Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 147/2009

 

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 147/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 21. desember 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 16. desember 2009 staðfest fyrri ákvörðun sína um höfnun kæranda á atvinnutilboði fyrir milligöngu Vinnumálastofnunar. Vegna höfnunar kæranda á atvinnutilboði var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunarinnar þann 30. nóvember 2009 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 30. desember 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 30. október 2009. Hann hóf störf í mars 2009 og var því afskráður. Hann sótti aftur um atvinnuleysisbætur þann 26. maí 2009. Kærandi var boðið að mæta í atvinnuviðtal hjá X þann 6. nóvember 2009. Kærandi taldi þá vinnu vera mjög erfiða og að hann treysti sér ekki til þess að taka henni. Í vottorði B læknis, dags. 3. desember 2009, kemur fram að þann 11. nóvember 2005 hafi kærandi gengist undir aðgerð á hægri öxl og þann 7. nóvember 2008 hafi hann gengist undir aðgerð á vinstri öxl. Kærandi hafi fengið nokkra bót við þessar aðgerðir, en hann sé með viðvarandi skemmdir í liðunum. Hann geti sinnt léttum störfum en hann treysti sér ekki til erfiðs- eða átakaverka eins og fylgja muni vinnu á netaveiðiskipi. Fyrir tveimur árum hafi kærandi fengið áverka á hægra hné. Hann hafi verið veill í hnénu síðan þannig að hann þoli illa hliðarálag og það muni há honum verulega við stöðu í veltingi úti á sjó. Loks kemur fram í vottorðinu að réttmætt verði að telja að kærandi eigi erfitt með að sinna þeirri vinnu sem sé í boði. Af hálfu kæranda kemur fram að hann hafi ekki sent læknisvottorðið með umsókn sinni um atvinnuleysisbætur þar sem hann hafi talið að hann gæti unnið alla venjulega dagvinnu. Sú vinna sem hafi verið í boði hafi verið á sjó á 150 brúttólesta (brl.) bát þar sem vinnutíminn sé 14–20 klukkustundir samfellt á sólarhring, ekki sé um að ræða vaktir og róið sé í öllum veðrum. Þar af leiðandi hafi hann hafnað þessari vinnu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. apríl 2010, kemur fram að í athugasemdum við 57. gr. frumvarps sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir séu samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Sá tími hafi verið liðinn er kærandi hafi hafnað umræddu atvinnutilboði. Þegar kærandi hafi verið boðaður í atvinnuviðtal hjá X hafi Vinnumálastofnun ekki verið kunnugt um skerta vinnufærni kæranda. Í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur hafi hann merkt við almenna vinnufærni. Á eyðublaði Vinnumálastofnunar þar sem fram komi að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali segi hann að vinnan sem um ræðir sé mjög erfið og hann treysti sér ekki til að taka starfið. Í læknisvottorði, dags. 3. desember 2009, komi fram að kærandi hafi gengist undir aðgerðir og geti ekki tekið að sér erfiðis- og átakaverkefni líkt og störf á netaveiðiskipi feli í sér.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal umsækjandi um atvinnuleysisbætur taka fram á umsókn sinni allar þær upplýsingar sem varði vinnufærni sína. Þá skuli sá er fær greiddar atvinnuleysisbætur upplýsa Vinnumálastofnun um allar þær breytingar sem kunni að verða á högum hans á því tímabili sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur sbr. 3. mgr. 9. gr. laganna. Enn fremur segi í 2. mgr. 14. gr. laganna að hinn tryggði skuli tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar. Það sé ljóst að kærandi hafi ekki upplýst um vinnufærni sína og hafi Vinnumálastofnun fyrst verið kunnugt um skerta vinnufærni kæranda eftir að hann hafnaði atvinnuviðtali hjá X. Læknisvottorðið sem kæranda lagði fram sé gefið út nokkru eftir að kærandi hafi hafnað atvinnuviðtali og óskað var eftir skýringum frá honum. Vinnumálastofnun telur að ástæður kæranda fyrir höfnun á atvinnuviðtali ekki gildar í skilningi 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Atvik þessa máls eru ekki umdeild. Kærandi skráði ekki á umsókn sína til Vinnumálastofnunar um atvinnuleysisbætur að hann gæti ekki sinnt tilteknum störfum. Hann leiðrétti ekki þær upplýsingar eftir að hann hóf töku atvinnuleysisbóta. Þegar honum var boðið starf um borð á 150 brl. netaveiðiskipi þá var auðsýnt að hann þekkti til starfsins og taldi það of erfitt fyrir sig, sbr. yfirlýsing hans um höfnun starfsviðtals, dags. 6. nóvember 2009. Á grundvelli þess að hann hafnaði starfsviðtali hóf Vinnumálastofnun undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og áður en hún var endanlega tekin lá fyrir læknisvottorð, dags. 3. desember 2009, sem gaf til kynna að kærði gæti ekki sinnt því starfi sem hann hafnaði að fara í viðtal útaf. Með bréfi, dags. 21. desember 2009, var kæranda gerð grein fyrir efni hinnar kærðu ákvörðunar og að hún hafi verið tekin á fundi 16. desember 2009. Ákvörðunin miðaðist við að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar í 40 daga frá og með 30. nóvember 2009.

Hin kærða ákvörðun er reist á 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún mælir meðal annars fyrir um að sá sem hafnar að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Frá þessari meginreglu 1. mgr. 57. gr. eru meðal annars gerðar undantekningar í 4. mgr. sömu greinar en þar er meðal annars kveðið á um að heimilt sé að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt læknisvottorði. Beri atvinnuleitandi þetta fyrir sig getur komið til viðurlaga skv. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Þótt kærandi hafi ekki sérstaklega getið um skerta vinnufærni sína áður en til starfstilboðsins kom í byrjun nóvember 2009 þá er óumdeilt í málinu að hann taldi sig geta unnið öll hefðbundin störf í dagvinnu. Sú fullyrðing hans hefur ekki verið hrakin að starfið sem í boði var hafi falið í sér langan vinnutíma og mikið vinnuálag. Efni læknisvottorðsins sem hann reiddi fram hefur ekki verið dregið í efa. Jafnframt verður til þess að líta að hin kærða ákvörðun er ekki reist á 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar heldur á 1. mgr. 57. gr. sömu laga. Rannsókn málsins hefur tekið mið af þessu.

Með hliðsjón af skýringum kæranda og læknisvottorði því sem hann hefur lagt fram verður að líta svo á að Vinnumálastofnun hafi borið að beita framanritaðri undantekningarreglu 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og svipta kæranda ekki greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laganna. Að svo búnu hefði stofnunin getað rannsakað hvort skilyrði 1. mgr. 59. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri uppfyllt til að taka þá ákvörðun að svipta kæranda bótum í 40 daga. Þetta gerði stofnunin ekki og úr því verður ekki bætt hér í meðferð málsins fyrir úrskurðarnefndinni. Með vísan til þessa verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 30. nóvember 2009 að telja.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. desember 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 30. nóvember 2009 að telja.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta