Mál nr. 46/2009
Úrskurður
Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 46/2009.
1.
Málsatvik og kæruefni
Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. mars 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 12. mars 2009 fjallað um fjarveru kæranda í viðtali hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar þann 29. janúar 2009. Vegna fjarveru kæranda var réttur hans til atvinnuleysisbóta felldur niður í 40 daga frá og með degi ákvörðunar sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 29. apríl 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.
Í erindi kæranda til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að hann hafi verið settur á 40 daga greiðslufrest vegna þess að hann missti af fundi hjá Vinnumálastofnun þann 29. janúar 2009, þar sem hann hafi verið í B-landi í boði þarlends háskóla. Í tölvupósti kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 18. febrúar 2009, gefur hann hins vegar þá ástæðu fyrir fjarverunni að hann hafi gleymt fundinum og farið til C.
Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. júní 2009, kemur fram að af 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar megi ráða að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta 40 daga biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Vísað er til greinargerðar með frumvarpi að lögum um atvinnuleysistryggingar en þar segir að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum og að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Það sé mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda í upphaflegu bréfi sínu og í kæru til úrskurðarnefndarinnar séu ótrúverðugar og komi ekki í veg fyrir að skýr ákvæði 58. gr. gildi um mál þetta. Sérstaklega er horft til þess að kærandi gefur aðra skýringu á fjarveru sinni í kærunni til úrskurðarnefndarinnar en í upphaflegu bréfi hans til Vinnumálastofnunar. Inntur eftir þessu misræmi í samtali við starfsmann Vinnumálastofnunar hafi kærandi sagt að um misritun hafi verið að ræða enda hefði hann verið nýkominn frá B-landi er hann hafi skrifaði kæruna.
Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. júní 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 22. júní 2009. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.
2.
Niðurstaða
Mál þetta lýtur að 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:
„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila.“
Í athugasemdum við 58. gr. í frumvarpi til laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða. Hinir tryggðu njóti faglegrar ráðgjafar sérfræðinga stofnunarinnar og sé litið svo á að þeim sé skylt að taka þátt í slíkum úrræðum. Bregðist hinn tryggði þessum skyldum sínum leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.
Kærandi lét hjá líða að mæta á fund sem Vinnumálastofnun hafði gert honum að mæta á þann 29. janúar 2009. Kærandi hefur við meðferð málsins gefið tvær ólíkar skýringar á fjarveru sinni og er það misræmi til þess fallið að draga úr trúverðugleika skýringanna. Á hinn bóginn verður að líta svo á að hvorug skýringin geti réttlætt fjarveru kæranda, enda hefur hann ríka skyldu til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum.
Með fjarveru sinni brást kærandi skyldum sínum skv. 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og slíkt leiðir til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar staðfest.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. mars 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er staðfest.
Brynhildur Georgsdóttir, formaður
Hulda Rós Rúriksdóttir
Helgi Áss Grétarsson