Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 330/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 330/2020

Fimmtudaginn 22. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 1. júlí 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 26. mars 2020. Með bréfum Vinnumálastofnunar, dags. 26. maí 2020, var óskað eftir að kærandi skilaði inn tilteknum gögnum svo að unnt væri að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysistrygginga. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 25. júní 2020, var umsókn kæranda hafnað á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 1. júlí 2020. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 18. september 2020, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 23. september 2020. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að Vinnumálastofnun hafi hafnað umsókn hans um atvinnuleysisbætur þar sem fullnægjandi gögn hafi ekki legið fyrir. Gögnin sem kærandi hafi sent hafi vissulega ekki verið nákvæmlega það sem stofnunin hafi beðið um en nú hafi hann bætt úr því. Kærandi óski því eftir endurskoðun málsins þar sem hann telji sig eiga rétt á atvinnuleysisbótum, enda sé hann íslenskur ríkisborgari og hafi unnið sem slíkur á Íslandi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 26. mars 2020. Með erindi 26. maí 2020 hafi stofnunin óskað eftir að kærandi legði fram tiltekin gögn svo að unnt væri að taka afstöðu til réttar hans til atvinnuleysistrygginga. Þar á meðal hafi verið óskað eftir staðfestingu sýslumanns eða tollstjóra um skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts síðastliðin þrjú tekjuár. Þar sem fullnægjandi gögn hefðu ekki borist þann 25. júní 2020 hafi ákvörðun um bótarétt kæranda verið tekin á grundvelli fyrirliggjandi gagna og það hafi verið niðurstaða stofnunarinnar að rétt væri að synja umsókn hans um greiðslur atvinnuleysistrygginga þar sem óljóst væri hvort hann uppfyllti skilyrði fyrir greiðslum eða hvort skilyrði um virka atvinnuleit, sbr. 1. mgr. 13. gr. og 14. gr. laga nr. 54/2006, væru uppfyllt. Í kjölfar frekari gagna hafi stofnunin fjallað að nýju um umsókn kæranda þann 21. júlí 2020. Umsókn kæranda hafi verið synjað þar sem ekki hafi verið staðið skil á greiðslu tryggingagjalds eða staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda. Umsókn kæranda uppfyllti því ekki skilyrði h-liðar 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun tekur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Í 2. mgr. 15. gr. laganna segi að þegar um sé að ræða launamann sem starfi hjá eigin félagi, svo sem einkahlutafélagi eða samlagsfélagi, skuli miða við reglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein við mat á bótarétti einstaklinga. Með ákvæðinu sé kveðið skýrt á um að þegar um sé að ræða umsækjendur um atvinnuleysisbætur sem hafi starfað hjá eigin félagi á ávinnslutímabili skuli miða við reglur Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald í viðkomandi starfsgrein. Þá sé fjallað um útreikning bótaréttar þeirra sem starfi hjá eigin fyrirtækjum eða sem sjálfstætt starfandi einstaklingar í 19. gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt ákvæðinu beri Vinnumálastofnun að reikna bótarétt sjálfstætt starfandi einstaklings út frá þeim launum sem viðkomandi reikni sér vegna vinnu sinnar. Ef reiknað endurgjald atvinnuleitanda nái ekki lágmarksviðmiðum Ríkisskattstjóra ákvarðist bótaréttur af hlutfalli reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið af og viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Umsækjandi um atvinnuleysisbætur geti því einungis átt hlutfallslegan rétt til bóta ef reiknað endurgjald sé lægra en viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra. Á ávinnslutímabilinu hafi kærandi starfað við eigin atvinnurekstur. Kærandi hafi skilað inn afriti áætlaðs skattframtals tekjuársins 2020, auk yfirlits úr heimabanka yfir greiðslur frá félagi sínu, B ehf., til sín á árunum 2018 og 2019. Þá hafi legið fyrir upplýsingar úr launagreiðendaskrá skattsins er sneru að greiðslu staðgreiðslu skatta og tryggingagjalds.

Vinnumálastofnun bendir á að eðlismunur á starfstengdum aðstæðum sjálfstætt starfandi einstaklinga annars vegar og launamanna hins vegar leiði til þess að svo að finna megi vinnuframlag sjálfstætt starfandi einstaklinga skuli miða við skrár skattyfirvalda, sbr. 19 gr. laga nr. 54/2006. Samkvæmt gögnum stofnunarinnar hafi kærandi ekki greitt staðgreiðslu eða tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi fyrir árin 2018 til 2020, en í h-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé skýrt kveðið á um að skilyrði þess að sjálfstætt starfandi einstaklingur teljist tryggður samkvæmt lögunum sé að hann hafi staðið skil á tryggingagjaldi og staðgreiðsluskatti af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda.  Samkvæmt 1. tölul. A-liðar. 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt skuli sá er vinni við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi reikna sér til tekna eigi lægra endurgjald fyrir starf sitt en hann hefði haft sem laun fyrir það hjá óskyldum eða ótengdum aðila. Það sé mat stofnunarinnar að kærandi geti ekki talist tryggður samkvæmt lögunum þar sem skilyrði h-liðar 1. mgr. 18. gr. laga  um atvinnuleysistryggingar [sé ekki uppfyllt]. Því hafi borið að hafna umsókn hans um atvinnuleysisbætur. Með hliðsjón af ofangreindum sjónarmiðum sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að ákvörðun í máli kæranda skuli standa.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að hafna umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur á þeirri forsendu að umbeðin gögn hefðu ekki borist. Undir rekstri málsins hjá úrskurðarnefndinni tók Vinnumálastofnun umsókn kæranda til umfjöllunar á ný. Umsókninni var synjað með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2020, á þeirri forsendu að skilyrði h-liðar 1. mgr. 18. gr. laga nr. 54/2006 væri ekki uppfyllt. Umfjöllun úrskurðarnefndarinnar mun taka mið af þeirri ákvörðun, til hagsbóta fyrir kæranda.

Í 1. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Í 2. gr. laganna kemur fram að markmið þeirra sé að tryggja launamönnum eða sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundna fjárhagsaðstoð á meðan þeir eru að leita sér að nýju starfi eftir að hafa misst fyrra starf sitt. Sjálfstætt starfandi einstaklingur er hver sá sem starfar við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi í því umfangi að honum sjálfum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald, skil á staðgreiðslu af reiknuðu endurgjaldi og tryggingagjaldi vegna starfs síns, sbr. b-lið 3. gr. laganna.

Í 1. mgr. 18. gr. laganna er fjallað um almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Eitt af þeim skilyrðum er að hafa staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar. Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laganna er Vinnumálastofnun heimilt að veita undanþágu frá h-lið 1. mgr. þegar sjálfstætt starfandi einstaklingur hefur ekki staðið skil á greiðslu tryggingagjalds og staðgreiðsluskatts af reiknuðu endurgjaldi samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda við stöðvun rekstrar en greiðir síðan þau gjöld aftur í tímann. Við ákvörðun á tryggingarhlutfalli sjálfstætt starfandi einstaklings er þó einungis heimilt að miða að hámarki við þrjá mánuði af þeim tíma er vanskilin áttu við um. Þá segir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 54/2006 að sjálfstætt starfandi einstaklingur sé að fullu tryggður samkvæmt lögunum eftir að hafa greitt mánaðarlega staðgreiðsluskatt af reiknuðu endurgjaldi er nemur að lágmarki viðmiðunarfjárhæð Ríkisskattstjóra, sbr. b-lið 3. gr., í viðkomandi starfsgrein og tryggingagjald samfellt á síðustu tólf mánuðum áður en hann sækir um atvinnuleysisbætur til Vinnumálastofnunar að öðrum skilyrðum uppfylltum, sbr. þó einnig 4. og 6. mgr.

Í gögnum málsins liggja ekki fyrir upplýsingar um að kærandi hafi greitt staðgreiðslu eða tryggingagjald af reiknuðu endurgjaldi fyrir tímabilið 2018 til 2020. Að því virtu uppfyllir kærandi ekki skilyrði h-liðar 18. gr. laga nr. 54/2006. Ákvörðun Vinnumálastofnunar um synjun á umsókn kæranda um atvinnuleysisbætur er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 21. júlí 2020, um að hafna umsókn A, um atvinnuleysisbætur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta