Mál nr. 262/2022-Úrskurður
Úrskurðarnefnd velferðarmála
Mál nr. 262/2022
Fimmtudaginn 25. ágúst 2022
A
gegn
Vinnumálastofnun
Ú R S K U R Ð U R
Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.
Með kæru, dags. 20. maí 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2022, um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu ákvæðis um ávinnslu bótaréttar í ráðningarsamningi á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020.
I. Málsatvik og málsmeðferð
Kærandi þáði atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun frá janúar 2020. Í júní 2021 hóf kærandi störf hjá B og var ráðningin hluti af vinnumarkaðsátakinu „Hefjum störf“. Þann 4. júní 2021 var kæranda tilkynnt að Vinnumálastofnun hefði skráð samning um ráðningarstyrk til fyrirtækisins fyrir tímabilið 1. júní til 30. nóvember 2021. Þá var kæranda greint frá því að sá tími sem atvinnuleitandi starfaði á ráðningarstyrk teldist ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta. Þann 19. maí 2022 óskaði kærandi eftir því að Vinnumálastofnun felldi úr gildi ákvæðið um ávinnslu bótaréttar. Beiðni kæranda var synjað samdægurs á þeirri forsendu að stofnunin hefði ekki heimild til þess.
Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. maí 2022. Með bréfi, dags. 2. júní 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir gögnum frá Vinnumálastofnun vegna kærunnar. Sú beiðni var ítrekuð 23. júní 2022. Greinargerð barst frá Vinnumálastofnun 24. júní 2022 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. júní 2022. Athugasemdir bárust ekki.
II. Sjónarmið kæranda
Í kæru til úrskurðarnefndar greinir kærandi frá því að henni hafi verið boðið starf hjá fyrirtæki sem hún hafi eitt sinn starfað hjá áður. Kæranda hafi verið tjáð að fyrirtækið þyrfti að ráða starfsmenn inn á „Hefjum störf“ samningi vegna þess að fyrirtækið ætti kost á stuðningi frá stjórnvöldum vegna Covid. Kærandi hafi samþykkt að hefja störf að nýju hjá því góða fyrirtæki og hafi skrifað undir samning. Nokkrum dögum eftir fyrsta starfsdag þann 1. júní 2021 hafi kærandi fengið tölvupóst frá Vinnumálastofnun þar sem henni hafi verið tjáð að hún ávinni sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta á meðan á þessu sex mánaða samningstímabili standi. Það hafi valdið kæranda hugarangri og hún hafi átti samtöl við kollega sína sem sumir höfðu þá reynslu að sum fyrirtæki nýttu sér þetta sem kúgunartæki og hótuðu að klaga í Vinnumálastofnun ef þeir tækju ekki vinnutilboði á þessum samningi sem hefði orðið til þess að þeir misstu rétt sinn til atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi skoðað aftur póstinn sem upplýsti um þetta ákvæði en þar sé hvergi nefnt að fólki sé heimilt að hafna vinnutilboði á þessum forsendum, þ.e. af því að það ávinni sér ekki atvinnuleysisbótarétt. Kærandi hafi þá leitað eftir undirskriftum fólks til að mótmæla þessu ákvæði og viti menn, fólk hafi verið órólegt og ekki viljað rugga bátnum. Hrætt um að fá ekki áframhaldandi vinnu. Kærandi hafi þá ákveðið að senda C póst og falast eftir aðstoð hennar við að fá þetta ákvæði fellt úr gildi en hafi orðið fyrir vonbrigðum með viðbrögðin. Hún hafi ákveðið að svara ekki seinni póstinum sem kærandi hafi sent henni. Kærandi hafi því sent formlega kvörtun til umboðsmanns Alþingis sem vilji fyrst fá úrskurð frá Vinnumálastofnun og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
Kærandi fari því fram á að ákvæði þetta verði fellt úr gildi hið snarasta og að staðfest verði opinberlega að þeir launþegar sem hafi skrifað undir þennan samning safni sér sama atvinnuleysisbótarétti eins og almennt sé. Kærandi telji það brjóta á sér og öðru vinnandi fólki sem hafi skrifað undir þennan samning að hafa ekki sama rétt og aðrir á vinnumarkaði, sérstaklega þegar staðreyndin sé sú, að minnsta kosti í hennar tilviki, að hún hafi farið af atvinnuleysisbótum og fengið greidd laun hjá því fyrirtæki sem hún hafi hafið störf hjá. Enn fremur segi á heimasíðu Vinnumálastofnunar: „Launamaður er hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli og greitt er tryggingagjald vegna starfsins samkvæmt lögum um tryggingagjald.“ Í engu mótmæli kærandi þörfinni fyrir aðstoð sem fyrirtæki hafi fengið en hins vegar mótmæli hún því að launamönnum sé refsað fyrir það með þessu móti og þeir sviptir þeim rétti sem aðrir launþegar í landinu hafi.
III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar
Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur atvinnuleysistrygginga þann 13. janúar 2020 og hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samræmi við rétt sinn. Í júní 2021 hafi kærandi hafið störf hjá B. Ráðning kæranda hjá fyrirtækinu hafi verið hluti af vinnumarkaðsátakinu „Hefjum störf“ og Vinnumálastofnun hafi greitt styrk til fyrirtækisins á gildistíma samnings. Þann 4. júní hafi kæranda verið tilkynnt á „Mínum síðum“ Vinnumálastofnunar að stofnunin hefði skráð samning um ráðningarstyrk. Í tilkynningu hafi komið fram að tímabil samnings væri frá 1. júní 2021 til 30. nóvember 2021 og að upphæð styrks að viðbættu 11,5% framlagi í lífeyrissjóð næmi allt að 527.211 kr. á mánuði. Athygli hafi verið vakin á því að sá tími sem atvinnuleitandi starfaði á ráðningarstyrk teldist ekki til ávinnslutímabils atvinnuleysisbóta.
Þann 19. maí 2022 hafi kærandi haft samband við Vinnumálastofnun og lýst yfir óánægju með það fyrirkomulag að hún ávinni sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta á meðan samningstímabil vari. Kærandi hafi óskað eftir því að Vinnumálastofnun felldi úr gildi það ákvæði sem heimilaði þessa ráðstöfun og að launþegar í þessari stöðu áynnu sér rétt til atvinnuleysisbóta á meðan vinnumarkaðsúrræði standi. Beiðni kæranda hafi verið hafnað sama dag.
Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir, sbr. 1. gr. laganna. Í 62. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé ráðherra veitt heimild til að setja reglugerð er mælir fyrir um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku atvinnuleitanda í starfs- eða námstengdum vinnumarkaðsúrræðum, enda sé viðkomandi atvinnuleitandi tryggður samkvæmt lögunum þegar þátttaka í úrræði hefjist.
Í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Samkvæmt e-lið ákvæðisins sé það skilyrði að umsækjandi hafi verið launamaður á ávinnslutímabili í starfi sem ekki sé hluti af vinnumarkaðsaðgerðum. Við gildistöku laga nr. 54/2006 hafi fyrst verið gert ráð fyrir því að styrkir sem þessir teldu af bótatímabili einstaklinga. Með lögum nr. 103/2011 hafi ákvæðum laganna verið breytt og tekið fram að sá tími sem Vinnumálastofnun veitti styrk vegna þátttöku atvinnuleitanda í starfstengdu vinnumarkaðsúrræði teldist ekki hluti bótatímabils atvinnuleitanda, sbr. 3. mgr. 29. gr. núgildandi laga. Í athugasemdum með 2. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 103/2011 komi fram að það hafi þótt ósanngjarnt að samningstími ráðningarstyrkja teljist til þess tímabils er atvinnuleysisbætur séu greiddar samkvæmt 29. gr. laganna. Þá segi: „Engu síður er um að ræða virk vinnumarkaðsúrræði og er því áfram gert ráð fyrir að starfið teljist ekki hluti ávinnslutímabils skv. 15. eða 19. gr. laganna, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr.“
Í reglugerð nr. 918/2020, um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sé mælt fyrir um styrki vegna þátttöku atvinnuleitenda í vinnumarkaðsaðgerðum. Reglugerðin sé sett samkvæmt heimild í 62. og 64. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, að fenginni umsögn stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórnar Vinnumálastofnunar.
Í I. ákvæði til bráðabirgða með reglugerðinni, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 291/2021, sé fjallað um ráðningarstyrki í tengslum við átakið „Hefjum störf“. Ákvæðið feli í sér að Vinnumálastofnun sé heimilt að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda sem teljist tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Vinnumálastofnun, fyrirtækið og atvinnuleitandinn skuli undirrita samning og með undirritun skuldbindi viðkomandi atvinnuleitandi sig til að sinna því starfi sem hann sé ráðinn til að gegna á grundvelli samningsins. Jafnframt skuldbindi Vinnumálastofnun sig til að greiða styrk til fyrirtækisins samkvæmt ákvæðinu. Fyrirtæki beri að greiða viðkomandi atvinnuleitanda laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings. Skilyrði fyrir samning um styrk sé að ráðningarsamband komist á milli atvinnuleitanda og fyrirtækis og heimild Vinnumálastofnunar til greiðslu styrks falli niður ef slit verði á ráðningarsambandi. Í 7. mgr. ákvæðisins segi svo: „Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.“ Af tilvitnuðum laga- og reglugerðarákvæðum sé ljóst að sá tími sem atvinnuleitandi taki þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum teljist ekki til ávinnslu á rétti til atvinnuleysisbóta.
Í kæru til úrskurðarnefndar sé gerð krafa um að kærandi ávinni sér rétt til atvinnuleysistrygginga á meðan samningur um ráðningarstyrk standi. Kærandi fari í raun fram á það að ákvæðið verði fellt úr gildi. Kærandi telji að fyrirkomulag þetta brjóti á réttindum hennar og öðrum sem hafi undirritað sambærilega samninga.
Vinnumálastofnun bendi á að stofnuninni sé falin framkvæmd með lögum um atvinnuleysistryggingar. Ákvarðanir stofnunarinnar verði að byggja á og eiga sér stoð í lögum. Vinnumálastofnun sé ekki heimilt að víkja frá gildandi lagaákvæðum eða reglugerðum á grundvelli sjónarmiða um sanngirni eða afstöðu atvinnuleitenda til þeirra. Stofnuninni hafi því borið að hafna beiðni kæranda, enda falli það utan starfssviðs stofnunarinnar að úrskurða um gildi laga. Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi ávinni sér ekki rétt til atvinnuleysisbóta á meðan samningur um starfstengt vinnumarkaðsúrræði varir.
IV. Niðurstaða
Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2022, um að synja beiðni kæranda um niðurfellingu ákvæðis um ávinnslu bótaréttar í ráðningarsamningi á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gilda lögin um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 62. gr. laga laganna er kveðið á um styrki úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Samkvæmt 2. mgr. 62. gr. greiðast styrkir á grundvelli reglugerðar sem ráðherra setur.
Reglugerð nr. 918/2020 gildir um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum sem og um greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þátttöku þeirra í vinnumarkaðsaðgerðum. Samkvæmt I. ákvæði til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020, sem var í gildi til 31. desember 2021, var Vinnumálastofnun veitt heimild til að gera samning við fyrirtæki um ráðningu atvinnuleitanda sem var tryggður innan atvinnuleysistryggingakerfisins, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
Slíkur samningur var gerður vegna starfs kæranda hjá B fyrir tímabilið 1. júní til 30. nóvember 2021. Í samræmi við 7. mgr. I. ákvæðis til bráðabirgða í reglugerð nr. 918/2020 kom sá tími ekki til ávinnslu bótaréttar kæranda. Ákvæðið er svohljóðandi:
„Sá tími sem ráðning atvinnuleitanda varir á grundvelli samnings skv. 1. mgr. telst hvorki til ávinnslutímabils atvinnuleitandans skv. 15. eða 19. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, með síðari breytingum, sbr. einnig e-lið 1. mgr. 13. gr. og e-lið 1. mgr. 18. gr. laganna, né til þess tímabils sem heimilt er að greiða viðkomandi atvinnuleitanda atvinnuleysisbætur skv. 29. gr. sömu laga.“
Kærandi fór fram á að Vinnumálastofnun myndi fella úr gildi framangreint ákvæði í samningnum og hefur hún vísað til þess að það leiði til þess að hún hafi ekki sama rétt og aðrir á vinnumarkaðnum.
Líkt og að framan greinir er í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 54/2006 ráðherra fengin heimild til að setja nánari skilyrði fyrir greiðslu styrkja úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna einstaklinga. Reglugerð nr. 918//2020 var sett með heimild í 2. mgr. 62. gr. og 64. gr. laga nr. 54/2006. Skýrt er kveðið á um að sá tími sem atvinnuleitandi tekur þátt í starfstengdum vinnumarkaðsúrræðum teljist ekki til ávinnslu á rétti til atvinnuleysisbóta. Sú regla er án mismununar gagnvart þeim sem hún gildir um og því bendir ekkert til annars en að jafnræðis hafi verið gætt.
Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 19. maí 2022, um að synja beiðni A, um niðurfellingu ákvæðis um ávinnslu bótaréttar í ráðningarsamningi á grundvelli reglugerðar nr. 918/2020, er staðfest.
F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála
Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir