirra. Með því að hafa hvorki tilkynnt um nám sitt né óskað eftir námssamningi sé það mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi brugðist skyldum sínum. Þá bendi stofnunin jafnframt á að öllum atvinnuleitendum sé vísað á upplýsingar á vef stofnunarinnar um réttindi þeirra og skyldur á meðan þeir þiggi greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar sé meðal annars tiltekið að almennt sé ekki heimilt að stunda nám samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga, en atvinnuleitendum kunni þó mögulega að standa til boða að gera námssamning við stofnunina. Með vísan til framangreinds beri kæranda að greiða umrædda skuld, auk álags, enda hafi kærandi að mati Vinnumálastofnunar ekki fært rök fyrir því að fella skuli niður álag.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda og að innheimta ofgreiddar bætur.

Í IX. kafla laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er fjallað um tilvik er leiða til takmörkunar á atvinnuleysistryggingum. Í 52. gr. laganna er fjallað um nám, en þar segir:

„Hver sá sem stundar nám, sbr. c-lið 3. gr., telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili enda er námið ekki hluti vinnumarkaðsaðgerða samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar, sbr. þó 2., 3. og 4. mgr.

Þrátt fyrir 1. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám á framhaldsskólastigi sem nemur að hámarki 12 einingum eða á háskólastigi sem nemur að hámarki 12 ECTS-einingum á námsönn enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið.

Þrátt fyrir 1. og 2. mgr. er Vinnumálastofnun heimilt að meta þegar sérstaklega stendur á hvort sá er stundar nám á framhaldsskólastigi sem nemur allt að 20 einingum eða á háskólastigi sem nemur allt að 20 ECTS-einingum á námsönn uppfylli skilyrði laganna enda sé um svo lágt námshlutfall að ræða að námið telst ekki lánshæft hjá Menntasjóði námsmanna. Skilyrði er að námið kunni að nýtast hinum tryggða beint við atvinnuleit að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar og skal hinn tryggði leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um námshlutfallið. Hinn tryggði á þá rétt til skertra atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil og skal Vinnumálastofnun meta skerðinguna á tryggingahlutfalli sem hann á rétt til skv. 15. eða 19. gr. í samræmi við umfang námsins.

Þrátt fyrir 1.–3. mgr. er hinum tryggða heimilt að stunda nám sem er skipulagt samhliða vinnu af viðkomandi menntastofnun og er ekki lánshæft til framfærslu hjá Menntasjóði námsmanna án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga, enda hindri námið hvorki virka atvinnuleit viðkomandi né möguleika hans til þátttöku á vinnumarkaði. Hinn tryggði skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi menntastofnun um skipulag námsins.

Þrátt fyrir 1.–4. mgr. skal hinum tryggða ávallt heimilt að ljúka þeirri önn sem er yfirstandandi við starfslok hans eða þegar hann missir starf sitt að hluta, sbr. 17. gr., án þess að komi til skerðingar á rétti hans til atvinnuleysistrygginga.“

Í c-lið 3. gr. laganna er að finna skilgreiningu á námi samkvæmt lögunum, en þar segir:

„Nám: Samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í a.m.k. sex mánuði. Enn fremur er átt við nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljast ekki til náms.“

Í athugasemdum við ákvæði 52. gr. í frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að ekki séu lagðar til breytingar á þeirri meginreglu að námsmenn eigi ekki rétt á atvinnuleysisbótum. Miðað sé við að það skipti ekki máli hvort um sé að ræða dag- eða kvöldskóla eða fjarnám. Þá kemur fram að það kunni að vera að nám sé nauðsynlegur hluti af starfshæfingu atvinnuleitanda að mati ráðgjafa Vinnumálastofnunar, en í slíkum tilvikum geti atvinnuleitandi talist tryggður samhliða námi.

Um vinnumarkaðsúrræðið „Nám er tækifæri“ segir í bráðabirgðaákvæði XVII í lögum nr. 54/2006:

„Þrátt fyrir 52. gr. er Vinnumálastofnun heimilt að gera sérstakan námssamning við atvinnuleitanda sem telst tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun og viðkomandi atvinnuleitandi skulu undirrita samninginn. Með undirritun sinni skuldbindur viðkomandi atvinnuleitandi sig til að stunda nám sem hann hefur valið sér í samráði við ráðgjafa Vinnumálastofnunar og fellur undir átakið Nám er tækifæri, eftir að færni hans og staða hefur verið metin. Framangreindur samningur hefur ekki áhrif á rétt viðkomandi atvinnuleitanda til atvinnuleysistrygginga á grundvelli laganna.“

Þegar sótt er um atvinnuleysisbætur er umsækjandi spurður hvort hann sé skráður í nám á umsóknardegi. Upplýst er að almennt sé ekki heimilt að vera í námi samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta. Þó séu undantekningar frá þeirri meginreglu. Tekið er fram að það sé því mjög mikilvægt að hafa samband sem fyrst við ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að kanna hvort viðkomandi eigi rétt á námssamningi.

Fyrir liggur að kærandi var skráð í 37 eininga nám við Keili á haustönn 2021 samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun og að námið var ekki hluti af vinnumarkaðsaðgerð samkvæmt ákvörðun stofnunarinnar. Kærandi hefur vísað til þess að hún hafi verið í kvöldskóla og að námið hafi ekki verið umfangsmikið. Þá hefur kærandi vísað til þess að hún hafi sinnt atvinnuleit sinni samhliða náminu. Enn fremur hefur kærandi gefið þær skýringar að niðurfelling bóta sé í andstöðu við aðgerð ríkisstjórnar sem hafi heimilað nám í dagskóla á vor- og haustönn 2021.

Ljóst er að meginregla 1. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 átti við um kæranda, þ.e. hún stundaði nám í skilningi laganna. Úrskurðarnefndin bendir á að undanþáguheimildir 2. og 3. mgr. 52. gr. laga nr. 54/2006 eiga ekki við í máli kæranda þar sem kærandi var skráð í nám umfram 20 einingar. Þá er skilyrði bráðabirgðaákvæðis XVII laganna ekki uppfyllt í máli kæranda þar sem ekki lá fyrir námssamningur á milli kæranda og Vinnumálastofnunar. Að því virtu uppfyllti kærandi ekki skilyrði þess að vera tryggður samkvæmt lögunum á þeim tíma sem hún var skráð í námið og átti því ekki rétt á greiðslum frá Vinnumálastofnun á tímabilinu 1. september 2021 til 31. desember 2021.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið, að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 segir meðal annars svo í skýringum við ákvæðið:

„Efni ákvæðisins felur í sér möguleika á leiðréttingu á fjárhæð tekjutengdra atvinnuleysisbóta eftir að þær hafa verið keyrðar saman við álagningu skattyfirvalda að því er varðar það viðmiðunartímabil sem lagt er til að verði haft til hliðsjónar við útreikningana. Er því gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun hafi heimildir til að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbótanna til samræmis við álagningu skattyfirvalda. Er gert ráð fyrir að leiðréttingin geti átt sér stað nokkru eftir að bæturnar hafa verið greiddar eða þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir. Á sama hátt er jafnframt gert ráð fyrir að Vinnumálastofnun geti leiðrétt fjárhæð grunnatvinnuleysisbóta. Slíkt getur átt við þegar upplýsingar þær er liggja grunnatvinnuleysisbótum til grundvallar hafa verið rangar eða hinn tryggði ekki tilkynnt til Vinnumálastofnunar um að hann sé ekki lengur í atvinnuleit.

Þannig er gert ráð fyrir að hinn tryggði endurgreiði Atvinnuleysistryggingasjóði þær fjárhæðir sem ofgreiddar eru í þeim tilvikum er hann fékk hærri greiðslur úr sjóðnum en honum bar. Á þetta við um öll tilvik sem kunna að valda því að hinn tryggði hafi fengið ofgreitt úr Atvinnuleysistryggingasjóði.“

Samkvæmt framangreindu er ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur fyrir tímabil sem skilyrði laganna er ekki uppfyllt. Aftur á móti skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Þar sem kærandi tilkynnti ekki Vinnumálastofnun að hún stundaði nám á haustönn 2021 er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki sé tilefni til að fella niður álagið sem lagt var á endurgreiðslukröfuna. Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 5. janúar 2022, um að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til A, og að innheimta ofgreiddar bætur, er staðfest.

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta