Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 40/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 40/2009.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 18. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum þann 16. mars 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur. Umsókninni var hafnað á grundvelli 1. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, þar sem kærandi hafði ekki óbundið leyfi til að ráða sig til vinnu hér á landa án takmarkana. Greiðslur til kæranda voru stöðvaðar og honum tjáð að með óbundnu leyfi væri átt við að útlendingar verði að hafa varanlegt atvinnuleyfi á Íslandi. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Í kæru kæranda til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 17. apríl 2009, vísar hann til meðfylgjandi gagna varðandi kröfugerð sína.

Samkvæmt tölvupósti frá Útlendingastofnun til Vinnumálastofnunar, dags. 3. apríl 2009, er fyrirspurn Vinnumálastofnunar þess efnis hvort kærandi sé með atvinnuleyfi svarað þannig að hann sé á tímabundnu dvalarleyfi og atvinnuleyfi og eigi því ekki rétt á atvinnuleysisbótum.

Í bréfi Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 14. maí 2009, kemur fram að kærandi hafi sökum mistaka starfsmanna Vinnumálastofnunar notið bóta, en við reglulegt eftirlit hafi komið í ljós að hann hafi ekki átt rétt á þeim. Í 13. gr. laga nr. 54/2006 séu upptalin skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna. Í d-lið 1. mgr. 13. gr. sé mælt fyrir um að nauðsynlegt sé að hafa heimild til að ráða sig í vinnu hér á landi án takmarkana. Þar sem kærandi hafi ekki óbundna heimild til atvinnuþátttöku á Íslandi, þ.e. ótímabundið atvinnuleyfi, geti hann ekki notið réttar til atvinnuleysisbóta hér á landi.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. maí 2009, sent afrit af bréfi Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 8. júní 2009. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.

Niðurstaða

Í 1. mgr. d-liðar 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að til þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum verði launamaður að hafa heimild til að ráða sig til vinnu hér á landi án takmarkana. Í athugasemdum við 13. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar segir að áfram verði gert skilyrði um ótakmarkaða heimild til að ráða sig til starfa hér á landi. Sé þar um að ræða íslenska ríkisborgara og þá sem hafa leyfi til að starfa á innlendum vinnumarkaði án takmarkana eða hafa verið undanþegnir kröfu um sérstök leyfi til að starfa hér samkvæmt íslenskum lögum. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er kærandi á tímabundnu dvalar- og atvinnuleyfi og á því ekki, með vísan til þess sem hér hefur verið rakið, rétt á atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er staðfest.

 

Úr­skurðar­orð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 16. mars 2009 í máli A um synjun atvinnuleysisbóta er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta