Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 183/2012.

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 17. september 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 183/2012.

 

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 16. maí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 15. maí 2012 fjallað um höfnun hennar í vinnumarkaðsúrræðinu „Vinnandi vegi“. Vegna þessarar höfnunar kæranda á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í tvo mánuði frá og með 16. maí 2012 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006.

 

Með bréfi, dags. 17. júlí 2012, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að stofnunin hefði á fundi sínum 13. júlí 2012 fjallað um fjarveru hennar á námskeiði og bótaréttur hennar væri felldur niður frá og með 19. júlí 2012 í þrjá mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr., sbr. 61. gr., laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Kærandi vildi ekki una þessum ákvörðunum og kærði þær til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 22. nóvember 2012. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Vinnumálastofnun telur að vísa beri þeim hluta kærunnar frá er varðar ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 16. maí 2012, þar sem þriggja mánaða kærufrestur væri liðinn. Þá telur Vinnumálastofnun einnig að vísa beri frá þeim hluta kærunnar er snýr að ákvörðun stofnunarinnar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 17. júlí 2012, þar sem stofnunin hefði tekið ívilnandi ákvörðun í málinu 29. nóvember 2012 og því væri ekki tilefni til að taka málið til meðferðar. Með tölvupósti 1. ágúst 2013 dró kærandi til baka þann hluta kærunnar er snýr að ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 17. júlí 2012. Hér er því til umfjöllunar sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður atvinnuleysisbætur til kæranda í tvo mánuði frá og með 16. maí 2012 vegna höfnunar hennar á þátttöku í vinnumarkaðsúrræði.

 

Með tölvupósti 15. mars 2012 var kæranda sendur tölvupóstur með tilmælum um að skrá sig í atvinnuleit, fyrir 1. apríl 2012, hjá a.m.k. einni af ráðningarskrifstofum sem séu í samstarfi við Vinnumálastofnun í tengslum við verkefnið „Vinnandi veg“.

 

Kæranda var sent bréf, dags. 4. maí 2012, þar sem fram kemur að hún hafi ekki orðið við þessum tilmælum og leit Vinnumálastofnun því svo á að hún hafi hafnað þátttöku í nefndu vinnumarkaðsúrræði. Kæranda var gefinn kostur á að upplýsa Vinnumálastofnun um ástæður þess. Henni var enn fremur tjáð að hún gæti af þessum ástæðum þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysisbóta skv. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Vinnumálastofnun bárust skýringar frá kæranda í tölvupósti 15. maí 2012 þar sem fram kemur að hún hafi fengið tilboð frá Vinnumálastofnun um að sækja mjög öflugt bókhaldsnámskeið frá apríl til júní og hún hafi þegið það. Kærandi hafi talið að þetta þýddi að hún væri ekki í virkri atvinnuleit á þessu tímabili.

 

Kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 16. maí 2012, þess efnis að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði, frá og með 15. maí 2012. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í kæru sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 22. nóvember 2012, greinir kærandi frá því að á meðan hún var í námskeiði á vegum Vinnumálastofnunar hafi hún talið að hún væri undanþegin því að vera í virkri atvinnuleit. Af þeim sökum hafi hún talið rökrétt að einbeita sér að þáverandi verkefnum til að styrkja stöðu sína á vinnumarkaðnum. Kærandi greinir frá því að þetta hafi verið staðfest af starfsmanni Vinnumálastofnunar í símtali þar sem fram hafi komið að virka atvinnuleit og dreifingu atvinnuumsókna mætti tefja til loka námskeiðsins. Kæranda kveðst hafa verið kunnugt um átakið en ekki verið upplýst á þann hátt að hún hefði getað komið í veg fyrir afleiðingarnar með einföldum hætti.

 

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 28. desember 2012, kemur fram eins og fyrr greinir að stofnunin telur að vísa beri kærunni frá þar sem þriggja mánaða kærufrestur sé liðinn.

 

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 18. janúar 2013. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda. Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt að mál hennar myndi tefjast hjá nefndinni vegna gríðarlegs málafjölda.

2.

Niðurstaða

 

Hin kærða ákvörðun var tekin á fundi Vinnumálastofnunar 15. maí 2012 og tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 16. maí 2012. Í bréfinu er tilgreint að kærufrestur til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sé þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistrygginga, en í ákvæðinu segir nánar tiltekið að kæran skuli vera skrifleg og skuli berast innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um hana. Kæra teljist nægjanlega snemma fram komin ef bréf sem hefur hana að geyma hefur borist nefndinni eða verið afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Kæra kæranda er dagsett 22. nóvember 2012 og var móttekin 27. nóvember 2012. Þegar kæran barst var því þriggja mánaða kærufrestur liðinn skv. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

 

Í 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, kemur fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða ef veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Að mati úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða verður að telja að ekkert í gögnum málsins gefi til kynna að afsakanlegt hafi verið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti og engar veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Af þessum sökum verður að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 15. maí 2012 um niðurfellingu bótaréttar Aí tvo mánuði er vísað frá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

for­maður

 

 

Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta