Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 48/2009

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 30. júní 2009 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 48/2009.

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 6. maí 2009, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum þann 6. maí 2009 fjallað um umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur frá 6. mars 2009. Fallist var á umsókn kæranda en réttur hans til atvinnuleysisbóta var felldur niður í 40 daga í upphafi bótatímabils með vísan til 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi mótteknu 11. maí 2009. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og hann fái greiddar atvinnuleysisbætur í 40 daga frá og með 6. mars 2009. Vinnumálastofnun krefst þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Kærandi kveðst hafa skráð sig atvinnulausan þann 6. mars 2008 hjá Vinnumálastofnun. Hann starfaði hjá X hf. frá 1. janúar til 28. febrúar 2009. Samkvæmt vottorði frá X hf., dags. 10. mars 2009, voru ástæður starfsloka kæranda ósætti meðal starfsmanna. Kærandi kveður ástæður ósættisins hafa verið ágreining milli hans og nýráðins bústjóra varðandi eldi C. Ágreiningurinn hafi verið þess eðlis að þeir hafi engan veginn getað starfað saman. Hafi kærandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins, B, því komist að samkomulagi um að kærandi hætti störfum. Kærandi kveðst ekki geta séð að hann hafi átt sök á starfslokunum hjá X hf. Ástæður starfslokanna hafi verið ósamkomulag milli starfsmanna. Fram kemur af hálfu kæranda að samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar virðist hann einn eiga sök á ósamkomulaginu og hafi einhliða verið valdur að því. Á það geti hann ekki fallist enda séu engar staðfestar upplýsingar um það.

Á fundi sínum þann 16. mars 2009 fjallaði Vinnumálastofnun um mál kæranda en afgreiðslu umsóknarinnar var frestað þar sem nauðsynlegt þótti að leita eftir afstöðu hans til starfslokanna hjá X hf., á grundvelli 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Á upplýsingablaði Vinnumálastofnunar hefur starfsmaður Vinnumálastofnunar skráð eftirfarandi athugasemd um samtal sitt við framkvæmdastjóra X: „Hringdi í B hjá X, gat ekki notað þennan starfsmann, vegna þess að hann lenti í samstarfsörðugleikum við aðra starfsmenn og var einn starfsmaður hættur hans vegna og sagði ég honum upp frekar en að missa fleiri starfsmenn.“ Þann 8. júní 2009 hringdi B í starfsmann úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða og kvaðst vilja leiðrétta það sem eftir honum var haft varðandi það að einn starfsmaður hafi hætt störfum vegna kæranda en hann kvaðst standa við annað sem var haft eftir honum.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. júní 2009, kemur meðal annars fram að deilt sé um hvort ástæða uppsagnar kæranda teljist gild ástæða í skilningi 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Vísað er til greinargerðar með frumvarpi að lögum um atvinnuleysis­tryggingar þar sem segir að erfitt geti reynst að telja upp þau tilvik sem geta fallið undir 1. mgr. 54. gr. og því sé lagareglan matskennd og Vinnumálastofnun falið að meta hvernig atvik og aðstæður þess máls er fyrir henni liggi falli að umræddri reglu. Skuli stofnunin því líta til almennra reglna og málefnalegra sjónarmiða og hafa í huga að um íþyngjandi ákvörðun sé að ræða. Þá segir í greinargerð Vinnumálastofnunar að kærandi tiltaki sjálfur þá ástæðu fyrir starfslokum sínum að óleysanlegur ágreiningur hafi risið á milli hans og yfirmanns hans á vinnustað. Af hálfu Vinnumálastofnunar kemur fram að oft sé erfitt um vik að rannsaka mál af þessum toga þar sem atvinnurekendur séu yfirleitt tregir að tjá sig um þau og þá sérstaklega skriflega. Stofnunin hafi því oft engin önnur ráð en að láta munnlegar upplýsingar af þeirra hálfu nægja til að taka afstöðu. Af gögnum málsins megi einnig ráða að kærandi hafi yfirleitt starfað stutt á hverjum vinnustað og enn fremur hafi hann sýnt því starfsfólki sem komið hafi að meðferð þessa máls óviðurkvæmilega framkomu og á köflum ógnandi, bæði á prenti, í síma og í beinum viðtölum. Að öllu þessu virtu telur Vinnumálastofnun í ljós leitt að kærandi hafi misst starf sitt af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. maí 2009, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 26. maí 2009. Kærandi sendi félagsmálaráðuneytinu tölvupóst þann 9. júní 2009 þar sem hann lýsir yfir mikilli óánægju með vinnubrögð Vinnumálastofnunar og fullyrðingar um framkomu hans við starfsfólk stofnunarinnar.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 1. mgr. 54. gr. laga um atvinnuleysistryggingar en hún er svohljóðandi:

Sá sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum en hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að 40 dögum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá móttöku umsóknar um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem missir starf af ástæðum sem hann á sjálfur sök á.“

Kærandi starfaði hjá X hf. frá 1. janúar til 28. febrúar 2009. Samkvæmt vottorði vinnuveitanda kæranda kemur fram að hann hafi látið af störfum vegna ósættis meðal starfsmanna. Samkvæmt upplýsingum B framkvæmdastjóra X hf. taldi hann sig ekki geta notað kæranda vegna samstarfsörðugleika hans við aðra starfsmenn.

Kærandi lýsir því sjálfur svo að ástæða starfsloka hans hjá X hf. hafi verið óleysanlegur ágreiningur milli hans og annars starfsmanns. Hann segist hafa komist að samkomulagi við framkvæmda­stjóra X hf. um að hann léti af störfum af þessum sökum. Kærandi mótmælir því að hann hafi einn átt sök á ósættinu og telur sig ekki eiga sök á starfslokunum.

Óumdeilt er að ástæða starfsloka kæranda hjá X hf. voru samstarfsörðugleikar hans og annars starfsmanns. Ekki hefur verið leitt í ljós að kærandi hafi átt sök á uppsögn sinni í skilningi 1. mgr. 54. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi á því rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 6. mars 2009.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 6. maí 2009 um niðurfellingu bótaréttar A í 40 daga er felld úr gildi. Kærandi á rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta í 40 daga frá og með 6. mars 2009.

 

Brynhildur Georgsdóttir formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta