Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 138/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 138/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að kærandi, A, sótti um atvinnuleysisbætur 17. desember 2008 og staðfesti umsóknina með undirskrift sinni samdægurs. Kæranda láðist að staðfesta atvinnuleit sína í ágúst og september 2009 og var hann því afskráður. Kæranda var synjað um atvinnuleysisbætur aftur í tímann samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. nóvember 2009. Kærandi vildi ekki una þessu og kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 15. desember 2009. Hann krefst þess að sér verði greiddar atvinnuleysisbætur fyrir umrætt tímabil. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi hafði fengið atvinnuleysisbætur síðan í desember 2008 en hann staðfesti ekki atvinnuleit sína í ágúst og september 2009 og var hann því afskráður hjá Vinnumálastofnun. Hann sendi stofnuninni bréf, dags. 13. október 2009, þar sem fram kemur að honum hafi láðst að stimpla sig inn í ágúst og september. Hann kveðst hafa staðið í erfiðum hjónaskilnaði sem hafi tekið mikið á hann og hafi hann verið á hrakhólum með húsnæði. Hann hafi verið haldinn kvíðaröskun og fengið viðeigandi lyf vegna þess en þau hafi valdið því að hann hafi gleymt að skrá sig. Í vottorði B læknis, dags. 18. nóvember 2009, kemur fram að skilnaður kæranda hafi reynst honum mjög erfiður. Þjóðfélagsástandið og atvinnuleysið hafi einnig lagst þungt á hann. Kvíði kæranda sem hafi verið talsverður áður en hafi versnað mikið og hafi hann þurft á aukinni lyfjameðferð að halda. Kvíðastillandi lyf séu í eðli sínu sljóvgandi og auki á gleymni.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 29. mars 2010, kemur fram að í 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé mælt fyrir um það markmið laganna að tryggja tímabundna fjárhagsaðstoð meðan sá tryggði leiti að nýju starfi eftir að hafa misst sitt fyrra starf. Í III. kafla laganna séu svo tilgreind almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Eitt af meginskilyrðum 13. og 14. gr. laganna sé að einstaklingur sem þiggur atvinnuleysisbætur sé í virkri atvinnuleit. Nánar sé kveðið á um það í a–h-liðum 1. mgr. 14. gr. hvað teljist vera virk atvinnuleit. Sé meðal annars gert ráð fyrir því að sá sem þiggi atvinnuleysisbætur skuli vera reiðubúinn að gefa Vinnumálastofnun nauðsynlegar upplýsingar til að auka líkur hans á að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. h-lið 1. mgr. 14. gr. Þá skuli hinn tryggði tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti skv. h-lið 1. mgr. án ástæðulausrar tafar.

Atvinnuleitanda sé gert að staðfesta að hann sé virkur í atvinnuleit, mánaðarlega hjá stofnuninni. Umsækjendur geti hringt í þjónustufulltrúa, skráð sig rafrænt á heimasíðu stofnunarinnar eða mætt á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til þess að staðfesta atvinnuleit sína. Vinnumálastofnun haldi úti heimasíðu þar sem atvinnuleitendum sé gert kleift að staðfesta atvinnuleit mánaðarlega. Staðfestingin fari fram með þeim hætti að atvinnuleitandinn skrái inn kennitölu sína og lykilorð. Þá sé mögulegt að koma að skriflegum athugasemdum með staðfestingu. Regluleg staðfesting á atvinnuleit hjá Vinnumálastofnun sé nauðsynleg til að tryggja greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þau samskipti milli umsækjenda um atvinnuleysisbætur og Vinnumálastofnunar sem felist í því að staðfesta mánaðarlega atvinnuleit séu því mikilvægur þáttur í því að vera skráður atvinnulaus hjá stofnuninni. Þegar umsækjendur um atvinnuleysisbætur komi á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar til að staðfesta rafræna umsókn sína skriflega sé þeim því ávallt bent á að skrá sig mánaðarlega hjá stofnuninni. Vinnumálastofnun hafi gefið út kort til leiðbeiningar vegna þessa. Það kort sé sýnilegt og fáanlegt á öllum þjónustuskrifstofum stofnunarinnar, ásamt því að vera dreift til allra umsækjenda. Allir fulltrúar stofnunarinnar sem taki á móti nýjum umsækjendum um atvinnuleysisbætur sé kunnugt um mikilvægi þess að upplýsa um rafrænar staðfestingar á atvinnuleit. Jafnframt séu á heimasíðu stofnunarinnar upplýsingar fyrir umsækjendur atvinnuleysisbóta. Þar sé meðal annars að finna ítarlegar upplýsingar um staðfestingu á atvinnuleit. Komi skýrt fram að staðfesta skuli atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar og að mögulegt sé að skrá staðfestingu á heimasíðu stofnunarinnar. Ofarlega til hægri á forsíðu heimasíðu Vinnumálastofnunar sé einnig að finna hnapp sem beri heitið staðfesting á atvinnuleit. Virki hann í senn sem tengill á síðu til að staðfesta atvinnuleit á netinu og sem áminning til þeirra sem þiggja atvinnuleysisbætur um að staðfesta beri atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni.

Kærandi hafi staðfest rafræna umsókn sína og með undirskrift sinni hafi hann staðfest að þær upplýsingar sem hann gaf upp í umsókn um atvinnu og atvinnuleysisbætur hafi verið gefnar samkvæmt bestu vitund hans. Hann hafi einnig staðfest að hafa fengið upplýsingar um að staðfesta skuli atvinnuleit mánaðarlega hjá stofnuninni símleiðis á heimasíðu stofnunarinnar eða með komu á þjónustuskrifstofu.

Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi verið nægilega upplýstur um skyldur sínar gagnvart Vinnumálastofnun, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Þá telji stofnunin að ekki hafi komið fram nægjanleg rök fyrir því að veita kæranda undanþágu frá því að staðfesta atvinnuleit sína hjá Vinnumálastofnun.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 29. mars 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 12. apríl 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Kærandi skráði sig ekki í ágúst og september 2009 í virkri atvinnuleit. Af þeim sökum fékk hann ekki greiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil. Með vísan til læknisvottorðs og slæmrar heilsu telur kærandi sig eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir þetta tímabil, þ.e. að afsakanlegar ástæður séu fyrir hendi um að hann hafi ekki skráð sig í ágúst og september 2009. Vinnumálastofnun telur að kærandi hafi ekki verið í virkri atvinnuleit í skilningi 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar á nefndu tímabili og því eigi að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Með stoð í 2. mgr. 7. gr. eldri laga um atvinnuleysistryggingar nr. 12/1997 var atvinnuleitendum, sem ekki höfðu gert starfsleitaráætlun, gert að skrá sig vikulega hjá svæðisbundinni vinnumiðlun eða þar til bærum skráningaraðila ella ættu þeir á hættu að missa rétt til atvinnuleysisbóta frá og með þeim degi sem þeir síðast höfðu skráð sig. Hvergi í gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar er mælt fyrir um þá skyldu atvinnuleitanda að skrá sig í virkri atvinnuleit með reglubundnu millibili. Í krafti lokamálsgreinar 14. gr. laganna gæti ráðherra hugsanlega sett reglugerð um slíka skyldu en það hefur hann ekki gert. Jafnframt ber til þess að líta að skv. 10. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal atvinnuleitandi tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hættir virkri atvinnuleit og skal tilkynningin gerð með sannanlegum hætti og skal taka fram ástæðu þess að atvinnuleit var hætt. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar, sagði meðal annars svo um þá frumvarpsgrein sem varð að 10. gr. laganna:

„Einstaklingi sem hefur skráð sig atvinnulausan í gildandi kerfi hefur verið skylt að skrá sig reglulega einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti hjá svæðisvinnumiðlun Vinnumálastofnunar. Að öðrum kosti hefur hlutaðeigandi fyrirgert rétti sínum til atvinnuleysisbóta. Með frumvarpi þessu er gert ráð fyrir að regluleg skráning verði lögð niður en í stað hennar komi til regluleg samskipti við ráðgjafa innan vinnumarkaðskerfisins. Tíðni slíkrar ráðgjafar, þar á meðal þátttaka í vinnumarkaðsaðgerðum, miðast við þarfir hlutaðeigandi. Ástæðan fyrir þessari breytingu er einkum sú að regluleg skráning hefur ekki þótt reynast það eftirlit með því að fólk sé í virkri atvinnuleit sem gengið var út frá í upphafi enda þótt það sé að sjálfsögðu misjafnt eftir einstökum svæðum. Reglubundin skráning er tímafrek og þegar atvinnuleysi hefur verið mikið eða á fjölmennari stöðum hafa jafnvel myndast biðraðir sem mörgum hefur þótt niðurlægjandi að standa í.“

Með vísan til framanritaðs er ljóst að sú starfsvenja Vinnumálastofnunar að krefja atvinnuleitendur um að skrá sig í virkri atvinnuleit 20.–25. hvers mánaðar styðst ekki við skráða réttarheimild. Þótt kærandi hafi ekki farið eftir starfsvenjum Vinnumálastofnunar að þessu leyti þá stóðst það ekki lög að greiðslur atvinnuleysisbóta til hans væru stöðvaðar. Þetta er ekki síst reist á því að engin gögn hafa verið lögð fram í málinu sem leiði í ljós að kærandi hafi brotið á reglum um virka atvinnuleit, sbr. 13. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í ljósi framangreinds verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágúst og september 2009.

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 4. nóvember 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta aftur í tímann fyrir ágúst og september 2009 er felld úr gildi. Kærandi á rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir ágúst og september 2009.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta