Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 438/2019 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 438/2019

Þriðjudaginn 5. nóvember 2019

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 17. október 2019, óskaði A eftir endurupptöku máls nr. 121/2013 sem lokið var með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 1. ágúst 2014.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í máli kæranda nr. 121/2013 var staðfest sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur til kæranda og að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi fór fram á endurupptöku málsins með beiðni, dags. 10. september 2014. Með úrskurði úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 21. janúar 2015 var þeirri beiðni hafnað.

Með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 17. október 2019, fór kærandi á ný fram á endurupptöku málsins. Í rökstuðningi kæranda kemur meðal annars fram að hún sé að berjast fyrir tilveru sinni og sjái ekki fram á annað en að eignir hennar verði boðnar upp í lok október 2018, ef engin úrlausn fáist. Það hljóti að vera breyttar forsendur í máli hennar þar sem aðila í sömu sporum hafi verið dæmt í hag. Vísast þar í dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli E-2547/2015.

II. Niðurstaða

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um skilyrði fyrir endurupptöku mála. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef atvik máls eru á þann veg að eitt af eftirfarandi skilyrðum sem fram koma í 1. og 2. tölul. geti átt við:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun samkvæmt 1. tölulið 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum sem ákvörðun samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls ekki tekin til greina nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verði þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Þegar 24. gr. stjórnsýslulaga sleppir kann stjórnvöldum að vera skylt að endurupptaka mál á grundvelli ólögfestra reglna, til dæmis þegar fyrirliggjandi eru rökstuddar vísbendingar um verulegan annmarka á málsmeðferð stjórnvalds.

Kærandi hefur vísað til breyttra forsendna í máli hennar vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 15. mars 2016 í máli E-2547/2015. Í þeim dómi var leyst úr ágreiningi sem varðaði ákvörðun Vinnumálastofnunar um beitingu viðurlaga samkvæmt 2. málsl. 60. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar. Hin kærða ákvörðun í máli kæranda nr. 121/2013 var ekki byggð á því ákvæði heldur voru greiðslur stöðvaðar og henni gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur. 

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála hefur ekkert komið fram um að úrskurður í máli nr. 121/2013 hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að niðurstaða hans hafi byggst á atvikum sem breyst hafi verulega frá því að hann var kveðinn upp. Þá eru ekki rökstuddar vísbendingar um að verulegur annmarki hafi verið á málsmeðferðinni.

Með vísan til þess sem að framan er ritað telur úrskurðarnefnd velferðarmála ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Beiðni A um endurupptöku úrskurðar úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 1. ágúst 2014 er hafnað.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta