Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál 139/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. maí 2010 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 139/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 25. september 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 23. september 2009 fjallað um fjarveru kæranda á kynningarfundi hjá Vinnumálastofnun þann 28. ágúst 2009. Vegna fjarveru kæranda var réttur hennar til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunarinnar þann 23. september 2009 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 21. desember 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 26. janúar 2009. Henni var boðið á kynningarfund um námsúrræði og þjónustu Fræðslunets Suðurlands þann 28. ágúst 2009, með bréfi dags. 21. ágúst 2009. Í boðunarbréfinu var kæranda bent á að það gæti valdið missi bóta ef boðunum í viðtöl hjá stofnuninni væri ekki sinnt. Bréfið var sent á heimili kæranda að B-stað, en kærandi hafði tilkynnt það heimilisfang hjá Vinnumálastofnun sem heimili sitt. Kærandi mætti ekki á fundinn. Í erindi kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. desember 2009, kemur fram að í kjölfar atvinnumissis í febrúar 2009 hafi hún einnig orðið húsnæðislaus en fengið til bráðabirgða afnot af húsnæði að B-stað. Boðun á kynningarfundinn hafi verið send á það heimilisfang. Kærandi kveðst hafa verið mjög virk í atvinnuleit og af þeim sökum hafi hún ekki verið í fyrrgreindu bráðabirgðahúsnæði á þeim tíma er boðunin hafi borist. Sökum þess hafi henni ekki verið kunnugt um kynningarfundinn fyrr en að honum loknum. Kærandi bendir einnig á mjög skamman tíma sem leið frá dagsetningu boðunarinnar og þangað til kynningarfundurinn hafi farið fram. Hún bendir einnig á alvarleika málsins fyrir persónulega hagi sína. Atvinnuleysisbætur séu einu tekjur hennar og vegna missis bótaréttarins hafi hún ekki getað framfleytt sér þennan tíma og þar af leiðandi hafi stór hluti af orku hennar sem annars hefði beinst að því að skapa sér atvinnu farið í það að leita til fjölskyldu, vina og annarra varðandi framfærslu. Kærandi kveðst hafa haft töluverð tölvusamskipti við Vinnumálastofnun á atvinnuleysistímabili sínu og þess vegna hafi hún talið að henni væri óhætt að treysta á að boðun á kynningarfundinn myndi berast sér á slíku formi. Hún hafi einnig ítrekað spurst fyrir um það hjá Vinnumálastofnun hvenær umræddur fundur yrði en þar hafi enginn getað veitt henni svör um það. Í ljósi framangreinds þykir kæranda fráleitt að fella niður bótarétt hennar þar sem það hafi annars vegar verið húsnæðisvandi hennar sem orsakaðist af atvinnumissinum og hins vegar viðleitni hennar og dugnaður við að reyna að skapa sér atvinnu sem olli niðurfellingu bótaréttarins en ekki að hún hafni þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum. Synjun krafna hennar er að hennar viti mjög slæm og letjandi skilaboð til hennar og annarra í sömu stöðu um að betra sé að sitja heima en reyna á eigin spýtur að afla sér atvinnu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 21. apríl 2010, kemur fram að mál þetta lúti að 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Í greinargerð er fylgt hafi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. nánar skýrð. Segi þar að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Í greinargerðinni segir að kærandi hafi látið hjá líða að mæta á fund er Vinnumálastofnun hafi gert henni að mæta á þann 28. ágúst 2009. Í skýringarbréfi kæranda sem barst Vinnumálastofnun þann 2. september 2009 segi hún fjarveru sína á fundi stofnunarinnar stafa af því að hún hafi ekki séð innihald boðunarbréfs þar sem henni hafi ekki borist póstsendingar sem sendar hafi verið á skráð aðsetur hennar. Vinnumálastofnun hafi ekki verið kunnugt um að kærandi hefði flutt búferlum eða um nýtt heimilisfang kæranda. Í skýringarbréfi segi kærandi enn fremur að hún ætli að flytja í nýja íbúð 15. september 2009. Í kæru til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða segist kærandi hafa verið mjög virk í atvinnuleit og af þeim sökum ekki verið kunnugt um boðunarbréf á kynningarfund stofnunarinnar. Fram kemur að það sé grundvallarskilyrði þess að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum og ábendingum sem sannanlega séu send honum með viðurkenndum hætti og tilkynni stofnuninni um breytingar á heimilisfangi. Vinnumálastofnun líti svo á að það teljist liður í virkri atvinnuleit að upplýsa stofnunina um þær breytingar sem verði á högum atvinnuleitenda, hafi þær breytingar bein áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum sem stofnunin boði til með sannanlegum hætti. Í ljósi þess að rík skylda hvílir á umsækjendum um atvinnuleysisbætur til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum sé það mat Vinnumálastofnunar að hvorki skýring sú er kærandi taki fram í bréfi sínu til stofnunarinnar né í kæru til úrskurðarnefndarinnar geti réttlætt fjarveru kæranda á fundi stofnunarinnar þann 28. ágúst 2009. Með fjarveru sinni hafi kærandi því brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. apríl 2010, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 7. maí 2010. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“

Í athugasemdum við 58. gr. með frumvarpi til laga atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar. Sé litið svo á að hinum tryggðu sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist þeir þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Samkvæmt 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er virk atvinnuleit skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Til að geta talist vera í virkri atvinnuleit þarf umsækjandi að hafa vilja og getu til að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sem standa honum til boða, sbr. g-lið 14. gr. laganna. Ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá þessari skyldu, en gera verður ráð fyrir því að til slíkrar þátttöku sé boðað með eðlilegum hætti og kæranda almennt gert mögulegt að taka þátt í slíkum aðgerðum.

Rík skylda hvílir á atvinnuleitendum um að tilkynna Vinnumálastofnun um breytingar á högum sínum, hafi þær áhrif á getu atvinnuleitandans til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og sinna starfsviðtölum sem stofnunin boði til með sannanlegum hætti. Kærandi var boðuð til fundar með erindi er sent var á það heimilisfang er hún hafði tilkynnt Vinnumálastofnun. Fallast verður á þá niðurstöðu Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda geti ekki réttlætt fjarveru hennar á fundi stofnunarinnar þann 28. ágúst 2009 og að með fjarveru sinni hafi hún brugðist skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Vinnumálastofnunar um niðurfellingu bótaréttar kæranda í 40 daga staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. september 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta